Kolmunnalandanir

Um liðna helgi bárust Loðnuvinnslunni hf um 3900 tonn af kolmunna. Arctic Voyager kom s.l. föstudagskvöld með um 1900 tonn og á laugardag kom svo Gitte Henning með um 2000 tonn.

Loðnuvinnslan hefur hlotið jafnlaunavottun

Á dögunum hlaut Loðnuvinnslan jafnlaunavottun. En það mikill áfangi hjá fyrirtæki að hljóta slíka vottun og til þess að fá frekari upplýsingar hafði greinarhöfundur samband við Ragnheiði Ingibjörgu Elmarsdóttur mannauðs- og öryggisstjóra Loðnuvinnslunar. Lá beinast við að spyrja Ragnheiði að því hvað jafnlaunavottun væri? “Fyrirtæki fær jafnlaunavottun þegar það uppfyllir kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST:85 2012 og kröfur laga um jafna stöðu og rétt kvenna og karla. Markmiðið er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði” svaraði Ragnheiður. 

En það er ekki hrist fram úr erminni að hljóta slíka vottun, það þarf að undirbúa vel og fara yfir öll launamál og er þetta ferli búið að taka u.þ.b. eitt ár þar sem ferlið hófst síðast liðið sumar. Faggildur vottunaraðili þarf síðan að fara yfir málin og taka út jafnlaunakerfið og í tilfelli Loðnuvinnslunnar var það BSÍ á Íslandi sem sá um þá vinnu.

Ragnheiður sagði að með þessari vinnu hefði Lvf tileinkað sér nýtt verklag á ýmsum sviðum sem nýtast munu til framtíðar. “Svo förum við í reglulegar jafnlaunaúttektir til að viðhalda þeim árangri sem  náðst hefur” bætti hún við.

En hvaða þýðingu hefur það fyrir Loðnuvinnsluna að hljóta slíka vottun? “Það er gott fyrir starfsfólk Loðnuvinnslunnar að vita að unnið sé eftir ákveðnu verklagi sem tryggir að launaákvarðanir byggi á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.Í því felst ákveðið öryggi fyrir starfsfólk að vita að fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf eru greidd jöfn laun” svaraði Ragnheiður og bætti við að Loðnuvinnslan væri afar stolt af því að vera komin með heimild til þess að nota jafnlaunamerkið.

Að sjálfsögðu er einungis þeim fyrirtækjum sem gengið hafa í gegn um úttekt og hlotið vottun heimilt að nota jafnlaunamerki og er það ákveðin gæðastimpill fyrir hvert það fyrirtæki sem það hefur.

BÓA

Hoffell í slipp

Hoffell er komið í slipp í Þórshöfn í Færeyjum. Var það tekið upp þriðjudaginn 2.júní og framundan er hefðbundin málningarslippur, þ.e botn og síður hreinsaðar og málaðar auk annarar málningarvinnu. Þá verður skipið öxuldregið, gert við lensilagnir ásamt fleiri verkum sem gott er að vinna við þegar skipið er á þurru landi. Þá verður hafin undirbúningsvinna vegna skipta á kælikerfi en sú aðgerð verður framkvæmd í áföngum. Samkvæmt áætlun átti umrædd undirbúningsvinna að fara fram í apríl s.l. en frestaðist vegna Covid 19.Þegar Hoffell kom til Færeyja fóru frændur okkar, Færeyingar, fram á að taka sýni úr mannskapnum til að skima eftir kórónaveirunni og þrátt fyrir að áhöfnin hefði farið í slíka skimun áður en þeir fóru utan og með vottorð uppá það, vildu þarlend yfirvöld taka sýni líka. Aldrei of varlega farið.“Það þykir nú ekki alltaf eftirsóknarvert að vera neikvæður, en í þessu samhengi er það sannarlega” sagði Kjartan Reynisson útgerðarstjóri, staddur í Færeyjum með tvö vottorð um heilbrigði uppá vasann.

BÓA

Hoffell í slipp í Færeyjum

Tummas T

Færeyska skipið Tummas T kom til Fáskrúðsfjarðar í gær, mánudag með tæp 1200 tonn af kolmunna.

Ljósafell SU

Ljósafell kom að landi síðastliðinn sunnudag, Hvítasunnudag með um 100 tonn eftir aðeins 3 daga á veiðum. Alfinn er 40 tonn þorskur, 30 tonn ufsi, 25 tonn karfi og annar afli.

Línubátar

Veiði hjá línubátunum hefur gengið þokkalega það sem af er maí. Sandfell er á landleið til Stöðvarfjarðar í dag með 15 tonn eftir tvær lagnir. Hafrafell er sömuleiðis á landleið, en til Neskaupstaðar með rúm 17 tonn eftir tvær lagnir. Það sem af er mánuði hefur Sandfell þá landað 255 tonnum og Hafrafell 232 tonnum.

Ljósafell

Ljósafell landaði á mánudaginn 25. maí rúmlega 106 tonnum og var uppistaðan þorskur og ufsi. Skipið er svo komið aftur inn í dag 28. maí með um 60 tonn af þorski. Skipið heldur aftur til veiða að löndun lokinni.

Hoffell

Hoffell er nú að landa um 1200 tonnum af kolmunna. Skipið heldur að löndun lokinn til Færeyja þar sem skipið verður í slipp næstu vikurnar.

Gitte Henning

Færeyska uppsjávarskipið Gitte Henning kemur í kvöld með 2.700 tonn af kolmunna til bræðslu.  Skipið er byggt 2018 og er mjög vel útbúið. Útgerðin frá Götu í Færeyjum keypti skipið frá Danmörku í fyrra. Sama útgerð er einnig eigandi af Finni Frida, Þrándi í Götu og Tummas T.  

Átta skip frá Færeyjum hafa landað á síðustu tveimur mánuðum á Fáskrúðsfirði tæpum 20.000 tonnum af kolmunna.  Með afla Hoffells hefur verksmiðja Loðnuvinnslunnar tekið á móti 33.000 tonnum.  

Ljósafell SU

Ljósafell kom inn í morgun með tæp 80 tonn eftir rúma tvo sólarhringa á veiðum.

Aflinn er um 40 tonn ufsi, 20 tonn karfi, 15 tonn þorskur og annar afli.

Hafrafell og Sandfell

Það sem liðið er af maí hefur veiði bátana Sandfells og Hafrafells verið mjög góð. Hafa þeir landað samtals um 300 tonnum á fyrstu 16 dögunum. Sandfell hefur landað um 160 tonnum og Hafrafell um 140 tonnum.