Fengu dauðan hval í trollið

Nú þegar lægðirnar koma hver á eftir annarri með tilheyrandi veðrum, vindum og úrkomu og sjórinn við strendur og firði er úfinn og grár, verður manni hugsað til sjómanna á hafi úti.  Það er ekki alltaf dans á rósum að vera sjómaður við Íslandsstrendur.

Ljósafell landaði 100 tonnum mánudaginn 8.janúar s.l og hélt síðan til veiða s.l þriðjudag í nokkuð vondu veðri og sagði Hjálmar að siglingin á miðin í Lónsdýpinu hefði tekið átta klukkustundir í stað sex vegna veðursins. „En veðrið var svo gengið niður þegar við komum á miðin svo að veiðin gekk nokkuð vel“ sagði Hjálmar.

Ljósafell svo kom til hafnar á Fáskrúðsfirði aðfaranótt 12.janúar með u.þ.b. 50 tonn af blönduðum afla, 20 tonn af karfa,  u.þ.b 20 tonn af þorski og 10 tonn af ýsu og ufsa.  Er þeim afla landað í dag.  Aðspurður sagði Hjálmar Sigurjónsson skipstjóri að veðrið hefði verið „leiðinlegt“ á heimleiðinni.

Það bar það til tíðinda í þessum túr Ljósafells að þeir fengu hræ af hval í trollið.  „Lyktin var alveg hræðileg“ sagði Hjálmar, „þeir sem köstuðu upp yfir borðstokkinn gerðu það ekki vegna veðurs og sjóveiki heldur vegna fnyksins af hval-hræinu“ bætti Hjálmar við brosandi.  Ljósafells menn náðu að aðskilja hræið frá aflanum og skila því aftur í hafið þar sem það flaut á yfirborðinu og varð að veisluborði fyrir fuglana.

BÓA

Hoffell

Hoffell hefur verið í Hafnarfirði yfir jól og ármót í fyrirbyggjandi viðhaldi. Aðalvélin hefur verið tekin í gegn en einnig er verið að sinna ýmsu öðru viðhaldi og endurnýjun. Meðal annars er verið að setja nýja og öflugri kraftblökk á skipið. Búist er við að verkinu ljúki undir vikulokin.

Útskipun á lýsi

Flutningaskipið Key West lestaði um 1200 tonn af lýsi á föstudaginn 5. janúar.

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa. Aflinn er um 100 tonn eftir 3 daga á veiðum. Uppistaða aflans er þorskur og ýsa.
Skipið heldur aftur til veiða á þriðjudaginn 9. janúar kl 13:00.

Alberta löndunarstjóri

Alda Alberta Guðjónsdóttir er fædd á Fáskrúðsfirði árið 1963. Nánar tiltekið í húsi sem bar nafnið Sólbakki og stóð við Búðaveg en allmörg ár eru síðan það var rifið.  Alberta er næst elst fimm systkina og æskunni eyddi hún milli falls og fjöru hér í Fáskrúðsfirði.  Hún kvaðst hafa verið nokkuð uppátækjasamur krakki og hafi fengið margar góðar hugmyndir eins og krakka er siður, sem síðar hafi komið í ljós að voru ekki endilega svo góðar. Sem dæmi má nefna að þegar Grunnskólinn var í byggingu og búið var að steypa þakplötuna þótti einhverjum krökkum, og Albertu þar á meðal, það góð hugmynd að fara uppá þakið og skauta því þar var afbragðsgott svell til þeirrar iðkunnar.  Alberta var u.þ.b fimm ára gömul þegar hún flutti í hús við Skólaveg sem foreldrar hennar byggðu og bjó í því þar til hún fór að búa sjálf. Það hús geymir allar hennar æskuminingar.   „Lífið var pínu öðruvísi þá“ sagði hún, „það var svo mikið frelsi og maður var úti að leika heilu og hálfu dagana“.

Árið 1984 kom ungur maður hér til vegavinnu.  Í þá daga var bíó í Skrúði, kvöldbíó á þriðjudögum, fimmtudögum og sunnudögum auk barnasýningar um miðjan dag á sunnudögum.  Á einni slíkri bíósýningu kynntist Alberta vegavinnumanninum Herði og hafa þau deilt kjörum síðan.  Þau eiga þrjá syngi og þrjú barnabörn.   Hörður er Borgnesingur og því lá það beint við að spyrja Albertu hvort að aldrei hafi komið til greina að flytja þangað? „Nei“ sagði hún, „það kom aldrei til tals, hann flutti hingað og hér höfum við verið síðan og aldrei dottið í huga að fara eitthvað annað“.

Aðspurð um áhugamál svarar Alberta því til að það sé að ferðast.  „ég elska að fara á nýja staði og skoða eitthvað nýtt“ og sannarlega hafa þau hjónin ferðast. Þau hafa skilið fótspor sín eftir um Evrópu þvera og endilanga og þá hafa þau líka farið til Dubai og Óman.  „Mér finnst svo gaman að skoða kirkjur, ég skoða allar kirkjur sem á vegi mínum verða þegar ég ferðast“ segir hún brosandi.  Og þegar hún er innt eftir því hver sé eftirminnilegust nefir hún um hæl kirkju heilags Páls í Valetta á Möltu.  Kirkja þessi þykir um margt merkileg, byggð á árunum 1573-77 og er meistaraverk byggingameistara Mölturiddaranna.  Inní kirkjunni getur að líta kistur tólf stórriddara auk margra þekktra listaverka.  En svona dags daglega unir hún sér vel heima við hugsa um heimilið og elda mat. „Mér finnst mjög gaman að elda“ segir hún með áherslu.  Og þegar talið berst að heimilishaldi þá förum við að spjalla um sérviskur sem margir búa við bæði af eigin hendi og þeirra sem tilheyra heimilishaldinu. „Ég er mjög ákveðin í því að raða beri í uppþvottavélina á ákveðin hátt, ef það er ekki gert tek ég allt úr og raða uppá nýtt“ upplýsir Alberta og brosir.

Alberta vann í frystihúsinu á unglingsárum en fór síðan til starfa í Kaupfélaginu og starfaði þar við verslunarstörf alveg þangað til Kaupfélagið hætti að reka versun. Árið 2005 réð hún sig svo til starfa í Bræðslunni og starfar þar enn.  Hún var í upphafi almennur starfsmaður en um leið fyrsta konan sem ráðin var á vaktir. Síðar varð hún löndunarstjóri og sinnir því starfi enn.  En hvað felst í því að vera löndunarstjóri?  „Ég sé um alla viktun á aflanum, fylgist með því að allt sé eins og það á að vera í þeim efnum“.  Núna starfa í Bræðsunni þrjár konur í ólíkum störfum. Ein á rannsóknarstofunni, ein í ræstingum og svo Alberta löndunarstjóri.  Hvernig er að vinna á vinnustað þar sem karlmenn eru í miklum meirihluta?  „Það er mjög gott, þetta eru frábærir vinnufélagar, bæði bóngóðir og hjálpsamir. Ég gæti ekki sinnt mínu starfi án þeirra hjálpar.  Sumt af því sem tilheyrir starfinu er erfitt og þarfnast aflrauna sem ég bý ekki yfir og þá hjálpa þeir mér.  Þeir eru frábærir“ segir Alberta og greinarhöfundur les það úr svip hennar að hún meinar hvert orð.  „Þetta er skemmtilegur vinnustaður og vinnan er líka skemmtileg þó svo að hún sé  líka stundum erfið, mikil viðvera og langar tarnir oft“ bætir hún við.

Á vinnustað eins og þeim sem Alberta vinnur á er ákveðinn kjarni starfsmanna en svo bætist gjarnan í hópinn þegar miklar vinnutarnir eru.  Og þegar margt er um manninn og mikið líf í kring þá hljóta að verða til skemmtileg atvik og greinarhöfundur fékk Albertu til að segja frá einu slíku: „Eitt sinn var ungur maður að vinna með mér sem var með útvarp í heyrnahlífunum sínum (Peltor). Svo kláruðust rafhlöðurnar og hann bað um leyfi til að fara inn og sækja nýjar sem hann fékk auðvitað. Svo leið og beið og aldrei kom drengurinn til baka þar til að lokum ég fór á eftir honum til að kanna hvað það væri sem tefði hann svona mikið.  Ertu ekki að koma? spurði ég, Jú, svaraði drengurinn, en ég finn bara plús rafhöðurnar, ég finn ekki mínus rafhlöður“.

Úr útvarpinu bárust ljúfir tónar frá hljómsveitinni Eagles, kertin loguðu í fallega aðvenutkransinum en spjallinu var lokið að sinni.

 

BÓA

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa um 42 tonnum af þorsk og ýsu. Skipið fer aftur út að löndun lokinni kl 21:00 í kvöld.

Sandfell

2000 tonn, takk fyrir.
Þegar Sandfell landaði tæpum 15 tonnum þann 30. desember s.l. fór báturinn yfir það að hafa veitt 2000 tonn af fiski á árinu 2017. Þetta skeður þrátt fyrir frátafir sökum slipps og sjómannaverkfalls. Ástæða er til að óska áhöfn til hamingju með þennan árangur, en þann skugga ber þó á að lægra fiskverð hefur minnkað aflaverðmæti bátsins úr 500 milljónum 2016, niður í 400 milljónir 2017.

Ljósafell

Ljósafell og Sandfell réru milli hátíðanna og er nú verið að landa um 60 tonnum úr Ljósafelli. Brottför í fyrsta túr ársins er í dag, 2. janúar kl 16:00.
Vinnsla í frystihúsinu hófst í morgunn.

Jólakveðjur

Loðnuvinnslan hf, Hjálmar ehf og Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga óska starfsfólki og viðskiptavinum sínum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári með þökkum fyrir samstarf og viðskipti á líðandi ári.

“Boðar ógæfu að heilsa yfir þröskuld”

Um leið og dyrnar lukust upp rétti greinarhöfundur fram höndina til þess að heilsa en í stað þess að taka í útrétta höndina sagði húsráðandi hæglega: “Komdu inn, það boðar ógæfu að heilsast yfir þröskuld”. Þá steig greinarhöfundur inn í forstofuna og uppskar traust og hlýlegt handaband frá Árna Jónassyni. Árni þessi býr á Egilsstöðum en er mörgum Fáskrúðsfirðingum að góðu kunnur þar sem hann starfaði hjá Loðnuvinnslunni í fjölda ára.

Í upphafi samtalsins óskaði greinarhöfundur eftir því að fá útskýringu á því hvernig stæði á því að stundum væri hann nefndur Malmfreðsson og stundum Jónasson og svarið hafði Árni á reiðum höndum. “ Pabbi minn hét Malmferð Jónas og ég var orðinn svo þreyttur á því að þurfa að marg endurtaka föðurnafnið þegar ég sagði til nafns að ég lét breyta því í Þjóskrá og er nú skráður þar Jónasson”. Og samkvæmt lauslegri könnun í Þjóðskrá ber engin núlifandi Íslendingur nafnið Malmfreð svo engan þarf að undra þó svo að nafnið hafi valdið hugarbrotum.

Árni er fæddur á Akureyri en ólst upp á Eskifirði. Móðir hans var úr Svarfaðardal en faðir hans var Eskfirðingur.  16 ára gamall fór hann fyrst til sjós á Krossanesi sem var síldarbátur á Eskifirði. Þá var svo mikill hafís  að það tók þá heilan sólarhring að komast út úr firðinum.  Þessi fyrsti túr var sannarlega eftirminnilegur ekki aðeins fyrir hafísinn heldur líka fyrir þær sakir að hann tók Árna og félaga alla leið til Færeyja sem var ævintýri líkast fyrir 16 ára unglinginn því þar var líf og fjör og “fullt af stelpum” sagði Árni brosandi en bætti því við að karlarnir um borð hefðu verið afskaplega góðir við hann og passað hann vel.

Þegar Árna var ljóst að sjómennskan yrði hans lifibrauð ákvað hann að drífa sig í nám  því tengdu og fyrir valinu var Vélskólinn á Akureyri.  Að því námi loknu starfaði hann á hinum ýmsu skipum og bátum sem vélstjóri.  Og þegar upp var staðið frá sjómennskunni voru árin til sjós orðin 49.

Eftir tæpa hálfa öld á sjó sitja margar minningar í hugarskotinu. Greinarhöfundur bað Árna að rifja upp nokkrar svona til gamans.  Hann segir frá því að hann hafi einu sinni lent í strandi við Færeyja á Krossanesinu en það tókst að draga þá á flot og hættunni afstýrt.   Svo segir hann frá því að einu sinni hafi hann farið í siglingu til Þýskalands með Hólmanesinu og á leiðinni heim lentu þeir í þeirri mestu lægð sem komið hefur og í stuttu máli má segja að það hafi verið brjálaður sjógangur og Árni var hálfsmeykur því að dóttir hans var með í túrnum. “En hún var ekki smeyk, hún hélt að þetta ætti bara að vera svona” segir Árni hlæjandi.  Og áfram tölum við um Hólmanesið og hann segir frá því að það hafi ekki verið neinn hljóðkútur á Hólmanesinu og þegar skipið silgdi inn Eskifjörðinn milli kl.6 og 8 á morgnana þá drundi þvílíkt í fjöllunum að allir bæjarbúar vöknuðu.  “Sagan segir að mörg börn hafi komið undir milli kl.6 og 8 þessa morgna” og við skemmtum okkur yfir þessari minningu Árna.   Síðan var Árni í átta mánuði á sjó við Afríku.  Hann var á skipi sem var gert út af Spánverjum. “Við vorum að veiða kolkrabba í troll, og auðvitað reyndi maður að borða þetta en það var eins og að japla á gúmmíslöngu” sagði Árni og greinarhöfundur skellir uppúr því sjáf býr hún yfir álíka sögu af kolkrabba áti. “En landið var ömurlegt” og átti Árni þar við Máritaníu sem er í Norður Afríku og er landið eitt mesta þurrkasvæði heims, “ömurlegt í þeim skilningi að þar er rosleg fátækt  og sérstaklega ömurlegt var að sjá hvað konurnar höfðu það slæmt” bætti hann við.  Og Árni var með þegar Hoffellið bjargaði flutningaskipinu Ölmu frá standi  2011 og dró það úr Hornafjarðarósnum til Fáskrúðsfjarðar og eins þegar Hoffellið fékk á sig brotsjó og minnstu munaði að illa færi.

Árið 1999 ræður Árni sig til starfa hjá Loðnuvinnslunni á gamla Hoffellið.  Hann rifjar upp hversu brösuglega gekk fyrstu mánuðina. “Það var alltaf eitthvað bilað og það hefði ekki gengið ef ekki væri svona frábær þjónusta í landi, hjá vélarverkstæðinu og rafmagnsverkstæðinu en þar eru frábærir starfsmenn sem lögðu mikið á sig til þess að láta þetta skip ganga.

En svo varð gjörbreyting á skipinu eftir að það fór alsherjar yfirhalningu í Póllandi”.  Árni fór með og dvaldi í átta mánuði í Póllandi meðan skipið var endurnýjað.  “Það var fínn tími” sagði Árni “Eiríkur Ólafsson þáverandi útgerðarstjóri og konan hans Guðrún Níelsdóttir sköpuðu festu þennan tíma á þann máta að við borðuðum alltaf kvöldmat hjá þeim. Þau hugsuðu afar vel um okkur og einn félaginn kallaði Guðrúnu í gríni “big mama” sagði Árni.  Hann segir einnig frá því hve skipið gjörbreyttist eftir uppgerðina í Póllandi og Árni þekkti þetta skip vel, þekkti alla þess kosti og galla og þegar kom að því að setja það á sölu og festa kaup á nýju skipi tók Árni að sér það verkefni að hafa umsjón með skipinu í höfninni þangað til það yrði selt.  “Ég sá fyrir mér að þetta myndi taka svona sex mánuði, en það urðu þrjú ár”  sagði hann og Árni var einn af þeim sem skiluðu gamla Hoffellinu alla leið í nýja heimahöfn á Las Palmas á Kanaríeyjum.  Og þar skildu loks leiðir Árna og Hoffelsins, hann skildi við skipið vaggandi mjúklega í heitum sjó.  Og það er engin eftisjá.  Árni segir að það þýði ekkert að dvelja við það sem liðið er. Nú er hafinn nýr kafli hjá honum þar sem hann, eftir 49 ár á sjó, er farinn að vinna við pípulagnir í landi og hann er sáttur og konan hans jafnvel sáttari. m að hll þess að heilsa en  m að hll þess að heilsa en

Árni hefur búið á Egilsstöðum frá árinu 1973 en þangað sótti hann sér eiginkonu.  Þau hjónin eignuðust þrjár dætur sem allar hafa komið ár sinni vel fyrir borð, svo notað sé líkingamál af sjónum, og barnabörnin eru orðin sex.  “Dæturnar eru nú stundum að hvetja okkur til að flytja á mölina en ég held að ég myndi bara koðna niður í Reykjavík” segir Árni og sýpur af  drykkjarkönnunni sem hann er með í höndunum og greinarhöfundur rekur augun í það að kannan er merkt Vélgæði, fyrirtæki sem var í eigu nokkurra heiðursmanna á Fáskrúðsfirði, og ekki er annað hægt en að minnst á drykkjarkönnuna. “þetta er mikil uppáhaldskanna” segir Árni, “það eru ansi margir lítrarnir sem hafa runnið ofan í mig úr þessari könnu” bætti hann við brosandi.  Og þar sem við sitjum þarna saman á fallegu heimili Árna og fjölskyldu, þar sem allt var orðið svo jólalegt og ilmurinn af jólate-inu sem greinarhöfundur hafði í sinni könnu toppaði stemninguna, lá beinast við að spyrja Árna hvort að hann væri jólabarn. “Nei” segir hann, “það er konan mín sem á heiðurinn af skreytingunum”. Og hann bætir við “en ég þakka almættinu fyrir Led seríur.  Dóttir mín rifjaði það upp að ein af hennar æskuminningum tengdum jólum væri pabbi í brjáluðu skapi og flæktur í jólaseríu”  og brosið sem fylgir þessari upprifjun er milt, eins og minningin sjálf. Þá berst talið að sjómennskunni og fjölskyldunni og Árni ítrekar það að honum líki vel að vera komin í land “ég var í fyrsta skipti heima á afmælisdegi yngstu dóttur minnar þegar hún varð 21 árs” segir Árni og hann bætir því við að hann stefni að því að öll sjósókn héðan í frá muni vera bundin við sjómannadaginn. “Þá kem ég á Fáskrúðsfjörð og fer í siglingu með Hoffelinu”.

Aðspurður um tómstundir segist hafa gaman af því að fá sér göngu með konu sinni en kannast jafnframt við það að hann þyrfti að koma sér upp tómstundaiðju af einhverju tagi því nú hefur hann tíma.

Nú er mál að kveðja þennan heiðursmann sem greinarhöfundur var að hitta í fyrsta skipti en stemmningin við eldhúsborðið er meira eins og við værum gamlir kunningjar.  Og Árni biður fyrir kveðjur og þakkir til Loðnuvinnslunar og fyrrum vinnufélaga.  “Mig langar að þakka fyrir gott viðmót og góða viðkynningu, hvort heldur fyrrverandi eða núverandi framkvæmdastjóri, fyrrverandi eða núverandi útgerðastjóri,  allt hafa þetta verið heiðursmenn sem hafa reynst mér vel.  Svo ég tali nú ekki um félagana á sjónum.  Ég þakka þeim fyrir samvinnuna og samveruna, þetta voru og eru frábærir félagar”.  Og stjórnendur Loðnuvinnslunnar þakka Árna fyrir sín góðu störf og óska honum og fjölskyldu hans velfarnaðar.

Við kvöddumst með handabandi áður heldur en greinarhöfundur gekk út í snjómugguna og jólaljósin úti við lýstu leiðina heim.

 

BÓA

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa um 80 tonnum og er uppistaðan þorskur. Skipið heldur aftur til veiða á morgunn, miðvikudaginn 13. desember kl 13:00

Alltaf fundist gaman í vinnunni

Bergur Einarsson

Skipstjórinn býður greinarhöfundi skjól fyrir snjóbylnum sem tekið hefur yfir í þorpinu okkar góða. Snjórinn breytir ásýndinni þannig að allt verður ókunnugt en Bergur Einarsson skipstjóri á Hoffelli SU 80 er greinarhöfundi vel kunnugur og tekur hlýlega á móti gestinum.

Miðvikudaginn 6.des kom Hoffellið að landi með u.þ.b. 460 tonn af síld.  Er síldin af stofni sem kallast íslensk síld sem þýðir að hún er uppalin á íslensku hafsvæði og kemur úr íslensku sumargotssíldinni.  Er síldin öll unnin til manneldis hjá Loðnuvinnslunni.  Aðspurður að því hvort að veðrið hefði verið vont á miðunum í nýliðnum túr sagði Bergur að það hefði verið hálf leiðinleg ferðaveður en það hefði verið fínt á meðan á veiðunum stóð.  „Við þurftum reyndar að bíða í eina tuttugu tíma fyrir utan Keflavík áður en við gátum hafið veiðarnar en svo gekk bara vel þegar þær hófust“ sagði Bergur.

Bergur Einarsson er fæddur og uppalinn á Fáskrúðsfiði.  Hann er fæddur í húsi sem ber nafnið Bjarmaland og stendur við Hamarsgötu 9.  Þegar hann er spurður að því hvort að hann hafi verið baldinn krakki svarar hann um hæl: „já“ og er ekkert að orðlengja það meir.  En þegar æskuárin eru rifjuð upp kemur hann greinarhöfundi fyrir sjónir sem atorkusamur og tápmikill drengur.  Hann vildi gjarnan leika sér á bryggjunum og í fjörunni eins og krakka var siður hér áður fyrr.  „Þá fór líka svo mikil vinna fram á bryggjunum þannig að það var alltaf fólk á ferðinni.  Nú er öll þessi vinna unninn innandyra og ekki nokkur maður á bryggjum að vinna lengur“  segir Bergur.  Hann rifjar líka upp að móðir hans hafi haft áhyggjur af honum þegar hann var „hangandi á bryggjunum“ alla daga, saga sem margar mæður kannast við og margar manneskur af sömu kynslóð og Bergur muna eftir að hafa lítið skilið í því hvílikt uppnám foreldrar gátu komist í aðeins af því að menn héngu neðan í einhverjum planka undir bryggju, eða væru siglandi á illa fljótandi flekum.  Foreldrar Bergs byggðu svo hús við miðbik þorpsins og þaðan var gott útsýni niður á bryggju svo auðvelt var að fylgjast með ferðum hans þar.  „Ég man hvað ég var feginn þegar Kaupfélagið byggði húsið við Skólaveg 59 og síðan Landsbankinn, þá hætti mamma að sjá niður á bryggju.  Svo verður maður foreldri sjálfur og skilur þetta allt miklu betur“ segir Bergur og við brosum bæði angurvær enda bæði verið í þeirri stöðu að finnast það mannréttindi að fá að hanga undir þarablautri bryggju í leit af dúfuhreiðri og verið áhyggjufullt foreldri .  Hann segist líka muna eftir því að hann hafi lítið komið við heima þegar það var mikið að brasa úti við. „Þá fór maður bara heim ef maður var svangur eða blautur“ rifjar hann upp hlæjandi.

Varstu alltaf ákveðinn í að gera sjómennsku að ævistarfi?  Bergur svarar því neitandi, „það bara æxlaðist svona“ segir hann  „ég flosnaði uppúr skóla þegar ég var fimmtán ára og fór á sjó.  Fyrst á Sólborgina, svo á Áftafellið og síðan á skuttogarana Ljósafell og Hoffell“.  Þegar Bergur er 21 árs ákveður hann að fara í Stýrimannaskólann enda búinn að ákveða þá að þar skildi starfsferillinn vera.  Að skólanum loknum, árið 1998,  er hann ráðinn sem stýrimaður á  uppsjávarskipið Hoffell  (sem í daglegu tali er gjarnan kallað gamla Hoffellið) og níu mánuðum síðar verður hann skipstjóri og hefur gengt því starfi síðan.  „Það var auðvitað meiriháttar traust af hálfu Loðnuvinnslunnur að veita mér starfið aðeins 28 ára gamall“.  Og talið berst að þessum tveimur Hoffellum sem hann hefur haft undir sinni stjórn.  Hann segir að miklar breytingar hafi orðið á þessum árum.  Fyrst þegar gamla Hoffellið var lengt og með því skapaðist betri aðstaða til veiða og síðan þegar nýja Hoffellið kom sem hefur reynst afar vel.  Laust við áföll og fiskast vel.  „Það bara datt allt í gang og hefur mallað síðan“ segir hann.   Bergur segir líka að honum hafi alltaf þótt gaman í vinnunni.  Hann segir að starfið sé fjöbreytt í þeim skilningi að það sé verið að veiða mismunandi afla á mismunandi veiðafæri og í því felist tilbreyting.

Það hlýtur að vera óhjákvæmilegt að spyrja mann sem hefur eytt jafn mörgum dögum út á sjó, fjarri ástvinum og heimili sem raun ber vitni, hvort að það sé aldrei erfitt?   Skipstjórinn er fljótur til svars og segir:“jú, það er oft erfitt, sér í lagi þegar börnin voru lítil en ég fékk að kynnast því almennilega hvernig það er að vinna í landi þegar ég var í skólanum og sonur minn var lítill, þá vaknaði maður á morgnana og fylgdi honum í leikskólann og sótt hann aftur.  Þetta er mér dýrmætt.  Þessir hlutir hversdagsins fara að miklu leiti framhjá manni þegar maður er alltaf út á sjó.  Svo finnst mér oft vanmetið hvað bakland sjómanna er mikilvægt.  Eiginkonan sem heldur öllu gangandi heimafyrir þegar menn eru lengi að heiman“.

Nú er Bergur orðinn afi og því hlutverki langar hann að sinna vel.  Hann segir greinarhöfundi frá því að stór-fjölskyldan ætli að eyða jólunum á sólarströnd að þessu sinni.  „Ég var pínu tregur í fyrstu því mér finnst að jólin eigi að vera rólegur tími heimafyrir og þegar hangikjötslyktin berst úr pottinum á Þorláksmessu þá finnst mér jólin vera komin“.  Þú tekur bara hangikjöt með þér í sólina lagði greinarhöfundur til en Bergur sagði það ekki vera á sinni könnu að ákveða það.  „Ég pakka niður sundbuxunum mínum og snyrtitöskunni, Jónína mín sér um hitt“ segir hann kankvís og við verðum sammála um að það muni ekki fara fram hjá honum ef hangikjötsilmurinn fer að berast um sundlaugargarðinn.

Veiðimennska er Bergi ef til vill í blóð borin því að ekki aðeins hefur hann veiðimennsku að atvinnu heldur líka sem tómstundir.  Hann hefur gaman af skotveiði og stangveiði og hefur líka mikla ánægju af því að fara til fjalla.  Hann kann að meta hafið, fjöllin og árnar.

Líkt og margir sem eru í nánu samneyti við náttúruna er skipstjórinn hjátrúafullur á einhverju sviði.  Hann tekur skipið ávallt frá bryggju í réttan sólargang.  Þrátt fyrir að oft sé einfaldara að fara „öfugan hring“ gerir hann það ekki og ef það reynist alger nauðsyn  þá tekur hann aukahring út á firði með réttum sólargangi.  Ástæðuna kvað hann vera þá að eitt sinn hafi vélstjórinn beðið hann að taka nokkuð vel á hliðarskrúfunum þegar hann færi frá bryggju sem hann og gerði og það í „öfuga átt“. Þá hafi verið um borð reyndur sjómaður sem sagði að þetta væri nú ekki nógu gott því það boðaði ógæfu að fara ekki réttan sólargang.  „Og það gekk allt á afturfótunum, þetta var alger bras túr“ sagði Bergur og bætti því við að síðan héldi hann þessum sið því það væri óþarfi að storka örlögunum.  Og að þeim orðum sögðum kvaddi greinarhöfundur skipstjórann Berg enda heimasætan komin heim og á dagskrá hjá þeim feðginum var notaleg samvera inni í hlýjunni þó úti öskraði hríð.

BÓA