Jafnréttis- og jafnlaunastefna
L tiloðnuvinnslan hefur innleitt jafnlaunakerfi sem inniheldur jafnlaunastefnu sem byggir á jafnréttisáætlun fyrirtækisins. Jafnlaunakerfið nær til allra starfsmanna Loðnuvinnslunnar og lýtur lögum nr. 10/2008 um jafnrétti karla og kvenna og öðrum lögum er snúa að jafnri stöðu kynjanna, sérstaklega þeim sem lúta að því að mismuna ekki starfsfólki í launum eftir kynferði, kynvitund, þjóðerni, litarhætti, búsetu, trúarbrögðum eða aldri.
Stjórnendur Loðnuvinnslunnar skuldbinda sig til að vinna að stöðugum umbótum og eftirliti í samræmi við kröfur jafnlaunakerfisins. Komi í ljós launamunur á jafn verðmætum og sambærilegum störfum skal hann leiðréttur ef ekki er hægt að rökstyðja hann.
Í jafnréttis- og jafnlaunastefnu Loðnuvinnslunnar er stefnt að eftirfarandi:
- Að konur og karlar fái jöfn laun og njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf.
- Að laus störf hjá fyrirtækinu standi opin öllum óháð kyni.
- Að tryggja að starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun sé aðgengileg öllum kynjum.
- Að vera fjölskylduvænn vinnustaður.
- Að bæði konur og karlar nýti sér rétt sinn til foreldra- og fæðingarorlofs og leyfis vegna veikinda barna.
- Að kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni sé ekki liðin á vinnustaðnum.
Stefnan var samþykkt af stjórnendum í október 2019 og árlega verður hún yfirfarin.
Birt 2. janúar 2020.
Loðnuvinnslan hefur hlotið jafnlaunavottun og leyfi frá Jafnréttisstofu til að nota jafnlaunamerkið.