Ljósafell 7. vika

Í þessari viku var öxldráttur og yfirhalning á skrúfuhaus, stýri og stýrisstamma í gangi. Skipt var um skrúfublöð, og allt verkið tekið út og samþykkt af Lloyds. Ýmis búnaður var settur um borð í vikunni og er verið að koma fyrir, svo sem nýr spilrafall, skiljubúnaður fyrir skólp, ný ruslalúga á millidekk, fiskilúga komin eftir yfirhalningu. Seinnipart viku hefur rignt og það snjóaði á föstudegi, en á meðan var unnið að sandblæstri og málun á vatnstönkum. Járnavinna víða í gangi, verið að sjóða í skutrennu og í vasanum fyrir skutrennulokann, verið að sjóða upp nýja lensibrunna fyrir millidekk. Nýju togvindurnar komu til Gdansk í vikunni ásamt nýju hjálparvindunum og er þá mest af þeim búnaði sem fer um borð í Póllandi komið. Á myndinni að ofan getur að líta aðra nýju togvinduna frá Ibercisa.

Ljósafell 6. vika

Í þessari viku var byrjað á sandblæstri á skipinu. Búið er að sandblása fram á bakka, yfirbygging, trolldekk og í kringum vindur. Stýri tekið af og öxull og skrúfa tekin í land. Akkerum og keðjum slakað niður og þær lagðar út til hreinsunar og skoðunar. Búið að brenna burtu vasann fyrir skuthliðið og búið að smíða nýjan skutrennuloka. Suðuvinna er víða í gangi, spilundirstöður, styrkingar neðandekks undir spilum, nýja dekkhúsið, stigagangur til lestar ofl. Einnig er verið að gera við skemmdir á sb síðu efir núning við bryggju. Botnstykki Kajo-denki fjarlægt, og verið að útbúa festingar fyrir Simrad ES-60 dýptarmæli. Yfirhalning á grandara, gilsa og trixavindum er langt komin og líta þær þokkalega vel út að innan.

Ljósafell 5. vika

Ljósafell var tekið uppí flotkví á föstudegi 5. október. Byrjað var að þvo skipið með vatnsblæstri á botni og síðum og undirbúa skipið fyrir sandblástur. Skipt var um legur í AC rafal og hann hreinsaður. Byrjað að rífa í lest, spíralar, klæðningar og einangrun til að koma fyrir nýjum stigagangi og nýjum lensibrunnum fyrir millidekk. Freontankur fjarlægður úr lest. Byrjað að sjóða styrktarbönd undir togvindur, einnig byrjað að sjóða plötur í dekkhús fyrir nýju stakkageymsluna.

Síld og mjölafskipun

Hoffell kom í morgun til Fáskrúðsfjarðar með um 250 tonn af síld. Síldin verður flökuð og söltuð hjá LVF.

Þá er flutningaskipið Mangó að lesta 1500 tonn af fiskimjöli sem selt hefur verið til Danmerkur.

Fyrsta haustsíldin

Fyrsta síldin á þessu hausti barst til Fáskrúðsfjarðar í morgun. Það var Hoffell SU 80 sem kom með um 100 tonn. Síldin veiddist á Hvalbaksgrunni og var skipið 3 tíma í land. Síldin fer öll í flökun og söltun hjá Loðnuvinnslunni.

Ljósafell vika 4

Lokið var við að hreinsa burt restina af gömlu undirstöðunum fyrir togspilin. Tankahreinsun og þykktarmæling á olíutönkum lokið og kom hún vel út. Upptekt á rafalagír í gangi, sömuleiðis er verið að hreinsa og skipta um legur í AC rafal. Toggálgi skorinn af skipinu og farið með hann í land til viðgerða, svo og til að sjóða í hann nýtt stykki vegna hækkunar um 30 cm. Byrjað að þvo skipið uppá brú og fram á bakka með vatnsblæstri. Einnig unnið að því að verja kapla og búnað fyrir sandblástur. Fiskilúga tekin í land til viðgerða. Nýrri olíuskilvindu og smurolíuskilvindu ásamt dælum og hiturum komið fyrir og soðið niður á undirstöður. Ýmislegt af nýjum búnaði í skipið er að berast og á myndinni hér til hægri gefur að líta nýtt vakúm kerfi fyrir WC og frárennsli. Skipverjar ættu því að una vel á klósettinu fullvissir þess að „plopsið“ verður meðhöndlað samkvæmt nýjustu reglum EES.

Barcelona

Fimmtudagskvöldið 27. september n.k. flýgur 75 manna hópur starfsmanna LVF og maka frá Egilsstöðum í helgarferð til Barcelona. Það er Starfsmannafélag LVF sem annast hefur undirbúining ferðarinnar í samvinnu LVF. Farið verður í skoðunarferðir um svæðið og á knattspyrnukappleik og skemmtun haldin á laugardagskvöldinu. Ferðalangarnir halda svo heim á leið með flugi til Egilsstaða mánudaginn 1. október.

Ljósafell vika 3

Í þessari viku hefur ennþá verið að rífa ýmislegt frá og fóru togvindurnar í land í vikunni ásamt stórum hluta af undirstöðum þeirra. Afgasketill hífður í land til viðhalds, lághitakælir fjarlægður úr vélarrúmi, glussadæla ásamt mótor og tank fjarlægð úr skorsteinshúsi bb til að rýma fyrir nýrri stakkageymslu. Rifið innan úr fiskmóttöku svo hægt sé að klæða með rústfríu efni. Lestargöng á efra dekki skorin í burtu til að rýma fyrir nýjum sturtum og klósettum. Lestargöng á neðra dekki skorin í burtu til að rýmka fyrir stækkuðum borðsal. Gamli spilrafallinn rifinn í land í pörtum og verið að rýma leið fyrir þeim nýja niður í vélarrúm. Verið er að þykktarmæla skipið. Akkerisvinda og hjálparvindur eru komnar á verkstæði og er verið að sandblása þær og yfirfara. Á myndinni hér að ofan eru þeir starfsmenn sem sinna stjórnun og eftirliti með breytingunum á Ljósafellinu í Póllandi. Þeir eru frá vinstri: Kjartan Reynisson, útgerðarstjóri, Ryszard Zdunowski, pólskur eftirlitsmaður, Gunnar Óli Ólafsson, yfirvélstjóri og Ragnar Logi Björnsson, 1. vélstjóri

Ljósafell vika 2

Í þessari viku hafa frárif verið í fullum gangi og á köflum hafa menn ekki séð handa sinna skil fyrir reyk og neistaflugi eins og myndin hér til hægri sýnir. Í vikunni fóru 4 grandaravindur í land til viðhalds og er búið að rífa vírastýrin og ýmsan búnað frá togvindunum, en þær fara í land í pörtum. Unnið er að því að fjarlægja gamla spilrafalinn úr vélarrúmi. Verið er að skera þilin á gömlu lestargöngunum í burtu til að geta stækkað borðsal og setustofu. Búið að taka allar blakkir í land til yfirferðar. Einnig er búið að fjarlægja gamla loftræstikerfið. Styrkingum fram á bakka er að ljúka. Frárif í lest er komið í gang og búið að brjóta steypu yfir mannopum niður í tanka til að geta hafist handa við tankahreinsanir.

Finnur landar síld

Í dag er verið að landa um 300 tonnum af norsk-ísl. síld úr Finni fríða. Skipið fékk í skrúfuna um 350 sjómílur norður í hafi og var dregið til Fáskrúðsfjarðar af færeyska skipinu Júpiter, en skipin voru saman á partrolli. Ferðin til Fáskrúðsfjarðar tók einn og hálfan sólarhring. Síldin fer bæði til söltunar og frystingar.

Ljósafell vika 1

Fyrsta vika við endurbætur á Ljósafelli hefur gengið ágætlega. Verið er að fjarlægja allt lauslegt af skipinu fyrir sandblástur og málun.

Frárif hefur gengið vel og er búið að rífa allt úr borðsal, eldhúsi, stakkageymslu, matvælageymslum, en einnig er langt komið með að rífa á millidekki. Á millidekki er búið að fjarlægja plötufrysti og einangrun og klæðningar úr lofti og veggjum. Þar er einnig unnið að því að fjarlægja gamla frystiklefann. Búið er að rífa pokavindur á afturdekki og dælu og mótor fyrir þær. Einnig er búið að taka í land til viðgerða 2 gilsavindur, 4 trixavindur og akkerisspilið. Í vélarrúmi er búið að rífa frá gömlu olíuskilvindurnar og er unnið að því að rífa allt sem tilheyrir frystikerfinu sem var sett í fyrir 18 árum.

Ljósafell til Póllands

Kl. 13.00 laugardaginn 25. ágúst s.l. hélt Ljósafell áleiðis til Gdansk í Póllandi, þar sem fram fara ýmsar endurbætur á skipinu og er áætlað að verkið taki 95 daga.