Götunes með íslandsmet í Kolmunnalöndun.

Gaman að segja frá því að færeyska uppsjávarskipið Götunes landaði samtals 3.431 tonni af Kolmunna í dag. Það hefur aldrei áður verið landað jafn miklum Kolmunna í einum farmi hér á landi og mætti því kalla það íslandsmet.

Mynd; Loðnuvinnslan.

Hoffell og Götunes með kolmunna.

Hoffell verður í dag með rúm 1600 tonn af kolmunna og síðan kemur Götunes í fyrramálið með rúm 3.000 tonn.  Góð veiði hefur verðið suður af Færeyjum undanfarið.

Mynd; Þorgeir Baldursson.

Ljósafell kom inn í dag með 90 tonn.

Ljósafell kom inn í dag með 90 tonn eftir stuttan túr.  Aflinn var 40 tonn Þorskur, 40 tonn Utsi, 5 tonn Karfi og annar afli.

Ljósafell fór út strax eftir löndun.

Hoffell er á landleið með fullfermi af kolmunna.

Hoffell er á landleið með fullfermi af Kolmunna eða rúm 1.600 tonn.  Veiðin gekk vel og var veiðisvæðið svokallað gráa svæði sunnan við Færeyjar sem er um 360 mílur frá Fáskrúðsfirði.

Skipið fer út strax eftir löndun.

Mynd; Þorgeir Baldursson.

Hafrafell og Sandfell.

Hafrafell og Sandfell með mestan afla það sem af er apríl 276 tonn. Hafrafell með140 tonn og Sandfell með 136 tonn.

Mynd; Þorgeir Baldursson.

Mynd; Þorgeir Baldursson.

Mynd; Þorgeir Baldursson.

Sæti SíðastNafnAfliLandanirMestHöfn
11Hafrafell SU 65139.81122.5Sandgerði, Grindavík
22Sandfell SU 75135.81119.4Sandgerði, Grindavík
33Kristján HF 100116.1920.7Sandgerði, Grindavík
45Vésteinn GK 88110.91016.4Keflavík, Grindavík, Sandgerði
56Auður Vésteins SU 88107.81119.3Sandgerði, Grindavík
64Tryggvi Eðvarðs SH 2105.6721.1Ólafsvík, Grindavík
78Gísli Súrsson GK 898.2916.6Sandgerði, Grindavík
812Indriði Kristins BA 75190.5722.5Sandgerði, Grindavík
99Háey I ÞH 29579.8525.3Grindavík
1011Kristinn HU 81274.2714.5Ólafsvík, Arnarstapi
1116Óli á Stað GK 9960.7713.1Grindavík
127Hamar SH 22460.1244.4Rif
1313Gullhólmi SH 20153.5422.5Rif, Grindavík
1415Hulda GK 1750.9710.3Sandgerði, Grindavík
1510Bíldsey SH 6548.1326.5Grindavík
1617Jónína Brynja ÍS 5547.2610.3Bolungarvík
1714Fríða Dagmar ÍS 10346.5514.5Bolungarvík
1818Vigur SF 8040.1412.0Hornafjörður
19Öðlingur SU 1937.767.1Djúpivogur
20Geirfugl GK 6632.9710.9Sandgerði, Grindavík
2119Einar Guðnason ÍS 30327.359.4Suðureyri
2221Stakkhamar SH 22025.4310.3Rif
2320Særif SH 2518.639.1Rif, Bolungarvík
24Eskey ÓF 8013.535.0Akranes
25Máni II ÁR 74.814.8Þorlákshöfn

Ljósafell á landleið með rúm 100 tonn.

Ljósafell er á landleið með fullfermi og kemur á Fáskrúðsfjörð í fyrramálið.

Aflinn er 53 tonn .Þorskur, 20 Ufsi, 15 tonn Karfi, 10 tonn Ýsa og annar afli.

Mynd; Kjartan Reynisson.

Frábær mars mánuður hjá Sandfelli og Hafrafelli.

Frábær mars mánuður þrátt fyrir vont veður, Sandfell og Hafrafell með samtals 476 tonn. Sandfell með 264 tonn og Hafrafell með 212 tonn.

Hér má sjá lista nr. 5 skv. aflafréttum.

SætiáðurNafnHeildarafliRóðrarMesti afliHöfn
11Sandfell SU 75263.72122.1Grindavík, Sandgerði
22Indriði Kristins BA 751230.71624.3Grindavík, Tálknafjörður, Akranes, Hafnarfjörður, Sandgerði
33Vésteinn GK 88217.71720.6Grindavík, Þorlákshöfn
44Hafrafell SU 65211.62121.8Grindavík, Sandgerði
56Tryggvi Eðvarðs SH 2205.51426.0Grindavík, Ólafsvík, Akranes, Hafnarfjörður, Sandgerði
65Kristján HF 100201.81919.5Grindavík, Sandgerði, Hafnarfjörður
77Auður Vésteins SU 88191.01919.7Grindavík, Sandgerði, Hafnarfjörður, Þorlákshöfn
89Gísli Súrsson GK 8156.11718.0Grindavík, Ólafsvík, Sandgerði, Þorlákshöfn
911Óli á Stað GK 99149.11614.4Grindavík, Sandgerði
1010Jónína Brynja ÍS 55148.81914.6Bolungarvík
118Hamar SH 224145.7641.6Rif
1213Fríða Dagmar ÍS 103139.71714.7Bolungarvík
1312Einar Guðnason ÍS 303124.81221.0Suðureyri
1414Kristinn HU 812122.41717.9Arnarstapi, Ólafsvík
1516Háey I ÞH 295116.41026.3Grindavík, Rif
1615Hulda GK 1796.51315.4Grindavík, Sandgerði
1717Særif SH 2588.41218.1Rif, Arnarstapi
1819Bíldsey SH 6584.6622.7Grindavík, Sandgerði
1918Stakkhamar SH 22072.2816.7Arnarstapi, Rif
2022Gullhólmi SH 20155.8518.3Grindavík, Rif, Sandgerði

Frysting á loðnu og tengdum afurðum

Töluverðar breytingar hafa verið gerðar á frystihúsi Loðnuvinnslunnar sem staðsett er húsi sem gengur undir nafninu Fram og er við Hafnargötu á Fáskrúðsfirði. Þar eru frystar afurðir af uppsjávarskipum eins og loðna, síld, makríll og síðast en ekki síst loðnuhrogn.

Komið hefur verið fyrir nýjum frystitækjum og húsið allt lagað og endurbætt.

Samkvæmt Þorra Magnússyni framleiðslustjóra var mikil og góð undirbúningsvinna á haustmánuðum til þess að allt gekk með miklum ágætum.

“Þegar við ýttum á græna takkann fór allt í gang” sagði Þorri og hrósaði á hásterti bæði iðnaðarmönnum sem og starfsfólki LVF og sagði að það hefði allt staðið sig með prýði.

Vinnsla á heilfrystri loðnu gekk vel og voru fryst 2.800 tonn.  Stór markaður fyrir heilfrysta loðnu hefur verið í Úkraníu, en eðli málsins samkvæmt hefur myndast skarð í þann markað. Vonandi er það tímabundið fyrir það góða fólk sem þar býr.

Þegar Þorri var spurður út í gengi á hrogna vinnslunni svaraði hann:

“Vinnsla á hrognum gekk hreint frábærlega bæði til sjós og lands og megum við vera stolt af okkar fólki þar bæði þjónustudeildum, vinnslufólki og sjómönnum sem gerði enn og aftur hreint frábæra hluti sem víða er tekið eftir”.

2.751 tonn af loðnuhrognum voru fryst hjá Loðnuvinnslunni og þykir það gott miðað við magn veiðiheimilda og sem hlutfall af heildarframleiðslu í landinu en sú framleiðsla var 11.200 tonn.

Hráefnið kom frá Hoffelli, auk 10.000 tonna af loðnu til hrognatöku frá þremur  skipum frá Götu í Færeyjum.

Um er að ræða mjög góða markaðsvöru enda þykja loðnuhrogn herramanns matur víða um heim.

Næst verður það makrílvertíð, og segir Þorri að undirbúningur hennar sé kominn á fullt skrið. “Við hlökkum bara til” sagði framleiðslustjórinn að lokum.

BÓA

Ingimar Óskarsson ráðinn sem verkstjóri í vélsmiðjunni.

Ingimar Óskarsson hefur verið ráðinn til starfa sem verkstjóri í vélsmiðju Loðnuvinnslunnar.

Ingimar hefur nú þegar starfað í vélsmiðjunni í u.þ.b. 10 ár þar sem hann hefur komið að viðgerðum, nýsmíði og viðhaldi tækja og þar af síðust 7 ár leyst Ingólf af þegar hann hefur farið í frí.  Síðustu ár hefur hann lagt stund á nám í vélvirkjun samhliða starfi.

Ingimar tekur við starfinu 1. júní nk.

Loðnuvinnslan óskar honum velfarnaðar í nýju starfi.

Skipstjórinn og snjósleðinn

Hjálmar Sigurjónsson er skipstjóri á Ljósafelli SU 70. En það er ekki það eina sem hann er. Hann er líka eiginmaður, faðir, afi, sonur, bróðir, vinur og einstaklingur sem hefur gaman af allskyns sporti og þar á meðal snjósleðasporti.  Hann hefur farið um allar koppagrundir á sleðanum sínum og er alls engin byrjandi í því sporti,  hér er vanur maður á ferð.

Þann 4.mars s.l, sem var föstudagur, var veður og skyggni með miklum ágætum. Ljósafellið hafði komið í land kl. 6 þennan morguninn og átti að fara út aftur eftir hádegi næsta dag. Svo hann hafði tíma og tækifæri til þess að skemmta sér svolítið. Hann kíkti inná á spjallþráð snjósleðaáhugafólk hér á Fáskrúðsfirði til að athuga hvort að einhver væri að fara í sleðaferð en á þeim tímapunkti var engin á þeim buxunum svo að hann ákvað að fara sjálfur á gamalkunnar slóðir. Hann skellti á sig hlífðarbúnaðinum, hlífar og hjálmur og allar græjur. Síðan ók Hjálmar sem leið lá upp á Engihjalla, kíkti niður í Gilsárdalinn og ók upp að Guðrúnarskörðum. Land var snævi þakið og hægt að aka snjósleðanum um allt. Færið var nokkuð gott, púðursnjór og harðnaður snjór sitt á hvað sem var gott fyrir sleðann hans Hjálmars því sá kælir sig með púðursnjónum sem hann skvettir undir sig. Þá datt Hjálmari í hug að athuga hvort að hann kæmist upp á Hoffell. Hann hafði farið þar upp oft áður, t.a.m. hafði hann farið upp á Hoffell fjórum sinnum í sömu vikunni fyrir einhverju síðan.  Leiðin sem sleðafólk velur upp á Hoffell er sú sama og göngufólk velur, upp Sauðdalinn sem gengur upp frá bænum Hólagerði og þar áfram upp Eyrarskarð.  Hjálmar valdi leiðina af kostgæfni. Hann stoppaði sleðann og tók stöðuna og mat það þannig að hann ætti að komast þessa leið. Það gekk vel framan af og hann var kominn nánast alla leið upp þegar gripið minnkaði og Hjálmar tók á það ráð að spóla hann niður því ferðin var of lítil til þess að geta snúið við með öruggum hætti.  „Þetta var nú leiðinlega bratt“ sagði Hjálmar þegar hann var að lýsa aðstæðum. Hann hóf að moka frá sleðanum með höndunum, því enga hafði hann skófluna, og fór síðan að bauka við að snúa sleðanum. „Ég ætlaði nú ekkert að taka séns með því að setjast á sleðann, svo ég hálf hékk í honum þegar ég var að mjaka honum af stað“ lýsti Hjálmar. Hann fann að sleðinn var að losna og ákveður að láta hann fara, reynir að stilla stýrið þannig af að sleðinn renni niður á sléttu sem var nokkuð fyrir neðan, sleðinn myndi stoppa þar, sem hann og gerði.

En þegar sleðinn var laus spyrnti Hjálmar sér frá  til þess að forðast það að lenda undir honum og „þá lendi ég á leiðinlegum stað, á harðfenni og missi þar fótanna og renn af stað“ sagði Hjálmar.  Hann segir frá því hvernig hann rennur stjórnlaust áfram, um 30 til 40 metra og lendir á klettanibbu sem stóð upp úr snjónum og þar brotnar á honum hægri fóturinn. En hann stöðvast ekki þar heldur rennur áfram á miklum hraða ca. 200 til 300 metra þar til hann stöðvast að lokum. Hjálmar vissi að hann var fótbrotinn, það fór ekkert á milli mála þegar hann lenti á klettinum. Þegar hann var loksins stopp sá hann að fóturinn var allur úr lagi genginn. „Hann snéri eiginlega öfugt og ég var alls ekki viss í hvora áttina ég átti að snúa honum til þess að hann væri réttur, en ég rambaði á það“ sagði Hjálmar, sem talar um slysið af mikilli yfirvegun og raunsæi. Til allrar hamingju var símasamband og síminn hans óskaddaður svo hann gat hringt í neyðarlínuna 112.  

„Ég var aðeins pirraður við konuna á neyðarlínunni. Hún sagði mér að hún gæti séð hvar síminn minn var staddur svo hún var með staðsetningu, en hún fór að vesenast með að fá nákvæma lýsingu á á staðháttum og svo framvegis. Svo ég sagði henni að segja björgunarfólkinu að ég væri á gönguleiðinni upp á Hoffell, þangað rötuðu þeir sem kæmu eftir mér“, svo bætti hann við:  „ég má bara ekki vera að þessu masi, ég þarf að fara að stoppa blæðingu“.  Blæðingin var allveruleg, því að fóturinn hékk aðeins saman á nokkrum tægjum af holdi, sinum og æðum. Hann var með snjóflóðavarnarpoka á bakinu og tók úr honum reimina og hnýtti henni fast utan um fótinn til að stöðva blæðinguna og beið svo eftir björguninni.  „Og var ekki hræðilega erfitt að bíða?“ spurði greinarhöfundur og því svaraði Hjálmar snarlega: „nei, nei, það var svo mikið að gera í símanum“. Sjúkraflutningafólk, björgunarsveitarfólk og göngumaður á ferð voru að fylgjast með og athuga með hann.  „Og þegar sjúkraflutningafólkið kom á staðinn var mér gefin sprauta sem gerði þetta allt bærilegra“ bætti Hjálmar við kíminn.

Á stundum eru örlög eða tilviljanir fólki hliðholl, jafnvel að því marki að skilja á milli lífs og dauða. Þennan örlagaríka dag í lífi Hjálmars skipstjóra var þyrla, sem er notuð í ferðaþjónustu, stödd á Eskifirði.  Hjálmar segir svo frá: „mér var sagt að flugmaðurinn hefði lenti á Mjóeyri á Eskifirði, kannski að fá sér  kaffi hjá Sævari Guðjónssyni, en  Sævar segir við flugmanninn að hann þurfi að skreppa á þyrlunni yfir á Fáskrúðsfjörð og bjarga slösuðum manni niður úr fjalli“.  Og flugmaðurinn gerði það. Þegar þyrlan kom á staðinn voru sjúkraflutningafólkið og björgunarsveitarfólkið að hlú að Hjálmari og koma honum og börur. Á meðan beið þyrlan. Þegar búið var að koma okkar manni fyrir í þyrlunni, sem er ekki hönnuð til þess að flytja sjúkrabörur og því var það nokkuð snúið að koma þeim fyrir ,  flaug  hún með Hjálmar niður að Hólagerði þar sem sjúkrabíll beið sem ók honum í veg fyrir sjúkraflug til Akureyrar.

Á sjúkrahúsinu hefur Hjálmar nú þegar farið í þrjár aðgerðir. Sú fyrsta var aðeins til þess að púsla fætinum saman, þ,.e holdi, sinum og æðum. Ákveðið var að bíða með að raða beinum saman þar til sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum kæmi eftir helgina. Þá fór fram aðgerð tvö sem var til þess að laga rammann sem settur var á fótinn í fyrstu aðgerðinni og hafði það hlutverk að stilla fótinn af.   Í aðgerð þrjú var fyrrnefndur rammi fjarlægður og beinin voru skrúfuð saman með allskonar járndóti, skrúfum, plötum og hólkum.  Þá þurfti  að taka beinflísar úr báðum mjöðmum til þess að nota í varahluti.  „Ég kalla þetta minniháttar tilfærslu á líkamspörtum“ sagði Hjálmar og bætti svo við „við þetta mausuðu doxarnir í fimm og hálfa klukkustund“.

Og nú tekur við bataferli. Það verður langt og strangt en Hjálmar er bjartsýnn og réttsýnn. Hann veit að það er heilmikil vinna framundan, fyrst að leyfa fætinum að gróa, síðan af þjálfa hann til brúks á ný.  Og læknar eru afar bjartsýnir á það að fóturinn geti orðið jafn góður aftur, sem er mikil mildi, því að Hjálmari er svo vel ljóst að það hefði getað farið svo miklu verr.  Og sannarlega er hann þakklátur, og ekki bara hann, heldur fjölskyldan hans líka. Hann var heimtur úr helju með aðstoð fólks sem telur ekki eftir sér að fara lengri eða skemmri leiðir til þess að hjálpa fólki. Það eru góðar manneskjur.

BÓA

Rauði hringurinn merkir staðinn þar sem óhappið átti sér stað.
Björgunarfólk komið á staðinn.
Verið að koma Hjálmari fyrir inn í þyrlunni.
Fóturinn sem brotnaði.

Fiskmjölsverksmiðjan

S.l haust sögðum við lesendum frá nýjum eimingartækjum í fiskmjölsverksmiðjunni. Eins og sagt var frá í þeirri grein þá hafa þau það hlutverk að eima upp soðið af fiskinum þannig að mjöl standi eftir. Er þessi útskýring á hlutverki þessara mikilvægu tækja sjálfsagt ekki fullnægjandi en verður látin duga hér.

Magnús Ásgrímsson er verksmiðjustjóri fiskmjölsverksmiðjunnar og aðspurður sagði hann að undangengin loðnuvertíð hefði gengið frábærlega og bætti því við að sennilega hefði aldrei gengið jafn snurðulaust að bræða á jafn langri vertíð.

„Og nýi eimingarbúnaðurinn er aldeilis búin að sanna ágæti sitt, það voru smá hnökrar í byrjun en eftir þá hnökra var það bara sæla“ sagði Magnús og var bara nokkuð sáttur.

Afar vel hefur gengið að framleiða mjöl og lýsi á undangenginni loðnuvertíð eða 6,867 tonn af mjöli og 3.259 tonn af lýsi. Er þetta yfir 80% af framleiddu magni síðasta árs. 

Gera má úr því skóna að starfsfólk fiskmjölsverksmiðjunnar sé þreytt eftir vel heppnaða loðnuvertíð þar sem met voru slegin. Og nú er bara að fara undirbúa næstu vertíð, yfirfara tæki og tól svo að allt verði reiðubúið og sælan fái áfram að vera allsráðandi í brjósti verksmiðjustjórans Magnúsar Ásgrímssonar.

 BÓA