Aðalfundur Kaupfélagsins

Aðalfundur KFFB var haldinn í Wathnesjóhúsinu þann 16. júní 2020.  Hagnaður árið 2019 var  1.726 millj.  Eigið fé KFFB var 9.004 millj. sem er 99.8% af niðurstöðu efnahagsreiknings.  Stærsta einstaka eign félagsins er 83% eignarhlutur í Loðnuvinnslunni hf.
Í stjórn KFFB eru Steinn Jónasson stjórnarformaður, Elvar Óskarsson, Högni Páll Harðarson, Arnfríður Eide Hafþórsdóttir og Óskar Guðmundsson. 
Varamenn Elsa Sigrún Elísdóttir, Jóna Björg Jónsdóttir og Ólafur Níels Eiríksson.

Félagsmenn fjölmenntu á fundinn og fór hann fram með hefðbundnu sniði eftir samþykktum Kaupfélagsins. Eru þær samþykktir byggðar á lögum samvinnufélaga og er í framkvæmd það sem kallað er fulltrúalýðræði. Þ.e. félagsmenn kjós sér fulltrúa til að fara með atkvæði á aðalfundi. Stjórnarformaður Steinn Jónasson fór yfir starfsemi félagsins og Friðrik Mar Guðmundsson fór yfir reikningana.

BÓA

Lvf veitir myndarlega styrki

Aðalfundur Loðnuvinnslunnar var haldinn í Wathnesjóhúsinu þann 16.júní 2020. Var síðasta ár afar gott hjá fyrirtækinu en hagnaður þess var rúmlega 2 milljarðar króna og er það mesti hagnaður sem Loðnuvinnslan hefur skilað frá stofnun.  Og þegar vel gengur vill Lvf gjarnan að samfélagið fá að njóta afrakstursins og veitti á fundinum 18,8 milljónir í styrki til nokkurra félagasamtaka. Samanlagt afhentu Kaupfélagið og Loðnuvinnslan styrki að upphæð 22,4 milljón króna.

Knattspyrnudeild Leiknis fékk 11 milljónir í styrk. Magnús Ásgrímsson formaður knattspyrnudeildar tók á móti styrknum og þakkaði hann Loðnuvinnslunni kærlega fyrir dyggan stuðning í geng um árin. Meistaraflokkur knattspyrnudeildar Leiknis leikur í 1.deild þetta sumarið og kallar það á mikil ferðalög milli landshluta sem kosta peninga. Sagði Magnús að Lvf væri helsti og besti stuðningsaðili knattspyrnudeildar og án þessa sterka baklands yrði rekstur deildarinnar illmögulegur.

Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar fékk 6 milljónir í styrk til sinnar starfssemi. Smári Einarsson tók við styrknum fyrir þeirra hönd. Fer peningurinn til ferðar eða uppákomu til handa starfsfólki og er liður í þeirri viðleitni að þakka þeirra góðu störf.

Björgunarsveitin Geisli fékk 1 milljón króna. Grétar Helgi Geirsson formaður Geisla  tók við styrknum fyrir þeirra hönd. Þakkaði hann vel fyrir styrkin og sagði hann mikilvægan í starfsemi björgunarsveitarinnar sem hefur lagt út í mikin kostnað við að eignast og viðhalda björgunarbátnum Hafdísi og þá hefur björgunarsveitin einnig fest kaup á svokölluðum “rescue runner”, sem eru einskonar sjóþotur, sem reynast afar vel við björgun og leitir.

Þá fékk Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar 800.000 krónur í styrk til þess að kaupa stoðtæki fyrir tölvur, búnaður sem er mikilvægur fyrir nemendur þegar þeir læra forritun og við hina ýmsu tölvuvinnslu. Nútíma námsefni. Eygló Aðalsteinsdóttir skólastjóri tók á móti styrknum og þakkaði fyrir þennan góða stuðning sem nýtast mun nemendum til framtíðar.

BÓA

Frá vinstri: Elvar Óskarsson stjórnarformaður, Magnús Ásgrímsson, Smári Einarsson, Grétar Helgi Geirsson og Eygló Aðalsteinsdóttir.

Aðalfundur Loðnuvinnslunnar

Aðalfundur Loðnuvinnslunnar h/f var haldinn í Wathnesjóhúsinu þann 16. júní 2020.  Hagnaður af rekstri félagsins eftir skatta árið 2019 var 2.067 millj á móti 700 millj árið 2018.  Tekjur LVF voru 12.816 millj sem er 8% aukning frá fyrra ári. Tekjur að frádregnum eigin afla voru 10.447 millj. Veltufé frá rekstri var 2.678 millj á móti 1.533 millj. 2018.  Eigið fé félagsins í árslok 2019 var 9.918 millj. sem er 52% af niðurstöðu efnahagsreiknings.  Stærsti hluthafinn er Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga með 83% eignarhlut.  Afkoma félagsins var mjög góð og er 2019 besta ár í sögu félagsins þrátt fyrir loðnubrest.  Allar deildir félagsins gengu vel.
Samþykkt var að greiða 20% arð til hluthafa eða 140 millj.

Stjórn LVF er þannig skipuð Elvar Óskarsson stjórnarformaður, Steinn Jónasson, Högni Páll Harðarsson, Arnfríður Eide Hafþórsdóttir og Elsa Sigrún Elísdóttir.
Varamenn Jónína Guðrún Óskarsdóttir og Jóna Björg Jónsdóttir.

Fundurinn var allvel sóttur og greinagóð skýrsla stjórnarformanns um starfssemi síðasta árs var upplýsandi og fræðandi. Þar kom Elvar inná allar þær uppbyggingar og endurnýjanir í tækjum og búnaði sem fjárfest hefur verið í og sömuleiðis  leit hann svolítið til framtíðar, talaði um hvaða áætlanir stjórnin hefur til næstu ára. Ef allt gengur að vonum þá er verður hin bjarta nútíð Loðnuvinnslunnar að enn bjartari framtíð.

Friðrik Mar Guðmundsson framkvæmdastjóri fór yfir reikningana og fjallaði í stuttu máli um afla skipa og báta í rekstri fyrirtækisins, vinnsluna í landi, sölu afurða og fleira sem kemur að rekstrinum og skilar þeirri niðurstöðu sem talin er hér að ofan.

Að fundi loknum var öllum fundargestum boðið í mat á veitingastaðnum L´Abri.

BÓA

Afrek í frystihúsinu

Óhætt er að segja að afrek hafi verið unnin á hinum ýmsu sviðum á síðast liðnum vikum og mánuðum.  Afrek þessi eru ýmist stór eða smá, og færa má rök fyrir því að öll afrek séu mikilvæg þó mismikið sé.

Í frystihúsi Lvf hafa afrek verið unnin. Í fyrsta lagi sú staðreynd að frystihúsið hélt sinni starfsemi gangandi í gegn um Covid með öllum þeim takmörkunum og reglum sem þá voru í gildi.  Og i öðru lagi var sett þar framleiðsumet á dögunum.

Þorri Magnússon er framleiðsustjóri Loðnuvinnslunar og aðspurður svaraði hann því til að búið væri að aflétta nokkrum af þeim reglum sem tóku gildi í Covid en aðrar væru enn við lýði. “Það er búið að aflétta vaktaskiptum, nú starfa allir á sama tíma, en það eru enn strangar umgengisreglur” sagði Þorri og bætti því við að óneitanlega saknaði hann heimsókna fyrrum starfmanna og vina frystihússins en nú væru breyttir tímar.  “Okkar markmið var frá upphafi að gæta að öryggi starfsmanna, tryggja atvinnuöryggi og tryggja afhendingaöryggi á þeim vörum sem við framleiðum” bætti hann við, en frystihúsið framleiðir fisk sem fólk um allan heim neytir og er hlekkur í þeirri keðju sem við mannfólkið treysum á til að skaffa okkur mat. “Allt var þetta gerlegt vegna þess hve starfsfólk frystihússins var tilbúið til þess að leggja sitt af mörkum og með samstilltu átaki var þetta gert” sagði Þorri.

Framleiðslustjórinn þakkaði líka starfsfólkinu fyrir þess hlut í þeirri staðreynd að á 5 dögum fóru 200 tonn í gegn um frystihúsið og er það mesti afli sem unnin hefur verið á einni vinnuviku. Unnið var í 8 klst á dag og sami fjöldi af fólki.  “Tæknibreytingarnar sem orðið hafa í frystihúsinu á sl. 3-5 árum gera okkur þetta kleift auk framúrskarandi starfsfólks” sagði Þorri og bætti því við að þetta væri 100%  aukning síðan fyrir tæknibreytingu. “Þessar miklu breytingar sem orðið hafa á tækjakosti gerir það að verkum að árangurinn verður meiri í öllum skilningi. Við framleiðum meira magn á styttri tíma , við framleiðum verðmætari vöru í þeim skilningi að hún er  “tilbúin á disk” þ.e. okkar kaupendur þurfa aðeins að pakka vörunni í þær umbúið sem þeir kjósa, og laun starfsmanna hækka”.  Því með aukinni framleiðslu  hækkar bónusinn og þar með laun. “Það er sama hvar gripið er niður, starfsfólkið sem vinnur við framleiðsluna eða tæknimenn, þetta er allt afburða mannskapur” sagði Þorri Magnússon framleiðslustjóri að lokum.

BÓA

Úr vinnslusal frystihússins

Ljósafell SU

Ljósafell kom inn s.l. föstudag fyrir sjómannadag, með um 100 tonn eftir stuttan túr.  Aflinn var 50 tonn þorskur, 40 tonn ufsi og annar afli.

Kolmunnalandanir

Um liðna helgi bárust Loðnuvinnslunni hf um 3900 tonn af kolmunna. Arctic Voyager kom s.l. föstudagskvöld með um 1900 tonn og á laugardag kom svo Gitte Henning með um 2000 tonn.

Loðnuvinnslan hefur hlotið jafnlaunavottun

Á dögunum hlaut Loðnuvinnslan jafnlaunavottun. En það mikill áfangi hjá fyrirtæki að hljóta slíka vottun og til þess að fá frekari upplýsingar hafði greinarhöfundur samband við Ragnheiði Ingibjörgu Elmarsdóttur mannauðs- og öryggisstjóra Loðnuvinnslunar. Lá beinast við að spyrja Ragnheiði að því hvað jafnlaunavottun væri? “Fyrirtæki fær jafnlaunavottun þegar það uppfyllir kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST:85 2012 og kröfur laga um jafna stöðu og rétt kvenna og karla. Markmiðið er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði” svaraði Ragnheiður. 

En það er ekki hrist fram úr erminni að hljóta slíka vottun, það þarf að undirbúa vel og fara yfir öll launamál og er þetta ferli búið að taka u.þ.b. eitt ár þar sem ferlið hófst síðast liðið sumar. Faggildur vottunaraðili þarf síðan að fara yfir málin og taka út jafnlaunakerfið og í tilfelli Loðnuvinnslunnar var það BSÍ á Íslandi sem sá um þá vinnu.

Ragnheiður sagði að með þessari vinnu hefði Lvf tileinkað sér nýtt verklag á ýmsum sviðum sem nýtast munu til framtíðar. “Svo förum við í reglulegar jafnlaunaúttektir til að viðhalda þeim árangri sem  náðst hefur” bætti hún við.

En hvaða þýðingu hefur það fyrir Loðnuvinnsluna að hljóta slíka vottun? “Það er gott fyrir starfsfólk Loðnuvinnslunnar að vita að unnið sé eftir ákveðnu verklagi sem tryggir að launaákvarðanir byggi á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.Í því felst ákveðið öryggi fyrir starfsfólk að vita að fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf eru greidd jöfn laun” svaraði Ragnheiður og bætti við að Loðnuvinnslan væri afar stolt af því að vera komin með heimild til þess að nota jafnlaunamerkið.

Að sjálfsögðu er einungis þeim fyrirtækjum sem gengið hafa í gegn um úttekt og hlotið vottun heimilt að nota jafnlaunamerki og er það ákveðin gæðastimpill fyrir hvert það fyrirtæki sem það hefur.

BÓA

Hoffell í slipp

Hoffell er komið í slipp í Þórshöfn í Færeyjum. Var það tekið upp þriðjudaginn 2.júní og framundan er hefðbundin málningarslippur, þ.e botn og síður hreinsaðar og málaðar auk annarar málningarvinnu. Þá verður skipið öxuldregið, gert við lensilagnir ásamt fleiri verkum sem gott er að vinna við þegar skipið er á þurru landi. Þá verður hafin undirbúningsvinna vegna skipta á kælikerfi en sú aðgerð verður framkvæmd í áföngum. Samkvæmt áætlun átti umrædd undirbúningsvinna að fara fram í apríl s.l. en frestaðist vegna Covid 19.Þegar Hoffell kom til Færeyja fóru frændur okkar, Færeyingar, fram á að taka sýni úr mannskapnum til að skima eftir kórónaveirunni og þrátt fyrir að áhöfnin hefði farið í slíka skimun áður en þeir fóru utan og með vottorð uppá það, vildu þarlend yfirvöld taka sýni líka. Aldrei of varlega farið.“Það þykir nú ekki alltaf eftirsóknarvert að vera neikvæður, en í þessu samhengi er það sannarlega” sagði Kjartan Reynisson útgerðarstjóri, staddur í Færeyjum með tvö vottorð um heilbrigði uppá vasann.

BÓA

Hoffell í slipp í Færeyjum

Tummas T

Færeyska skipið Tummas T kom til Fáskrúðsfjarðar í gær, mánudag með tæp 1200 tonn af kolmunna.

Ljósafell SU

Ljósafell kom að landi síðastliðinn sunnudag, Hvítasunnudag með um 100 tonn eftir aðeins 3 daga á veiðum. Alfinn er 40 tonn þorskur, 30 tonn ufsi, 25 tonn karfi og annar afli.

Línubátar

Veiði hjá línubátunum hefur gengið þokkalega það sem af er maí. Sandfell er á landleið til Stöðvarfjarðar í dag með 15 tonn eftir tvær lagnir. Hafrafell er sömuleiðis á landleið, en til Neskaupstaðar með rúm 17 tonn eftir tvær lagnir. Það sem af er mánuði hefur Sandfell þá landað 255 tonnum og Hafrafell 232 tonnum.