Síðdegis í dag, þriðjudaginn 28.apríl, kom Hoffell að landi með tæplega 1700 tonn af kolmunna. Með þessum kolmunna afla er Hoffell komið í 10.000 tonn og er eins og sakir standa aflahæst uppsjávarveiðiskipa þrátt fyrir að vera burðarminna en flest hinna skipanna á miðunum.  Sigurður Bjarnason skipstjóri á Hoffelli sagði að aflinn hefði fengist suður af Færeyjum en þangað er um 30 klukkustunda sigling frá heimahöfn á Fáskrúðsfirði. “Við fengum þetta í fjórum hollum” sagði skipstjórinn og hafði orð á því að eftir erfiðan vetur, svona veðurfarslega séð, hefði verið mikil blíða á miðunum og töluverð veiði.  Þá lá beinast við að inna Sigurð eftir því hvort að nóg væri af kolmunna? “Já, en það vantar aðeins neista” svaraði hann og bætti svo við “hann kemur bráðum”. Og þar talar maðurinn með reynsluna.

Þegar skipstjórinn var svo spurður að því hver ástæðan væri fyrir þessari velgengi svaraði hann um hæl að því væri að þakka stífri sjósókn, góðri áhöfn og heppni.

Hoffell á eftir að veiða 8000 tonn af kolmunna og reiknar Sigurður með að það muni taka svona 5 túra ef allt gengur samkvæmt áætlun. “ Ég er mjög bjartsýnn, við förum út strax að lokinni löndun. Það þarf að taka á meðan er því fiskurinn bíður ekki” sagði Sigurður skipstjóri að lokum.

BÓA

Kjartan Reynisson útgerðarstjóri færir áhöfninni köku. Ljósmynd Friðrik Mar Guðmundsson

Kakan var skreytt með mynd af Hoffelli. Ljósmynd Friðrik Mar Guðmundsson

Hoffell á siglingu í Fáskrúðsfirði í dag. Ljósmynd Óðinn Magnason.