Skipstjórinn á Slaatterøy
Norska uppsjávarskipið Slaatterøy kom með 1.600 tonn af kolmunna til bræðslu hjá Loðnuvinnslunni. Lagðist Slaatterøy að bryggju að kvöldi 18. febrúar og gert var ráð fyrir tæplega sólarhrings stoppi til þess að landa aflanum. Skipstjóri á þessu fallega rauða skipi er maður að nafni Asle Halstenssen, 46 ára gamall Norðmaður sem ólst upp við sjávarsíðuna og við fiskiskipaútgerð. Þegar greinarhöfundur kom að skipshlið kom í ljós að nokkuð klöngur yrði fyrir landkrabbann að komast um borð en Asle skipstjóri var ekki í neinum vandræðum með að koma í land. Fór spjall okkar því fram með fast land undir fótum.
Slaatterøy er skráð í Bergen en að sögn Asle eru það lög í Noregi að skip skulu skráð í borg þrátt fyrir að höfuðstöðvar og heimahöfn hafi alltaf verið á Austevoll sem er sveitarfélag suðvestur af Bergen og samanstendur af allmörgum eyjum. Samkvæmt upplýsingum um Austevoll á Internetinu. Er þar að finna eina af stærstu fiskiskipahöfnum í heimi.
Útgerð Slaatterøy er fjölskyldufyrirtæki. Asle er lítill hluthafi en faðir hans og frændi eru stærstu eigendur útgerðarinnar. Er Halstensen eldri enn í fullu starfi, á 74 aldursári, við að stjórna þessari blómlegu útgerð sem samanstendur af þremur uppsjávarveiðiskipum og einu stóru fjölveiðiskipi sem fullvinnur aflann um borð. Þegar greinarhöfundur hváði við að heyra aldurinn á manninum við stjórnartaumana svarið Asle “hann er hraustur og hefur frábæra konu sér við hlið sem sér um allt annað” og átti þar við móður sína, en greinilegt er að fyrirtækið er eigendum þess kært enda búið að vera í eigu fjölskyldunnar síðan það var stofnað árið 1897.
Slaatterøy þykir orðið frekar gamalt skip, byggt árið 1997, en Asle segir að það sé afbragðs gott skip í mjög góðu standi. Hann hafði líka orð á því að vélin í Slaatterøy væri önnur stærsta vélin í fiskiskipaflota Norðrmanna eða heil 9000 hestöfl. Asle sagðist geta sagt það sama og fyrri eigandi Slaatterøy, sem hafi keypt hana nýja til Hjaltlandseyja, hefði sagt þegar hann seldi hana til Noregs að hann vildi fá annað alveg eins skip, bara nýtt. Það hljóta að vera góð meðmæli með skipi, að vilja engu breyta.
Aðspurður um áhöfn sína sagði Asle að hann hefði frábæra áhöfn. “Við erum tíu um borð í einu og það er mjög góður andi hjá okkur, við skemmtum okkur oft svo vel saman að við grínumst með það að það sé ótrúlegt að við skulum fá borgað fyrir að vera saman” sagði skipstjórinn sáttur með sína menn. Ekki hafa verið miklar mannabreytingar meðal áhafnarinnar, þó að flestir meðlimir séu í yngri kantinum núna en algengt er að menn hafi verið á sama skipinu í 30 til 40 ár. Á Slaatterøy eru tvær áhafnir sem skiptast á að sækja sjóinn þannig að Asle er á sjó um 120 daga á ári. Hina 242 dagana er hann heima að vinna við útgerðina, sinna börnunum sínum fimm og njóta samvista við konu sína til 29 ára. Er hann var inntur eftir því hvort að hann væri liðtækur í eldamennsku og heimilisstörfum svaraði hann um hæl: “Að sjálfsögðu, ég á fimm börn á aldrinum 5 til 18 ára, það þarf að gefa þeim að borða” og svarinu fylgdi breytt bros. En þegar hann á frí og vill gera eitthvað sjálfum sér til ánægju og yndisauka þá tekur hann veiðistöngina sína, hellir kaffi á brúsa og fer til silungaveiða og hefur með eitthvað af börnum sínum. “Hvernig stendur á því að þú kemur með afla sem þið veidduð 220 mílum vestur af Írlandi alla leið til Íslands?” “Allur afli er boðinn upp í gegn um norsk sölusamtök og skipin sigla þangað sem kaupandinn er og ég er mjög sáttur að koma með aflann til Fáskrúðsfjarðar, hér er tekið afar vel á móti okkur, við erum boðnir velkomnir með köku, sem áhöfnin kann vel að meta og okkur er hrósað fyrir gott hráefni” sagði Asle skipstjóri.
Miðin vestur af Írlandi þangað sem kolmunninn er sóttur er alþjóðlegt hafsvæði og þar mega veiða þau skip sem hafa til þess kvóta. En þetta er strembið svæði til að veiða á þessum tíma árs. Veður geta verið vond og ölduhæð mikil, “en þetta er vinnan” sagði Asle “ hún getur verið stressandi og því er svo mikilvægt að um borð sé gott samfélag. Við hugsum vel hver um annan ” bætti skipstjórinn geðþekki Asle Halstensen við og það þykja greinarhöfundi góð lokaorð. Þá var ekki annað eftir en að taka í hönd skipstjórans og óska sægörpunum á Slaatterøy gæfu og gengis.
BÓA

Mjölskip
Nú er verið að lesta Wilson Malm með 1300 tonnum af mjöli til Noregs.

Tækin tekin í notkun
Hoffell kom til hafnar á dögunum með fullfermi af kolmunna sem var landað beint til bræðslu. Við aflanum tók nýtt innmötunarkerfi ásamt nýjum forsjóðara og sjóðara. Greinarhöfundi lék forvitni á að vita hvernig nýju tækin hefðu reynst, en þessi afli er sá fyrsti sem fer í gegn um fiskmjölsverksmiðjuna síðan nýju tækin voru sett upp. Þorgeir Einar Sigurðsson vaktstjóri varð fyrir svörum og sagði að tækin hefðu virkað afar vel. “Kerfið er komið upp og virkar fullkomlega, en hluti af stýringum eru ekki tilbúnar” sagði Þorgreir og bætti við til skýringar að mikil endurnýjun á rafmagni væri undangengin og yfirstandandi í verksmiðjunni þannig að allt væri þetta í ferli. Svo þyrfti líka að stilla og græja, og þar inni tíminn með þeim. Eru þessar breytingar, sem orðið hafa á tækjabúnaði bræðslunnar, liður í endurnýjun og tæknivæðingu þessarar 23 ára gömlu verksmiðu. Markmiðið með tæknivæðingu verksmiðju af þessu tagi er að gera allt skilvirkara, það opnar möguleika á aukin afköst og aukna framleiðslu, auk orkusparnaðar, sem er afar mikilvægur þáttur í dag, því forsjóðarnir nota orku sem annars færi óbeisluð út.
Þar sem áður þurfti að snúa lokum og opna krana er nú framkvæmt með tölvumús auk þess sem að eftirlitsmyndavélakerfi gefur starfsmönnum kost á að fylgjast með mikilvægum stöðum í verksmiðjunni án þess að standa yfir þeim, eru dæmi um þær breytingar sem fylgja aukinni tækni. Og svo dregur það úr álagi á starfsfólk vegna hávaða þar sem minni tíma þarf að verja innan um tækin þegar þau eru á fullri keyrslu.
Þegar Þorgeir var spurður að því hvort að fiskmjölsverksmiðjan væri þá gengin í gegn um þær breytingar sem nauðsynlegar væru svaraði hann kankvís “Það er alltaf eitthvað í spilunum”. Hvað það verður kemur í ljós í fyllingu tímans.
BÓA



Slatteroy
Norski báturinn Slatteroy er væntanlegur til Fáskrúðsfjarðar í kvöld með um 1.600 tonn af kolmunna.

Ljósafell
Ljósafell kom inn í gær með fullfermi, rúm 100 tonn. Uppistaða aflans er þorskur, 75 og ýsa 20 tonn. Nú er verið að landa úr skipinu og verður brottför í næstu veiðiferð í kvöld, mánudaginn 18. febrúar kl 20:00.

Fyrsti kolmunninn
Hoffell SU 80 hefur verið á kolmunnaveiðum á alþjóðlegu hafsvæði vestur af Írlandi undanfarna daga. Skipið er nú lagt af stað með fullfermi áleiðis heim á Fáskrúðsfjörð. Þetta verður væntanlega fyrsta kolmunnalöndun ársins meðal íslenskra skipa. Siglingin er löng, 680 mílur og skipið því ekki væntanlegt fyrr en á föstudag.

Ljósafell
Ljósafell er nú að landa um 80 tonnum. Uppistaða aflans er þorskur. Skipið heldur aftur til veiða á morgunn, þriðjudaginn 12. febrúar kl 13:00.

„Hér eigum við heima“
Nú þegar landið er klætt snjó þá virðast dagarnir bjartari og jafnvel ofurlítið lengri en ella. Auðvitað er hluti skýringarinnar sú að sólin hækkar sig á lofti og lætur geisla sína smjúga inn um glugga og dyr og skellir jafnvel mjúkum kossi á vanga barna í sleðabrekkum, en hvíta mjöllin á sinn þátt í birtunni. Við aðstæður sem þessar er gott að heimsækja skemmtilegt fólk, drekka kaffi og spjalla um daginn og veginn. Að þessu sinni sótti greinarhöfundur heim heiðurshjónin Sigurjón Jónsson og Margréti Jensínu Magnúsdóttur.
Sigurjón er verkstjóri í frystihúsi Loðnuvinnslunnar, en hann réð sig til starfa s.l. sumar og þau hjónin fluttu í bæinn 17.júní, á sjálfan þjóðhátíðardaginn og þann 18. byrjaði Sigurjón að vinna.
Margrét og Sigurjón störfuðu áður í flugstöð Leifs Eiríkssonar og þeim leiddist báðum í störfum sínum og voru tilbúin að breyta til þegar tækifærið um að flytjast búferlum á Fáskrúðsfjörð bankaði á dyrnar og skemmst er frá því að segja að þau gripu þetta tækifæri fegnis hendi og búa nú ásamt tveimur litlum hundum í Búðaþorpi og una hag sínum vel.
Ekki stenst nú greinarhöfundur mátið að spyrja hvernig þeim líki að vera hér og svarið var afdráttarlaust.
“Við vissum nú alveg að hverju við vorum að ganga” sagði Sigurjón, “við dvöldum hér sumarlangt árið 1984 og þá vann ég á Pólarsíld” bætti hann við. Þá voru þau hjónin sammála um að það auðveldaði alla aðlögun á nýjum stað að þekkja eitthvað fólk og það gerðu þau svo sannarlega, gamlir vinnufélagar frá Pólarsíld eru núna jafnvel vinnufélagar hjá LVF. Það auðveldar oft lífið að geta heilsað uppá gamla kunningja um leið og maður eignast nýja. “Og ég vissi alveg að það væri mikið að gera, en hafði nú ekki grun um að annirnar yrðu eins miklar og raun ber vitni” sagði Sigurjón brosandi og sagði líka frá því að honum hefði svolítið fallist hendur þegar hann kom inní frystihúsið og sá hvað það var tæknilegt og mikið af vélum og tækum sem hann hafði ekki reynslu af, en sagði að það hefði að sjálfsögðu allt lærst og í dag líkaði sér vinnan afar vel.
Sigurjón er ættaður úr Hafnarnesi. Móðir hans er Jóhanna Ingigerður Sigurjónsdóttir sem var uppalin í Hafnarnesi, þannig að segja má að í einhverjum skilningi sé Sigurjón kominn aftur til rótanna þó svo að hann sjálfur sé fæddur og uppalinn í Sandgerði. En hér liggja rætur forfeðra hans og hér á hann ættingja.
Svo skemmtilega vill til að Margrét á ættir að rekja hingað á Fáskrúðsfjörð líka. Amma hennar og alnafna, Margrét Jensína Magnúsdóttir var fædd hér og uppalinn en fór ung norður í land en Margrét yngri er líka fædd og uppalin í Sandgerði.
“Við erum jafnaldrar og vorum saman í bekk í Grunnskóla. Húsin sem við ólumst upp í voru í sitthvorri götunni en þannig staðsett að það sást á milli þeira, svo að óhætt er að segja að við séum búin að vera samferða allt lífið” segja þau hjónin og líta ástúðlega hvort til annars. Margét og Sigurjón rugluðu saman reitum þegar þau voru 17 ára gömul og eiga sjö börn á aldrinum 25 til 43 ára. Barnabörnin eru orðin 10. þannig að þau eiga stóra fjölskyldu og þrátt fyrir að vegalengdin á milli þeirra sé töluverð eru samskiptin mikil því með allir þeirri tækni, sem boðið er uppá í nútíma samfélagi er auðvelt að sjá og heyra í fólkinu sínu hvar sem það er niðurkomið.
Margét hóf stöf sem skólaliði í Grunnskólanum á Fáskrúðsfirði og segir það frábæra leið til að komast inní samfélag. Þar kynnist hún nemendum sem og öðru starfsfólki skólans og líkar henni mjög vel í vinnunni. Svo er Margrét líka jógakennari og hefur boðið uppá jógatíma hér í Búðaþorpi sem hafa verið vel sóttir. “Svo er ég líka Aerial jógakennari” sagði Margrét um leið og hún útskýrði fyrir greinarhöfndi tilgang heljarmikillar blárrar slæðu sem hékk niður úr loftinu á heimili þeirra hjóna. Aerial jóga er sem sagt líkamsæfingar sem gerðar eru með hjálp slæðunnar bláu og fékk greinarhöfundur litla sýningu á notkun slæðunnar í áðurnefndu jóga og niðurstaðan er sú að Margrét er afar fim kona og hægt er að þjálfa líkamann á fjölbreytilegan hátt kunni menn til verka.
Svo er Margrét líka svæðanuddari og hefur leigt sér aðstöðu til þess að sinna því. ´”Ég hef farið á allskonar nuddnámskeið og tek líka að mér partanudd eins og axlir, höfuð og þess háttar, en ég er aðallega í svæðanuddinu” segir Margrét og segir að það sé nokkuð að gera hjá henni þar líka.
Þau hjónin hafa greinilega nóg fyrir stafni þannig að spurningin sem situr eftir er sú hvort að það sé einhver tími fyrir tómstundir? Sigurjón er frímúrari og hefur komið sér í samband við félaga sína hér fyrir austan. “Ég er líka Bridge spilari, en hef ekki gefið mér tíma til að fara að spila ennþá, en ég veit hvar og hvenær er verið að spila þegar tækifærið gefst” segir Sigurjón. Margrét gekk í kirkjukórinn og syngur þar sjálfri sér og öðrum til ánægju. Og svo þurfa þau auðvitað að sinna hundunum sínum sem eru fallegir litlir hnoðrar sem eiga erfitt með að fóta sig úti í snjónum.
Þau Margrét og Sigurjón eru ánægð á Fáskrúðsfirði, þau segja að allstaðar hafi verið vel tekið á móti þeim og þeim líði vel. “Við eigum heima hér” segja þau og það eru frábær lokaorð því að þau fela í sér vellíðan og öryggi. Við bjóðum þau velkomin.
BÓA

Ljósafell
Ljósafell er nú að landa um 55 tonnum. Uppistaðan er þorskur. Skipið heldur aftur á veiðar í dag að löndun lokinni.

Ljósafell
Ljósafell kom inn í gærmorgunn með rúm 100 tonn. Uppistaða aflans er ýsa, um 48 tonn, þorskur 23 tonn og karfi 23 tonn. Byrjað var að landa í morgunn og er brottför kl 18:00 í dag, mánudaginn 4. febrúar.

Sandfell SU 75
Sandfell er nú á landleið með um 12 tonn í þessum síðasta róðri janúar. Mánuðurinn hefur verið mjög góður og verður tæp 270 tonn í 25 róðrum. Það er magnað að geta stundað róðra svo stíft yfir harðasta veturinn. Og þó, kallarnir um borð eru líka harðir jaxlar.

Ljósafell

Ljósafell landaði á þriðjudag og var aflinn um 92 tonn. Uppistaðan var þorskur 60 tonn og ufsi 20 tonn. Skipið hélt aftur til veiða í gær kl 17:00.