Ævintýraleg vertíð á enda
Í lok síðustu viku lögðu starfsmenn Loðnuvinnslunnar lokahönd á að vinna um 37.000 tonn af loðnu. Af þessu voru fryst 5.300 tonn af hrognum, 3.700 tonn heilfryst, sem fer til Asíu og Úkraníu og 28.000 tonn til bræðslu. Það má með sanni segja að þetta hafi verið ævintýraleg vertíð sem er sú stærsta í sögu félagsins.
Þann 24. febrúar s.l. tilkynnti Hafrannsóknastofnun um að ráðlagður hámarksafli yrði 459.800 tonn, sem var 184 þúsund tonnum meira en gert var ráð fyrir í fyrri ráðgjöf. Ermar voru svo sannarlega uppbrettar en við þetta fóru þær upp að öxlum og allt lagt að mörkum til að ná þeim kvóta sem fyrirtækið fékk úthlutað.
Það var allt með okkur sem gerði það að verkum að þetta náðist. Veðurfarið var með eindæmum gott og hægt var að nýta hvern einasta dag. Enn og aftur sannaðist það að starfsfólk Loðnuvinnslunnar er með eindæmum frábært og það hefur sýnt mikla seiglu í gegnum það mikla álag sem skapaðist á vertíðinni. Starfsfólk, bæði til sjós og lands, á því mikið hrós og miklar þakkir skilið fyrir að hafa látið þetta allt ganga upp.
Vertíðarlokum ber að fagna og var það gert í félagsheimilinu Skrúði um helgina þar sem Loðnuvinnslan bauð starfsfólki upp á mat og drykk. Hinn frábæri trúbador Sigursveinn Þór Árnason, eða Svenni, hélt uppi stuðinu fram á nótt. Svenni er heldur betur tengdur tónlistarbransanum en hann er ekki bara kvæntur Regínu Ósk Óskarsdóttur, söngkonu, heldur er hann einnig söngvari hljómsveitarinnar “Nýju fötin keisarans”, sem áður hét “Í svörtum fötum”. Einnig tók heimamærin Tinna Hrönn Smáradóttir nokkur lög með honum. Fögnuðurinn fór vel fram og allir virtust skemmta sér konunglega.
Loðnuvinnslan vill enn og aftur þakka starfsfólki sínu fyrir vel unnin störf.