Það er ekki alltaf tap að vera síðastur, og sú staðreynd sannaðist þegar Hoffell  SU 80 kom úr síðasta loðnutúrnum. Skipið kom í heimahöfn þann 25.mars,  seinast allra skipa af miðunum með 1800 tonn af loðnu í hrognatöku. Þá hefur Hoffell náð öllum sínum kvóta eða 11.500 tonnum, og úr þeim hafa náðst 2000 tonn af hrognum og er það einsdæmi að svo mikið magni af hrognum hafi fengist úr afla eins skips.

Sigurður Bjarnason skipstjóri á Hoffelli var að vonum ánægður með vertíðina. „Við náðum öllum okkar kvóta og það var frábært“ sagði hann og hafði orð á því að veðrið á miðunum hefði verið afar hagstætt. Engin bræla að spilla fyrir veiðum.  Og í ljósi þess að Hoffell hóf sínar loðnuveiðar frekar seint, eða í lok febrúar, þá verður árangurinn stærri.

Vertíðir af þessu tagi kalla á heilmikið úthald og þá er mikilvægt að hafa góðan mannskap til að vinna verkin og Sigurður skipstjóri er mjög sáttur við sína menn. „Þetta er hörkuáhöfn og stendur sig alltaf vel“ sagði hann.

Næsta verkefni Hoffells er að fara á kolmunna veiðar.

BÓA

default