Mjölskip að lesta

Um síðustu helgi lestuðu tvö skip mjöl hjá Loðnuvinnslunni hf.

m/s Wilson Goole lestaði 1200 tonn,og

m/s Myrtun lestaði einnig 1200 tonn.

Christian að landa

Færeyska skipið Christian í Grotinum er nú að landa fullfermi af kolmunna 1.900 tonn í verksmiðju Loðnuvinnslunnar hf.

Sigling á sjómannadag

Á sjómannadaginn hélt séra Þórey Guðmundsdóttir guðsþjónustu um borð í Hoffelli, en að henni lokinni fóru skip Loðnuvinnslunnar hf. í siglingu um fjörðinn. Að vanda mætti fjöldi fólks, og var gestum boðið uppá kók og prinspóló.

Fótboltabúningar gefnir Leikni

Mánudaginn 26. maí s.l. afhenti Gísli Jónatansson f.h. LVF og KFFB, knattspyrnudeild Leiknis, fótboltabúninga að gjöf frá fyrirtækjunum.

Það var Magnús Ásgrímsson, formaður knattspyrnudeildar Leiknis, sem veitti búningunum viðtöku að viðstöddum nokkrum félögum í Leikni, sem brugðu sér í nýju búningana af þessu tilefni.

Á myndinni eru f.v. Magnús Ásgrímsson, Ingimar Guðmundsson, Björgvin Stefán Pétursson, Inga Sæbjörg Magnúsdóttir, Margrét Jóna Þórarinsdóttir og Gísli Jónatansson.

Góð kolmunnaveiði.

Kolmunninn er farinn að veiðast inn í íslensku landhelginni. Hoffell fyllti sig á aðeins einum sólarhring 100 sjómílur NA af Fáskrúðsfriði. Eru innan við tveir sólarhringar síðan skipið fór frá Fáskrúðsfirði.

Síldarlandanir

Fyrstu síldinni úr norsk-íslenska stofninum var landað í gær. Hoffell landaði tæpum 600 tonnum af síld í gær (sjá skipafréttir). Ingunn AK landaði í nótt rúmmum 1800 tonnum af síld. Síldin veiddist 600 til 700 mílur norður í hafi.

Uppgjör LVF 1. ársfj. 2003













Hagnaður Loðnuvinnslunnar h/f kr. 72 millj. á fyrsta ársfjórungi.





Hagnaður af rekstri Loðnuvinnslunnar h/f á Fáskrúðsfirði á fyrsta ársfjórungi 2003 varð kr. 72 millj. eftir skatta.


Rekstrartekjur félagsins að frádregnum eigin afla voru kr. 678 millj., en rekstrargjöld kr. 562 millj. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam kr. 117 millj., sem er 17% af tekjum og veltufé frá rekstri var kr. 103 millj. eða 15% af veltu. Afskriftir voru kr. 76 millj., en fjármagnsliðir voru jákvæðir um kr. 44 millj. fyrst og fremst vegna styrkingar íslensku krónunnar.


Eigið fé félagsins var í lok tímabilsins kr. 1.432 millj., sem er 46% af niðurstöðu efnahagsreiknings og hafði eigið fé félagsins hækkað um kr. 90 millj. frá áramótum. Nettóskuldir Loðnuvinnslunnar í lok tímabilsins voru kr. 1.105 milljónir.


Töluverður tekjusamdráttur varð á fyrsta ársfjórðungi m.a. vegna áhrifa gengisbreytinga og mun minni loðnuafla til fiskimjölsverksmiðjunnar, en hún tók á móti 27 þús. tonnum á vertíðinni, en 48 þús. tonnum á vetrarvertíð 2002.


Það sem af er árinu (18. maí) hefur verksmiðjan samt sem áður tekið á móti 52 þús. tonnum af hráefni, sem er sama magn og á þessum tíma árið 2002, því til viðbótar loðnunni hefur verksmiðjan tekið á móti 25 þús. tonnum af kolmunna í vor.

Kolmunna löndun

Krunborg landaði í gær 2400 tonnum af kolmunna. Og er þá búið að taka á móti 25000 tonnum af kolmunna, en á sama tíma í fyrra var búið að taka á móti 4000 tonnum.

Júpiter að landa

Færeyski báturinn Júpiter landaði 240 tonnum af Kolmunna í dag og tók vistir og aðrar nauðsynjar til að fara á síld norður í haf. Lítil Kolmunna veiði hefur verið síðustu daga og eru mörg skipanna farin að síld. Júpiter er útbúinn bæði fyrir nót og troll.

Kolmunna landað hjá Loðnuvinnslunni hf

Færeyska skipið Tróndur í Götu kom til hafnar á Fáskrúðsfirði í dag með 2600 tonn af kolmunna. Aflinn fer í bræðslu hjá Loðnuvinnslunni, en um 7500 tonn af kolmunna eru komin á land hjá fyrirtækinu nú í vor.



Skoska skipið Cris Andrea landaði fyrsta kolmunnanum 19. mars s.l. en fjögur erlend skip hafa landað kolmunna hjá Loðnuvinnslunni nú í vor, skosku skipin Cris Andera og Taits og færeysku skipin Kronborg og Tróndur í Götu.



Á myndinni er Tróndur í Götu að leggjast að bryggju á Fáskrúðsfirði í dag. Mynd: Eiríkur Ólafsson

Tróndur að landa

Færeyska skipið Tróndur í Götu er nú að landa hjá Loðnuvinnslunni hf. fullfermi af kolmunna um 2600 tonn.

30 ár frá komu b/v Ljósafells

Hinn 31. maí 2003 voru liðin 30 ár frá því að b/v. Ljósafell SU 70 kom til heimahafnar á Fáskrúðsfirði. Af því tilefni bauð stjórn Lonuvinnslunnar hf áhöfn Ljósafells og mökum, ásamt nokkrum fleiri gestum alls um 50 manns, til samsætis að Hótel Bjargi föstudagskvöldið 30. maí. Nokkur ávörp voru flutt og sagði Hjalti Kristjánsson fyrsti matsveinn á Ljósafelli ferðasögu þeirra sem lögðu upp frá Fáskrúðsfirði 27. mars 1973 áleiðis til Japans að sækja Ljósafell. Skipið lagði af stað frá Japan 8. apríl og kom til Fáskrúðsfjarðar 31. maí. Á þessu 30 ára tímabili hefur Ljósafell verið hið mesta happafley, aflað 105 þús. tonn af bolfiski, sem á verðlagi dagsins í dag gæti numið um 10 milljörðum króna í aflaverðmæti. Það er því ljóst að ekkert skip sem gert hefur verið út frá Fáskrúðsfirði hefur skapað jafn mikil verðmæti og orðið þessu litla samfélagi til eins mikilla heilla og Ljósafell. Skipstjórar hafa verið þrír. Guðmundur Ísleifur Gíslason 1973-1980, Albert Stefánsson 1981-1994 og Ólafur Gunnarsson frá 1995. Þeir sem sigldu með skipinu heim frá Japan voru: Guðmundur Ísleifur Gíslason skipstjóri, Pétur Jóhannsson 1. stýrimaður, Haraldur Benediktsson 2. stýrimaður, Gunnar Ingvarsson 1. vélstjóri, Rafn Valgeirsson 2. vélstjóri, Hjalti Kristjánsson matsveinn, Gunnar Geirsson háseti og Jón Erlingur Guðmundsson útgerðarstjóri.