Það var mikið um dýrðir í Búðaþorpi við Fáskrúðsfjörð föstudaginn 15.september s.l.  En þá voru hátíðarhöld vegna 90 ára afmælis Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga og 50  ára afmælis Ljósafells SU 70. Víða mátti sjá fána LVF og Kaupfélagsins og jafnvel einn og einn þjóðfána sem dreginn hafði verið að húni.  Kaupfélagið bauð öllu sínu félagsfólki og starfsfólki til veislu. Þá voru einnig viðstaddir veisluna aðrir gestir sem hafa komið að félaginu eða starfsemi þess með einum eða öðrum hætti, auk þess sem allnokkrir ráðamenn sveitafélagsins og landsins voru meðal gesta.

Hátíðin var haldin í íþróttahúsinu á Fáskrúðsfirði sem breytt var í glæsilegan veislusal. Falleg dúkuð borð, hvítáklæddir stólar og huggulegur borðbúnaður. Greinilegt var að ekkert hafði verið til sparað til að gera hátíðarhöldin hin glæsilegustu fyrir þá 350 gesti sem mættu til veislunnar í sínu fínasta pússi.

Boðið var upp á verulega gómsæta þriggja rétta máltíð sem var borin á borð fyrir hvern og einn og guðaveigar af ýmsu tagi stóðu gestum einnig til boða. Gekk þjónustan afar vel og dökkklædda fólkið sem leið á milli borða með veitingar sýndu mikla fagmennsku í störfum sínum þrátt fyrir að vera svokallað áhugafólk í faginu. En það var Blakdeild Leiknis sem sá um framreiðsluna.  Það er líka í anda Kaupfélagsins að bjóða til veislu og geta um leið styrkt íþróttastarfsemi í þorpinu.

Veislustjóri var Eyþór Ingi Gunnlaugsson og fór hann á kostum með gamanmálum, eftirhermun og söng. Það leiðist engum í félagi við Eyþór Inga. Hann er afslappaður og hispurslaus og kann þá kúnst að gera góðlátlegt grín að sjálfum sér.

Undir borðum var að vonum nokkur ávörp. Það er merkilegt að halda upp á 90 ára afmæli fyrirtækis/félags og 50 ára gömul skip í fullum rekstri er líka merkilegt og þegar litið er til baka er margs að minnast.   Friðrik Mar Guðmundsson kaupfélagsstjóri og framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar flutti ávarp, Steinn Jónasson stjórnarformaður Kaupfélagsins tók til máls og það gerði líka Elvar Óskarsson stjórnarformaður LVF og notaði hann tækifærið í sínu máli til þess að þakka Friðriki Mar fyrir hans góðu störf á þágu KFFB og LVF, en hann er að láta að störfum í haust.  Þá steig Guðmundur Bergkvist Jónsson á svið og sagði frá gerð kvikmyndar sem hann gerði um Ljósafellið.  Síðasta ávarp kvöldsins flutti Gísli Jónatansson fyrrverandi kaupfélags- og framkvæmdastjóri þar sem hann rifjaði upp í grófum dráttum aðdragandann að því að fest voru kaup á Ljósafellinu fyrir sléttum 50 árum síðan.

Að borðhaldi loknu tók Eyþór Ingi að sér hlutverk hljómsveitastjóra og fékk til liðs við sig úrvals hljóðfæraleikara sem léku undir dansi fram eftir nóttu.

En einn af hápunktum kvöldsins var frumsýning á kvikmyndinni sem gerð hefur verið um Ljósafellið. Um þá kvikmyndagerð sá Guðmundur Bergkvist Jónsson og vakti þessi mynd tilfinningar í brjóstum margra viðstaddra. Ekki aðeins mátti sjá þar bregða fyrir allnokkrum einstaklingum sem eru látnir en myndin sýndi þá fulla af lífi og jafnvel æsku, heldur líka er saga þessa skips svo samofin lífi fólks hér við Fáskrúðsfjörð að nánast hvert heimili hefur við það einhverja tengingu.

Guðmundur Bergkvist var mjög sáttur við viðtökurnar sem myndin fékk og sagði hann að hann væri afar þakklátur og stoltur af að hafa fengið þetta verkefni. „Það er mikill heiður að hafa fengið tækifæri til þess að skrásetja (í kvikmyndaformi) þessa merkilegu sögu. Ekki aðeins sögu þessa einstaka skips heldur líka þennan part af íslenskri atvinnusögu“ sagði Bergkvist. Hann bætti því líka við að það hefði verið svo mikilvægt að fá svigrúm og tíma til þess að grafa upp myndir og myndskeið, en slík vinna er tímafrek. Það eru mörg myndaalbúmin sem hann hefur flett og margir kaffibollar með. En niðurstaðan var sú að hann fann heilmikið efni sem engin vissi að væri til og birtist áhorfendum í þessari glæsilegu kvikmynd. „Og veislan var hin glæsilegasta“ sagði kvikmyndatökumaðurinn að lokum.

Nafn Bolla Magnússonar skipatæknifræðings er nátengt Ljósafellinu.  Segja má að hann hafi verið með í ráðum varðandi skipið frá fyrstu tíð. Bolli var einn af afmælisgestunum og sagði hann að þetta hefði verið frábær veisla. „Þetta var mjög skemmtileg veisla, frábær matur og veislustjórinn skemmtilegur“ sagði Bolli og bætti því að konunni hans, sem ekki talar íslensku, hefði líka þótt afar gaman. „Ég er mjög þakklátur fyrir þann höfðingsskap að bjóða mér til veislunnar“ sagði Bolli. Hann bætti því við í gamansömum tón að það hefði verið erfitt að spjalla við gamla kunningja eftir að hljómsveitin fór að spila því það hefði verið nokkur hávaði.

Ólafur Helgi Gunnarsson sat í nefndinni sem sá um undirbúning og framkvæmd umræddra hátíðarhalda og hann var líka áhafnarmeðlimur á Ljósafellinu í fjóra áratugi.  „Ég er mjög sáttur við kvöldið“ sagði Ólafur, „salurinn var hinn glæsilegasti, maturinn góður og stemmningin líka“. Hann sagði líka að myndin um Ljósafellið hefði verið stórkostleg. „Þessi mynd er frábær heimild“. Ólafur Helgi sagði að það hefði verið svolítill hávaði eftir að hljómsveitin fór að spila, „en svona er þetta bara“ sagði hann sáttur.

 Ætli kynslóðabilið sé ekki að minna á sig hjá þeim herramönnum Bolla og Ólafi, ungu mönnunum með hljóðfærin fannst þetta passlegur hávaði.

Steinn Jónasson er stjórnarformaður Kaupfélagsins og var hann ánægður með kvöldið. „Þetta var frábært kvöld“ sagði Steinn „og gaman að geta boðið fólki í veislu til að fagna þessum merkilegu tímamótum“. Steinn sagði líka að það hefði verið virkilega ánægjuleg hversu margir skráðu sig á samkomuna og sýndu með því áhuga á að fagna saman. „Félagsfólk og starfsfólk átti þetta virkilega skilið“ sagði stjórnarformaðurinn.

Friðrik Mar gekk sæll frá þessu veisluborði líkt og aðrir gestir. „Mér fannst þetta sérstaklega vel heppnað kvöld“ sagði hann, „ Bautinn og HS kerfi unnu sitt verk mjög vel“ bætti hann við. En þessi fyrirtæki sáu um veitingar, veislusalinn og hljóð- og ljóskerfi. Friðrik hafði orð á því að allir sem komu að þessu kvöldi ættu þakkir skyldar.  Hann sagði myndina um Ljósafellið mikið listaverk og það hefði verið sérlega ánægjulegt að fá alla þessa góðu gesti. „Fyrir utan auðfúsu gestina, sem voru Fáskrúðsfirðingar allir, þá komu rúmlega 50 gestir utan byggðarlagsins sem voru þingmenn, bæjarstjóri, bæjarfulltrúar og fulltrúar banka og fyrirtækja sem við skiptum við“ sagði Friðrik Mar. Þegar Friðrik Mar var inntur eftir því hvaða tilfinningar bærust í brjósti þegar allt bendir til þess að þessi mikla veisla hafi að öllum líkindum verið sú síðasta sem hann tekur þátt í sem Kaupfélags- og framkvæmdastjóri sagði hann að hann kveddi fyrirtækin með trega en hann og konan hans, Alda Oddsdóttir, væru afskaplega þakklát fyrir tímann hér á Fáskrúðsfirði.

Að eldast þýðir ekki að hætta að dreyma um framtíðina segir einhversstaðar skrifað og á það sannarlega vel við þegar talað er um Kaupfélagið. 90 ára gamalt félag sem enn stendur styrkum fótum og má ef til vill líkja við veigar sem þykja betri og verðmætari eftir því sem aldurinn færist yfir. Því er ljúft að láta sig dreyma um hátíð sem verður hugsanlega boðið til eftir tíu ár, því þá verða tugirnir orðnir tíu.

BÓA

Prúðbúnir afmælisgestir. Ljósmynd: Stefán Jónsson

Friðrik Mar Guðmundsson í ræðustól. Ljósmynd: Stefán Jónsson

Elvar Óskarsson stjórnarformaður Loðnuvinnslunnar þakkar Friðriki Mar fyrir hans störf. Ljósmynd: Stefán Jónsson

Glaðbeittu bræðurnir Daníel Ármannsson og Elís Ármannsson. Ljósmynd: Stefán Jónsson

Guðmundur Bergkvist Jónsson kvikmyndagerðamaður. Ljósmynd: Stefán Jónsson

Frá vinstri: Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, Sigurður Ásgeirsson, Eiríkur Ólafsson, Guðrún Magnúsdóttir og Guðrún Níelsdóttir sem hlær svo dátt. Ljósmynd: Stefán Jónsson

Frá vinstri: Magnús Stefánsson, Stefán Magnússon, Helga Valbjörnsdóttir, Dagný Hrund Örnólfsdóttir og Hjálmar Sigurjónsson. Frúin sem gengur hjá er Lára Hjartardóttir. Ljósmynd: Stefán Jónsson.

Séð yfir hluta salarinns í upphafi samkomunnar. Ljósmynd: Stefán Jónsson.

Steinn Jónasson stjórnarformaður Kaupfélagsins. Ljósmynd: Stefán Jónsson

Gísli Jónatansson. Ljósmynd: Stefán Jónsson

Hafþór Eide Hafþórsson flytur kveðju frá Lilju Alfreðsdóttur ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra. Ljósmynd: Stefán Jónsson

Eyþór Ingi veislustjóri. Ljósmynd: Stefán Jónsson