Allir hlæja á öskudaginn

Allir hlæja á öskudaginn

ó, hvað mér finnst gaman þá.

Hlaupa lítil börn um bæinn,

 bera poka til og frá.

Þetta vísukorn eftir ókunnan höfund hefur að öllum líkindum fengið að hljóma nokkuð oft í dag, öskudag.

Öskudagur á sér langa sögu, svo langa að nafnið öskudagur kemur fyrir í íslenskum handritum frá 14.öld og aðrar heimildir benda til þess að hann sé enn eldri.  Öskudagur á upphaf sitt í kristnum sið og markar upphaf lönguföstu. Er þessi umræddi dagur ávallt á miðvikudegi í 7.viku fyrir páska.

Víða í heiminum eru haldnar kjötkveðjuhátíðir síðustu dagana fyrir lönguföstu, þá klæðist fólk skrautlegum búningum, dansar og syngur um götur og stræti.  Vísir að þessum sið barst  til Íslands fyrir margt löngu síðan. En þar sem veðurfar á þessum árstíma bíður varla uppá mikil hátíðahöld utandyra, hefur sá siður að klæðast búningum og slá köttinn úr tunnunni náð mestri fótfestu, og í dag  má nærri geta að öskudagur sé einn af eftirlætisdögum ungu kynslóðarinnar.  Börn og fullorðnir klæðast búningum, ganga á milli fyrirtækja og stofnana syngjandi lög og söngva og fá að launum sælgæti eða annað sem gleður.

Á skrifstofu Loðnuvinnslunnar komu góðir gestir að morgni öskudags. Voru þar á ferð nemendur úr Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar sem skörtuðu hinum ýmsu búningum undir þykkum vetrarfatnaði, því að það var jú 6 gráðu frost í Búðaþorpi. Þau sungu og léku á alls oddi því launin voru ekki af verri endanum. Rausnarlegur nammipoki með ýmsu góðgæti sem sannarlega gladdi viðtakendur.

Í Grunnskólanum  skipuleggja nemendur göngu um bæinn með viðkomu hér og þar í von um að eitthvað óvænt safnist í poka og töskur. Á skrifstofu LVF var börnunum vel tekið sem endranær og engin fór tómhentur heim.

BÓA

Börnin steyma inn á skrifstofuna. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Stilla sér upp til myndatöku og söngs. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Gestakoman undirbúin. Bryndís, Linda og Steina, starfskonur á skrifstofunni raða í poka. Ljósm: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Góðgætið sem fór í hvern poka. Ljósm: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Allt tilbúið. Ljósm: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Ljósafell og Hoffell

Ljósafell landaði í morgun rúmlega 100 tonnum; rúmum 40 tonnum af þorski, 32 tonnum af ufsa, 22 tonnum af gullkarfa og 5 tonnum af ýsu og öðrum afla.

Hoffell er á landleið með rúm 1.400 tonn af kolmunna og von er á norska uppsjávarskipinu Ola Ryggefjord á fimmtudagsmorgun með 2.400 tonn af kolmunna.

Ljósafell í land með fullfermi.

Ljósafellið kom til hafnar nú undir kvöld með fullfermi eða rúmlega 110 tonn.Tæp 50 tonn af þorski, rúm 40 tonn af ufsa og 20 tonn af gullkarfa, ýsu og öðrum tegundum.

Mjög góð veiði hefur verið síðustu daga hjá Sandfelli og Hafrafelli.

Hoffellið er á kolmunnaveiðum suður af Færeyjum. Áhöfnin gerði ásamt fleiri skipum hlé á veiðum í dag til að aðstoða við leit. Leitað er tveggja sjómanna af færeysku línuskipi sem fékk á sig brotsjó og sökk fyrr í dag.

Við sendum vinum okkar í Færeyjum hlýjar kveðjur og vonum það besta 🙏

Mynd: Loðnuvinnslan.

Anna og Toni

Þegar þessi orð eru rituð í Búðaþorpi við Fáskrúðsfjörð skartar fjörðurinn sínu fegursta. Fjöll og dalir eru hjúpaðir hvítri fannar kápu, sjórinn vaggar blíðlega við fjöruborð og birtan er gullin þrátt fyrir að ekki sé blessuð sólin skriðin yfir fjallstoppana. Á degi eins og þessum er dásamlegt að búa við það frelsi að geta notað daginn í hvað eina sem löngunin stendur til.  Við slíkt frelsi býr fólk sem hefur hengt upp vinnuhattinn sinn, lagt skóna á hilluna eða hvað sem fólk kýs að kalla þann tíma þegar einstaklingur hefur lokið sinni starfsævi. 

Anna og Toni eru hætt að vinna, þ.e.a.s. þau eru hætt að stimpla sig inn á vinnustað en þau eru langt frá því að vera hætt að vinna sigra í lífinu sjálfu.

Anna Karen Hjaltadóttir er Fáskrúðsfirðingur, uppalin í Búðaþorpi, gekk hér í skóla og hér mótaðist hennar líf. Hún fór snemma að vinna, 13 ára gömul fékk hún íhlaupa vinnu í frystihúsinu eins og algengt var í þá daga þegar allir sem vettlingi gátu valdið voru kallaðir til þegar mikið var að gera.  Og í árslok 2023 lét hún af stöfum eftir 51 ár. „Þetta hefur ekki verið alveg samfelldur tími“ sagði Anna Karen hógvær þegar greinarhöfundur rak upp stór augu yfir árafjöldanum að baki.  Anna Karen starfaði í frystihúsinu og hefur gengið þar í nánast öll störf. Hún hefur verið á lyftara, slægt fisk, landað fiski, snyrt og pakkað. Svo hefur hún líka unnið við matargerð, gefið starfsfólki Loðnuvinnslunnar að borða og það var eftirlætis verkefnið. „Ég naut þess að elda mat, það var svo gaman en líka mjög krefjandi“ sagði Anna Karen.

Antonio Fernández Martinez var verkstjóri á rafmagnsverkstæðinu.  Hann er spænskur að uppruna en hefur dvalið á Íslandi meiri part ævinnar.  Hann hefur aðlagað sig að íslensku lífi og er í dag Íslendingur, hefur sinn ríkisborgararétt og talar óaðfinnanlega íslensku.  Hann hefur aðlagað nafnið sitt og kallar sig Anton Fernández og er oftast kallaður Toni.  Hann hóf störf hjá Loðnuvinnslunni árið 1980 og hefur því 43 ár að baki hjá LVF. Hann hóf störf á sjónum en fór síðan í iðnám og náði sér í meistararéttindi í rafvirkjun.  „Þetta er búið að vera mjög fínn tími og mikið af góðu fólki sem maður hefur unnið með í gegn um tíðina“ sagði Toni.

En nú hefst nýtt tímabil í lífi þeirra hjóna. Og aðspurð hvort að ákvörðunin hafi verið erfið voru þau sammála um að hún hefði í raun ekki verið það. „Við ákváðum þetta með eins árs fyrirvara og vorum hálf hrædd um að árið yrði lengi að líða en sú var aldeilis ekki raunin“ sögðu þau  og bættu því við að þau nytu þess virkilega vel að eiga allan sinn tíma sjálf. Að vakna að morgni og hafa þær einu skyldur að njóta lífsins ef svo má að orði komast. Og þegar þau voru innt eftir því hvað tæki nú við, hvað þau ætluðu að taka sér fyrir hendur svaraði Anna Karen að bragði: „ Ekki bara að sitja og horfa út um gluggann“. Nei, þau hafa önnur áform, þau langar að ferðast bæði innanlands og utan. Þau ætla að hlú að fólkinu sínu, börum og barnabörnum.

Þau eiga sér líka áhugamál sem þau hafa meiri tíma til að sinna, Toni er útivistamaður og hefur ánægju af því að ganga um fjöll og firnindi, Anna Karen prjónar og saman stunda þau sund.

Það er fallegur samhljómur í orðum þeirra hjóna Önnu og Tona þegar þau tala um njóta lífsins, njóta hvers einasta dags eins og hann kemur fyrir og hversu dýrmætt þeim þykir að hafa rýmri tíma til þess að njóta samvista við börn og barnabörn og vera til staðar fyrir þau.

Það er merkilegt þegar manneskja starfar hjá einu og sama fyrirtækinu nánast alla sína starfsævi. Anna Karen og Anton eru slíkar manneskjur, þau tala fallega um vinnuveitendur sína og ganga sátt frá borði. Að sama skapi eru þeim þökkuð af hjartans einlægni þeirra góðu störf, tryggð og þrautseigju í gegn um starfsins ólgusjó í nánast hálfa öld.

Bóa

Heiðurshjónin Anna og Toni.

Ljósafell

Ljósafellið landaði í morgun rúmlega 80 tonnum. Uppistaðan í aflanum var 44 tonn af þorski, 21 tonn af ýsu og 12 tonn af Ufsa Hoffellið er á leið í land vegna veðurs, aflinn er um 930 tonn af Kolmunna.

„Karlinn í brúnni“

Lífið getur fært fólki ýmsar áskoranir og ýmis tækifæri. Sumar áskoranir eru erfiðar en aðrar láta gott af sér leiða. Ein af slíkum áskorunum kom í hendur Jóhanns Elís Runólfssonar á dögunum þegar hann fékk tækifæri til þess að starfa sem skipstjóri á Ljósafellinu, hans fyrsti túr sem “karlinn í brúnni” á því góða skipi.  Atvikin höguðu því þannig til að Hjálmar Sigurjónsson skipstjóri á Ljósafellinu lenti í alvarlegu slysi og hefur því verið frá störfum um all langt skeið. Þá steig 1.stýrimaðurinn Kristján Gísli Gunnarsson upp og er starfandi skipstjóri. Með honum í brúnni eru svo Guðjón Anton Gíslason yfirstýrimaður og Jóhann Elís 2.stýrimaður.  Það þarf marga stjóra á vinnustað sem starfar allan sólarhringinn. 

Venjan er sú að skipstjóri og yfirstýrimaður fari ekki í frí á sama tíma, annar þeirra er við stjórnvölin og röð færist upp samkvæmt því. En svo bar við að yfirstýrimaðurinn Guðjón Anton var í fríi í síðasta túr fyrir jólafrí en þegar kom að því skipið skyldi sigla til hafs greindist skipstjórinn Kristján með Covid og fór því hvergi. Þá var komið að Jóhanni Elís að taka við taumunum og það gerði hann með sóma. Sér til halds og trausts fékk hann Kristmund Sverri Gestsson sem yfirstýrimann, en Sverrir en alvanur Ljósafelli, var munstraður þar í mörg ár.

Þeir fengu á sig nokkra brælu en náðu samt að afla þannig að vinnslan í landi hafði næg verkefni fram að jólum.  Verkefnið  var leyst með heiðri og sóma.

Jóhann Elís var inntur eftir því hvort að hann hefði áður verið skipstjóri? “Ég var skipstjóri á Tind ÍS frá Flateyri, þar vorum við á fiskitrolli og sæbjúgnaveiðum” svaraði þessi 36 ára gamli, hógværi maður sem útskrifaðist úr Stýrimannaskólanum árið 2015, þannig að hann er enginn nýgræðingur á hafinu. Jóhann Elís svaraði því líka aðspurður að túrinn hefði gengið fínt, “veðrið var svolítið að trufla okkur, við hófum veiðar á Gerpisflaki og Gula teppinu, en fórum norður á Digranesflak þegar brældi og kláruðum túrinn þar. Við náðum í þau tonn sem beðið var um” svaraði hann með stolti þess sem skilar góðu starfi.

Skipstjórinn Jóhann Elís var að sjálfsögðu ekki einn á ferð, áhöfn Ljósafells er samsett af vönum sjómönnum sem margir hverjir hafa verið lengi til sjós og hafa, eins og segir í orðatiltækinu, marga fjöruna sopið. Enda hafði skipstjórinn orð á því að strákarnir um borð hefðu tekið sér mjög vel sem skipstjóra enda hefðu þeir unnið saman s.l. tvö ár.

Og þegar Jóhann Elís var spurður hvort að sér hefði fundist gaman að vera skipstjóri svaraði hann snöggur upp á lagið: “Já, það var mjög gaman enda skipið mjög gott”.

Eflaust bíða Jóhanns Elís fleiri verkefni sem skipstjóri og er hann vel að því kominn enda mikill sómamaður hér á ferð.

BÓA

Skipstjórinn knái Jóhann Elís Runólfsson. Ljósmynd af Facebook síðu Ljósafells SU 70

Jólabingó

Rannsóknarsetur verslunarinnar gerði könnun meðal þjóðarinnar þar sem spurt var hvað fólk vildi helst óska sér til jólagjafa og niðurstaðan var skýr; samvera og eða upplifun var svarið. Það er falleg ósk og auðveld að uppfylla fyrir marga.

Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar bauð sínu fólki í jólabingó á dögunum. Félagsfólk bauð með sér gestum á borð við maka, börn, barnabörn eða hverjum öðrum fjölskyldumeðlim sem fólk kaus. Og boðinu var vel tekið og greinilegt að félagsfólk kann vel að meta frumkvæðið. Bingó er skemmtilegt fjölskyldu spil. Það geta allir verið með og þeir heppnu fá vinning, þannig er það í spilum, það geta ekki allir unnið til vinninga, en það geta allir notið ánægjunnar við að spila með og njóta samvistanna og gleðjast með þeim sem duttu í lukkupottinn að þessu sinni.

Um 90 manneskjur mættu í félagsheimilið Skrúð síðdegis á mánudegi til þess að spila bingó, en það var nú aldeilis ekki allt og sumt. Það var líka boðið upp á heitt súkkulaði og jólakökur og slíkar veitingar eru aðeins til þess fallnar að gera gott betra. Og ekki nóg með það heldur mættu tveir jólasveinar, sem höfðu eflaust fylgst með veðurspá og sáu að besta ferðaveðrið var einmitt þennan tiltekna mánudag,  og þessir tveir jólasveinar komu ekki tómhentir heldur færðu börnunum glaðning svo að kannski mætti segja sem svo að allir hafi unnið. Börnin fengu öll glaðning og hinir fullorðnu glöddust yfir brosum barnanna.

Steinunn Björg Elísdóttir er félagi í Starfsmannafélaginu og hún mætti í Bingóið með tvö barnabörn, 3ja ára og 8 ára. „Þetta var fínasta skemmtun, passlega langt því þarna var fólk á öllum aldri og börnunum fannst auðvitað spennandi að fá glaðning frá jólasveinunum“ sagði Steinunn  og bætti því við að þetta hefði verið sönn gæðastund.

Guðjón Anton Gíslason er stýrimaður á Ljósafellinu og hann ásamt konu sinni og þremur sonum tóku einnig þátt í bingóinu og aðspurður svaraði Guðjón því til að þetta hefði verið mjög skemmtilegt. „Það kom enginn vinningur í okkar hlut að þessu sinni en þetta var mjög vel lukkað og bara gaman af þessu“ bætti hann við. Yngri drengir Guðjóns eru 3ja og 4ja ára gamlir og þeir, eins og svo mörg börn, upplifa heilan hrærigraut af tilfinningum þegar kemur að jólasveinum, spenna, pínu hræðsla, gleði og eftirvænting allt í bland. En það sem jólasveininn gefur er alltaf jafn vel þegið.

Þegar félagar í starfsmannafélagi Loðnuvinnslunnar héldu heimleiðis að loknu jólabingói voru ungir sem aldnir sáttir og glaðir, með súkkulaði og kökur í maganum, glaðning frá jólasveininum í hendinni og ef til vill svolitla jólagleði í hjartanu.

BÓA

Horft yfir salinn. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Horft yfr salinn út gangstæðri átt með veitingarnar í forgrunni. Ljósmynd: Arnfiður Eide Hafþórsdóttir

Bingóstjórarnir að störfum, Selma og Bryndís. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Eftirvæntingarfullir bingógestir. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Skipafréttir.

Ljósafellið kom í land eftir miðnætti með tæp 35 tonn af ufsa, rúmlega 30 tonn af þorski og tæp 30 tonn af ýsu. Ufsaveiðin gekk vel framan af veiðiferðinni en skipið færði sig undan veðri á önnur mið og kláraði veiðiferðina í ýsu og þorski. Það er sem fyrr mjög góð veiði hjá Sandfelli og Hafrafelli og landa þau daglega.

Mynd: Gísli Reynisson.

Skipafréttir.

Ljósafellið hóf löndun kl 06 í morgun á rúmlega 72 tonna afla. Uppistaða aflans var þorskur, ýsa og ufsi.

Hoffellið er á leið til Fáskrúðsfjarðar með um 650 tonn af íslenskri síld sem verður unnin í söltun. Veiðiferðin gekk ágætlega en heldur hefur dregið úr veiði undanfarið.

Sandafell og Hafrafell landa daglega á austfjörðum og eru aflabrögð mjög góð.

Starfsmannafélagið, fundur og skemmtun

Það er mikilvægt að samstarfsfólk eigi í góðum og uppbyggilegum samskiptum. Það hjálpar fólki að skilja hvert annað, stuðlar að aukinni mannvirðingu og síðast en alls ekki síst þá eykur það starfsánægju.

Eitt af þeim tólum sem vinnustaðir hafa til þess að auka á ánægju og gleði starfsfólks eru starfsmannafélög. Félög sem eru stjórnað af starfsfólki sjálfu og hafa gjarnan það markmið að standa fyrir viðburðum og uppákomum til að létta lund og hvíla lúin bein fyrir starfsfólk og fjölskyldur þeirra.

Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar er öflugt félag. Það nýtur stuðnings LVF hvort heldur fjárhagslega eða á annan máta. Til að mynda styrkti LVF starfsmannafélagið um 10 milljónir króna á síðasta aðalfundi og er öllum fjármunum félagsins vel varið.

Þann 1.desember s.l. hélt starfsmannafélagið aðalfund sinn í Whatnes sjóhúsinu. Hefðbundin aðalfundastörf voru viðhafin þar sem formaðurinn Arnfríður Eide Hafþórsdóttir flutti skýrslu stjórnar þar sem fram kom hverju starfsmannafélagið hafði áorkað  frá síðasta aðalfundi. Má þar nefna ferð til Glasgow í nóvember 2022, jólabingó sem var í desember í fyrra og verður aftur á dagskrá núna í desember. Þá var haldin sjómannadagsskemmtun  og félagið kom að skipulagningu og framkvæmd við samkvæmi sem haldið er við vertíðarlok.  En hápunkturinn hjá starfsmannafélaginu var ferð til Sikileyjar sem farin var í október s.l.  Að öllum öðrum viðburðum ólöstuðum var þessi ferð svo vel heppnuð að segja má að engan skugga hafi borið þar á.

Að loknum skyldustörfum aðalfunda var létt yfir mannskapnum. Fólk naut samskipta hvert við annað, tók í spil og spjallaði auk þess sem boðið var upp á bjórkynningu. Annars vegar var þar bjór frá Hannesi Haukssyni sem er áhugamaður um bjórgerð og bruggar til heimabrúks. Hann kom með kút af bjór sem hann kallar Jólalager sem er bjór sem hefur „jólakarakter“ eins og Hannes sagði, með karmellu og malt keim.  „Ég hef gaman af því að prófa mig áfram og er alltaf að betrumbæta uppskriftirnar mínar, ég rek hálfgert tilraunaeldhús“ sagði Hannes og sagði að fólk hefði tekið bjórnum hans vel, „í það minnsta kom fólk aftur og fékk sér ábót“. Það hljóta að vera meðmæli.

Hins vegar var Bjarni Þór Haraldsson með bjór frá sinni framleiðslu sem hann kallar Múli. Múli er stofnað í september 2020 og sígauna brugghús.

Sígauna brugghús eru heimilislaus brugghús og fá aðstöðu hjá öðrum brugghúsum við bruggunina. Allur bjór Múla er bruggaður hjá Austra brugghúsi á Egilsstöðum. 

„Fyrsti bjór Múla var Bessi og er klassískur Vienna lager. Lager er lang vinsælasti stíll bjórs í heiminum og því í lófa lagið að stimpla sig inn með þannig bjór“ sagði Bjarni um upphaf starfseminnar.  Handverksbrugghús hafa verið á mikilli siglingu undanfarin ár og á Austurlandi eru 4-5 starfandi í dag.  Handverksbrugghús eru í eðli sínu smá, með framleiðslu undir milljón lítrum á ári.

Múli er með 11 bjóra í sinni vörulínu og í dag eru fjórir til í vínbúðinni. „Það getur verið mjög erfitt að halda vörum inn í vínbúðinni því það þarf að halda ákveðnum sölutölum“ sagði Bjarni. Þá hafa miðarnir á bjórunum fengið mikla athygli en hönnuður þeirra er Ásbjörn Þorsteinsson frá Eskifirði, þannig að með sanni má segja að allt sem kemur að framleiðslu Múla bjórs sé úr héraði.  

Bjarni sagði einnig að starfsfólk LVF hefði tekið vörum sínum vel og bjórinn hefði fengið góða dóma.

Já, það er sannarlega margt hægt að hafa fyrir stafni og flest verður það allt skemmtilegra í góðum félagsskap og það kom berlega í ljós hjá félögum í starfsmannafélagi Loðnuvinnslunnar, sem skörtuðu mörg skrautlegum jólapeysum, þegar þau skemmtu sér við spil, spjall og góðar veigar.

BÓA

Skemmtileg auglýsing

Úrval höfugra drykkja. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Huggulegt umhverfi. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Það er gaman að vera saman. Ljósmynd: Stefán Alex Elvarsson

Sýnishorn af miðunum á Múla bjórum. Ljósmynd frá Múli craft brew.

Hugvit og hollusta

Það lætur ekki mikið yfir sér að utan verðu en innan veggja byggingarinnar eiga sér  stað mikil vísindi og merkileg framleiðsla.  Hér er verið að tala um húsið sem heldur utan um framleiðslu á nasli úr sjávarfangi undir vörumerkinu Næra.  Fer umrædd framleiðsla fram í Búðaþorpi við Fáskrúðsfjörð og allt hráefnið sem notað er kemur frá Loðnuvinnslunni.

Á heimasíðu Næra má lesa um það að dr. Holly Kristinsson hafi flutt til Íslands árið 2015 og séð möguleikana sem felast  íslensku gæða hráefni og stofnaði í kjölfarið fyrirtækið Responsible Food árið 2019 og framleiðir nú heilsunasl úr úrvals hráefni undir vörumerkinu Næra ásamt manni sínum dr. Herði G. Kristinssyni, en þau eru bæði menntuð á matvælasviði.  Þar kemur einnig fram að um einkaleyfisvarða aðferð sé að ræða við framleiðslu á naslinu.

Næra framleiðir nokkrar tegundir nasls, ostanasl, skyrnasl og fiskinasl. Fiskinaslið er harðfiskur úr ýsu, þurrkuð loðna ásamt kúlulaga snakki úr fiski, annars vegar með íslensku smjöri og hins vegar með íslenskum osti. Allar þessar vörur er hægt að nálgast í Kjörbúðinni á Fáskrúðsfirði.

Það tekur langan tíma að þróa vörur af þessu tagi í það form að það verði það lostæti sem það á endanum verður en það var draumur dr. Holly að búa til nasl sem væri ekki aðeins bragðgott heldur líka hollt. Og fiskurinn í íslensku landhelginni er svo sannarlega hollur.

Hörður  var inntur eftir því hversu langan tíma þessi þróun hefði tekið og svaraði hann því til að það væru mörg ár. „Það þurfti að finna áhugasama fjárfesta, þróa vöruna og síðan að koma henni á markað“  sagði Hörður og þar kom Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga til sögunnar því að félagið sá þarna möguleika til þess að nýta á fjölbreyttari máta hráefnið sem, dótturfyrirtækið Loðnuvinnslan aflar og vinnur, og fjárfesti í Responsible Food. Og þar með er komin skýringin á því hvers vegna framleiðslan á sjávar naslinu fer fram hér á Búðum. „ Við opnuðum framleiðslustöð á Fáskrúðsfirði í janúar 2023. Sérstaðan okkar þar er að við komumst í raun ekki nær ferska hráefninu sem við erum að nota í Næra naslið því að framleiðslan okkar er rétt við Loðnuvinnsluna þaðan sem hráefnið er“ segja þau hjónin Holly og Hörður.

Þurrkaða loðnan er farin að láta til sín taka á mörkuðum í Asíu, og sagði Hörður að þau væru á fullu að vinna upp í pantanir frá Hong Kong.  „En við horfum til markaða í Evrópu og Bandaríkjunum líka“.

Enn sem komið er vinna þau Hörður og Holly öll störf við framleiðsluna en í framtíðinni er gert ráð fyrir því að ný störf skapist eftir því sem fyrirtækið vex og vörur þess fá stærra pláss á markaði.

Það er ekki laust við að greinarhöfundur finni til stolts yfir því að frumkvöðlastarf af þessu tagi fara fram í okkar góða samfélagi hér á Búðum við Fáskrúðsfjörð.

BÓA

Hér gefur að líta fiski naslið. Pokinn í miðjunni inniheldur þurrkuðu loðnuna.

Harðfiskurinn góði. Léttur og loftkenndur og afar bragðgóður.

Hoffell á landleið með rúm 1.000 tonn af síld.

Hoffell er á landleið með rúm 1.000 tonn af síld og verður í nótt á Fáskrúðsfirði. Ágæt veiði var miðunum og fékkst aflinn á tveimur sólarhringum. Síldin verður söltuð.

Mynd; Valgeir Mar Friðriksson.