Hoffell SU

Hoffell kom í land í morgun með tæp 1.300 tonn af kolmunna af miðunum sunnan við Færeyjar.  350 mílur voru af miðunum á Fáskrúðsfjörð.

Skipið stoppaði 4 sólarhringa á miðunum.

Nú tekur við jólafrí fram yfir áramót.

Hoffell SU

Hoffell er á landleið með 1550 tonn af kolmunna af miðunum sunnar við Færeyjar,  en það tók aðeins 4 daga að ná aflanum.  Skipið verður í landi seinnipartinn á dag  Farið verður aftur út að lokinni löndun og freistað þess að ná öðrum túr í næstu viku.

Gæðastjóri Loðnuvinnslunnar

Maður er nefndur Stefán Hrafnkelsson og er hann nýráðinn gæðastjóri hjá Loðnuvinnslunni. Stefán er fæddur 1968, sveitadrengur að upplagi, alinn upp í Fljótsdalnum þar sem foreldrar hans stunduðu búskap fram til ársins 1986 þegar þau fluttu til Reyðarfjarðar.

Hugur Stefáns leitaði til náms og dró sú leit hann til Danmerkur þar sem hann útskrifaðist sem mjólkurfræðingur og framleiðslutæknifræðingur á matvælasviði.  “Ég útskrifaðist árið 2007 og hef ekki komið inní mjólkurstöð síðan” sagði Stefán og bætti því við að þau hjónin hefðu ákveðið eftir langa fjarveru að flytja aftur “heim” þegar konu hans, Önnu Berg Samúelsdóttur, bauðst starf hjá Fjarðabyggð. “Ég var mjög sáttur við að koma aftur austur, ég er óttalegur sveitamaður inn við beinið” bætti Stefán við og sagðist kunna betur við sig í fámenninu. Er austur kom fór Stefán  til starfa í Álverinu og hefur verið þar sáttur starfsmaður þar til hann ákvað að sækja um starf gæðastjóra hjá LVF. Í því starfi getur hann nýtt menntun sína og ekki er að heyra betur en hann sé spenntur fyrir framtíðinni í nýja starfinu.

Er Stefán var inntur eftir því hvað fælist í starfi gæðastjóra svaraði hann því til að það væri “hafsjór af öllu mögulegu, eins og eftirlit með góðum starfsháttum, rakningu á vörum frá framleiðslu til neytanda, skjalavarsla, sýnataka og ótalmargt fleira”.  

En lífið er ekki bara vinna, mannfólk þarf líka að hafa tíma og tækifæri til þess að stunda áhugmál sín og rækta fjölskyldu og Stefán gerir hvoru tveggja. Hann, ásamt konu sinni, stundar hestamennsku af kappi. “Við vorum að byggja okkur hesthús, það er nánast fullbúið og vel fer um hestana okkar þar” sagði hann og svo er hann afi. Í lífi Stefáns eru tveir uppkomnir synir og ein lítil afastúlka sem á greinilega stórt pláss í hjarta afa því rödd hans fékk á sig bjartari blæ þegar hann talaði um stúlkuna.

Stefán hefur verið í starfi gæðastjóra í rúman mánuð og er ánægður. “Það var tekið gríðarlega vel á móti mér og mér mætti ekkert nema góðvild. Þetta leggst mjög vel í mig” sagði geðþekki gæðastjórinn Stefán Hrafkelsson að lokum.

Við óskum honum velfarnaðar og bjóðum hann hjartanlega velkominn til starfa.

BÓA

Stefán Hrafnkelsson

Ljósafell SU

Ljósafell kom inn dag með 75 tonn. Þar af voru 60 tonn þorskur, 7 tonn ýsa og annar afli.

Brottför er kl. 13 á morgun.

Hoffell SU

Hoffell kom í land í morgun með um 450 tonn af síld og öðru afla.
Í gærkvöldi var komin bræla fyrir vestan land og verður í nokkra daga.
Aflinn fer í söltun.  Þegar búið er að landa verður haldið á kolmunnaveiðar austan við Færeyjar.

Ljósafell SU

Ljósafell kom í land í morgun með 80 tonn, þar af 70 tonn þorskur, 6 tonn ýsa og annar afli.

Skipið fer út aftur þegar veðrið gengur niður.

Aflabrögð í nóvember

Það sem liðið er af nóvembermánuði hefur fiskast vel hjá bátunum Hafrafelli og Sandfelli, þrátt fyrir rysjótt veður. Bátarnir er búnir að veiða samtals um 237 tonn.  Hafrafell með 122 tonn og Sandfell með 115 tonn.

Ljósafell

Ljósafell kom inn í dag með 55 tonn. Aflinn er að mestu þorskur. Ljósafell fer út kl. 13.00 á miðvikudaginn.

Hoffell SU

Hoffell er á landleið með 750 tonn af síld og verður í landi í fyrramálið.  Aflinn var fenginn vestur af Reykjanesi.

Ágætis veiði var þar síðasta sólarhringinn, en skipið stoppaði 2 sólarhringa á miðunum. Síldin verður sötuð fyrir markað á Norðurlöndunum.

Ljósafell SU

Ljósafell kom inn í morgun með 45 tonn og fór strax út eftir löndun. Aflinn er að mestu þorskur.

Ljósafell landaði 100 tonnum sl. mánudag og er búið að landa því 145 tonnum í vikunni.

Framkvæmdir í fiskmjölsverksmiðju

Í dag kom flutningaskipið Sun Rio með nýjan gufuþurrkara frá Haarslev í Danmörku í fiskmjölsverksmiðjuna. Í staðinn fóru út tveir rúmlega 40 ára gamlir þurrkarar og um borð í sama skip, sem flytur þá til Marocco í Afríku. Nýji þurrkarinn er um rúmlega 100 tonn að þyngd og hífðu þrír kranar hann upp úr skipinu á frystiklefabryggjuna. Nýji þurrkarinn er um 70% stærri en hinir tveir og eykst þurrkgeta  í verksmiðjunni um 15% við þessar breytingar.  Reiknað er með að nýji þurrkarinn verði tekinn í notkun eftir um 3 vikur.  

Hoffell með nýtt kælikerfi

Undanfarnar sex vikur hefur Hoffellið verið í slipp í Þórshöfn í Færeyjum. Stærsta verkefnið var að skipta um kælikerfi, en undirbúningsvinna fyrir þau skipti hafði verið framkvæmd í áföngum. Þá var gírinn fyrir aðalvélina einnig yfirfarinn og ljósavélin tekin upp. Kjartan Reynisson útgerðarstjóri sagði að allt hefði gengið nokkurn vegin samkvæmt áætlun og verkin væru vel unninn líkt og áður hjá frændum vorum í Færeyjum.  Þá var gert við smáræði hér og þar, málað og snyrt. “Þetta var góð yfirhalning” sagði Kjartan og bætti því við að fyrirbyggjandi viðhald væri ávalt farsælast.

Skip Loðnuvinnslunnar fara að jafnaði í slipp annað hver ár, þar sem þau eru botnhreinsuð og máluð auk venjubundins viðhalds. En þegar mikið þarf að gera líkt og að skipta út kælikerfi þarf að fara oftar, það liggur í hlutarins eðli.

Nú er Hoffellið lagt af stað á miðin og mun þessi túr segja til um gæði nýja kælikerfisins en það á að geta kælt hraðar og betur en það sem fyrir var.

Ávalt hefur verið metnaður hjá LVF að hafa skip, báta, vélar og tæki í fullkomnu ástandi þannig að öryggi þeirra sem starfa sé ávalt eins og best verður á kosið. Og þá geta Hoffellsmenn raulað við störf sín: “stolt siglir fleygið mitt”.

BÓA

Nýja kælikerfið um borð í Hoffelli. Ljósmynd: Kjartan Reynisson
Hoffell fánum prýtt. Ljósmynd: Jónína Óskarsdóttir