Ljósafell í afmælisbúningi

Það þykir nokkuð algengt að færa hin ýmsu mannanna verk í fallegan búning við tímamót. Svolítið eins og við mannfólkið förum í betri fötin við hátíðleg tækifæri.  Ljósafell SU 70 er í slipp í Færeyjum og hefur verið fært í afar fallegan búning. Nýmálað og puntað á allan máta.

Það er svo sem engin nýlunda að Ljósafell fari í slipp, það fer mjög reglulega í slíka yfirhalningu líkt og önnur sjóför Loðnuvinnslunnar.  

Eins og mörgum er kunnugt er Ljósfell 50 ára gamalt skip. Það kom til heimahafnar á Fáskrúðsfirði þann 31.maí 1973 og þann 15.september n.k. verður haldi upp á þessi tímamót með veglegum hætti um leið og 90 ára afmæli Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga  verður fagnað.

Kjartan Reynisson útgerðarstjóri LVF sagði að skipið fengi góða yfirhalningu núna eða alls um 130 verknúmer, en hvert og eitt verkefni fær sitt númer til þess að auðveldara verði að halda utan um kostnað og vinnutíma. „ Skipið var heilmálað að utan, en auk þess málað í lest og millidekki auk fleiri rýma“ sagði Kjartan. Hann sagði jafnframt frá því að aðalvél og ljósavél hefðu verið teknar upp. Þá voru allir botn og síðulokar uppteknir og  krapavélar einnig. Skipið var allt þykktarmælt og yfirfarið. Margháttaðar viðgerðir á lögnum og lokum.  Einnig var allur björgunarbúnaður yfirfarinn  og haffæri þessa hálfra alda gamla skips endurnýjað.

Eins og sjá má hefur engu verið til sparað til þess að Ljósafell geti haldið áfram að sækja í fengsæl fiskimið og því bíði gæfurík framtíð til sjós.  En þegar afmæli þess verður fagnað af samferðafólkinu á Búðum, verður Ljósafell SU 70 í sínum allra fallegasta afmælisbúningi.

BÓA

Ljósafell í slippnum. Ljósmynd: Gunnar Þrastarson.

Ljósmynd: Gunnar Þrastarson

Ljósmynd: Gunnar Þrastarson

Nýmálað og fallegt Ljósafell. Ljósmynd: Kjartan Reynisson

Glæsilegt sem aldrei fyrr. Ljósmynd: Kjartan Reynisson

Hoffell á landleið með tæp 1300 tonn.

Hoffell er á landleið með tæp 1.300 tonn af Makríl.  Um 680 mílur eru af miðunum til Fáskrúðsfjarðar. Veiðin gekk vel og tók aðeins þrjá daga fá aflann. Skipið verður í landi snemma á fimmtudagsmorgun.

Mynd: Valgeir Mar Friðriksson.

Störf án staðsetningar

Árið 1985 var glæsilegu skrifstofu- og verslunarrými að Skólavegi 59 á Búðum fulllokið. Eigandi byggingarinnar var, og er,  Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga. Enn er þessi bygging á góðum járnum ef svo má segja og hýsir verslun á jarðhæð, miðhæðin er óskipulögð en þriðja og efsta hæðin er fullnýtt um þessar mundir. Skrifstofa Loðnuvinnslunnar er þar til húsa auk þess sem nokkur skrifstofurými eru leigð út. Þrjú af fjórum rýmum eru leigð fyrir þar sem kallað er starf án staðsetningar, sem þýðir að viðkomandi starfi er hægt að sinna fjarri höfuðstöðvum þess fyrirtækis sem störfin tilheyra.   Var hugmyndin um störf án staðsetningar hluti af byggðaráætlun 2018-2024 og var markmiðið að efla byggðir landsins og að sporna við fækkun íbúa á einstökum svæðum og gera atvinnulíf fjölbreyttara. Í heimsfaraldrinum jókst það til mikilla muna að fólk vann heiman frá sér og hefur þetta fyrirkomulag löngu sannað ágæti sitt.

Það skrifstofurými sem lengst hefur verið í leigu til einstakra aðila er Bókhald GG. Bókhalds og endurskoðunarskrifstofa. Svo hafa aðrir leigjendur komið og farið eins og gengur.

 Einn af þeim sem hefur starfsstöð á efstu hæðinni á Skólavegi 59 er Guðmundur Harðarson. Hann starfar sem forritari hjá Icelandair. Þegar Guðmundur var inntur eftir því hvort að það væri engum erfiðleikum bundið að stunda vinnu sína svona fjarri höfuðstöðvum Icelandair svaraði hann því til að það væri alls ekki svo.

„Ég sinni starfi mínu alfarið í fjarvinnu og hef ekkert þurft að fara til Reykjavíkur (né annað) til þess að sinna starfinu. Meira að segja allt ferlið í kringum ráðningu mína til Icelandair var líka öll gerð í gegn um fjarfundi, tölvupóst og síma, svo ég fór ekki einu sinni að hitta þau til þess að skipta  um starf“ sagði Guðmundur.  Hann sagði líka að áður hefði hann unnið hjá öðru fyrirtæki sem sá ekki kosti við að vinna fjarvinnu fyrr en Covid skall á.  „Þá neyddist ég til þess að vinna heima við eldhúsborðið í litlu kjallaraíbúðinni okkar í Hlíðunum og þá taldi ég að engar afsakanir væru lengur fyrir því að það ætti ekki að ganga að vinna fjarvinnu. Svo við tókum stökkið að flytja aftur austur, sé svo sannarlega ekki eftir því í dag enda hefur mér alltaf fundist frábært að vera á Fáskrúðsfirði“ sagði Guðmundur og bætti við „ekki skemmir útsýnið yfir fjörðinn og yfir Sandfellið úr skrifstofunni minni“.

Moaz Salah er líka forritari og starfar hjá Origo. Hann sinnir sínu starfi að öllu leiti frá starfstöð sinni á Fáskrúðsfirði og kann afar vel að meta það að starfa í þeim geira sem hann menntaði sig til en geta samt búið hér á Fáskrúðsfirði. „Það er mikilvægt fyrir mig“ sagði Moaz  „og líka fyrir samfélagið hér að fólk með allskonar menntun geti fundið starf við sitt hæfi þrátt fyrir að höfuðstöðvar þeirra fyrirtækja sem þau starfa hjá séu í höfuðborginni, eða jafnvel í útlöndum“ sagði Moaz sem út um glugga skrifstofu sinnar nýtur útsýnis til Hoffells og hinna fallegu fjallanna er standa vörð um Fáskrúðsfjörð norðanmegin.

 Daði Már Steinsson er að vinna fyrir flugfélagið PLAY auk þess sem hann rekur litla ferðaskrifstofu, Nordic Green Travel. Svo á hann og rekur markaðsstofuna SNÆDAL ásamt bróður sínum. Daði Már hefur tímabundna starfstöð á Fáskrúðsfirði og segir: „það er frábært að vera hér innan um rjóma íslensks atvinnulífs“ og vísar þá til félaga sinna í skrifstofurýmunum sem sagt var frá hér að framan auk Loðnuvinnslunnar.  Daði segir að það honum þykir mjög mikilvægt að hafa þann möguleika að geta sinnt starfi sínu nánast hvar sem er „það getur verið mjög mikilvægt. Það opnar á marga möguleika fyrir fjölskyldufólk, t.a.m.  Nú hef ég verið hér í u.þ.b. tvo mánuði með yngri strákana mína tvo  og þeir elska að vera í frelsinu hér fyrir austan“ sagði Daði Már.

Hverjum þykir sinn fugl fagur segir málshátturinn og er greinarhöfundur engin undantekning þegar kemur að holtum, hólum, klettum og steinum í Fáskrúðsfirði og getur því ekki á sér setið að inna Daða Már eftir því hvernig honum líki það sem hann sér út um glugga sinn í skrifstofunni í  húsi Kaupfélagsins: útsýnið verður ekki mikið betra“ svaraði Daði Már, „maður verður hálf meir þegar maður horfið hérna yfir spegilsléttan fjörðinn“.

En hvað með samskipti á vinnustað gætu einhverjir spurt og því er svarað að í nútama tæknisamfélagi getur manneskja haft samband við hvern sem er í heiminum í gegn um mynd og hljóð hvenær sem er. Það eina sem þarf til góð internet tenging. Og svo hafa þessir herramenn á þriðju hæðinni alltaf þann möguleika að masa svolítið hver við annan og heimsækja starfsfólk skrifstofu Loðnuvinnslunnar í spjall í kaffitímanum ef því er að skipta.

BÓA

Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga 90 ára

Þann 6.ágúst 1933 var Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga stofnað. Sú umræða að stofna kaupfélag hafði  nokkrum sinnum farið af stað bæði í Búðaþorpi og Fáskrúðsfjarðarhreppi árin á undan en stofnun félags ekki gengið eftir. Það má lesa um það í Fáskrúðsfirðingasögu að nokkuð hafi þurft að sannfæra menn um ágæti þess að stofna kaupfélag en nokkrir hreppar og bæir höfðu stofnað til kaupfélags áður sem gefið hafði góða raun.  Fundurinn var allvel sóttur og þegar upp var staðið hafði 21 skráð sig sem stofnfélagar.  Samþykkt var að félagið skyldi heita Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga og fyrsta stjórn þess var skipuð:

Þórarinn Grímsson Víkingur,  bóndi Vattarnesi

Björn Daníelsson, kennari Búðum.

Björgvin Benediksson útgerðarmaður Búðum.

Og varamaður var Höskuldur Stefánsson, bóndi Dölum.

Fyrsti kaupfélagsstjórinn var:

 Björn Ingi Stefánsson 1933 – 1946, síðan komu hver af öðum:

Einar Guðni Sigurðsson 1946 – 1949

Guðlaugur Eyjólfsson 1949 – 1955

Helgi Vigfússon 1955 – 1959

Guðjón Friðgeirsson 1959 – 1969

Páll Jónsson 1969 – 1974

Einar Jónsson 1974 – 1974

Gísli Jónatansson 1974 -2013

Friðrik Mar Guðmundsson 2013 –

Það var svo ekki fyrr en 1937 að fyrsta konan gekk í félagið og hefur þeim fjölgað jafnt og þétt eftir það.

Og nú eru 90 ár liðin. Á þessum árum hefur Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga marga fjöruna sopið og á stundum átt erfið ár. En góðu árin hafa líka verið allmörg, sér í lagi hin síðari, eftir að félaginu var breytt í eignarhaldsfélag og þess helsta hlutverk er að gæta að og hlú að dótturfélagi sínu, Loðnuvinnslunni.

Til gamans má líkja Kaupfélagi Fáskrúðsfirðinga við eldri dömu sem lætur sér fátt um finnast þegar straumar og stefnur í þjóðfélaginu ýta undir skoðanir fólks á einu og öðru.  Því þessi tiltekna dama hefur staðið af sér það sem mörg systurfélög, þ.e. önnur kaupfélög, hafa brotnað undan og leysts upp í framhaldinu.  Að sjálfsögðu hefur KFFB breyst og þróast, það rekur ekki lengur verslun, sláturhús og fiskverkun líkt og áður fyrr heldur hefur lagað sig að breyttu umhverfi en kjarni þess hefur ekki breyst. Það er enn í eigu fólksins í firðinum og lýtur enn sömu hugsjónum.

Kaupfélagið er liðlegt að styrkja starfsemi í og við Fáskrúðsfjörð. Gárungar segja gjarnan að á Búðum drekki fólki ekki kaffi saman öðruvísi en að Kaupfélagið borgi. Og er það gjarnan sagt með hlýju til þess að leggja áherslu á það hversu liðlegt félagið er að styrkja. T.a.m. var styrkjum fyrir tæpar tvær milljónir króna úthlutað á síðasta aðalfundi ( dótturfélagið LVF útdeildi 30 milljónum í styrki á sínum aðalfundi). Á síðustu tíu árum hafa Kaupfélagið og Loðnuvinnslan sett tæpar 300 milljónir út í samfélagið í formi styrkja.

Enn á félagið húseignina sem það hóf rekstur sinn í og var að einhverju leiti grundvöllur þess að félagið var stofnað. Það er  húsið sem kallað er Tangi. Þar var áður rekin verslun og þegar hún var komin í þrot árið 1933 sáu hugsjónamenn um stofnun kaupfélags sér leik á borði að reka þar verslun og þar var einnig hafnaraðstaða.  Í upphafi var í Tangahúsinu verslun og íbúð kaupfélagsstjóra en smám saman færðist verslunin í allt húsið og kaupfélagstjórinn flutti í hús sem kalla var Miðströnd. Síðar byggði félagið fallegt hús við Hamarsgötu sem nefnist Tröð sem verið hefur heimili kaupfélagsstjóra síðan.   Árið 1980 var hætt að reka verslun í Tanga en þá flutti verslunin í jarðhæðina á Skólavegi 59, húsi sem var í byggingu en jarðhæðin var tilbúin til notkunar. Eftir það var ýmisleg starfsemi í Tangahúsinu þar til það var komið að niðurlotum. Þá var tekin sú ákvörðun hjá stjórn Kaupfélagsins að endurbyggja húsið í sinni upprunalegu mynd.  Og nú er húsið bæjarprýði. Reisulegt og fallegt líkt og það var þegar það var reist árið 1895. Það var sannarlegt gæfuspor að hefja það hús til vegs og virðingar á ný.  Nú er húsið notað undir námskeiðs og fundahöld fyrir LVF auk þess sem að hópur handverksfólks við Fáskrúðsfjörð selur haldverk sitt i Gallerí Kolfreyju í gamla verslunarrýminu.

Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga hefur átt drjúgan þátt í að efla og styrkja samfélagið við Fáskrúðsfjörð og áhugi á starfsemi þess hefur aukist til muna síðustu ár eins og sjá má á aukinni aðsókn í félagið. Það hefur vaxið frá þeim rúmlega tuttugu einstaklingum sem stóðu að stofnun þess í tæp þrjú hundruð og fimmtíu einstaklinga dagsins í dag.

Steinn Jónasson er stjórnarformaður Kaupfélagsins og sagðist hann afar stoltur af stöðu félagsins í dag. „Það er sjálfu sér merkilegt að félag eða fyrirtæki nái því að verða 90 ára gamalt“ sagði Steinn og bætti því við að hann bæri þá von í brjósti að félagið ætti eftir að starfa um langa tíð, „enda ekkert sem bendir til annars, það er heilsuhraust og lífslíkur afar góðar“ sagði Steinn kíminn.

Merkilegum áföngum er gaman að fagna og þessu 90 ára gamla Kaupfélagi verður haldin afmælisfagnaður þann 15.september n.k. Þá verður líka haldið upp á 50 ára afmæli Ljósafells SU 70 sem dótturfélag  Kaupfélagsins, Hraðfrystihús Fáskrúðsfjarðar,  festi kaup á á sínum tíma en Loðnuvinnslan rekur í dag.

Allt félagsfólk Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga og allt starfsfólk Loðnuvinnslunnar er hjartanlega velkomið til fagnaðarins og hvatt til að mæta. Þar verður boðið upp á þriggja rétta máltíð og skemmtun.  Skráning á afmælisfagnaðinn er á skrifstofu Loðnuvinnslunnar, sími: 470 5000 eða á netfangið: adda@lvf.is fyrir 15.ágúst n.k.

BÓA

Ljósmynd Jónína Óskarsdóttir
Falleg jólamynd af höfuðstöðvum Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga. Ljósmynd: Jónína Guðrún Óskarsdóttir

Tangi, endurbyggt í sinni upprunalegu mynd.

Hafrafell með 244 tonn í júlí.

Samkvæmt aflafréttum þá var Hafrafell með mestan afla hjá bátum yfir 21 BT í júlí.

Bátar yfir 21 BT í júlí.nr.3.2023

Listi númer 3.

Hafrafell SU mynd Loðnuvinnslan

Sæti áðurNafnHeildarafliRóðrarMesti afliHöfn
1Hafrafell SU 65243.92319.9Stöðvarfjörður, Neskaupstaður
2Kristján HF 100212.71421.2Ólafsvík, Bolungarvík
3Einar Guðnason ÍS 303209.81913.7Suðureyri
4Sandfell SU 75133.11219.3Stöðvarfjörður, Fáskrúðsfjörður
5Vigur SF 80111.7722.7Neskaupstaður, Hornafjörður
6Indriði Kristins BA 75198.9620.3Tálknafjörður
7Fjölnir GK 15795.6195.6Grindavík
8Kristinn HU 81266.1819.5Skagaströnd, Ólafsvík
9Sighvatur GK 5739.6139.6Grindavík
10Páll Jónsson GK 739.5139.5Grindavík
11Óli á Stað GK 9920.9215.8Siglufjörður
12Auður Vésteins SU 8811.7111.7Stöðvarfjörður
13Vésteinn GK 8810.5110.5Stöðvarfjörður
14Gísli Súrsson GK 86.816.8Stöðvarfjörður

Hoffell er á landleið með tæp 1.300 tonn af Makríl.

Hoffell er á landleið með tæp 1.300 tonn af Makríl og verður snemma í fyrramálið.  Góð veiði var í þessum túr aðeins 2 1/2 sólarhring tók að fá aflann.
Veiðisvæðið er smugunni núna og er um 360 mílur frá Fáskrúðsfirði.  Hoffell hefur þá veitt um 5.300 tonn af Makríl og Síld á vertíðinni.
Skipið fer út strax eftir löndun.

Mynd: Valgeir Mar Friðriksson.

Ljósafell landar fullfermi og heldur í slipp

Ljósafell kom inn í morgun með fullfermi 115 tonn.  Aflinn er 45 tonn karfi, 35 tonn þorskur, 25 tonn utsi, 7 tonn ýsa og annar afli.

Eftir löndun í dag fer skipið í slipp í Þórshöfn í Færeyjum og verður byrjað að vinna við skipið á mánudaginn.

Garðar Svavarsson ráðinn framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar og kaupfélagsstjóri Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga

Garðar Svavarsson hefur verið ráðinn kaupfélagsstjóri Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga og framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar hf. Fáskrúðsfirði. Garðar tekur við starfinu af Friðriki Mar Guðmundssyni sem lætur af störfum á haustmánuðum eftir 19 ára starf hjá félögunum, þar af sem framkvæmdastjóri undanfarin 10 ár.

Garðar er sjávarútvegsfræðingur að mennt og kemur til félaganna frá Brim hf. þar sem hann hefur starfað í 24 ár, þar af sem forstöðumaður uppsjávarsviðs Brims hf. undanfarinn áratug.

Garðar hefur mjög víðtæka reynslu af störfum innan sjávarútvegs en frá því að hann hóf störf í fiskvinnslu á unglingsárum hefur hann gegnt hinum ýmsu störfum á sviði framleiðslu, sölu og markaðsmála. Garðar hefur tekið virkan þátt í uppbyggingu félagsins undanfarin ár, nú síðast með því að leiða uppsjávarsvið félagsins í áratug með góðum árangri.

Samhliða því að taka við starfi kaupfélagsstjóra Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga og framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar hf. Fáskrúðsfirði mun Garðar flytja með fjölskyldu sína til Fáskrúðsfjarðar en hann er kvæntur Aldísi Önnu Sigurjónsdóttir, náms- og starfsráðgjafa, og eiga þau saman fjögur börn.

Öflugur rekstur og viðburðarík ár

Loðnuvinnslan er að mestu leyti í eigu kaupfélagsins. Rekstur Loðnuvinnslunnar hefur gengið vel undanfarin ár og var árið 2022 besta ár í sögu félagsins. Eigið fé félagsins hefur fimmfaldast á undanförnum 10 árum, farið úr 3 milljörðum í 16 milljarða, og hagnaður verið samtals 14,5 milljarðar. Stjórnir beggja félaganna þakka Friðriki fyrir öfluga uppbyggingu og farsælt starf í þágu þeirra á liðnum árum.

„Ég vil þakka fyrir það traust og þann stuðning sem ég hef fengið frá starfsfólki og stjórn félaga á liðnum árum. Ég  er stoltur af þeim árangri sem við höfum náð saman. Jafnframt er ég þakklátur því að jafn reynslumikill og traustur maður og Garðar Svavarsson taki við keflinu í haust og leiði fyrirtækið inn í nýja tíma,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson.

Hoffell með 1.100 tonn af makríl

Hoffell kom í land um kl 4 í nótt með 1.100 tonn af makríl. Aflinn er fenginn um 120 mílur austur af Fáskrúðsfirði.

Skipið fer út strax eftir löndun.

Ljósafell með fullfermi

Ljósafell kom í land á föstudaginn með fullfermi 115 tonn.  Aflinn var 40 tonn karfi, 30 tonn ýsa, 22 tonn þorskur, 15 tonn ufsi og annar afli. 

Skipið fór aftur út kl 12 í gærdag.

Mynd: Þorgeir Baldursson