Ljósafell SU

Ljósafell kom inn s.l. laugardag með um100 tonna afla. 65 tonn ufsi, 20 tonn þorskur 5 tonn karfi, 5 tonn ýsa og annar afli.

Ljósafell fór út aftur í gærkvöldi.

Hoffell SU

Hoffell er á landleið með 1.600 tonn af kolmunna sem veiddur er austan við Færeyjar.  Hoffell verður á Fáskrúðsfirði um kl. 13 í dag. Skipið hefur nú fengið um 16.000 tonn af kolmunna á árinu.

Ljósafell SU

Ljósafell kom s.l. sunnudag með 110 tonn af fiski.  Aflinn var 50 tonn ufsi, 30 tonn þorskur, 20 tonn ýsa og annar afli.

Hoffell SU

Hoffell er á landleið af kolmunnamiðunum með rúm 1500 tonn. Heldur er að róast veiðin sem gerist oft á þessum tíma.

Skipið fer út að lokinni löndun.

Ljósafell SU

Ljósafell kom inn í dag með tæp 110 tonn, 70 tonn ufsi, 20 tonn karfi, 15 tonn þorskur og annar afli.

Skipið fer út annað kvöld.

Fréttatilkynning – 11. maí 2021

Nýtt vinnslukerfi Loðnuvinnslunnar hf. (LVF) eykur framleiðslugetu um 70%.

Loðnuvinnslan og Skaginn 3X hafa undirritað samning um nýtt uppsjávarvinnslukerfi fyrir starfsemi fyrirtækisins á Fáskrúðsfirði.

Frá vinstri: Þorri Magnússon – framleiðslustjóri (LVF), Friðrik Mar Guðmundsson – framkvæmdastjóri (LVF), Ingvar Vilhjálmsson – svæðissölustjóri (Skaginn 3X), Steinþór Pétursson – skrifstofustjóri (LVF), Einar Brandsson – söluhönnuður (Skaginn 3X), Rúnar Björn Reynisson – vélahönnuður (Skaginn 3X).

Nýlega undirrituðu LVF og Skaginn 3X samning um nýtt vinnslukerfi LVF sem auka mun  sjálfvirkni og vinnslugetu. Stefnt er að því að auka afköst vinnslunnar í allt að 400 tonn á sólarhring sem er um 70% afkastaaukning frá því sem nú er. Nýja kerfið er hannað til að framleiða hágæða vöru á sem hagkvæmastan hátt.  

Frystihús LVF á Fáskrúðsfirði er sérhæft til vinnslu á uppsjávarfiski, loðnu, síld og makríl. Loðnan er heilfryst á markaði í Austur-Evrópu og Asíu en  einnig eru hrogn unnin fyrir sömu markaði.

 

Tímasetningin skiptir höfuðmáli

Þar sem  uppsjávarvinnsla er háð viðkvæmum ytri þáttum eins og árstíðabundinni auðlind er mikilvægt að ná að nýta hana á réttum tíma og með réttum aðferðum. Tæknilausnir Skagans 3X eru því hannaðar til að viðhalda gæðum vörunnar og ná með því hámarksafrakstri í vinnslu. Með þessum endurbótum verður fyrirtækið mun betur í stakk búið til þess að nýta auðlindina sem best á næstu vertíðum.

Náið samstarf

„Það skiptir miklu máli að geta unnið svona náið með hönnuðum Skagans 3X eins og við höfum gert í þessu verkefni,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri LVF. „Sérfræðiþekking þeirra og reynsla okkar hefur skilað sér í lausn sem mun bæði auka sjálfvirkni og bæta framleiðslugetuna í uppsjávarfrystingunni hjá okkur.“ 

Aukin afköst og meiri sjálfvirkni

Uppsjávarkerfin frá Skaganum 3X eru afar skilvirk og hefur tæknin þjónað nokkrum stærstu uppsjávarvinnslum í heimi. Nýja kerfið sem sett verður upp hjá LVF inniheldur pokakerfi, nýja plötufrysta sem fara afar vel með vöruna og sjálfvirkt brettakerfi. Búnaðurinn verður tengdur bæði vélum sem fyrir eru og nýjum búnaði frá öðrum framleiðendum, þar með töldum  þjörkum sem auka enn sjálfvirknina í frystihúsinu.

Sérfræðingar í heildarkerfum í uppsjávarvinnslu

Skaginn 3X hefur mikla reynslu í hönnun og uppsetningu á stórum heildarkerfum fyrir uppsjávarvinnslu. Það tók því ekki langan tíma fyrir þrjá sérfræðinga fyrirtækisins að hanna kerfið fyrir LVF. Þeir mættu austur, teiknuðu kerfið upp á staðnum og tæpum mánuði  seinna var samningur undirritaður.

Það tók þrjá sérfræðinga aðeins tæpan mánuð að skilgreina og hanna nýtt kerfi fyrir uppsjávarvinnslu LVF á Íslandi.

Vinna hratt til að mæta þörfum viðskiptavinarins

„Við gripum boltann og unnum hratt og vel með Fáskrúðsfirðingum. Við höfum sett upp kerfi hjá LVF áður og það er því ánægjulegt að geta unnið með þeim áfram og boðið lausnir sem henta þeirra þörfum,“ segir Ingvar Vilhjálmsson – svæðissölustjóri Skagans 3X „LVF teymið var mjög vel undirbúið þannig að það var auðvelt og fljótlegt fyrir okkur að hanna kerfið  “  

Ljósafell SU

Ljósafell kemur í dag með um  100 tonn af blönduðum afla.   50 tonn ufsi, 20 tonn karfi, 20 tonn þorskur og 10 tonn ýsa.

Skipið fer út að nýju kl. 21 annað kvöld.

Hoffell SU

Hoffell kom inn í morgun með 1.650 tonn af miðunum við Færeyjar.  Vel hefur gengið hjá Hoffelli að veiða kolmunnann og er skipið búið að veiða 13.000 tonn á þessu ári.

Hoffell fer út strax eftir löndun.

Met afköst í frystihúsinu

Í frystihúsi Loðnuvinnslunnar hefur lífið gengið umfram sinn vanagang, ef þannig er hægt að komast að orði um góðan árangur.  Á dögunum var slegið met í afköstum frystihússins þegar 230 tonn af fiski voru unnin á 42 klukkustundum.  Hafa aldrei jafn mörg tonn farið í gegn um vinnsluna á jafn skömmum tíma.

Þorri Magnússon framleiðslustjóri var sáttur við árangurinn og sagði þetta afar ánægjulegt og ekki síst vegna þess að innan þessara 42 klukkustunda hefði verið 4-5 klukkustunda bilun í vélbúnaði.  Sagði Þorri einnig að fyrst og fremst væri þetta starfsfólkinu að þakka. “Hér er hörkumannskapur” sagði hann og ítrekaði það aftur: “í fyrsta lagi hörku mannskapur, síðan bættur búnaður og gott hráefni er grundvöllurinn að þessu góða gengi” bætti hann við. 

Aflinn sem unnin er í frystihúsinu kemur af Ljósafelli, Sandfelli og Hafrafelli, auk þess sem að keyptur hefur verið afli af Sigurði Ólafssyni SF á Höfn. Sagði Þorri að jafnan þyrfti að kaupa hráefni á fiskmarkaði til viðbótar við það hráefni sem fley LVF koma með að landi, slík er orðin framleiðslugeta frystihússins. 

Sífelldar endurbætur eru í gangi í frystihúsinu, aukin tækni og búnaður sem gerir það að verkum að aukning í framleiðni er stöðug.  “Ég hef þá sýn að ekki séu ýkja mörg ár í að við tökum 10 þúsund tonn af bolfiski í gegn um húsið, það eru bara nokkur misseri í það” sagði Þorri þegar hann var inntur eftir framtíðarsýn. 

Þegar vel gengur og afköst eru mikil skilar það sér líka í launum starfsmanna, bónusinn ríkur upp og fólkið sem vinnur verkin fær aukin laun, svo ekki sé nú minnst á kökuna sem boðið var upp á í tilefni árangursins.  Gott er að launa gott með góðu.

BÓA

Kakan sem starfsfólki frystihússins var boðið upp á. Ljósmynd: Óðinn Magnason

Tróndur í Götu

Tróndur i Götu kom í morgun með 2.400 tonn af kolmunna til Fáskrúðsfjarðar.

Þrándur er eitt af flaggskipum Færeyja og er heimahöfn þess í Götu.

Ljósafell SU

Ljósafell er á landleið með rúm 100 tonn af blönduðum afla og verður kl 1 í nótt á Fáskrúðsfirði.

Aflinn er 45 tonn þorskur, 27 tonn ufsi, 22 tonn karfi, 6 tonn ýsa og annar afli.

Skipið fer út kl. 8 á þriðjudagsmorgun.

Línubátar

Frábær afli hjá Hafrafelli og Sandfelli í apríl samtals 555 tonn.

Hafrafell var með 284 tonn í 20 veiðiferðum og Sandfell með 271 tonn í 21 veiðiferð.