Berlínarferð Starfsmannafélagsins

Þann 28.maí sl. fóru félagar í Starfsmannafélagi Loðnuvinnslunnar í borgarferð til Berlínar í Þýskalandi. Var þetta fimm nátta ferð og flogið var frá Egilsstöðum sem er til mikillar bótar fyrir Austfirðinga vegna þess hve stutt er heim.  Berlín tók á móti hópnum með blíðskapar veðri sem einkenndi alla þá daga sem stoppað var. Hitastigið á bilinu 20 til 28 gráður.  Hótelið var í þeim borgarhluta sem áður tilheyrði austur Berlín og á næstu grösum voru merkilegir sögustaðir sem skemmtilegt og fróðlegt var að heimsækja og sjá.

Berlín bíður upp á afþreyingu af ýmsum toga. Það er hægt að fara í hjólatúra með leiðsögn, hægt að fara í útsýnistúr á Trabant bifreið, róla sér í rólu fram af háhýsi og svona mætti lengi telja. Þá er afar rík matarmenning í borginni, þar er hægt að krækja sér í mat frá öllum hugsanlegum hornum matarmenningar og frá hinum ýmsu álfum veraldarinnar.

Á föstudagskvöldinu bauð Loðnuvinnslan öllum hópnum til kvöldverðar. Komu rútur að sækja mannskapinn á hótelið og ekið var í gegn um borgina á fallegan veitingastað þar sem tekið var á móti gestum með fordrykk og fingramat. Síðan var gengið inn og matur fram borinn sem var með glæsilegasta móti. Fengu gestir skemmtun á meðan á borðhaldi stóð, þar sem frábær píanóleikari fór á kostum á fallegum hvítum flygli.

Samkvæmt spjalli við hina ýmsu meðlimi starfsmannafélagsins var ánægja með ferðina. Hver og einn fann sér afþreyingu við eigið hæfi og fullyrða má að allir hafi notið lífsins og daganna í Berlín í góðum félagsskap og blíðskapar veðri og ef félagsskapur og veður er gott mælast lífsgæði nokkuð hátt og það er auðvitað það sem við mannfólkið sækjum eftir.

Lent var svo á Egilsstöðum að kvöldi 2.júní, hvar rigning, vindur og 3 gráðu hiti mætti hópnum, en engin lét það nokkuð á sig fá, allir búnir að fá góðan sólarskammt og skemmtun svo það var bara að bæta á sig peysu, setja undir sig hausinn og halda heim með huga og hjarta fullt af góðum minningum frá skemmtilegri ferð.

BÓA

Hópurinn fyrir utan veitingastaðinn

Borðhald

Gestir fengu sérmerktan matseðil

Símaklefi sem fengið hefur nýtt hlutverk

Svipmynd frá Berlín

Leifar frá síðari heimstyrjöldinni

Sigursúlan á Grosser Stern torginu.

Metafli úr einu skipi

Þann 3.maí sl. tók fiskmjölsverksmiðja Loðnuvinnslunnar á móti 3.606 tonnum sem    landað var úr færeyska uppsjávarveiðiskipinu Götunes. Langstærstur hluti þess afla var kolmunni en lítilræði af makríl flaut með. Er þetta lang stærsti farmur sem hefur komið úr einu skipi við löndunarbryggju LVF.

Magnús Ásgrímsson verksmiðjustjóri fiskmjölsverksmiðjunnar sagði að verksmiðjan réði vel við slíkt magn hráefnis. „Það tók einn og hálfan sólarhring að landa þessum afla og svo tekur svona fjóra sólarhringa að vinna hráefnið“ sagði Magnús. 

Sagði Magnús einnig að hráefnið væri nokkuð gott, en þar sem kolmunninn er farinn að horast verður afurðin að mestu mjöl. 

Skipverjar á Götunesi fylgdust vel með vigtinni og fögnuðu hverju nýju kílói undir lok löndunar því að þetta var líka mesti afli sem skipið hefur aflað í einum túr hingað til.

Það er alltaf gaman að ná nýjum áföngum líkt og taka á móti mesta afla  til vinnslu úr einu skipi. En vertíðin er ekki búin þó svo að hún sé farin að styttast í annan endann og aldrei að vita hvenær næsta met fellur. Starfsfólk fiskmjölsverksmiðju Loðnuvinnslunnar stendur sína vakt og vinnur sín verk hvort heldur um metafla er að ræða eða ekki, en full ástæða er til að staldra við og fagna skemmtilegum áföngum.

BÓA

Götunes á leið til hafnar á Fáskrúðsfirði, Skrúður tignarlegur í baksýn. Ljósmynd: Jónína Guðrún Óskarsdóttir

Kolmunnaveiðum lokið í bili

Nú hefur Hoffell SU 80 lokið kolmunna veiðum í bili. Sigurður Bjarnason skipstjóri á Hoffelli sagði að það hefði gengið afar vel að afla þeirra 8600 tonna sem Hoffell hefur landað í apríl mánuði. „Apríl hefur aldrei verið eins góður“ sagði Sigurður, „ það var mokveiði og þrátt fyrir að við hefðum ekki verið í neinu stressi, náðum við þessum tonnum í fjórum túrum“ bætti skipstjórinn við.

Kolmunni er fiskur sem Íslendingar hafa nýtt til bræðslu og framleitt úr honum mjöl og lýsi.  Hoffell hefur landað öllum sínum afla í heimahöfn hér á Fáskrúðsfirði en þar að auki hafa allnokkur erlend skip landað sínum kolmunnaafla hér og því hefur Fiskmjölsverksmiðja Loðnuvinnslunnar haft ærin verkefni að undan förnu.

Hoffell á þó inni einhvern kvóta í kolmunna og verður sá kvóti geymdur fram á haustið þegar fiskurinn verður orðinn feitur og fínn eftir sumarið.  „Á þessum árstíma horast fiskurinn töluvert, við sáum það glögglega á síðasta farminum“ fræddi Sigurður skipstjóri greinarhöfund og bætti því svo við að þegar fiskurinn væri fitulítill færi hann að mestu í mjöl en ef hann er feitur þá vinnst töluvert af hráefninu í lýsi, og öll vitum við hvað lýsi er hollt fyrir allar lifandi verur.

Svo næstu vikur mun Hoffell SU 80 vagga við bryggju hér heima á Búðum við Fáskrúðsfjörð, því verður eflaust klappað eitthvað og undirbúið fyrir makríl veiðar sem hefjast að öllum líkindum í júní. 

BÓA

Hoffell við bryggju á Fáskrúðsfirði þann 1.maí 2025. Ljósmynd: Jónína Guðrún Óskarsdóttir

Styrkir út í samfélagið

Aðalfundir Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga og Loðnuvinnslunnar voru haldnir föstudaginn 25.apríl sl.  Sú hefð hefur skapast að útdeila styrkjum til félagasamtaka og stofnana á aðalfundum félaganna. Er þá um að ræða vænar upphæðir sem afhentar eru með formlegum hætti, en bæði Kaupfélagið og Loðnuvinnslan styrkja hin ýmsu málefni stór og smá allt árið um kring.

Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar hlaut 10 milljónir króna í styrk í sína starfsemi. Gengur sú starfsemi út á að bjóða félagsfólki  upp á afþreyingu og skemmtun í formi samveru og ferðalaga og er starfsmannafélagið ötult í sínu starfi. Þórhildur Elfa Stefánsdóttir er í stjórn starfsmannafélagsins og var að vonum ánægð með styrkinn. „Við  þökkum kærlega fyrir okkur, þessi peningur mun nýtast vel í okkar starfi“ sagði Þórhildur.

Björgunarsveitin Geisli fékk styrk að upphæð 6 milljónir króna.  Loðnuvinnslan hefur verið dyggur bakhjarl Geisla um árabil. Að þessu sinni rennur styrkurinn upp í kostnað vegna endurnýjunar á bíl sveitarinnar, en nýr,  glæsilegur og sérútbúinn jeppi til björgunarstarfa er væntanlegur innan tíðar. Sá gamli var komin á átjánda ár og orðið tímabært að Útkallsbíll 1 yrði uppfærður. Grétar Helgi Geirsson er formaður björgunarsveitarinnar Geisla. „Það er sannarlega gott að eiga góða að þegar á reynir“ sagði Grétar Helgi og bað um að þökkum til Loðnuvinnslunnar yrði komið á framfæri. „Það er stór biti fyrir litla sveit að kaupa bíl upp á 40 milljónir króna og því er styrkurinn okkur afar mikilvægur“ bætti formaðurinn við.

Þá hlaut Ungmennafélagið Leiknir 19 milljónir króna í styrk. Leiknir er félagsskapur þar sem ungir sem aldnir stunda hinar ýmsu íþróttir. Það hefur margar deildir innan sinna vébanda og sinnir mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Vilberg Marinó Jónasson er formaður Leiknis og þakkaði hann fyrir þennan rausnarlega styrk. „Þetta er ómetanlegt og við erum afar sátt“, sagði Vilberg.

Félagsskapur um Franska daga hlaut 2,5 milljónir króna í styrk frá Loðnuvinnslunni og aðrar 2,5 milljónir frá Kaupfélaginu. Bæjarhátíðin Franskir dagar, sem haldin er árlega á Búðum við Fáskrúðsfjörð, er vettvangur samveru og gleði. Íbúar og gestir njóta fjölbreyttrar dagskrár sem skipuleggjendur hátíðarinnar setja upp og styrkir sem þessir geta gert það að verkum að dagskrá og umbúnaður verði með glæsilegasta móti.  Birkir Snær Guðjónsson er formaður félags um Franska daga. „Við erum gríðarlega þakklát fyrir styrkinn, bæði frá Loðnuvinnslunni og Kaupfélaginu. Þetta skiptir virkilega miklu máli fyrir okkur, án þessa styrkja yrðu Franskir dagar vart svipur hjá sjón“ sagði Birkir Snær.

Hjúkrunarheimilið Uppsalir hlaut að gjöf frá Kaupfélaginu búnað til nota á Uppsölum. Um er að ræða veltidýnu og ákveðna gerð af tæknibúnum sturtustól.  Er þetta búnaður sem kemur að afar góðum notum og mun verða bæði heimilisfólki og starfsfólki þar til mikillar bóta. Helga Sturludóttir hjúkrunarfræðingur sagði það vera mjög dýmætt að fá svona stuðning og þakkar fyrir.

Við erum lánsöm sem samfélag að hafa Kaupfélagið og Loðnuvinnslunna sem styðja og styrkja hina ýmsu starfsemi, starfsemi sem eykur lífsgæði íbúa hvort heldur þeir eru ungir eða aldnir.

Eftir þennan pistil eiga þessi lokaorð vel við;

Gefðu alltaf án þess að muna og þiggðu alltaf án þess að gleyma.


BÓA

Frá vinstri: Elvar Óskarsson stjórnarformaður Loðnuvinnslunnar, Garðar Svavarsson framkvæmdastjóri LVF, Helga Sturludóttir deildarstjóri Uppsölum, Birkir Snær Guðjónsson formaður Franskra daga, Þórhildur Elfa Stefánsdóttir frá starfsmannafélagi Lvf, Grétar Helgi Geirsson formaður björgunarsveitarinnar Geisla, Vilberg Marinó Jónasson formaður Leiknis og Steinn Jónasson stjórnarformaður Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga.

Steinn Jónasson stjórnarformaður Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga.

Garðar Svavarsson framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar.

Fundagestir

Elvar Óskarsson stjórnarfomaður Loðnuvinnslunnar

Baldur Einarsson tekur við sem útgerðarstjóri Loðnuvinnslunnar.

Baldur Einarsson hefur verið ráðinn í starf útgerðarstjóra Loðnuvinnslunnar. Baldur er sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri og hefur víðtæka reynslu úr sjávarútvegi til sjós og lands. Baldur hefur m.a starfað sem útgerðarstjóri Eskju á Eskifirði s.l 7 ár en lét af störfum þar á síðasta ári.

Baldur mun hefja störf fljótlega og vinna fyrst um sinn samhliða Kjartani Reynissyni fráfarandi útgerðarstjóra. Kjartan hefur óskað eftir því að láta af störfum í vor eftir einstaklega farsælan starfsferil fyrir Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga, Loðnuvinnsluna og forvera hennar.

Samhliða þessum breytingum mun Steinþór Pétursson taka við hlutverki Kjartans sem fulltrúi Kaupfélagsstjóra og aðstoðarmaður framkvæmdastjóra Loðnuvinnslunnar. Steinþór mun áfram sinna skrifstofustjórn félagsins en starfsheiti hans verður breytt í fjármálastjóra.

Félagið bíður Baldur velkominn til starfa og og þakkar Kjartani fyrir einstakt framlag hans.

Tilkynning um ráðningu skipstjóra á Ljósafelli SU70

Kristján Gísli Gunnarsson, sem starfað hefur hjá Loðnuvinnslunni frá árinu 2008, hefur verið ráðinn sem skipstjóri á Ljósafelli SU-70.

Kristján er fæddur árið 1974 á Akureyri en flutti um 5 ára aldur til Dalvíkur þar sem rætur hans liggja. Síðustu ár hefur hann búið á Akureyri ásamt eiginkonu sinni, Kolbrúnu Sjöfn Magnúsdóttur, og dætrunum Magneu Björgu og Guðrúnu Rögnu.

Kristján útskrifaðist úr Stýrimannaskólanum á Dalvík árið 1996 og lá þá leiðin til Samherja þar sem hann starfaði í rúman áratug. Kristján var ráðinn um borð í  Ljósafellið árið 2008 og síðan þá hefur hann gengt flestum stöðum um borð í Ljósafellinu. Árið 2019 var hann ráðinn sem yfirstýrimaður og síðustu 2 ár hefur hann starfað sem skipstjóri í fjarveru Hjálmars.

Loðnuvinnslan óskar Kristjáni til hamingju með nýju stöðuna og óskar honum velfarnaðar í starfi.

Aðalvél Ljósafells kominn í 200.000 vinnustundir

Ljósafell SU 70 hefur verið nokkuð í kastljósinu undan farin misseri. Og er það vel, því ýmsum áföngum hefur það náð sem vert er að fjalla um. Núna er það vélin sem knýr þetta fagra fley áfram. Vélin sem er af gerðinni Niigata er komin í 200.000 klukkustundir. Þeim áfanga var náð þann 12.desember s.l kl. 13.03.   En hvað þýðir það fyrir þann sem ekki hefur þekkingu á skipsvélum og endingartíma þeirra? Jú það þýðir að vélin hefur verið í gangi í 200.000 klukkustundir síðan hún var sett í skipið í nóvember 1988  í Gdynia í Póllandi.  Til að setja þetta í aðeins meira samhengi fyrir áhugasama þá er þessi tími jafngildi þess að vélin hafi verið stanslaust í gangi í rúm 22 ár af þessum 36 síðan hún var sett í.  Til að setja hlutina í enn frekara samhengi er hægt að setja þetta upp á þann hátt; að ef fjölskyldubílunum væri ekið á 60 kílómetra hraða á klukkustund í 200.000 klukkutíma væri hann kominn í 12 milljón kílómetra á mælinum. Það er mikið.

 Þvílíkar tölur þykja líka háar á skipsvél, en hvað veldur því að hún hefur enst svona vel?

Högni Páll Harðarson var vélstjóri á Ljósfelli þegar vélin var sett um borð og hann svaraði  aðspurður að grunnhönnun vélarinnar væri mikilvægur þáttur, „það er ekki allur búnaður byggður til að endast“ sagði hann og bætti því við að góð umhirða, eftirlit og tímanlega útskipti á slithlutum væri mikilvægur þáttur fyrir heilsu véla.

Kristján Birgir Gylfason er yfirvélstjóri á Ljósafelli og hefur sömu sögu að segja varðandi vélina, þ.e.a.s. hún sé vel smíðaður gripur, „það eru allir íhlutir í þessari vél  sverir og sterkir sem þýðir að þeir þola meira álag“ sagði Kristján Birgir. Hann sagði líka að vélin væri hönnuð til þess að ganga 310 snúninga en hann, og hinir vélstjórarnir,  létu hana aldrei ganga meira en 280 snúninga.  Þegar Kristján Birgir var spurður að því hvort að hann teldi að vélin gæti gengið í mörg ár í viðbót svaraði hann því til að það væri svo sem ekkert sem benti til annars. „Það gæti farið að verða svolítið erfitt að fá varahluti því að hún er jú komin til ára sinna þrátt fyrir að vera við hestaheilsu“ sagði Kristján og bætti því við að það hefði aldrei verið sparað í viðhaldi við þessa vél og ávallt hugsað vel um allar hennar þarfir og því dygði hún svo vel.

Þegar Ljósafell lagðist við bryggju eftir síðasta túr fyrir jól, stóð vélin í 200.041,9 klukkustundum. Nákvæmur teljari heldur utan um tímana, og hann gerir greinilega ekki ráð fyrir svona mikilli notkun því að teljarinn getur aðeins talið upp í 99.999, og þegar þeirri tölu er náð hrekkur hann aftur á byrjunarreit, svo að útsjónarsamir vélstjórar hafa gripið á það ráð að setja límmiða fyrir framan með viðeigandi tölu

Það skiptir máli að gleðjast og fagna stóru sem smáu. Og samkvæmt hefð Loðnuvinnslunnar var áhöfn og gestum Ljósfells boðið upp á köku í tilefni áfangans.  Og svo eru jólin á næsta leiti og því stóð áhöfn Ljósafells í því að hengja falleg ljós á hina öldnu hefðardömu hafsins, því Ljósafell skal skarta sínu fegursta.

BÓA

Verið að taka vélina úr umbúðum. Ljósmynd: Högni Páll Harðarson

Verið að hífa um borð. Vélin lætur ekki mikið yfir sér þarna í lausu lofti en hún vegur engu að síður 30 tonn. Ljósmynd: Högni Páll Harðarson.

Það er ekki létt verk að koma vél á sinn stað. Ljósmynd: Högni Páll Harðarson

Mælirinn góði sem heldur utan um vinnustundir vélarinnar. Ljósmynd: Kjartan Reynisson

Frá vinstri: Kristján Birgir Gylfason yfirvélstjóri, Pétur Kristinsson 1.vélstjóri og Þorvaldur Már Elíasson yfirvélstjóri á móti Kristjáni. Ljósmynd: Kjartan Reynisson. Gaman er að geta þess að engin þessara herramanna var fæddur þegar vélin var sett niður árið 1988.

Skipstjórarnir á Sandfelli

Stundum er haft á orði að þegar einar dyr lokist, opnist aðrar.  Oft er gripið í þetta orðatiltæki þegar breytingar verða á högum fólks. Á Sandfelli SU 75 hafa orðið breytingar á högum áhafnarmeðlima. Eins og mörgum er kunnugt eru tvær áhafnir á Sandfelli sem vinna tvær vikur í senn og eiga svo tvær vikur í frí.  Því er tveir skipstjórar sem sitja við stjórnvölinn, sinn á hvorri vaktinni.

Róbert Gils Róbertsson er annar þeirra. Hann var í fríi þegar greinarhöfundur náði tali af honum. Hann er búsettur í Mosfellsbæ ásamt fjölskyldu sinni og var að dunda sér við jólaskreytingar.  Róbert hefur verið á Sandfelli síðan árið 2018. Var ráðinn sem vélstjóri. En Róbert hefur æðstu menntun skipstjórnar „en ég hef samt alltaf verið á línubát“ sagði Róbert. Hann hefur verið á sjó í tæp 27 ár og þrátt fyrir að hafa réttindi upp á að mega stjórna stóru skipi velur hann línuveiðar. Það segir hann að henti sér best. Það var svo sumarið 2023 að hann tók við sem skipstjóri á annarri vaktinni.

Róbert sagði það líka vera fjölskylduvænt að vinna tvær vikur og eiga frí í tvær. „Þó svo að vinnan sé langt að heiman eru fríin góð og ég veit alltaf langt fram í tímann hvenær ég á frí og því auðvelt að skipuleggja út frá því“ sagði Róbert. 

Til að kynnast kjarnanum sem býr í hverri manneskju er gott ráð að spyrja um hvað það sé sem gerir manneskjuna glaða. Róbert sagðist njóta þess að vera heima með konu sinni og þremur börnum, en hann upplýsti greinarhöfund um það að hann hefði keppt í sjóstangaveiði í nokkur ár, tók þátt á Íslandsmótum og allt hvað eina, eða alveg þangað til bakvandamál gerðu vart við sig.  „Svo keyptum við hjónin fokhelt hús og höfum verið að byggja það undan farin ár“ sagði skipstjórinn Róbert.

Marcin Grudzien er einnig skipstjóri á Sandfelli SU 75, hann tók við starfinu s.l haust. Marcin var einn af áhafnarmeðlimum sem „fylgdu með“ þegar Loðnuvinnslan keypti bátinn árið 2016.  Marcin kom fyrst til Íslands árið 2000 en fluttist svo til landsins með fjölskylduna árið 2006. „Fyrsta starfið mitt á Íslandi var að vinna í frystihúsi á Breiðdalsvík“ sagði Marcin og bætti við glettnislega „ég er eiginlega gamall Breiðdælingur“. En eftir að hann fór á sjó hefur hann unnið flest störf um borð, kokkur, háseti, vélamaður, stýrimaður og skipstjóri.  Þannig að íslenskt sjómannslíf er honum vel kunnugt.   Marcin, sem er fæddur og uppalinn í Póllandi, talar afar góða íslensku og hefur aðlagast býsna vel.  En hvað er það  sem gleður Marcen í frítímanum? „ Mér finnst gaman að ferðast, fara í ræktina og njóta stunda með fjölskyldunni, en hann á konu og tvö börn.

Auðvitað var ekki hjá því komist að inna skipstjórnarmennina eftir því hvernig þeim þætti að vinna hjá Loðnuvinnslunni og svör þeirra báru að sama brunni. „Það er mjög gott að vinna hjá fyrirtækinu, það er aldrei neitt vesen ef það vantar eitthvað og öll þjónusta við áhöfn og skip er til fyrirmyndar“ svöruðu þeir nánast samhljóma frá sitt hvorum staðnum á landinu. Annar reyndar um borð í Sandfelli við bryggju, bíðandi eftir því að brælunni linni svo hægt væri að fara aftur til sjós, hinn, eins og áður sagði, í Mosfellsbæ.

Sandfell hefur verið heppið með áhafnir, góðir og vandaðir sjómenn hafa vermt plássin þar og ekkert sem bendir til þess að breyting verði þar á.

Marcin og Róberti eru færðar óskir um gott gengi fyrir bát og áhöfn. 

BÓA

Róbert Gils Róbertsson

Marcin Grudzien

Íslenskukennsla

“Á íslensku má alltaf finna svar” segir í ljóði eftir Þórarinn Eldjárn. Það á nú eflaust við önnur tungumál líka en við, unnendur íslenskunnar, kunnum að meta þegar fallega er talað um tungumálið. 

Hjá Loðnuvinnslunni vinnur margt fólk. Fólk sem kemur héðan og þaðan úr veröldinni og meðferðis hefur það auðvitað sitt móðurmál. En tungumálakunnátta er dýrmæt þekking sama hvaðan einstaklingur kemur  og hvert hann fer. -Svo sagði músin sem bjargaði lífi sínu með því að kunna að gelta. 

Eydís Ósk Heimisdóttir vinnur á skrifstofu LVF og henni er margt til lista lagt. Hún er með  Bsc í viðskiptafræði og spænsku ásamt því að vera með master gráðu í kennslufræði.  Að auki eru tungumál hennar áhugamál og getur hún tjáð sig á  allmörgum tungum.  Það lá því beint við að fá hana til þess að vera með íslenskunámskeið fyrir það starfsfólk LVF sem óskar eftir slíku námskeiði.  Síðan í september hefur námskeið verið í gangi og  jafnan nokkuð vel sótt. Þar sem mæting er frjáls þá stjórnast hún svolítið af önnum í fyrirtækinu.

„Ég legg áherslu á orðaforða sem tengist daglegu lífi. T.d. þegar manneskja verslar eða á í samræðum“ sagði Eydís Ósk þegar hún var spurð um áherslur í náminu.  Þá sagði Eydís að það færi alltaf nokkur tími í að læra hin ýmsu orð um veður. Það er jú okkur, íbúum á landinu bláa, hugleikið umtalsefni. „Þá er farið í orðaforða sem er hagnýtur eins og tölur,  mánuði, daga og helstu sagnir“, sagði Eydís líka og bætti við síðasta tímanum fyrir jól yrði varið í orð tengd jólum.

Aðspurð sagði Eydís Ósk að nemendunum gengi vel, þau væru áhugasöm og dugleg.  Fyrirhugað er framhalds námskeið á vorönn.

Ein af þátttakendum námskeiðsins er Caro Robert, hún kemur frá Argentínu. Caro sagði að það væri mikilvægt fyrir sig að læra íslensku. „Jafnvel þótt flestir Íslendingar tali góða ensku þá finnst mér það sýna vott af virðingu og áhuga á landinu að vilja læra tungumálið“ sagði Caro  og bætti því við að það gæti jafnvel aukið möguleika til þess að taka þátt í félagsstarfi og öðru slíku með innfæddum.  „Ég hef nú þegar lært nógu mikið til þess að geta spjallað svolítið á íslensku“ bætti Caro við og greinarhöfundur getur staðfest það.  Þegar Caro var innt eftir því hvort að kennslan hefði staðið undir væntingum svaraði hún um hæl að Eydís væri afar góður kennari.  „Hún er líka opin og góð persóna, og mjög svo viljug að svara öllum okkar spurningum og svo er hún svo góð í öðrum tungumálum að allar útskýringar eru auðskiljanlegar“ sagði Caro frá Argentínu.

Það er grundvallar atriði í samskiptum fólks að skilja hvert annað. Oft þurfum við sem höfum íslensku að móðurmáli að bregða fyrir okkur erlendu tungumáli til að gera okkur skiljanleg og ávallt er það gleðilegt þegar fólk sem hefur annað móðurmál en íslensku langar að læra okkar ástkæra ylhýra.

Því mun Loðnuvinnslan bjóða upp á námskeið í íslensku á meðan einhver mætir í tíma.

BÓA

Eydís Ósk Heimisdóttir

Nemendur dagsins: Sophie frá Sviss og Justine frá Frakklandi, þær eru skiptinemar en fá góðfúslega að fylgja Eydísi. Síðan eru það Agustin og Carolina, starfsfólk Loðnuvinnslunnar. Ljósmynd: Eydís Ósk.

Námsgögn. Ljósmynd: Eydís Ósk.

Hjálmar siglir á ný mið

Engin veit sína ævina fyrr en öll er segir máltækið. Enda engin leið að vita hvað framtíðin ber í skauti sínu. Hjálmar Sigurjónsson fráfarandi skipstjóri á Ljósafelli SU 70 er einn af þeim sem mætti óvæntum örlögum í sínu lífi.   Fallegan vetrardag í mars mánuði árið 2022 var hann, sem oftar, á snjósleða og ók um fjallasali Fáskrúðsfjarðar.  Til þess að gera langa sögu stutta, endaði förin með þeim hætti að hann slasaðist alvarlega á fæti. Svo alvarlega að bókstaflega hékk leggurinn fyrir neðan hné við lærið á u.þ.b. 5 sentimetra húðlagi.  Hjálmar gat sjálfur hringt eftir aðstoð og björgunarsveitafólk mætti á staðinn og hlúði að honum þangað til þyrla mætti og flutti hann á sjúkrahús. Fætinum var naumlega bjargað, en aldeilis ekki Hjálmari án erfiðleika.  Frá slysinu hefur hann verið svæfður þrettán sinnum á meðan læknar unnu hörðum höndum að því að bjarga og bæta. Það hafa verið flutt bein og vöðvar frá öðrum stöðum á líkamanum til þess að byggja upp legginn og nú er svo komið að fóturinn er nothæfur. Hann er svolítið skrítin á að líta, en nothæfur. „Það var og er kraftaverk að ég skyldi halda fætinum“ sagði Hjálmar og raunin er sú að það stóð tæpt um tíma.

Eftir þessa þrekraun alla var Hjálmar tilbúinn til þess að hverfa aftur til starfa sem skipstjóri á Ljósafelli og  í júlí s.l. fór hann í fyrsta túrinn eftir slys.   Fljótlega kom þó í ljós að starfið var erfitt fyrir líkamann sem gengið hafði í gegn um þá erfiðleika sem Hjálmar hefur óneitanlega staðið frammi fyrir síðustu tvö ár.  „Það var veltingurinn sem var svo erfiður fyrir bak og háls og fóturinn viðkvæmur og kraftlítill og þolir illa að ég stígi skakkt niður“ sagði Hjálmar aðspurður um hvaða það hefði verið sem stóð honum fyrir þrifum á sjónum.   Hann tók því þá ákvörðun að segja starfi sínu lausu. „Það var alls ekki létt ákvörðun“ sagði Hjálmar og bætti því við að hann hefði svo sem getað hangið lengur ef hann hefði tekið ómælt magn af verkjatöflum, en það  þótti honum ekki góður kostur.   Svo að Hjálmar tók þessa erfiðu ákvörðun, að segja skilið við sjómennskuna. En maðurinn er aðeins 55 ára gamall og alls ekki af baki dottinn. „Ég finn mér eitthvað annað að gera“ sagði hann léttur. Enda margt sem hægt er að starfa við sem er laust við velting og streitu skipstjórnandans.

En þegar Hjálmar var spurður út í hvað sæti eftir í huga og sál þegar hann horfir til baka til sjómanns áranna svarar hann að bragði: „Þakklæti fyrir þá staðreynd að aldrei hefur orðið alvarlegt slys um borð og allir þessir frábæru strákar sem ég hef unnið með í gegn um tíðina“. 

Og nú tekur við nýr kafli í lífi Hjálmars. Og inntur eftir því hvað hann ætlaði að taka sér fyrir hendur næstu vikurnar svaraði hann að bragði: „ Læra að baka smákökur hjá henni Dagný“ og vísaði þar til konu sinnar sem bætti við um hæl: „Og læra að þrífa glugga“.  Svo Hjálmar og Dagný verða ekki verkefnalaus fram að jólum en þeirra ætla þau að njóta með börnum, barnabörnum og tengdabörnum. Og þegar sólin fer að verma reit á nýju ári, mun Hjálmar væntanlega finna sér nýjan starfsvettvang, eitthvað sem hæfir þessum hógværa og glaðlega manni.

Loðnuvinnslan vill þakka Hjálmari fyrir hans góðu og óeigingjörnu störf í þau 29 ár sem hann var á Ljósafelli og óskar honum alls hins besta í lífi og leik.

BÓA

Hjónin Dagný Hrund Örnólfsdóttir og Hjálmar Sigurjónsson á heimili sínu á Fáskrúðsfriði.

Snjólaugur Ingi

Snjólaugur Ingi Halldórsson er ungur maður, fæddur á því herrans ári 1996. Og þrátt fyrir ungan aldur starfar hann sem verkstjóri hjá Loðnuvinnslunni. Hans aðal starfsstöð er frystihúsið þar sem framleitt er úr þorski og ýsu, auk annarra hráefna af minna magni, dýrindis matur fyrir fólk um allan heim.

Snjólaugur hóf störf hjá LVF á unga aldri, sem unglingur fékk hann sumarstörf eins og tíðkaðist á þá daga. Áður heldur en tæknin hélt innreið sína af fullum þunga með tækjum og tólum sem krefjast þess að eldri einstaklingar sinni störfunum.  En hann kynntist líka frystihúsinu sem barn þar sem afi hans, Óskar Sigurðsson frá Þingholti, starfaði lengi þar við hin ýmsu störf þó lengst af sem vélamaður.  Snjólaugur rifjar upp heimsóknir til afa síns „þar sem ég fékk sjómannakaffi, sem var pínulítið kaffi, heilmikil mjólk og smá sykur“ sagði hann og minningin tældi fram bros.  En frá árinu 2018 hefur Snjólaugur verið í fullu starfi hjá Loðnuvinnslunni. 

Á síðasta ári varð laus staða verkstjóra og Snjólaugur íhugaði að sækja um en gerði það ekki.  Svo var það dag einn að framleiðslustjórinn kallaði á hann og bað hann að finna sig á skrifstofu sinni og bauð honum starfið og þá svaraði Snjólaugur að bragði „það var mikið“ því hann hefur ríka kímnigáfu og er snöggur að hugsa.

Þegar Snjólaugur er inntur eftir því í hverju starfið felist aðallega svarar hann: „ í mannlegum samskiptum fyrst og fremst. Mitt starf er að beina fólki í verkefni eftir því sem þörf krefur og aðstoða og hjálpa þeim sem þess þurfa“. „ Þetta er hálfgert „pepp starf“ bætti hann við.

En störf hins unga verkstjóra eru ekki bundin við frystihúsið, hann fer einnig á aðrar stöðvar þegar unnin er uppsjávarfiskur líkt og síld, loðna og makríll.

Það var að vonum mikið að læra í upphafi, mikilvægt er fyrir manneskju í hans stöðu að þekkja til allra þátta. Vita hvernig vélar og tæki virka og vita til hvaða leiða þarf að leita til þess að leysa hin ýmsu mál sem upp kunna að koma. Á meðan á spjalli greinarhöfundar og Snjólaugs stóð komu allnokkrir  til þess að leita hjá honum ráða eða fá úrlausn úr einhverju sem úr þurfti að greiða. Og ávallt stóð hann upp brosandi og tilbúinn til að hlusta og finna lausn.

Undir stjórn Snjólaugs eru að jafnaði tæplega 50 manns. Þau tala mismunandi tungumál og ekki reynist það okkar manni tálmi. Auk þess að tala reiprennandi ensku þá talar hann hrafl í nokkrum öðrum tungumálum eins og pólsku og litháensku.  

En hvernig líkar honum starfið? „Mér líkar það afar vel“ svaraði hann, „það er oft mikið að gera og maður er nánast alltaf á einhverskonar bakvakt því það er oft hringt til að spyrja um ýmsa hluti, en það er bara hluti af starfinu“.  Og hann tók það líka fram að samstarf við bæði þá einstaklinga sem tróna ofar á skipuritinu og þá sem sitja neðar, væri afskaplega gott. „Það gladdi mig líka hvað það var vel tekið á móti mér í nýju hlutverki“.

Greinarhöfundur hefur fyrir því áreiðanlegar heimildir að fólk hafi almennt glaðst við ráðningu hans því eins og áður segir er hann dagfarsprúður og viðræðugóður með afbrigðum.

En hvað gerir Snjólaugur Ingi þegar hann er ekki í vinnunni? ´“ Ég spjalla við kærustuna mína, hana Alexöndru“, en hún dvelur í Reykjavík svo að skötuhjúin nota tæknina til þess að spjalla saman á meðan þau dvelja sitt á hvoru landshorninu. Þá sagði Snjólaugur líka að hann stundaði hlutabréfaviðskipti. „Ég var á leiðinni í viðskiptafræði þegar mér bauðst verkstjórastarfið“ sagði hann. Svo því námi var skellt á frest en Snjólaugur er klókur og vís og stundar sín hlutabréfaviðskipti sem aukabúgrein og vísast er að þar ráði skynsemin för, því þessi ungi maður hefur mikið af þeim eiginleika til að bera.

„Svo finnst mér afar gaman að ferðast, við Alexandra erum að fara til Japan í lok nóvember“  sagði Snjólaugur Ingi og greinilegt á raddblænum að hann hlakkar til ferðarinnar.  

Um leið og Snjólaugi eru færðar óskir um góða ferð, fulla af nýjum ævintýrum er honum þakkað fyrir spjallið og greinarhöfundur gengur út í bjartan daginn þar sem geislar sólarinnar ná enn að skína á hæstu tinda. En þeir sólardagar eru taldir.

BÓA

Snjólaugur Ingi Halldórsson í fullum skrúða verkstjóra.