Árni og Linda

Það er fallegur dagur við Fáskrúðsfjörð þegar greinarhöfundur ber að dyrum á fallegu húsi sem stendur ofarlega í Búðaþorpi. Ástæða þess að einmitt sé knúið dyra á þessu tiltekna húsi er fólkið sem í því býr; Fanney Linda Kristinsdóttir og Árni Sæbjörn Ólason.

Þau Linda og Árni hafa starfað lengi hjá Loðnuvinnslunni, samtals hátt í eina öld. Það er langur tími hjá sama fyrirtæki.

Árni og Linda kynntust ung, árið 1974 skrapp ungur Eskfirðingur yfir á Fáskrúðsfjörð til þess að fara á dansleik í Skrúð. Og á þessum dansleik um miðbik áttunda áratugarins felldu þau hugi hvors til annars og gera það enn.  Þremur árum síðar giftu þau sig í Kolfreyjustaðakirkju og rifja það upp með værðarlegri gleði  og segja að það hafi ekki gengið snurðulaust fyrir sig. „Séra Þorleifur, sem  lengi var prestur á Kolfreyjustað, var varaþingmaður og var á þingi en sagðist mundu vera kominn tímanlega fyrir athöfnina sem fara átti fram þann 11.desember 1977, en þann dag var alger svarta þoka svo ferðin sóttist hægt hjá klerki þannig að endirinn var sá að hjónavígslan fór fram kl.22.00“ .  „Hann lagði sig í stórhættu að aka við þessar aðstæður, en honum var í mun að standa við skuldbindingar sínar“ bættu þau við og enn má greina að þau eru þakklát prestinum.

Árni hóf störf hjá Loðnuvinnslunni (sem í þá daga var Kaupfélagið) 1.janúar 1977. Þá fór hann í sinn fyrsta túr á Ljósafellinu. Og þar var hann í tuttugu ár. „Það var rosalega gaman á sjónum“ sagði Árni.  Hann sagði að mannskapurinn um borð hafi verið frábær og það hafi alltaf eitthvað skemmtilegt verið í gangi. „ Það var vatnsslagur á dekkinu og einhvern tímann var búið að hnýta sængina í marga hnúta og skella henni í frysti, það tók langan tíma að fá hana til að verða  nothæfa á ný“ segir Árni og hlær dátt að minningunni. Þegar fiskmjölsverksmiðjan tók til starfa flutti Árni sig þangað og hefur verið það allar götur síðan.

Linda hóf ung störf í frystihúsinu og var þar í rúman áratug. Þá var auglýst laust starf á skrifstofu Kaupfélagsins og hún hripaði niður á blaðsnifsi nafnið sitt og einfaldlega „sæki um starf á skrifstofu“, braut blaðið saman og bað Árna að koma því til Gísla Jónatanssonar þáverandi kaupfélagsstjóra. Árni hitti á Gísla og renndi til hans bréfmiðanum og eftir það starfaði Linda í 12.376 daga á skrifstofunni.  Hvernig veistu töluna á dögum þínum á skrifstofunni?  Spurningin var óumflúin. „Það var einn vinnufélagi minn sem lagði á sig að finna það út og það var skrifað á tertu sem samstarfsfólk mitt á skrifstofunni bauð upp á þegar ég hætti“ sagði Linda brosandi.

„Mér fannst mjög gaman að vinna við bókhald“ sagði Linda og bætti við að það hefði á því tímabili sem hún starfaði verið skipt um tölvukerfi nokkrum sinnum og þá hefði verið gaman og þroskandi að læra eitthvað nýtt.

Linda og Árni hættu að vinna 1.júní s.l. Bæði fengu þau góðar kveðjur og óskir frá sínu nánasta samstarfsfólki og eru sammála um að þeim hafi ávallt liðið vel í starfi og það hafi verið gott að vinna hjá Loðnuvinnslunni.  Þau eru hraust og spræk og hlakka til framtíðarinnar.  Og þegar þau eru innt eftir því hvað þau sjái fyrir sér að felist í framtíð þar sem allur tími er til eigin nota, ef svo má að orði komast, stendur ekki á svari: „ Við höfum unun af því að ferðast á húsbílnum og fara í útilegur og ætlum að vera dugleg að gera það, við sjáum fyrir okkur að geta farið út og suður ef okkur langar með litlum fyrirvara hvort heldur það er vetur eða sumar, svo hlökkum við mikið til að njóta meiri samvista við barnabörnin“.  Svo er spjallað dágóða stund um áhugamál sem þau hjónin gætu hugsanlega tekið upp. Það er allt frá snjómokstri til sjónvarpsgláps, og mögulega  golf, rennismíði, krossgátur og kaffidrykkja. Allt saman góð og skemmtileg iðja. En fyrst þarf að steypa bílastæðið en það mun vera fyrsta verkefni hjónanna Lindu og Árna á eftirlaunum.

Loðnuvinnslan þakkar þeim þeirra góðu störf og þeirra tryggð við fyrirtækið og óskar þeim velfarnaðar.

BÓA

Linda og Árni, njóta sólardagsins.

Kakan sem vinnufélagar Lindu á skrifstofu LVF buðu henni við starfslokin. Þar má sjá gagnlegar upplýsingar eins og eftirlætis fótboltaklúbb og fjölda daga á skrifstofunni.

Ljósafell fékk góða gesti

Hafið lokkar og laðar, segir í texta sem sungin var á nýliðnum sjómannadegi og fjallar um sjómanninn sem unir sér ekki lengi í landi því hafið lokki og laði. Þar kemur einnig fram að í landi sé kona sem styðji sinn mann og skilji þrána eftir hafinu og sjómennskunni. Það er falleg mynd sem dregin er upp í þessum söngtexta og sönn í mörgum tilvikum.

Þær manneskjur sem búa fjarri sjó þekkja ekki alltaf til þeirra starfa sem unnin eru í tengslum við sjómennsku og fiskvinnslu. Rétt eins og manneskjur sem búa við sjávarsíðuna þekkja ekki alltaf til allra stafa sem unnin eru til sveita. Þá kemur til kasta þeirra sem mennta mannfólkið til þess að ráða bót á þessu.

Í Brúarásskóla í Jökuldal er rekin metnaðarfull námskrá og áhersla lögð á að nemendur hljóti fræðslu um margvísleg fyrirbæri. Eitt að þeim viðfangsefnum sem nemendur hafa verið að fást við að undanförnu er verkefni sem þau kalla „sjómennskan er ekkert grín“,  Kristín Högnadóttir er umsjónakennari unglingastigs og  lýsti verkefninu, „nemendur  hafa  verið að vinna með báta, skip, veiðafæri, fisktegundir og þessháttar. Í þeirri vinnu fórum við t.a.m. og heimsóttum frystihús á Akureyri og þegar ákveðið var að fara í vorferð til Fáskrúðsfjarðar var kjörið að fá að heimsækja togara“ sagði Kristín.

Þannig bar því við að hópur nemenda úr Brúarásskóla heimsótti Ljósafellið og fékk  yfirvélstjórann Kristján Birgi Gylfason til þess að leiða sig í allan sannleikann um lífið, starfið, vélar og tæki um borð í togara.  Kristján Birgir var ánægður með heimsóknina, „þessir krakkar voru hress og skemmtileg og mjög áhugasöm“. Hann sagðist hafa leitt þau um skipið alveg frá brú og niður í vélarrúm og þau hefðu verið óspör á spurningar.

Þegar Kristín kennari var innt eftir hennar tilfinningu fyrir upplifun nemenda svaraði hún:

„Nemendur stóðu sig vel, fannst þetta forvitnilegt en margir voru að koma um borð í skip í fyrsta skipti. Þeir voru duglegir að spyrja spurninga, fóru um allt skip og gott ef einhverjir nemendur ætla ekki að óska eftir vinnu hjá LVF! Einum drengjanna í 9.bekk var bent á að hafa samband um leið og hann hefði aldur til. Eins var skemmtilegt að heyra hvað ein stúlkan var áhugasöm og talaði um að hún gæti alveg hugsað sér að mennta sig í vélstjórn“.

Kristín hafði líka orð á því að móttökurnar hefur verið mjög góðar,  „Kristján Birgir kom mjög vel fyrir, almennilegur og náði vel til krakkanna. Hann svaraði öllum spurningum mjög vel og heiðarlega“ sagði Kristín.

Þegar búið var að skoða og spyrja, svara og útskýra var öllum boðið í messann þar sem boðið var upp á gos og súkkulaði.

„Það var auðvitað geggjað að fá svona fínar veitingar í lok heimsóknarinnar“ sagði Kristín Högnadóttir og bætti við,   „takk kærlega fyrir okkur“.

BÓA

Ungur piltur mátar skipstjórastólinn. Ljósmynd: Kristján Birgir Gylfason.

Stund milli stríða. Ljósmynd: K.B.G

Vélarrúmið skoðað. Ljósmynd: K.B.G.

Gestirnir kunnu vel að meta góðgætið. Ljósmynd: K.B.G.

Sigurjón Jónsson kveður LVF

Það er indælt að sjá gróðurinn vakna til lífsins og fylgjast með fuglum búa sér hreiður. Vorið góða grænt og hlýtt bíður okkur mannfólkinu að upplifa þessi undur aftur og aftur og það er fallegt að verða vitni að nýju upphafi. 

Sigurjón Jónsson fráfarandi verkstjóri í frystihúsi Loðnuvinnslunnar hefur kvatt fyrirtækið og snúið sér að nýju upphafi suður með sjó. Hann ákvað að kominn væri tími á starfslok.

Sigurjón og kona hans, Margrét Jensína Magnúsdóttir fluttu búferlum á Fáskrúðsfjörð fyrir u.þ.b. sjö árum síðan. Tildrögin að þeim flutningi voru með þeim hætti að þau voru orðin þreytt á þáverandi störfum og langaði að breyta til. Sigurjón tók að sér starf verkstjóra í frystihúsinu og sinnti því stafi að einurð, áhuga og einlægni allt fram á nýliðna vordaga.

„Þessi tími  fyrir austan var svo fljótur að líða“ sagði Sigurjón sem var að dunda í garðinum við hús þeirra hjóna í Njarðvík þegar greinarhöfundur náði tali af honum.  „Ég var mjög ánægður í vinnunni og sakna vinnufélagana“ bætti hann við.  Þegar Sigurjón og Margrét fluttu austur tóku þau með sér golfsettin sín og hugðust koma þeim í not en sú varð nú ekki raunin.  „Ég tók það aldrei úr geymslunni“ sagði hann og bætti því við annirnar í starfinu hefðu ekki gefið mikinn tíma til tómstunda. Langir vinnudagar hafa svolítið einkennt störf Sigurjóns hin síðari ár.

En nú hefur hann hug á að endurnýja kynnin við áhugamálin, hann er frímúrari og hlakkar til að taka upp þráðinn í því starfi í haust. „ Það er líka á dagskránni að fara að spila Bridge aftur og leika golf“ sagði Sigurjón og það mátti heyra á raddblænum að hann hlakkaði til að eiga allan sinn tíma  sjálfur og getað ráðstafað honum að vild.

Sigurjóni líður vel í garðinum, að dunda við verkin þar er endurnærandi og afslappandi. „Þá hef ég  tekið upp þann gamla sið minn að rölta um tína nokkur mávsegg og það kann ég að meta“ sagði Sigurjón og bætti því við að þau hjónin nýttu eggin til baksturs og eins til átu, „þau eru afbragðsgóð“.

Sigurjón og Margrét eru á leið austur til þess að taka þátt í sjómannadagsskemmtun sem verður á vegum Starfsmannafélags Loðnuvinnslunnar. Sigurjón sagðist hlakka til að koma og hitta alla sína góðu samstarfsfélaga og hann sagði jafnframt að það sem stæði upp úr dvöl sinni hér á Búðum við Fáskrúðsfjörð væri viðkynning við fólkið. „Ég, og við hjónin bæði, höfum kynnst svo mörgum stórkostlegum manneskjum, við höfum eignast vináttu margra, vináttu sem mun lifa þó svo við búum ekki lengur á Fáskrúðsfirði“ sagði Sigurjón Jónsson.

Sigurjóni eru þökkuð hans góðu störf. Þakkir fær hann líka fyrir framúrskarandi viðmót, og þá virðingu sem hann sýndi samstarfsfólki í orðum og gjörðum. 

Sigurjóni og Margréti eru færðar óskir um gæfu og góða heilsu.

BÓA

Sigurjón Jónsson og Margrét J. Magnúsdóttir

Sjómannadagurinn.

Loðnuvinnslan býður bæjarbúum og gestum í siglingu í tilefni að Sjómannadeginum um borð í Ljósafelli SU-70.

Siglingin verður á laugardaginn 1. júní, daginn fyrir Sjómannadag, kl 11:00 frá frystihúsbryggju og siglt áleiðis út fjörðinn. Björgunarsveitin Geisli ætlar að slást í för með okkur og mun sjá um að gæta öryggis á sjó á meðan á siglingu stendur.

Yngsta kynslóðin hefur yfirleitt ekki verið svikin af skemmtilegri sjóferð á sjómannadagshelginni og mörg hver hafa í fyrsta skipti á ævinni stigið  á skipsfjöl í sjómannadagssiglinu.

Á sunnudaginn verður Sjómannadagsmessa í Fáskrúðsfjarðarkirkju kl 14:00 að henni lokinni býður  Loðnuvinnslan uppá sjómannadagskaffi, sem Slysavarnadeildin Hafdís stendur fyrir, í Skólamiðstöðinni frá kl 15:00-17:00.

Loðnuvinnslan óskar öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn.

Gestagangur

Til eru samtök sem bera hið tungulipra nafn; Samtök stjórnenda stjórnsýslu- og fjármálasviða sveitafélaganna, skammstafað FSSFS.  Samtök þessi halda árlegan vorfund þar sem blandað er saman fræðslu og skemmtun. Að þessu sinni var vorfundurinn haldinn í Neskaupstað og gestgjafinn var Fjarðabyggð.  Dagskráin náði yfir tvo daga þar sem þátttakendur fengu fræðsluerindi sem gagnast í þeirra störfum auk þess sem þeim var boðið í útsýnisferðir og heimsóknir til fyrirtækja og stofnana.

Loðnuvinnslan bauð hópnum í heimsókn þar sem gestirnir fengu kynningu á starfsemi fyrirtækisins. Það þykir góður siður að bjóða gestum hressingu af einhverju tagi þegar þeir bera að garði og á því var engin undantekning að þessu sinni. Veitingarnar voru hinar bestu en mesta góðgætið þóttu svartfuglseggin sem voru á boðstólnum.  Gestirnir kunnu afar vel að meta þau.

Þórdís Sif Sigurðardóttir er fráfarandi bæjarstjóri Vesturbyggðar og var hún í hópi gestanna  frá FSSFS.  „Þetta er búið að vera afar vel lukkuð ferð „ sagði hún og bætti því við að vorferðirnar væru dýrmætar því þær gæfu góða innsýn í atvinnulíf á því svæði sem fundurinn er haldinn hverju sinni. „ Og svo er mikilvægt að styrkja tengslanetið milli einstaklinga sem vinnu sömu störf á mismunandi stöðum“ sagði Þórdís Sif.  „Það var mjög gaman að koma í heimsókn til Loðnuvinnslunnar, við fengum góða kynningu á starfseminni og afskaplega vel tekið á móti okkur“ sagði Þórdís Sif og þegar talið barst að veitingunum sagði hún hlæjandi „það var hápunktur ferðarinnar að fá svartfuglseggin og kærar þakkir fyrir“.

Snorri Styrkársson er fjármálastjóri Fjarðabyggðar og einn skipuleggjandi heimsóknarinnar. „Almennt var gerður góður rómur af heimsókninni til Fjarðabyggðar og heimsóknin og kynningin hjá Loðnuvinnslunni fékk mjög góð meðmæli“ svaraði Snorri er hann var inntur eftir hvernig vorfundurinn hefði gengið. 

Sú var tíðin að allir Íslendingar sem komnir voru af barnsaldri höfðu á  einhverjum tímapunkti unnið í frystihúsi og einhvern tímann mjólkað kú, en nú er önnur tíð og gaman að geta þess að a.m.k tveir þátttakendur höfðu aldrei stigið fæti inn í frystihús þegar þeim var boðið í kynnisferð um tæknivætt og nútímalegt frystihús Loðnuvinnslunnar.

BÓA

Frá vinstri: Þórdís Sif Sigurðardóttir, Ingunn Stefánsdóttir úr Hvalfjarðasveit og Garðar Svavarsson framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir.

Frá vinstri: Guðlaugur Sæbjörnsson, Áslaug Ragnarsdóttir, Kristín Ragnarsdóttir og Snorri Styrkársson. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Þátttakendur voru áhugasamir um starfsemi Loðnuvinnslunnar. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Svartfuglsegginn góðu. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Aðalfundur Loðnuvinnslunnar

Aðalfundur Loðnuvinnslunnar

Rekstur Loðnuvinnslunnar gekk vel á síðasta ári. Aðalfundur félagsins var haldinn 17.maí 2024 og hér birtast helstu niðurstöðutölur.

Hagnaður af rekstri félagsins eftir skatta árið 2023 var 1.284 milljónir króna á móti 3.483 milljónum króna árið 2022, en árið 2022 var besta rekstrarár í sögu félagsins.

Tekjur LVF voru 16.500 milljónir sem er rúmlega 9% samdráttur frá fyrra ári.

Veltufé frá rekstri var um 2.234 milljónir á móti 4.502 milljónum á fyrra ári.

Eigið fé félagsins í árslok 2023 var 16.040 milljónir sem er um 52% af niðurstöðu efnahagsreiknings.

Stærsti hluthafi LVF er Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga með 83% eignarhlut. Á aðalfundi Loðnuvinnslunnar var ákveðið að greiða arð sem nemur 20% af nafnvirði hlutafjár eða 140 milljónir króna.

Nánari tölur má finna í reikningum ársins 2023 sem auðvelt er að nálgast á skrifstofu Loðnuvinnslunnar.

Í stjórn LVF eru:

Elvar Óskarsson stjórnarformaður

Steinn Jónasson

Högni Páll Harðarson

Jónína Guðrún Óskarsdóttir

Elsa Sigrún Elísdóttir

Varamenn í stjórn:

Óskar Þór Guðmundsson

Jóna Björg Jónsdóttir

Vel merktir tankar Loðnuvinnslunnar á fallegum sumardegi með Sandfell í baksýn.

Aðalfundur Kaupfélagsins

Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga stendur sem fyrr traustum fótum. Á aðalfundi KFFB sem haldinn var 17.maí 2024 komu eftirfarandi tölur fram.

Hagnaður ársins 2023 var 1.068 milljónir.

Eigið fé félagsins var 14.611 milljónir þann 31.12.2023, sem er 99,8% af niðurstöðu efnahagsreiknings. Stærsta einstaka eign félagsins er 83% eignarhlutur í Loðnuvinnslunni hf.

Í stjórn Kaupfélagsins eru:

Steinn Jónasson stjórnarformaður

Elvar Óskarsson

Högni Páll Harðarson

Elsa Sigrún Elísdóttir

Óskar Þór Guðmundsson

Varamenn í stjórn eru: Jónína Guðrún Óskarsdóttir, Ólafur Níels Eiríksson og Jóna Björg Jónsdóttir

Fallega húseign Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga, Tangi.

Samfélagsstyrkir afhentir

Á aðalfundum Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga og Loðnuvinnslunnar, sem haldnir voru

 í Wathnessjóhúsi  föstudaginn 17.maí 2024,  afhentu félögin styrki  til stofnanna og félagasamtaka.

Á stundum er sagt að það endurspegli hvert samfélag hvernig búið er að yngstu og elstu íbúum þess. Kaupfélagið og Loðnuvinnslan hafa tekið höndum saman um kaup á 10 sjúkrarúmum, auk tilheyrandi búnaðar, og færa dvalar og hjúkrunarheimilinu Uppsölum þau að gjöf.  Er þetta afar rausnarlega gjöf, ein af þeim sem ekki verður metin til fjár því að viðtakendur, þ.e. notendur gjafarinnar, eiga aðeins það besta skilið eftir þeirra framlag til samfélagsins alls. Eru þessi rúm hönnuð með þægindi í huga fyrir þá sem í þeim hvíla en einnig fyrir starfsfólk sem hlúir að liggjandi einstaklingum.  Svava Ingibjörg Sveinbjörnsdóttir er framkvæmdastjóri fjármála hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands og sagði hún að gjöfin væri ómetanleg. „Það er svo mikilvægt að fá slíkan stuðning frá samfélaginu líkt og hér hefur átt sér stað með þessari gjöf“ sagði Svava og bætti því við að það hefði komið sér og öðrum stjórnendum HSA skemmtilega á óvart að frumkvæðið að því að sækja um styrk til kaupa á rúmum hafi komið frá tveimur starfskonum á Uppsölum, annars vegar Hrefnu Eyþórsdóttur sjúkraþjálfara og hins vegar Bjarnheiði Pálsdóttur starfskona í aðhlynningu.  „Við hjá HSA, starfsfólk og íbúar á Uppsölum þökkum kærlega fyrir“ sagði Svava Ingibjörg.

Félagsskapur um Franska daga hlaut í styrk 2 milljónir króna frá Kaupfélaginu og 2 milljónir frá Loðnuvinnslunni. Um er að ræða félagsskap sem er framkvæmdaraðili fyrir bæjarhátíðinni Franskir dagar sem haldin ár hvert í lok júlí á Fáskrúðsfirði.

María Ósk Óskarsdóttir Snædal tók við styrkjunum fyrir hönd Franskra daga og sagði María aðspurð að án styrkjanna frá Kaupfélaginu og Loðnuvinnslunni væru Franskir dagar ekki svipur hjá sjón. „Þessir peningar gera okkur kleift að bjóða alla barnadagskránna án endurgjalds sem munar miklu fyrir barnafjölskyldur“ bætti María Ósk við.

Það kostar heilmikið  að halda glæsilega bæjarhátíð sem býður upp á dagskrá fyrir alla aldurshópa og því koma þessir fjármunir sér vel og þeim verður vel verið okkur öllum til ánægju.

Hollvinasamtök Skrúðs fengu 1 milljón til áframhaldandi uppbyggingar félagsheimilisins Skrúðs.  Eins og flestum er kunnugt er Skrúður í eigu sveitafélagsins en Hollvinasamtökin hafa komið að viðhaldi og endurreisn hússins með miklum ágætum.  Á milli eigenda og samtakanna er mikið og gott samstaf um áætlun og framkvæmdir og hafa Hollvinasamtökin fulla stjórn á því í hvað þeir fjármunir fara sem samtökin ráða yfir. 

Kaupfélagið hefur verið dyggur stuðningaðili Hollvinasamtaka Skrúðs og hafa þeir fjámunir aðallega farið í að kaupa alls konar búnað sem nýtist bæjarbúum vel þegar nota skal húsið til hinna ýmsu mannfagnaða. Má þar nefna búnað í eldhús, myndvarpa, hljóðkerfi og fleira í þeim dúr, auk glugga sem samtökin keyptu en sveitafélagið sá um að koma á sinn stað.

Smári Júlíusson er formaður Hollvinasamtaka Skrúðs og sagði hann að styrkurinn væri afar vel þeginn og kæmi sér vel. Af nægu er að taka þegar kemur að viðhaldi og uppbyggingu byggingar af þeirri stærðargráðu sem Skrúður er.

Loðnuvinnslan afhenti björgunarsveitinni Geisla  1 milljón króna til styrktar sinni starfsemi. Það er hverju samfélagi mikilvægt að hafa innan sinna raða félagsskap sem er tilbúin til þess að láta til sín taka þegar slys, hamfarir eða annars konar erfiðleikar bera að höndum . Loðnuvinnslan hefur í gegn um tíðina verið dyggur og trúr stuðningsaðili Geisla og á því er engin breyting.

„Svona styrkur er mjög þýðingarmikill fyrir t.d. okkar rekstraröryggi, þar sem við vitum aldrei hve stórt kallið verður, ef það kemur. Menntun okkar, og viðhald hennar kostar líka, auk þess sem við reynum líka að leggja fyrir svo við getum endurnýjað og bætt tæki okkar. Við eigum mjög öflugan tækjakost, sérstaklega fyrir sjóbjörgun og Loðnuvinnslan á alveg sinn þátt í því að þetta sé til á staðnum“ sagði Grétar Helgi Geirsson formaður Geisla.

 Þá lætur LVF 10 milljónir króna af hendi rakna til starfsmannafélags Loðnuvinnslunnar til styrktar því góða starfi sem þar fer fram.

Starfsmannafélag LVF er ötult félag sem stendur fyrir margvíslegum ferðum og uppákomum fyrir sitt fólk. Má þar nefna jólaskemmtun, sjómannadagsskemmtun, auk ferðalaga innan lands sem utan.

Kristín Hanna Hauksdóttir tók við styrknum fyrir hönd starfsmannafélagsins og sagði hún að félagið kynni afar vel að meta svo myndarlegan styrk. „Við þökkum kærlega fyrir okkur og hlökkum til að nýta fjármunina til skemmtunar og dægrastyttingar fyrir félagsfólk“ sagði Kristín Hanna.   

Ungmennafélagið Leiknir fékk afhentar 18 milljónir króna til íþrótta og æskulýðsstarfa.  Vilberg Marinó Jónsson er formaður Leiknis og sagði hann að þessi styrkur skipti sköpum fyrir félagið. “ Ekki aðeins leggur þessi upphæð þungt lóð á vogaskálarnar við rekstur félagsins, en innan þess eru margar deildir, heldur gefur okkur kost á því að stofna nýjar deildir ef  sú staða kemur upp” sagði Vilberg er hann var inntur eftir viðbrögðum við styrknum.  Þá gefur upphæð sem þessi félaginu mögulegt að stilla æfingagjöldum í hóf í þeim tilgangi að jafna möguleika barna og ungmenna til íþróttaiðkunar því sannarlega eru aðstæður heimila misjafnar. “Þetta er mjög rausnarlegur styrkur og við erum afar þakklát Loðnuvinnslunni” sagði Vilberg Marinó.

Að samanlögðu eru styrkirnir sem Loðnuvinnslan hf og Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga veittu að þessu sinni 39 milljónir króna.

Eftir þessa rausnarlegu útdeilanir styrkja frá LVF og KFFB komu þessi fleygu orð upp í hugann og við hæfi að gera þau að lokaorðum.

Gefðu alltaf án þess að muna og þiggðu alltaf án þess að gleyma.

BÓA

Efri röð frá vinstri: Vilberg Marinó Jónasson sem tók við strykt fyrir Ungmennafélagið Leikni, Elvar Óskarsson stjórnarformaður Loðnuvinnslunnar, Gretar Helgi Geirsson sem tók við styrk fyrir björgunarsveitina Geisla, Garðar Svavarsson framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar og Kaupfélagastjóri. Neðri röð frá vinstri: Steinn Jónasson stjórnarformaður Kaupfélagsins, Kristín Hanna Hauksdóttir sem tók við styrk fyrir hönd Starfsmannafélgas LVF, María Ósk Óskarsdóttir Snædal sem tók við styrk fyrir hönd félags um Franska daga, Jóna Björg Jónsdóttir sem tók við styrk fyrir Hollvinasamtök Skrúðs og Bjarnheiður Pálsdóttir sem tók við styrk fyrir hönd dvalar-og hjúkrunarheimilisins Uppsala.

Skyndihjálparnámskeið

Undanfarið hafa verið skyndihjálparnámskeið fyrir starfsfólk Loðnuvinnslunnar. Það er mikilvægt að kunna að bregðast við ef slys eða veikindi bera að höndum.

Á heimasíðu Rauða krossins er skyndihjálp skilgreind með eftirfarandi orðum: „Skyndihjálp (eða hjálp í viðlögum, fyrsta hjálp) er hugtak sem haft er um grunnaðhlynningu og aðstoð vegna veikinda eða slysa. Það eru gjarnan leikmenn, þ.e. ekki sérmenntaðir heilbrigðisstarfsmenn, sem veita fyrstu hjálp og hlúa að sjúklingi þar til sjúkraliðar eða önnur sérþjálfuð hjálp berst“.

Markmið skyndihjálpar má draga í þrjá dilka:

  • Að varðveita líf — þar með líf þess sem veitir aðstoð
  • Að koma í veg fyrir frekari skaða — til dæmis með því að tryggja öryggi á vettvang, hreyfa ekki sjúkling nema nauðsyn krefji, stöðva blæðingu o.s.frv.
  • Að bæta ástand sjúklings og flýta bata — til dæmis með því að kæla brunasár eða spelka beinbrot

Haldin voru þrjú námskeið á vegum Loðnuvinnslunnar og var starfsfólki skipt í hópa til að njóta fræðslunnar. Kennari á námskeiðunum var Sigurfinnur Líndal Stefánsson hjúkrunarfræðingur og skyndihjálparleiðbeinandi á vegum Rauða krossins. Sigurfinnur, sem jafnan er kallaður Finnur, hefur kennt skyndihjálp í u.þ.b. tíu ár og hefur því mikla reynslu. Menntun hans sem hjúkrunarfræðingur kemur líka að góðum notum  auk þess sem hann hefur starfað sem sjúkraflutningamaður.  Aðspurður svaraði Finnur því til að námskeiðin hefðu gengið mjög vel. Þátttakendur hefðu verið áhugasamir og viljugir til þess að læra.  „Það er mikið efni sem þarf að fara yfir og þá kemur reynslan til sögunnar svo að ég get lagt áherslu á þá hluti sem eru sérstaklega mikilvægir“ sagði Finnur.

Ingólfur Sveinsson starfar í fiskmjölsverksmiðjunni og sagði hann að námskeiðið hefði verið mjög fínt. „Við (starfsfólk LVF) förum mjög reglulega á skyndihjálparnámskeið og það er bara mjög fínt“.  Sagði Ingólfur líka að það sem hann lærði á námskeiðinu væri kunnátta sem væri mikilvægt að búa yfir en vonandi þyrfti hann  aldrei að nota þá kunnáttu.  Og sjálfsagt geta allir tekið í sama streng þar.

Þórunn Linda Beck  starfar í hraðfrystihúsinu. Hún kvaðst líka hafa farið á allmörg skyndihjálparnámskeið á vegum LVF og það væri mjög fínt. „Kennarinn, hann Finnur, var líka mjög góður, hann útskýrði allt á mannamáli“ sagði Þórunn Linda. Hún sagði einnig að þrátt fyrir að hafa farið oft á námskeið þá lærði hún alltaf eitthvað nýtt.

Loðnuvinnslan leggur áherslu á öryggi og velferð starfsfólks. Að bjóða upp á skyndihjálparnámskeið með reglulegu millibili er liður í þeirri vegferð. Að búa yfir þeirri kunnáttu að bregðast rétt við á ögurstundu getur skilið á milli lífs og dauða. Ekkert er jú dýmætara en lífið sjálf.

BÓA

Þátttakendur æfa sig í viðbrögðum. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Ljósmynd: Arnfíður Eide Hafþórsdóttir

Nauðsynlegt að næra sig. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Tilkynning um ráðningu.

Eydís Ósk Heimisdóttir hefur verið ráðin í bókhaldsstarf Loðnuvinnslunnar.

Hún er með BSc gráðu í Viðskiptafræði, menningu og Spænsku frá Copenhagen Business School og MT í Kennslufræðum. Eydís Ósk  hefur starfað hjá Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar síðastliðið ár sem skólastjóri.

Við bjóðum hana velkomna í hópinn og hlökkum til samstarfsins.

Hruni og Sabina

Á Fáskrúðsfirði er nokkuð rík saga um bátasmíði. Hér var á árum áður öflug fyrirtæki sem smíðuðu báta úr timbri. Í árdaga bátasmíða fór smíðin að mestu fram utandyra en síðar byggðust hús og skemmur til starfsseminnar. Og þrátt fyrir að bátasmíði sé aflögð fyrir nokkru síðan standa byggingarnar enn og hafa fengið ný hlutverk. Hér erum við að tala um byggingar sem í daglegu tali eru oft kallaðar samheitinu „Oddaverkstæði“,  að öllum líkindum til aðgreiningar frá íbúðahúsinu Odda sem stendur aðeins innar í þorpinu. 

Eru þessar byggingar reistar á mismunandi tíma og nær þyrpingin frá fjöru upp að Búðavegi og við götuna er yngsta byggingin.  Á útihurðinni sem vísar út að götu er falleg glerskreyting sem á er letrað; Hruni 1938. Þannig að gera má ráð fyrir því að sá hluti samstæðunnur hafi fengið þetta nafn á einhverjum tímapunkti.

Í dag eru umræddar byggingar í eigu Loðnuvinnslunnar. Og þar sem LVF stundar ekki bátasmíði hafa byggingarnr fengið önnur hlutverk eins og áður sagði.  Þar sem áður voru smíðaðir bátaskrokkar  er nú geymsla og kæliklefi og þar sem áður var vélaverkstæði er einnig geymsla því að stórt fyrirtæki líkt og Loðnuvinnslan þarf að hafa rými til að geyma hluti og margir hlutir sem tilheyra sjávarútvegi eru afar fyrirferðamiklir.

En í þeim hluta sem áður voru skrifstofur og verslun á vegum þeirra fyrirtækja sem ráku bátasmíðina hafa í gegn um tíðina verið ýmiskonar starfsemi. Þar var meira að segja búið um nokkurra ára skeið. Svo var þar hárgreiðslustofa um tíma og handverkskonan Frú Anna var með sína starfsemi þar.  Í dag hýsir Hruni verslun og framleiðslustarfsemi á vegum Sabinu Helvida. Sabina selur þar sína eigin framleiðslu sem eru sápur, smyrsl, líkamsolíur og nuddolíur svo að eitthvað sé nefnt.

„Ég geri allt sjálf“ segir Sabina, „ég týni jurtirnar bæði hér heima á Íslandi og heima í Bosníu, ég hanna vörurnar, framleiði, pakka og sel“.  Verslunin hennar Sabinu er falleg og vörurnar hennar hafa hlotið mikið lof. Um er að ræða 100% náttúrlegar vörur, vistvænar og notendavænar. Sabina prjónar líka og selur þær vörur í búðinni sinni líka.

Vinnustofa Sabinu er líka í Hruna. „Ég er með öll tilskilin leyfi og vottun og samkvæmt reglugerð má ég ekki framleiða þegar verslunin er opin svo ég geri það um helgar og á kvöldin og þá framleiði ég svolítð magn til að fylla á hillurnar“ sagði Sabina sem er að vonum stolt af vörunum sínum enda ekki kastað til hendinni við framleiðslu þeirra.

Þá segir Sabina að hún sérhanni líka vörur fyrir einstaklinga. „það hafa komið til mín einstaklingar með tiltekin húðvandamál og ég bý til sérhönnuð krem eða smyrsl til að vinna á þeim vandamálum“ sagði Sabina sem hefur ríka þjónustulund og vill gjarnan hjálpa.

Það er hagur fyrir lítil samfélög þegar ný þjónusta  býðst og vörurnar sem Sabina framleiðir í Hruna er enn ein rós í hnappagat okkar sem búum á Búðum við Fáskrúðsfjörð.

BÓA

Sabina framleiðir vörur fyrir herra. Ljósmynd: Sabina Helvida

Hér týnir Sabina jurtir. Ljósmynd: Sabina Helvida

Sabina við framleiðslu. Ljósmynd: Sabina Helvida

Fallegar handunnar sápur. Ljósmynd: Sabina Helvida