Friðrik Mar hefur ákveðið að láta af störfum hjá Kaupfélagi Fáskrúðsfirðinga og Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði.

Tilkynning frá stjórn Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga og stjórn Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði. 

Friðrik Mar Guðmunds­son, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga og framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, hefur ákveðið að láta af störfum með haustinu eftir 19 ára starf hjá félögunum, þar af sem framkvæmdastjóri undanfarin 10 ár. 

Rekstur Loðnuvinnslunnar hefur gengið vel undir stjórn Friðriks. Eigið fé félagsins hefur fimmfaldast síðustu 9 ár, farið úr 3 milljörðum í 15 milljarða, og hefur hagnaður verið samtals 13 milljarðar. 

Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga á 83% hlut í Loðnuvinnslunni og 350 af 750 íbúum bæjarins eru félagar í Kaupfélaginu. Ákvarðanir um starfsemi Loðnuvinnslunnar eru ávallt teknar með það fyrir augum að þær gagnist heimabyggð og eignarhaldið gerir það nær ómögulegt að selja fiskveiðiheimildir í hagnaðarskyni frá byggðarlaginu.

Nokkuð er síðan Friðrik tók þessa ákvörðun og tilkynnti hana stjórnarformönnum Loðnuvinnslunnar og Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga. Stjórnir fyrirtækjanna hafa fundað um málið og þakka Friðriki kærlega fyrir störf sín. Friðrik mun áfram starfa hjá fyrirtækjunum fram á haustið meðan leitað verður að eftirmanni hans.

 

Hoffell á landleið með 2.300 tonn.

Hoffell er á landleið með 2.300 tonn af Kolmunna og verður um miðnætti annað kvöld.

Ágæt veiði er á miðunum.

Skipið fer strax út eftir löndun.

Fiskmjölsverksmiðjan

Nóg hefur verið að gera hjá starfsmönnum Fiskmjölsverksmiðju Loðnuvinnslunnar.  Það sem af er ári hefur Loðnuvinnslan tekið á móti 43.000 tonnum af loðnu, kolmunna og síld. Á ný aflokinni loðnuvertíð tók LVF á móti 37.000 tonnum af loðnu. Hoffell Su 80 landaði 11.500 tonnum en hinn aflinn kom frá norskum og færeyskum skipum sem lönduðu hér á Búðum.  28.000 tonn af þessum afla fór í bræðslu þar sem unnið er úr hráefninu mjöl og lýsi.

Við sögðum frá því í desember s.l þegar nýr þurrkari var settur upp í verksmiðjunni.  Nú eru þar þrír þurrkarar sem hafa haft nóg fyrir stafni við að þurrka allan þann afla sem farið hefur í gegn um verksmiðjuna.

Magnús Ásgrímsson er verksmiðjustjóri Fiskmjölsverksmiðjunnar og var snöggur til svars þegar hann var inntur eftir því hvernig loðnuvertíðin hefði gengið í bræðslunni: „Djöfull vel“.  Hann sagði líka að nýi búnaðurinn hefði staðið allar væntingar og reynst afar vel.

Magnús sagði að framan af vertíð hefði mikill hluti aflans farið í flokkun og frystingu og þá hefði verið skaplegt að gera hjá starfsmönnum verksmiðjunnar, en síðan hefði allt farið á fullt þegar farið var að „kútta“ , þ.e. þegar loðnan er skorin og fleytt í gegn um þar til gerða skilvindu þar sem hrognin fljóta frá og restin af fiskinum fer í bræðslu. „Þá var svo mikið að gera að við gátum ekki stoppað tækin til þess að líta yfir þau og hreinsa, en þau stóðu þetta allt af sér, sem og mannskapurinn sem hefur unnið mikið þessa dagana“.  30.000 tonn af loðnu voru skorin í hrogn á þessari vertíð á móti 15.000 tonnum í fyrra sem segir sína sögu um annríkið og verðmætsköpunina sem átt hefur sér stað hjá Loðnuvinnslunni undan farnar vikur.

Fannfergið sem við Austfirðingar fengum í lok mars mánaðar og asa hlákan í kjölfarið situr í okkur þannig að veðrið verður okkur enn tamara umræðuefni en oft áður. 

Þegar Magnús var spurður hvort að veður hefði gert starfsfólki verksmiðjunnar lífið leitt við störf sín svaraði hann því til að  í fyrstu vikunni  hefði verið mjög gott veður, síðan fór að kólna sem varð að hörkufrosti síðan kom snjórinn sem gerði starfsfólki verksmiðjunnar erfitt fyrir eins og öðrum. „Sérstaklega þegar við þurfum að koma mjölsekkjum á milli húsa“ sagði Magnús.

Mjöl og lýsi er mikilvæg afurð sem notuð er í dýrafóður.

BÓA

Vel heppnuð loðnuvertíð

Það er ekki alltaf tap að vera síðastur, og sú staðreynd sannaðist þegar Hoffell  SU 80 kom úr síðasta loðnutúrnum. Skipið kom í heimahöfn þann 25.mars,  seinast allra skipa af miðunum með 1800 tonn af loðnu í hrognatöku. Þá hefur Hoffell náð öllum sínum kvóta eða 11.500 tonnum, og úr þeim hafa náðst 2000 tonn af hrognum og er það einsdæmi að svo mikið magni af hrognum hafi fengist úr afla eins skips.

Sigurður Bjarnason skipstjóri á Hoffelli var að vonum ánægður með vertíðina. „Við náðum öllum okkar kvóta og það var frábært“ sagði hann og hafði orð á því að veðrið á miðunum hefði verið afar hagstætt. Engin bræla að spilla fyrir veiðum.  Og í ljósi þess að Hoffell hóf sínar loðnuveiðar frekar seint, eða í lok febrúar, þá verður árangurinn stærri.

Vertíðir af þessu tagi kalla á heilmikið úthald og þá er mikilvægt að hafa góðan mannskap til að vinna verkin og Sigurður skipstjóri er mjög sáttur við sína menn. „Þetta er hörkuáhöfn og stendur sig alltaf vel“ sagði hann.

Næsta verkefni Hoffells er að fara á kolmunna veiðar.

BÓA

default

Verðmæt afurð

Á árum áður var gjarnan talað um bjargræðistíma þegar annríki var mikið við að færa björg í bú hvort heldur var til sjávar eða sveita.  Í sjávarútvegi kemur annríkið með vertíðunum sem skipa sér hver á eftir annarri eftir því sem fiskar af hinum ýmsu tegundum synda inn og út af veiðisvæðum. Einum slíkum annríkistíma er rétt lokið hjá Loðnuvinnslunni og er það loðnuvertíðin.  Met voru slegin og markmiðum náð og er það ávallt fagnaðarefni.

Loðnuvinnslan tók á móti 37.000 tonnum af loðnu. 28.000 tonn fóru í bræðslu, 3700 tonn voru heilfryst á markaði í Asíu og Úkraníu og 5300 tonn af hrognum var unnið úr þessum afla og er LVF stærsti einstaki framleiðandi hrogna á Íslandi.

Loðnuhrogn eru afar verðmæt afurð og því skiptir miklu máli að meðhöndla þau af fagmennsku svo að úr verði vara sem er eftirsótt um heim allan.

Þorri Magnússon er framleiðslustjóri Loðnuvinnslunnar og sér til þess að öll framleiðsla á þessum verðmætu matvælum fari fram eins og til er ætlast.

Er Þorri var spurður að því hvernig vertíðin hefði gengið svaraði hann:

„Það er fátt hægt að segja annað en að starfsmenn til sjávar og lands unnu þrekvirki á þessari vertíð eins og oft áður, stoðdeildir og verktakar tryggðu að allt gekk smurt. Það unnu allir að einu markmiði að gera mikið og það tókst“.

Þorri vildi líka þakka þeim er héldu opnum götum í þorpinu, því að undan farið hefur verið mikið fannfergi á Austfjörðum,  sem síðan varð að heilmiklum krapa svo að færð innan þorpsins spilltist mjög auðveldlega.  „Þeir eiga skilið þakkir fyrir frábært starf“ sagði Þorri og hinn almenni borgari hér á Búðum getur tekið heilshugar undir það.

Nýja frystikerfi í Fram stóð allar væntingar og sagði Þorri að „ýtt hefði verið á græna takkann í upphafi vertíðar og þann rauða við lok, hreint frábær búnaður“.

En það eru ekki aðeins vélar og búnaður sem stóðu sig vel því mannshöndin og mannhugurinn þarf að vera til staðar líka og vel við hæfi að enda á orðum Þorra framleiðslustjóra sem sagði stoltur: „Það er eins og áður við erum með frábæran mannauð“.

BÓA

Loðna

Loðnuvertíð

Ævintýraleg vertíð á enda

Í lok síðustu viku lögðu starfsmenn Loðnuvinnslunnar lokahönd á að vinna um 37.000 tonn af loðnu. Af þessu voru fryst 5.300 tonn af hrognum, 3.700 tonn heilfryst, sem fer til Asíu og Úkraníu og 28.000 tonn til bræðslu. Það má með sanni segja að þetta hafi verið ævintýraleg vertíð sem er sú stærsta í sögu félagsins.

Þann 24. febrúar s.l. tilkynnti Haf­rann­sóknastofn­un um að ráðlagður há­marks­afli yrði 459.800 tonn, sem var 184 þúsund tonn­um meira en gert var ráð fyr­ir í fyrri ráðgjöf. Ermar voru svo sannarlega uppbrettar en við þetta fóru þær upp að öxlum og allt lagt að mörkum til að ná þeim kvóta sem fyrirtækið fékk úthlutað.

Það var allt með okkur sem gerði það að verkum að þetta náðist. Veðurfarið var með eindæmum gott og hægt var að nýta hvern einasta dag. Enn og aftur sannaðist það að starfsfólk Loðnuvinnslunnar er með eindæmum frábært og það hefur sýnt mikla seiglu í gegnum það mikla álag sem skapaðist á vertíðinni. Starfsfólk, bæði til sjós og lands, á því mikið hrós og miklar þakkir skilið fyrir að hafa látið þetta allt ganga upp.

Vertíðarlokum ber að fagna og var það gert í félagsheimilinu Skrúði um helgina þar sem Loðnuvinnslan bauð starfsfólki upp á mat og drykk. Hinn frábæri trúbador Sigursveinn Þór Árnason, eða Svenni, hélt uppi stuðinu fram á nótt. Svenni er heldur betur tengdur tónlistarbransanum en hann er ekki bara kvæntur Regínu Ósk Óskarsdóttur, söngkonu, heldur er hann einnig söngvari hljómsveitarinnar “Nýju fötin keisarans”, sem áður hét “Í svörtum fötum”. Einnig tók heimamærin Tinna Hrönn Smáradóttir nokkur lög með honum. Fögnuðurinn fór vel fram og allir virtust skemmta sér konunglega.

Loðnuvinnslan vill enn og aftur þakka starfsfólki sínu fyrir vel unnin störf.

Í matsal frystihússins. Verið að fagna áfanga í vinnslunni.
Í kaffistofu bræðslunnar. Verið að fagna áfanga.
Friðrik Mar Guðmundsson að ávarpa gesti á lokahófi vertíðarinnar.
Veitingar voru nægar og afar glæsilegar.
Sigursveinn Þór Árnason og Tinna Hrönn Smáradóttir að taka lagið.

Hoffell á landleið með tæp 1.800 tonn af Loðnu.

Hoffell er á landleið með tæp 1.800 tonn af Loðnu til hrognatöku.  Loðnuveiði er væntanlega lokið og kvóti íslenskra skipa að mestu búinn.

Hoffell náði öllum sínum kvóta 11.500 tonnum og allt hefur farið í hrognatöku. 

Næst verður haldið til kolmunnaveiða við Færeyjar um 10. apríl.

Mynd: Valgeir Mar Friðriksson.