Í Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar er margt brallað.  Auk hefðbundinnar kennslu í íslensku og stærðfræði og þess háttar greinum, er líka nokkuð um það að brjóta upp það sem kallað er hefðbundið og nýjar leiðir og aðferðir eru teknar upp.  Má þar til dæmis nefna útikennslu. Þá fara nemendur og kennarar út undir bert loft og nýta náttúru og umhverfi til náms og kennslu.

Fyrir ofan skólann er fallegt rjóður sem nýtist í leik og starfi og í hlíðinni er líka að finna eldstæði þar sem hægt er að grilla eitthvert góðgæti eða steikja sér lummur því að í öllum athöfnum lífsins felst eitthvert nám og nám má gjarnan vera skemmtilegt líka.

Kennurunum sem hafa umsjón með útkennslunni fannst vanta einhverskonar stand til þess að hengja pott í svo að hægt væri að nota eldstæðið á fjölbreyttari máta.  “Við höfðum samband við Ingimar (Óskarsson) hjá vélaverkstæði Loðnuvinnslunnar og spurðum hvort að strákarnir í smiðjunni gætu smíðað svona þrífót fyrir okkur og hann tók mjög vel í það og nokkrum dögum síðar var fóturinn bara kominn” sagði Eydís Ósk Heimisdóttir skólastjóri Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar.  Ásta Kristín Guðmundsdóttir Michelsen aðstoðarskólastjóri tók í sama streng og sagði að þrífóturinn svokallaði væri alveg fullkominn.

Ingimar Óskarsson verkstjóri á vélaverkstæðinu sagði að það væri gaman að fá svona verkefni stöku sinnum. “Við fengum útlistingu á því hvernig þrífóturinn ætti að vera en svo hönnuðum við hann bara sjálfir og smíðuðum” sagði Ingimar og bætti því við að þetta hefði nú verið frekar einföld smíði fyrir vana menn.

Rúsínan í pylsuendanum er sú að vélaverkstæðið  færði skólanum þrífótinn að gjöf og sagði Ingimar að það væru forréttindi að fá að taka þátt í að gleðja núverandi og framtíða nemendur skólans með gjöfinni.

Og sannarlega er gjöfin vel þegin og óhætt að segja að allir sem starfa í Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar geta sagt með sanni að þrífóturinn sé gjöf sem gleður.

BÓA

Smiðjumenn við vinnu sína.

Þrífóturinn góði kominn á sinn stað.