Skipafréttir.
Ljósafellið kom í land eftir miðnætti með tæp 35 tonn af ufsa, rúmlega 30 tonn af þorski og tæp 30 tonn af ýsu. Ufsaveiðin gekk vel framan af veiðiferðinni en skipið færði sig undan veðri á önnur mið og kláraði veiðiferðina í ýsu og þorski. Það er sem fyrr mjög góð veiði hjá Sandfelli og Hafrafelli og landa þau daglega.

Mynd: Gísli Reynisson.
Skipafréttir.
Ljósafellið hóf löndun kl 06 í morgun á rúmlega 72 tonna afla. Uppistaða aflans var þorskur, ýsa og ufsi.
Hoffellið er á leið til Fáskrúðsfjarðar með um 650 tonn af íslenskri síld sem verður unnin í söltun. Veiðiferðin gekk ágætlega en heldur hefur dregið úr veiði undanfarið.
Sandafell og Hafrafell landa daglega á austfjörðum og eru aflabrögð mjög góð.
Starfsmannafélagið, fundur og skemmtun
Það er mikilvægt að samstarfsfólk eigi í góðum og uppbyggilegum samskiptum. Það hjálpar fólki að skilja hvert annað, stuðlar að aukinni mannvirðingu og síðast en alls ekki síst þá eykur það starfsánægju.
Eitt af þeim tólum sem vinnustaðir hafa til þess að auka á ánægju og gleði starfsfólks eru starfsmannafélög. Félög sem eru stjórnað af starfsfólki sjálfu og hafa gjarnan það markmið að standa fyrir viðburðum og uppákomum til að létta lund og hvíla lúin bein fyrir starfsfólk og fjölskyldur þeirra.
Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar er öflugt félag. Það nýtur stuðnings LVF hvort heldur fjárhagslega eða á annan máta. Til að mynda styrkti LVF starfsmannafélagið um 10 milljónir króna á síðasta aðalfundi og er öllum fjármunum félagsins vel varið.
Þann 1.desember s.l. hélt starfsmannafélagið aðalfund sinn í Whatnes sjóhúsinu. Hefðbundin aðalfundastörf voru viðhafin þar sem formaðurinn Arnfríður Eide Hafþórsdóttir flutti skýrslu stjórnar þar sem fram kom hverju starfsmannafélagið hafði áorkað frá síðasta aðalfundi. Má þar nefna ferð til Glasgow í nóvember 2022, jólabingó sem var í desember í fyrra og verður aftur á dagskrá núna í desember. Þá var haldin sjómannadagsskemmtun og félagið kom að skipulagningu og framkvæmd við samkvæmi sem haldið er við vertíðarlok. En hápunkturinn hjá starfsmannafélaginu var ferð til Sikileyjar sem farin var í október s.l. Að öllum öðrum viðburðum ólöstuðum var þessi ferð svo vel heppnuð að segja má að engan skugga hafi borið þar á.
Að loknum skyldustörfum aðalfunda var létt yfir mannskapnum. Fólk naut samskipta hvert við annað, tók í spil og spjallaði auk þess sem boðið var upp á bjórkynningu. Annars vegar var þar bjór frá Hannesi Haukssyni sem er áhugamaður um bjórgerð og bruggar til heimabrúks. Hann kom með kút af bjór sem hann kallar Jólalager sem er bjór sem hefur „jólakarakter“ eins og Hannes sagði, með karmellu og malt keim. „Ég hef gaman af því að prófa mig áfram og er alltaf að betrumbæta uppskriftirnar mínar, ég rek hálfgert tilraunaeldhús“ sagði Hannes og sagði að fólk hefði tekið bjórnum hans vel, „í það minnsta kom fólk aftur og fékk sér ábót“. Það hljóta að vera meðmæli.
Hins vegar var Bjarni Þór Haraldsson með bjór frá sinni framleiðslu sem hann kallar Múli. Múli er stofnað í september 2020 og sígauna brugghús.
Sígauna brugghús eru heimilislaus brugghús og fá aðstöðu hjá öðrum brugghúsum við bruggunina. Allur bjór Múla er bruggaður hjá Austra brugghúsi á Egilsstöðum.
„Fyrsti bjór Múla var Bessi og er klassískur Vienna lager. Lager er lang vinsælasti stíll bjórs í heiminum og því í lófa lagið að stimpla sig inn með þannig bjór“ sagði Bjarni um upphaf starfseminnar. Handverksbrugghús hafa verið á mikilli siglingu undanfarin ár og á Austurlandi eru 4-5 starfandi í dag. Handverksbrugghús eru í eðli sínu smá, með framleiðslu undir milljón lítrum á ári.
Múli er með 11 bjóra í sinni vörulínu og í dag eru fjórir til í vínbúðinni. „Það getur verið mjög erfitt að halda vörum inn í vínbúðinni því það þarf að halda ákveðnum sölutölum“ sagði Bjarni. Þá hafa miðarnir á bjórunum fengið mikla athygli en hönnuður þeirra er Ásbjörn Þorsteinsson frá Eskifirði, þannig að með sanni má segja að allt sem kemur að framleiðslu Múla bjórs sé úr héraði.
Bjarni sagði einnig að starfsfólk LVF hefði tekið vörum sínum vel og bjórinn hefði fengið góða dóma.
Já, það er sannarlega margt hægt að hafa fyrir stafni og flest verður það allt skemmtilegra í góðum félagsskap og það kom berlega í ljós hjá félögum í starfsmannafélagi Loðnuvinnslunnar, sem skörtuðu mörg skrautlegum jólapeysum, þegar þau skemmtu sér við spil, spjall og góðar veigar.
BÓA

Skemmtileg auglýsing

Úrval höfugra drykkja. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Huggulegt umhverfi. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Það er gaman að vera saman. Ljósmynd: Stefán Alex Elvarsson

Sýnishorn af miðunum á Múla bjórum. Ljósmynd frá Múli craft brew.
Hugvit og hollusta
Það lætur ekki mikið yfir sér að utan verðu en innan veggja byggingarinnar eiga sér stað mikil vísindi og merkileg framleiðsla. Hér er verið að tala um húsið sem heldur utan um framleiðslu á nasli úr sjávarfangi undir vörumerkinu Næra. Fer umrædd framleiðsla fram í Búðaþorpi við Fáskrúðsfjörð og allt hráefnið sem notað er kemur frá Loðnuvinnslunni.
Á heimasíðu Næra má lesa um það að dr. Holly Kristinsson hafi flutt til Íslands árið 2015 og séð möguleikana sem felast íslensku gæða hráefni og stofnaði í kjölfarið fyrirtækið Responsible Food árið 2019 og framleiðir nú heilsunasl úr úrvals hráefni undir vörumerkinu Næra ásamt manni sínum dr. Herði G. Kristinssyni, en þau eru bæði menntuð á matvælasviði. Þar kemur einnig fram að um einkaleyfisvarða aðferð sé að ræða við framleiðslu á naslinu.
Næra framleiðir nokkrar tegundir nasls, ostanasl, skyrnasl og fiskinasl. Fiskinaslið er harðfiskur úr ýsu, þurrkuð loðna ásamt kúlulaga snakki úr fiski, annars vegar með íslensku smjöri og hins vegar með íslenskum osti. Allar þessar vörur er hægt að nálgast í Kjörbúðinni á Fáskrúðsfirði.
Það tekur langan tíma að þróa vörur af þessu tagi í það form að það verði það lostæti sem það á endanum verður en það var draumur dr. Holly að búa til nasl sem væri ekki aðeins bragðgott heldur líka hollt. Og fiskurinn í íslensku landhelginni er svo sannarlega hollur.
Hörður var inntur eftir því hversu langan tíma þessi þróun hefði tekið og svaraði hann því til að það væru mörg ár. „Það þurfti að finna áhugasama fjárfesta, þróa vöruna og síðan að koma henni á markað“ sagði Hörður og þar kom Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga til sögunnar því að félagið sá þarna möguleika til þess að nýta á fjölbreyttari máta hráefnið sem, dótturfyrirtækið Loðnuvinnslan aflar og vinnur, og fjárfesti í Responsible Food. Og þar með er komin skýringin á því hvers vegna framleiðslan á sjávar naslinu fer fram hér á Búðum. „ Við opnuðum framleiðslustöð á Fáskrúðsfirði í janúar 2023. Sérstaðan okkar þar er að við komumst í raun ekki nær ferska hráefninu sem við erum að nota í Næra naslið því að framleiðslan okkar er rétt við Loðnuvinnsluna þaðan sem hráefnið er“ segja þau hjónin Holly og Hörður.
Þurrkaða loðnan er farin að láta til sín taka á mörkuðum í Asíu, og sagði Hörður að þau væru á fullu að vinna upp í pantanir frá Hong Kong. „En við horfum til markaða í Evrópu og Bandaríkjunum líka“.
Enn sem komið er vinna þau Hörður og Holly öll störf við framleiðsluna en í framtíðinni er gert ráð fyrir því að ný störf skapist eftir því sem fyrirtækið vex og vörur þess fá stærra pláss á markaði.
Það er ekki laust við að greinarhöfundur finni til stolts yfir því að frumkvöðlastarf af þessu tagi fara fram í okkar góða samfélagi hér á Búðum við Fáskrúðsfjörð.
BÓA

Hér gefur að líta fiski naslið. Pokinn í miðjunni inniheldur þurrkuðu loðnuna.

Harðfiskurinn góði. Léttur og loftkenndur og afar bragðgóður.
Hoffell á landleið með rúm 1.000 tonn af síld.
Hoffell er á landleið með rúm 1.000 tonn af síld og verður í nótt á Fáskrúðsfirði. Ágæt veiði var miðunum og fékkst aflinn á tveimur sólarhringum. Síldin verður söltuð.

Mynd; Valgeir Mar Friðriksson.
Það er leikur að læra
Þau sem ólust upp í Búðaþorpi og komin eru á miðjan aldur muna eftir reglulegum kvikmyndasýningum í Skrúði. Þá voru sýndar kvikmyndir með helstu stjörnum hvíta tjaldsins, en svo breyttust tímar og mennirnir með og sýningar á kvikmyndum féllu niður.
En samt ekki allskostar. Á dögunum bauð Loðnuvinnslan unglingastigi Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar á sýningu á kvikmyndinni sem gerð hefur verið um Ljósafell Su 70. Var þetta þriðja opinbera sýningin á myndinni sem gerð var af Guðmundi Bergkvisti Jónssyni.
Myndin var frumsýnd á afmælishófi sem haldið var til að fagna 90 ára afmæli Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga og 50 ára afmælis Ljósafells. Síðan gafst öllum þeim sem kusu að sjá myndina í Skrúði og mættu þar um 70 manneskjur sem allar höfðu einlægan áhuga á myndinni og tóku henni afar vel.
Það er jú unga fólkið okkar sem erfa skal landið og það er mikilvægt að þau þekki söguna hvort heldur hún er í víðu eða þröngu samhengi. Að þau þekki og kannist við margt af því sem er og var í veröldinni, og líka í þeirra nærumhverfi og þar kemur myndin um Ljósafell til sögunnar.
Starfsfólk á skrifstofu Loðnuvinnslunnar fékk þessa fínu hugmynd að bjóða unglingum í GF til sýningarinnar og var því vel tekið af skólastjórnendum og þriðjudagsmorgun einn skundaði hópur unglinga í Skrúð til þess að fara í bíó. Og eins og lög gera ráð fyrir var boðið upp á gos og sælgæti til þess að gæða sér á.
“Sýningin fyrir grunnskólabörnin var sú skemmtilegasta af þessum þrem. Börnin voru mjög prúð og það var greinilegt að þau höfðu talsverðan áhuga á að sjá gamla myndefnið frá Japan og heimsiglingunni. Þeim fannst greinilega fyndið á sjá karlana á nærbuxunum uppi í brú og í sundi og sólbaði aftur á dekki” sagði Kjartan Reynisson útgerðarstjóri LVF um viðbrögð nemenda, og bætti við: “Það var líka sérstaklega ánægjulegt að sjá þau tengja sig sjálf við efnið, því nokkur hluti var að sjá sig sjálf í myndinni, þá um borð í skipun okkar í sjómannadagssiglingum”.
Í sama streng tóku það starfsfólk skólans sem fylgdu nemendunum á sýninguna. Eva Ösp Örnólfsdóttir sagði að þeir nemendur sem hún fylgdi hafi verið mjög sáttir og fundist myndin áhugaverð og að nokkur umræða hafi skapast á leiðinni í skólann að sýningu lokinni.
Guðfinna Erlín Stefánsdóttir sagði einnig að flest hefðu sýnt myndinni áhuga þó að “einhverjar sálir hefðu kannski haft ívið meiri áhuga á veitingunum” sagði hún glaðlega og í sama glaðlega tóninum sagði hún frá því að þau hefðu mörg haft orð á því að þau sáu ættingjum bregða fyrir í myndinni, jafnvel afa eða ömmu og það hefði verið skemmtilegt.
“Það er leikur að læra, leikur sá er mér kær” segir í gömlu ljóði eftir Guðjón Guðjónsson og átti það sannarlega við þriðjudag einn í október þegar unglingar úr Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar fengu að sjá fróðlega kvikmynd auk þess að fá sætindi í morgunmat.
BÓA

Nemendur í Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar í Skrúði. Ljósmynd: Guðfinna Erlín Stefánsdóttir

Ljósmynd: Guðfinna Erlín Stefánsdóttir
Sandfell með mestan afla í október og Hafrafell með 165 tonn.
Sandfell var með mestan afla í október og Hafrafell með 165 tonn. Hafrafell byrjaði að veiða 16. október og fór 14 veiðiferðir í október.

Mynd: Gísli Reynisson.
Sæti | áður | Nafn | Heildarafli | Róðrar | Mesti afli | Höfn |
1 | Sandfell SU 75 | 295.0 | 23 | 21.9 | Neskaupstaður, Stöðvarfjörður, Vopnafjörður, Eskifjörður | |
2 | Einar Guðnason ÍS 303 | 255.3 | 22 | 14.4 | Suðureyri, Ísafjörður | |
3 | Jónína Brynja ÍS 55 | 241.5 | 25 | 14.7 | Bolungarvík | |
4 | Fríða Dagmar ÍS 103 | 240.4 | 25 | 15.2 | Bolungarvík | |
5 | Indriði Kristins BA 751 | 237.2 | 19 | 22.1 | Tálknafjörður, Bolungarvík | |
6 | Kristján HF 100 | 227.2 | 14 | 25.5 | Neskaupstaður, Vopnafjörður | |
7 | Vigur SF 80 | 217.3 | 14 | 25.4 | Neskaupstaður | |
8 | Tryggvi Eðvarðs SH 2 | 213.9 | 19 | 23.6 | Sauðárkrókur, Ólafsvík, Skagaströnd | |
9 | Háey I ÞH 295 | 209.4 | 13 | 27.1 | Húsavík, Raufarhöfn | |
10 | Kristinn HU 812 | 204.5 | 18 | 15.9 | Skagaströnd | |
11 | Gísli Súrsson GK 8 | 201.8 | 18 | 15.2 | Neskaupstaður | |
12 | Særif SH 25 | 192.4 | 16 | 20.2 | Rif, Arnarstapi, Reykjavík | |
13 | Auður Vésteins SU 88 | 184.0 | 17 | 18.4 | Neskaupstaður, Stöðvarfjörður | |
14 | Hafrafell SU 65 | 165.0 | 14 | 19.4 | Neskaupstaður, Eskifjörður, Vopnafjörður | |
15 | Sævík GK 757 | 154.6 | 18 | 13.2 | Neskaupstaður, Grindavík, Sandgerði, Hornafjörður, Djúpivogur, Breiðdalsvík | |
16 | Stakkhamar SH 220 | 141.4 | 13 | 17.0 | Rif | |
17 | Hópsnes GK 77 | 135.3 | 19 | 11.5 | Siglufjörður, Dalvík | |
18 | Bíldsey SH 65 | 128.4 | 12 | 20.3 | Sauðárkrókur | |
19 | Vésteinn GK 88 | 119.2 | 9 | 17.2 | Stöðvarfjörður, Neskaupstaður | |
20 | Geirfugl GK 66 | 101.4 | 17 | 10.8 | Siglufjörður, Sandgerði | |
21 | Gullhólmi SH 201 | 100.0 | 9 | 17.0 | Rif | |
22 | Óli á Stað GK 99 | 99.9 | 15 | 11.7 | Siglufjörður, Grindavík, Sandgerði | |
23 | Öðlingur SU 19 | 85.6 | 9 | 15.4 | Djúpivogur | |
24 | Dúddi Gísla GK 48 | 68.7 | 11 | 8.7 | Grindavík, Skagaströnd |
Hoffell kom inn á laugardagsmorgun með rúm 800 tonn af Síld.
Hoffell kom inn á laugardagsmorgun með rúm 800 tonn af síld.
Síldin er góð og veiðinferðin gekk vel.
Hoffell fer á síld eftir löndun.

Mynd: Valgeir Mar Friðriksson.
Ljósafell kom inn á mánudagskvöldið með tæp 100 tonn af fiski.
Ljósafell kom inn á mánudagskvöld með tæp 100 tonn af fiski. Aflinn var 55 tonn Þorskur, 25 tonn Ýsa, 18 tonn Ufsi og annar afli. Skipið fer út aftur kl. 13 á miðvikudaginn.

Mynd; Loðnuvinnslan.
Að læra á þjarka
Það er margt sem mannanna hönd hefur byggt og margt sem mannanna hugur hefur hannað. Eitt af því er róbóti eða þjarki eins og fyrirbærið hefur verið nefnt á íslensku. Þykir flestum það snjöll nafngift því það er náskylt orðinu þjarkur sem þýðir: „duglegur maður og fylginn sér“ eins og stendur í íslensku orðabókinni.
Loðnuvinnslan hefur slíkan búnað í sínum fórum. Það er armur sem sér um að raða frosnum kössum með frosnum afurðum á bretti. Þennan búnað er hægt að forrita með mismunandi hætti þannig að þjarkinn hitti ávallt á réttan stað. Frosnir fiskikassar eru þungir og það er lýjandi fyrir mannlega arma að sinna því starfi. Ekki er hægt að leggja það að jöfnu að fá annars vegar þjarka til þess að vinna verkin eða hins vegar mannlegan vinnuþjark. Næg eru samt verkefni fyrir mannlega greind og eitt af þeim verkefnum er að forrita þjarkann svo að hann sinni sínu starfi vel og nákvæmlega. Rétt eins og með önnur mannanna verk getur búnaður sem þessi bilað, það þarf að smyrja, laga og bæta.
Þriðjudaginn 24.október, kom starfsmaður Samey Robotics til þess að hafa námskeið fyrir þá starfsmenn Loðnuvinnslunnar sem sinna viðhaldi og starfsemi þjarkans. Á heimasíðu Samey Robotics segir um starfsemi fyrirtækisins: „Samey Robotics hefur í yfir 32 ár verið leiðandi í sjálfvirknivæðingu íslensks iðnaðar og brautryðjandi í notkun þjarka í sjálfvirkni. Samey Robotics hefur með þessum lausnum aðstoðað fjölda fyrirtækja til lands og sjávar á farsælan og árangursríkan hátt við að auka framleiðni og rekstrarhagkvæmni. Á sjötta hundrað verksmiðjur og vinnslur í 25 löndum starfa í dag með kerfum frá Samey Robotics“.
Sven Wegner er starfsmaður hjá Samey og hann sá um kennslu á umræddu námskeiði. Þegar hann var inntur eftir því hver væri munurinn á vél og þjarka svaraði hann því til að vélar væru framleiddar til þess að sinna einu ákveðnu verki, t.d. hefði bílvél þann eina starfa að knýja áfram bifreið, en þjarki er tæki sem getur gert hvað sem helst, það tekur við skipunum frá tölvu sem segir því hvað gera skal og það getur verið mismunandi. „Námskeiðið gekk vel“ sagði Sven. „Nú geta þeir sem voru á námskeiðinu gert litlar breytingar og skilja betur hvernig þetta virkar allt og þá eru menn hæfari til að bjarga sér í hita leiksins ef þarf“ sagði Sven.
Steinar Grétarsson verkstjóri síldarverkunar var einn af þeim sem sóttu námskeiðið. Hann sagði að námskeiðið hefði aðallega snúist um almenna umsjón með róbótnum og þeir sem hefðu kunnað eitthvað fyrir hefðu bætt við sig þekkingu og tækifærið hefði verið nýtt í að kenna fleirum. „Maður lærir alltaf eitthvað nýtt og þrátt fyrir að fólkið hjá Samey séu búin að þróa þetta kerfi ansi vel þá er alltaf eitthvað sem getur bilað og þá er gott að vita hvað á til bragðs að taka“ sagði Steinar og bætti því við að búnaðurinn sem er í vinnslu LVF væri búinn að reynast mjög vel.
BÓA

Hoffell kom í morgun með tæp 1.200 tonn af Kolmunna.
Hoffell kom í morgunn með tæp 1.200 tonn af Kolmunna. Aflinn fékkst í íslenskri landhelgi rétt við línuna milli Færeyja og Íslands. Eftir löndun fer Hoffell á síldveiðar vestur af landinu.

Mynd: Valgeir Mar Friðriksson.
Ljósafell með samtals 130 tonn síðustu fimm daga.
Ljósafell kom inn í dag með 95 tonn og áður hafði það millilandað sl. fimmtudag 35 tonnum. Aflinn var að mestu Þorskur og Ýsa.

Mynd: Þorgeir Baldursson.