Ingólfur Hjaltason er fæddur og uppalinn á Fáskrúðsfirði.  Hann er einn af átta systkinum og hér í þessum firði hefur hann dvalið mestan part lífs síns og segir sjálfur að hann sé “heimaríkur  og mikill Fáskrúðsfirðingur”.  Hann sagðist líta á það sem forréttindi að geta unnið svona nálægt heimilinu og geta gengið í vinnuna.

Hann stundaði nám í vélvirkjun í Iðnskólanum á Neskaupsstað og Iðnskólanum Í Hafnarfirði og útskrifaðist þaðan. Ingólfur sagði það hafa verið hálfgerð tilviljun að hann hóf nám í vélvirkjun á sínum tíma en þannig hafi það verið að þegar hann var 19 ára gamall hafi Jón Erlingur (Guðmundsson, þá útgerðarstjóri Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga) komið að máli við sig og sagt rétt sí svona: “finnst þér nú ekki kominn tími til að hætta þessu rugli Ingólfur minn. Viltu ekki koma á samning í smiðjunni”?  Var Jón Erlingur þarna að vísa til lifnaðarhátta Ingólfs sem ungur maður.  Ingólfur skellti sér á samning hjá Alberti Kemp og þar með hófst starf hans hjá Kaupfélaginu og síðar Loðnuvinnslunni.   

“Mér hefur liðið vel hjá fyrirtækinu og velti því aldrei fyrir mér í neinni alvöru að flytja mig um set” segir Ingólfur og hlær við. 

En nú er komið að leikslokum, Ingólfur hefur hengt upp hattinn sinn eftir 47 ára starf.

En þessi 66 ára gamli maður er í góðu líkamlegu ásigkomulagi og gæti eflaust unnið einhverja áratugi til viðbótar hefði hann kært hann sig um. En af hverju að hætta og hvað tekur við? „Þetta var orðið gott og tímabært að yngri menn tækju við keflinu. Ég var orðin þreyttur á mikilli vinnu og vildi hætta á meðan ég hefði enn heilsu til að gera allt þetta skemmtilega, og nú ætla ég að einbeita mér að áhugamálum mínum“ svaraði Ingólfur.  En vinnan var skemmtileg, og ég hef verið svo lánsamur að vinna með góðum mönnum og lærlingarnir eru á bilinu 20 til 30 sem ég hef kennt og leiðbeint.  

Áhugamál Ingólfs eru mörg, eins og ræktun af ýmsu tagi eins og glögglega má sjá allt í kring um heimilið, blóm í öllum regnbogans litum sem Ingólfur fóstrar frá fræjum og laukum til blómstrandi plantna og tré sem mynda voldugan skjólgarð fyrir gróðurhúsið.  Þá hefur Ingólfur unun af útivist og hreyfingu hvers konar. Og á sínum yngri árum var hann liðtækur fótboltamaður og spilaði fótbolta með Leikni auk þess að spila t.d. í Færeyjum eitt sumar.  Þar að auki starfaði hann sem dómari í flestum deildum knattspyrnunnar í 30 ár.  Þegar hann setti skóna á hilluna og hætti að starfa sem dómari hlaut hann gullmerki KSÍ fyrir vel unnin störf við dómgæslu. Á heimasíðu KSÍ er þetta sagt um gullmerkið:  “Heiðursmerki þetta veitist aðeins þeim sem unnið hafa knattspyrnuíþróttinni langvarandi og þýðingamikil störf.” Svo þarna hlaut Ingólfur mikinn heiður og var vel að honum kominn.  

Þó svo að Ingólfur hlaupi ekki lengur á eftir bolta, þá er hann á sífelldri hreyfingu, hann gengur og hjólar og er búinn að fá sér kayak sem hann rær á. „Maður reynir að velja heilbrigt líferni til þess að teygja aðeins á þessu lífi“ segir Ingólfur og brosir.

Hann hefur líka gaman af því að ferðast, Kína, Bali, Kúba, Bahama eru meðal þeirra landa sem hann hefur heimsótt. Og honum þykir líka gaman að ferðast innanlands með hjólhýsið í eftirdragi. „En nú hef ég mikið meiri tíma til að ferðast heldur en Steina (eiginkona Ingólfs er Steinunn Elísdóttir) því hún er enn að vinna, ég sendi henni þá bara kort“  laumaði Ingólfur út úr sér og uppskar hlátur frá greinarhöfundi.  “Þá er alveg dásamlegt að fá barnabörnin í heimsókn” segir hann og fær þetta blik í augað sem afar og ömmur gjarnan fá þegar talið berst að barnabörnum.

Þegar greinarhöfundur leitaði Ingólf uppi til að eiga við hann stutt spjall  fannst hann upp í stiga að pússa þakskeggið, rykugur upp yfir haus en glaður og reifur og sagði: „það besta við að hætta að vinna er að ég get valið í hvað dagurinn fer“.  Og er það ekki einmitt málið, að reyna að vernda líf og heilsu svo að við getum öll, á einhverjum tímapunkti, valið hvað dagurinn fer í.

BÓA

Hjónin Ingólfur Hjaltason og Steinunn Björg Elísdóttir, harðir stuðningsmenn íslenska knattspyrnulandsliðsins
Bakgarðurinn hjá Ingólfi og allar fallegu pönturnar sem hann ræktar.