Starfsmannastefna

        

Loðnuvinnslan er rótgróið sjávarútvegsfyrirtæki í fremstu röð. Félagið hefur á að skipa góðu starfsfólki sem langflest er heimamenn. Markmið fyrirtækisins er að vinna stöðugt að velferð, þjálfun og þekkingu starfsfólks með það að leiðarljósi að viðhalda og efla frammistöðu og starfsánægju.

Það gerum við með því að leggja áherslu á eftirfarandi:

Að starfsmenn sameinist um að vinna sífellt að því að auka öryggi, árangur og velferð
Að tryggja starfsöryggi og góða afkomu
Að gæta jafnréttis
Að gæta jafnvægis á milli vinnu og einkalífs eins og hægt er
Að starfsmenn sýni virðingu og kurteisi í samskiptum

Öryggis- og heilsumál

  • Öll vinnuslys eru óásættanleg og fyrirbyggjanleg með réttum vinnubrögðum. Heilsa starfsfólks er mikilvæg og eiga allir að geta komið heilir heim.
  • Nýir starfsmenn eru þjálfaðir í öruggum vinnubrögðum áður en þeir fá að vinna sjálfstætt.
  • Við vinnum stöðugt að því að koma í veg fyrir og uppræta hættur í vinnuumhverfinu.
  • Á öllum vinnustöðvum Loðnuvinnslunnar er starfrækt öryggisnefnd. Þær funda að lágmarki ársfjórðungslega og þar er farið yfir öryggisatvik og stöðu umbótaverkefna.Öryggisfulltrúar á hverri vinnustöð, ásamt stjórnendum, bera ábyrgð á framgangi umbótavinnunnar. Öryggisráð Loðnuvinnslunnar og öryggisstjóri hafa yfirumsjón með öryggismálum og veita stuðning og aðhald.
  • Við bjóðum stafsmönnum okkar upp á reglubundnar heilsufarsskoðanir og niðurgreiðum líkamsrækt og heilsueflingu.
  • Það er með öllu óheimilt að vera undir áhrifum vímuefna í vinnutíma og er það alvarlegt brot á öryggisreglum. Starfsmenn sem eiga við vímuefnavanda að stríða geta fengið stuðning til að vinna bug á honum. Starfsmenn geta einnig fengið stuðning við að vinna bug á tóbaksfíkn.
  • Að starfsmenn sameinist um að vinna sífellt að því að auka öryggi, árangur og velferð.

Þjálfun og starfsþróun

  • Leitast skal við að nýta hæfileika starfsfólks og fela því verkefni við hæfi með það að leiðarljósi að það vaxi og þróist í starfi.
  • Þjálfunarþörf er greind með reglubundnum hætti og námskeið og þjálfun skipulögð til að mæta þeirri þörf.
  • Mikilvægt er að stjórnendur leiðbeini starfsmönnum og veiti þeim uppbyggilega endurgjöf á frammistöðu þeirra.
  • Ef forsendur starfsmanns til að sinna núverandi starfi breytast, þá er skoðað hvort önnur störf innan fyrirtækisins komi til greina í staðinn.
  • Leitast skal við að gefa starfsmönnum leyfi frá starfi þegar þeir óska þess, svo fremi sem vinnsla á hverjum tíma gefur möguleika til þess. Taka skal sérstakt tillit til óska um frí og sveigjanleika ef um veikindi í fjölskyldu eða aðrar persónulegar ástæður er að ræða
  • Vitað er að vaktavinna og sjómenneska reynast starfsfólki erfiðari með aldrinum. Þegar starfsmaður hefur náð 62 ára aldri er geta hans til að sinna sama starfi áfram metin. Vilji starfsmaður minnka við sig vinnu eða er ófær um að gegna starfinu af heilsufarsástæðum skal leitast við að finna honum annað starf innan fyrirtækisins. Við 67 ára aldur er metið hvort um starfslok verði að ræða, eða hvort forsendur eru fyrir áframhaldandi starfi hjá fyrirtækinu. Er það metið út frá eðli starfsins og ekki síður vilja, heilsu og frammistöðu starfsmanns.

Samskipti og upplýsingar

  • Starfsmenn Loðnuvinnslunnar skulu sýna virðingu og kurteisi í öllum samskiptum. Við líðum ekki einelti og áreitni og eru slík mál tekin föstum tökum.
  • Öll mismunun, til dæmis á grundvelli kynferðis, uppruna, kynhneigðar eða annarra persónubundinna þátta, er óheimil. Ákvarðanir um ráðningar, laun og stöðuhækkanir skulu byggja á hæfnikröfum viðkomandi starfs, hæfni og reynslu viðkomandi og/eða kjarasamningum eftir því sem við á
  • Loðnuvinnslan stefnir að því að gæta fyllsta jafnréttis milli kvenna og karla, bæði hvað varðar laun og tækifæri innan fyrirtækisins. Loðnuvinnslan hyggst láta framkvæma óháðar jafnlaunaúttektir til að tryggja að kynjunum sé ekki mismunað launalega.
  • Starfsmannafundir eru haldnir á öllum vinnustöðum Loðnuvinnslunnar ársfjórðungslega þar sem farið er yfir reksturinn, öryggismál og umbætur.
  • Við leitumst við að nýta þekkingu starfsmanna til að greina og grípa tækifæri til umbóta í rekstri, sérstaklega í því skyni að auka öryggi starfsmanna og gæði vörunnar.
  • Upplýsa skal starfsmenn tímanlega um breytingar sem að þeim snúa og gefa starfsmönnum færi á að koma með athugasemdir. Á heimasíðu fyrirtækisins má ævinlega finna nýjustu fréttir af starfseminni.

Starfsöryggi og kjör

  • Við leitumst við að tryggja starfsöryggi og kjör starfsmanna eins og framast er unnt. Útgerð og fiskvinnsla er í eðli sínu háð ákveðinni óvissu, en í ljósi sterkrar stöðu Loðnuvinnslunnar hefur fyrirtækið getað boðið fastráðnum starfsmönnum upp á örugga vinnu og góðar árstekjur.
  • Stefnt er að því að starfsmenn njóti góðra kjara fyrir sanngjarnt vinnuframlag og góða frammistöðu.

Auk starfsmannastefnunnar er Loðnuvinnslan bundin af lögum og kjarasamningum. Frekari upplýsingar um framkvæmd starfsmannamála er að finna á heimaíðu Loðnuvinnslunnar, lvf.is.