Aðalfundur Kaupfélagsins

Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga stendur sem fyrr traustum fótum. Á aðalfundi KFFB sem haldinn var 17.maí 2024 komu eftirfarandi tölur fram.

Hagnaður ársins 2023 var 1.068 milljónir.

Eigið fé félagsins var 14.611 milljónir þann 31.12.2023, sem er 99,8% af niðurstöðu efnahagsreiknings. Stærsta einstaka eign félagsins er 83% eignarhlutur í Loðnuvinnslunni hf.

Í stjórn Kaupfélagsins eru:

Steinn Jónasson stjórnarformaður

Elvar Óskarsson

Högni Páll Harðarson

Elsa Sigrún Elísdóttir

Óskar Þór Guðmundsson

Varamenn í stjórn eru: Jónína Guðrún Óskarsdóttir, Ólafur Níels Eiríksson og Jóna Björg Jónsdóttir

Fallega húseign Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga, Tangi.

Samfélagsstyrkir afhentir

Á aðalfundum Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga og Loðnuvinnslunnar, sem haldnir voru

 í Wathnessjóhúsi  föstudaginn 17.maí 2024,  afhentu félögin styrki  til stofnanna og félagasamtaka.

Á stundum er sagt að það endurspegli hvert samfélag hvernig búið er að yngstu og elstu íbúum þess. Kaupfélagið og Loðnuvinnslan hafa tekið höndum saman um kaup á 10 sjúkrarúmum, auk tilheyrandi búnaðar, og færa dvalar og hjúkrunarheimilinu Uppsölum þau að gjöf.  Er þetta afar rausnarlega gjöf, ein af þeim sem ekki verður metin til fjár því að viðtakendur, þ.e. notendur gjafarinnar, eiga aðeins það besta skilið eftir þeirra framlag til samfélagsins alls. Eru þessi rúm hönnuð með þægindi í huga fyrir þá sem í þeim hvíla en einnig fyrir starfsfólk sem hlúir að liggjandi einstaklingum.  Svava Ingibjörg Sveinbjörnsdóttir er framkvæmdastjóri fjármála hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands og sagði hún að gjöfin væri ómetanleg. „Það er svo mikilvægt að fá slíkan stuðning frá samfélaginu líkt og hér hefur átt sér stað með þessari gjöf“ sagði Svava og bætti því við að það hefði komið sér og öðrum stjórnendum HSA skemmtilega á óvart að frumkvæðið að því að sækja um styrk til kaupa á rúmum hafi komið frá tveimur starfskonum á Uppsölum, annars vegar Hrefnu Eyþórsdóttur sjúkraþjálfara og hins vegar Bjarnheiði Pálsdóttur starfskona í aðhlynningu.  „Við hjá HSA, starfsfólk og íbúar á Uppsölum þökkum kærlega fyrir“ sagði Svava Ingibjörg.

Félagsskapur um Franska daga hlaut í styrk 2 milljónir króna frá Kaupfélaginu og 2 milljónir frá Loðnuvinnslunni. Um er að ræða félagsskap sem er framkvæmdaraðili fyrir bæjarhátíðinni Franskir dagar sem haldin ár hvert í lok júlí á Fáskrúðsfirði.

María Ósk Óskarsdóttir Snædal tók við styrkjunum fyrir hönd Franskra daga og sagði María aðspurð að án styrkjanna frá Kaupfélaginu og Loðnuvinnslunni væru Franskir dagar ekki svipur hjá sjón. „Þessir peningar gera okkur kleift að bjóða alla barnadagskránna án endurgjalds sem munar miklu fyrir barnafjölskyldur“ bætti María Ósk við.

Það kostar heilmikið  að halda glæsilega bæjarhátíð sem býður upp á dagskrá fyrir alla aldurshópa og því koma þessir fjármunir sér vel og þeim verður vel verið okkur öllum til ánægju.

Hollvinasamtök Skrúðs fengu 1 milljón til áframhaldandi uppbyggingar félagsheimilisins Skrúðs.  Eins og flestum er kunnugt er Skrúður í eigu sveitafélagsins en Hollvinasamtökin hafa komið að viðhaldi og endurreisn hússins með miklum ágætum.  Á milli eigenda og samtakanna er mikið og gott samstaf um áætlun og framkvæmdir og hafa Hollvinasamtökin fulla stjórn á því í hvað þeir fjármunir fara sem samtökin ráða yfir. 

Kaupfélagið hefur verið dyggur stuðningaðili Hollvinasamtaka Skrúðs og hafa þeir fjámunir aðallega farið í að kaupa alls konar búnað sem nýtist bæjarbúum vel þegar nota skal húsið til hinna ýmsu mannfagnaða. Má þar nefna búnað í eldhús, myndvarpa, hljóðkerfi og fleira í þeim dúr, auk glugga sem samtökin keyptu en sveitafélagið sá um að koma á sinn stað.

Smári Júlíusson er formaður Hollvinasamtaka Skrúðs og sagði hann að styrkurinn væri afar vel þeginn og kæmi sér vel. Af nægu er að taka þegar kemur að viðhaldi og uppbyggingu byggingar af þeirri stærðargráðu sem Skrúður er.

Loðnuvinnslan afhenti björgunarsveitinni Geisla  1 milljón króna til styrktar sinni starfsemi. Það er hverju samfélagi mikilvægt að hafa innan sinna raða félagsskap sem er tilbúin til þess að láta til sín taka þegar slys, hamfarir eða annars konar erfiðleikar bera að höndum . Loðnuvinnslan hefur í gegn um tíðina verið dyggur og trúr stuðningsaðili Geisla og á því er engin breyting.

„Svona styrkur er mjög þýðingarmikill fyrir t.d. okkar rekstraröryggi, þar sem við vitum aldrei hve stórt kallið verður, ef það kemur. Menntun okkar, og viðhald hennar kostar líka, auk þess sem við reynum líka að leggja fyrir svo við getum endurnýjað og bætt tæki okkar. Við eigum mjög öflugan tækjakost, sérstaklega fyrir sjóbjörgun og Loðnuvinnslan á alveg sinn þátt í því að þetta sé til á staðnum“ sagði Grétar Helgi Geirsson formaður Geisla.

 Þá lætur LVF 10 milljónir króna af hendi rakna til starfsmannafélags Loðnuvinnslunnar til styrktar því góða starfi sem þar fer fram.

Starfsmannafélag LVF er ötult félag sem stendur fyrir margvíslegum ferðum og uppákomum fyrir sitt fólk. Má þar nefna jólaskemmtun, sjómannadagsskemmtun, auk ferðalaga innan lands sem utan.

Kristín Hanna Hauksdóttir tók við styrknum fyrir hönd starfsmannafélagsins og sagði hún að félagið kynni afar vel að meta svo myndarlegan styrk. „Við þökkum kærlega fyrir okkur og hlökkum til að nýta fjármunina til skemmtunar og dægrastyttingar fyrir félagsfólk“ sagði Kristín Hanna.   

Ungmennafélagið Leiknir fékk afhentar 18 milljónir króna til íþrótta og æskulýðsstarfa.  Vilberg Marinó Jónsson er formaður Leiknis og sagði hann að þessi styrkur skipti sköpum fyrir félagið. “ Ekki aðeins leggur þessi upphæð þungt lóð á vogaskálarnar við rekstur félagsins, en innan þess eru margar deildir, heldur gefur okkur kost á því að stofna nýjar deildir ef  sú staða kemur upp” sagði Vilberg er hann var inntur eftir viðbrögðum við styrknum.  Þá gefur upphæð sem þessi félaginu mögulegt að stilla æfingagjöldum í hóf í þeim tilgangi að jafna möguleika barna og ungmenna til íþróttaiðkunar því sannarlega eru aðstæður heimila misjafnar. “Þetta er mjög rausnarlegur styrkur og við erum afar þakklát Loðnuvinnslunni” sagði Vilberg Marinó.

Að samanlögðu eru styrkirnir sem Loðnuvinnslan hf og Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga veittu að þessu sinni 39 milljónir króna.

Eftir þessa rausnarlegu útdeilanir styrkja frá LVF og KFFB komu þessi fleygu orð upp í hugann og við hæfi að gera þau að lokaorðum.

Gefðu alltaf án þess að muna og þiggðu alltaf án þess að gleyma.

BÓA

Efri röð frá vinstri: Vilberg Marinó Jónasson sem tók við strykt fyrir Ungmennafélagið Leikni, Elvar Óskarsson stjórnarformaður Loðnuvinnslunnar, Gretar Helgi Geirsson sem tók við styrk fyrir björgunarsveitina Geisla, Garðar Svavarsson framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar og Kaupfélagastjóri. Neðri röð frá vinstri: Steinn Jónasson stjórnarformaður Kaupfélagsins, Kristín Hanna Hauksdóttir sem tók við styrk fyrir hönd Starfsmannafélgas LVF, María Ósk Óskarsdóttir Snædal sem tók við styrk fyrir hönd félags um Franska daga, Jóna Björg Jónsdóttir sem tók við styrk fyrir Hollvinasamtök Skrúðs og Bjarnheiður Pálsdóttir sem tók við styrk fyrir hönd dvalar-og hjúkrunarheimilisins Uppsala.

Skyndihjálparnámskeið

Undanfarið hafa verið skyndihjálparnámskeið fyrir starfsfólk Loðnuvinnslunnar. Það er mikilvægt að kunna að bregðast við ef slys eða veikindi bera að höndum.

Á heimasíðu Rauða krossins er skyndihjálp skilgreind með eftirfarandi orðum: „Skyndihjálp (eða hjálp í viðlögum, fyrsta hjálp) er hugtak sem haft er um grunnaðhlynningu og aðstoð vegna veikinda eða slysa. Það eru gjarnan leikmenn, þ.e. ekki sérmenntaðir heilbrigðisstarfsmenn, sem veita fyrstu hjálp og hlúa að sjúklingi þar til sjúkraliðar eða önnur sérþjálfuð hjálp berst“.

Markmið skyndihjálpar má draga í þrjá dilka:

  • Að varðveita líf — þar með líf þess sem veitir aðstoð
  • Að koma í veg fyrir frekari skaða — til dæmis með því að tryggja öryggi á vettvang, hreyfa ekki sjúkling nema nauðsyn krefji, stöðva blæðingu o.s.frv.
  • Að bæta ástand sjúklings og flýta bata — til dæmis með því að kæla brunasár eða spelka beinbrot

Haldin voru þrjú námskeið á vegum Loðnuvinnslunnar og var starfsfólki skipt í hópa til að njóta fræðslunnar. Kennari á námskeiðunum var Sigurfinnur Líndal Stefánsson hjúkrunarfræðingur og skyndihjálparleiðbeinandi á vegum Rauða krossins. Sigurfinnur, sem jafnan er kallaður Finnur, hefur kennt skyndihjálp í u.þ.b. tíu ár og hefur því mikla reynslu. Menntun hans sem hjúkrunarfræðingur kemur líka að góðum notum  auk þess sem hann hefur starfað sem sjúkraflutningamaður.  Aðspurður svaraði Finnur því til að námskeiðin hefðu gengið mjög vel. Þátttakendur hefðu verið áhugasamir og viljugir til þess að læra.  „Það er mikið efni sem þarf að fara yfir og þá kemur reynslan til sögunnar svo að ég get lagt áherslu á þá hluti sem eru sérstaklega mikilvægir“ sagði Finnur.

Ingólfur Sveinsson starfar í fiskmjölsverksmiðjunni og sagði hann að námskeiðið hefði verið mjög fínt. „Við (starfsfólk LVF) förum mjög reglulega á skyndihjálparnámskeið og það er bara mjög fínt“.  Sagði Ingólfur líka að það sem hann lærði á námskeiðinu væri kunnátta sem væri mikilvægt að búa yfir en vonandi þyrfti hann  aldrei að nota þá kunnáttu.  Og sjálfsagt geta allir tekið í sama streng þar.

Þórunn Linda Beck  starfar í hraðfrystihúsinu. Hún kvaðst líka hafa farið á allmörg skyndihjálparnámskeið á vegum LVF og það væri mjög fínt. „Kennarinn, hann Finnur, var líka mjög góður, hann útskýrði allt á mannamáli“ sagði Þórunn Linda. Hún sagði einnig að þrátt fyrir að hafa farið oft á námskeið þá lærði hún alltaf eitthvað nýtt.

Loðnuvinnslan leggur áherslu á öryggi og velferð starfsfólks. Að bjóða upp á skyndihjálparnámskeið með reglulegu millibili er liður í þeirri vegferð. Að búa yfir þeirri kunnáttu að bregðast rétt við á ögurstundu getur skilið á milli lífs og dauða. Ekkert er jú dýmætara en lífið sjálf.

BÓA

Þátttakendur æfa sig í viðbrögðum. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Ljósmynd: Arnfíður Eide Hafþórsdóttir

Nauðsynlegt að næra sig. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Tilkynning um ráðningu.

Eydís Ósk Heimisdóttir hefur verið ráðin í bókhaldsstarf Loðnuvinnslunnar.

Hún er með BSc gráðu í Viðskiptafræði, menningu og Spænsku frá Copenhagen Business School og MT í Kennslufræðum. Eydís Ósk  hefur starfað hjá Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar síðastliðið ár sem skólastjóri.

Við bjóðum hana velkomna í hópinn og hlökkum til samstarfsins.

Hruni og Sabina

Á Fáskrúðsfirði er nokkuð rík saga um bátasmíði. Hér var á árum áður öflug fyrirtæki sem smíðuðu báta úr timbri. Í árdaga bátasmíða fór smíðin að mestu fram utandyra en síðar byggðust hús og skemmur til starfsseminnar. Og þrátt fyrir að bátasmíði sé aflögð fyrir nokkru síðan standa byggingarnar enn og hafa fengið ný hlutverk. Hér erum við að tala um byggingar sem í daglegu tali eru oft kallaðar samheitinu „Oddaverkstæði“,  að öllum líkindum til aðgreiningar frá íbúðahúsinu Odda sem stendur aðeins innar í þorpinu. 

Eru þessar byggingar reistar á mismunandi tíma og nær þyrpingin frá fjöru upp að Búðavegi og við götuna er yngsta byggingin.  Á útihurðinni sem vísar út að götu er falleg glerskreyting sem á er letrað; Hruni 1938. Þannig að gera má ráð fyrir því að sá hluti samstæðunnur hafi fengið þetta nafn á einhverjum tímapunkti.

Í dag eru umræddar byggingar í eigu Loðnuvinnslunnar. Og þar sem LVF stundar ekki bátasmíði hafa byggingarnr fengið önnur hlutverk eins og áður sagði.  Þar sem áður voru smíðaðir bátaskrokkar  er nú geymsla og kæliklefi og þar sem áður var vélaverkstæði er einnig geymsla því að stórt fyrirtæki líkt og Loðnuvinnslan þarf að hafa rými til að geyma hluti og margir hlutir sem tilheyra sjávarútvegi eru afar fyrirferðamiklir.

En í þeim hluta sem áður voru skrifstofur og verslun á vegum þeirra fyrirtækja sem ráku bátasmíðina hafa í gegn um tíðina verið ýmiskonar starfsemi. Þar var meira að segja búið um nokkurra ára skeið. Svo var þar hárgreiðslustofa um tíma og handverkskonan Frú Anna var með sína starfsemi þar.  Í dag hýsir Hruni verslun og framleiðslustarfsemi á vegum Sabinu Helvida. Sabina selur þar sína eigin framleiðslu sem eru sápur, smyrsl, líkamsolíur og nuddolíur svo að eitthvað sé nefnt.

„Ég geri allt sjálf“ segir Sabina, „ég týni jurtirnar bæði hér heima á Íslandi og heima í Bosníu, ég hanna vörurnar, framleiði, pakka og sel“.  Verslunin hennar Sabinu er falleg og vörurnar hennar hafa hlotið mikið lof. Um er að ræða 100% náttúrlegar vörur, vistvænar og notendavænar. Sabina prjónar líka og selur þær vörur í búðinni sinni líka.

Vinnustofa Sabinu er líka í Hruna. „Ég er með öll tilskilin leyfi og vottun og samkvæmt reglugerð má ég ekki framleiða þegar verslunin er opin svo ég geri það um helgar og á kvöldin og þá framleiði ég svolítð magn til að fylla á hillurnar“ sagði Sabina sem er að vonum stolt af vörunum sínum enda ekki kastað til hendinni við framleiðslu þeirra.

Þá segir Sabina að hún sérhanni líka vörur fyrir einstaklinga. „það hafa komið til mín einstaklingar með tiltekin húðvandamál og ég bý til sérhönnuð krem eða smyrsl til að vinna á þeim vandamálum“ sagði Sabina sem hefur ríka þjónustulund og vill gjarnan hjálpa.

Það er hagur fyrir lítil samfélög þegar ný þjónusta  býðst og vörurnar sem Sabina framleiðir í Hruna er enn ein rós í hnappagat okkar sem búum á Búðum við Fáskrúðsfjörð.

BÓA

Sabina framleiðir vörur fyrir herra. Ljósmynd: Sabina Helvida

Hér týnir Sabina jurtir. Ljósmynd: Sabina Helvida

Sabina við framleiðslu. Ljósmynd: Sabina Helvida

Fallegar handunnar sápur. Ljósmynd: Sabina Helvida

Ingimar Óskarsson

Það er hreint og snyrtilegt í kaffistofunni í vélaverkstæði Loðnuvinnslunnar og útsýnið úr glugganum sem vísar í suður er ekki af verri endanum.

Ingimar Óskarsson er verkstjóri á vélaverkstæðinu. Hann er fæddur á því herrans ári 1976, aðeins ellefu dögum eftir að lagið Dancing Queen með hljómsveitinni ABBA kom út í Svíþjóð.  Ingimar er yngstur fjögurra systkina og alinn upp í Búðaþorpi við Fáskrúðsfjörð.  Hann var tápmikill drengur og lék sér úti heilu daganna, ýmist í fjörunni eða fjallinu og hann var mikið á hjóli út um allar koppagrundir. „Ég var líka alltaf í kring um vélar og tæki og fékk snemma áhuga á slíku“ segir Ingimar.

Ingimar er bíladellukarl og hefur átt allnokkra bíla í gegnum tíðina en hefur hin síðari ár reynt að „halda í sér“ eins og hann sagði sjálfur brosandi og bætti við að svo virtist sem áhugi á bílum gengi í erfðir því að sonur hans væri núna ötull að benda föður sínum á áhugaverða bíla.

Ingimar er giftur Þórhildi Elfu Stefánsdóttur og eiga þau tvö börn. Barnabörnin eru tveir drengir og sá þriðji á leiðinni. Brúnirnar lyftast ofurlítið og röddin verður mildari þegar Ingimar tala um afadrengina sína enda tengslin sterk þar sem dóttir þeirra hjóna hefur búið hjá þeim með  drengina sína um tíma á meðan unga fjölskyldan endurbyggði og skipulagði sitt eigið hús.  „Það er æðislegt að vera afi“ sagði Ingimar.

Hann fór snemma að taka þátt í atvinnulífinu og starfaði hjá föður sínum á dekkjaverkstæði um nokkurra ára skeið og ók flutningabíl hjá Flytjanda í fjögur sumur.  En fyrir tólf árum hóf Ingimar störf á vélaverkstæði LVF og starfaði þar sem almennur starfsmaður þar til fyrir tæpum tveimur árum að þáverandi verkstjóri lét af störfum og starfið var auglýst laust til umsóknar. Og skemmst er frá því að segja að okkar maður fékk starfið og sinnir því í dag.

„Mér líður mjög vel í vinnunni“ svaraði Ingimar aðspurður, „það er oft mjög krefjandi og oft mikið að gera en ég er að vinna með frábæru fólki“ sagði Ingimar. Það eru tólf starfsmenn á vélaverkstæðinu og þar ríkir góður andi. Eðli starfsins gerir það að verkum að vélsmiðjukarlarnir starfa með fólki á öllum deildum innan Loðnuvinnslunnar. Það þarf að gera við, halda í horfi, smyrja og styrkja og skipta um íhluti út um allt. „Það er alls staðar frábært fólk og ekkert vesen“ sagði verkstjórinn.

Þegar Ingimar að spurður hvað honum þætti skemmtilegast að gera í vinnunni, hugsaði hann sig um svolitla stund og svaraði: „Ætli það sé ekki að vera einhversstaðar einn og sjóða“.  Á meðan á spjalli greinahöfundar og Ingimars stóð hringdi síminn hans nokkrum sinnum. Voru þetta vinnutengd símtöl þar sem vinnufélagar voru að fá leiðbeiningar eða álit á einhverju sem þeir voru að vinna að. Og ávallt svaraði Ingimar með sömu rólegu röddinni og gaf greinagóð svör. En skyldi maðurinn hafa tíma til að hlusta á tónlist eða sögur  þegar hann stendur einn og sýður og síminn er hljóður? „Ég hlusta þá frekar á tónlist heldur en sögu“ segir Ingimar og bætir brosandi við að hann týni alltaf þræðinum í sögum, „þetta er einhver brestur“ sagði hann rólega og staðfesti þar með mennsku sína því öll höfum við mannfólkið einhverja bresti.

Vélaverkstæðið tekur þátt í verkefni með Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar þar sem nemendum gefst kostur á að „mæta til vinnu“  á vélaverkstæðið og fá þar verkefni við hæfi. „Þau koma þrjá fimmtudaga í tvær klukkustundir í senn og það er virkilega gaman að fá þau“ sagði Ingimar .

En stundum á verkstjórinn frí og hvað finnst honum gaman að gera þá? „Að ferðast, innanlands og utan“ svaraði hann um hæl og sagði að þau hjónin nytu þess að ferðast og nýttu tækifæri þegar tími leyfði og að þau hefðu einnig tekið þátt í ferðum á vegum starfsmannafélags Loðnuvinnslunnar sem hafa verið hver annarri betri.

Ingimar Óskarsson er viðræðugóður maður og tíminn flaug hratt, en nú var kominn tími til að hleypa manninum aftur til starfa sinna enda verkefnin og vinnugleðin næg.

Ingimar Óskarsson

Wathnes hús

Wathnes sjóhús er ein elsta byggingin í Fáskrúðsfirði, en sjóhúsið er reist árið 1882. Byggingin er reist af Otto Wathne sem, ásamt bróður sínum Friðrik Wathne, rak bæði fiskverkun og verslun á Búðaströnd eins og það var kallað í kring um aldamótin 1900 þegar þorp tók að myndast við norðanverðan Fáskrúðsfjörð. Hefur húsið gengt hinum ýmsu hlutverkum í áranna rás.  Það hefur gengt hefðbundnu  hlutverki sjóhúss, pakkhúss og salthúsverkunnar, þar hafa verið saltaðar gærur auk þess sem  það hýsti hermenn um tíma á hernámsárum.  Húsið hefur tekið breytingum eftir þeirri starfsemi sem í því var stundað á hverjum tíma en í dag stendur það í sömu mynd og það var byggt.  Þetta fallega svarta hús með hvítu gluggaumgjarðirnar hefur hlotið glænýtt hlutverk, hlutverk sem að þeir Wathne bræður hafa að öllum líkindum aldrei gert sér í hugarlund. Nú er húsið helgað norðurljósum því að þar er sýning á ljósmyndum af norðurljósum, teknar af ljósmyndurunum Jónínu Guðrúnu Óskarsdóttur og Jóhönnu Kristínu Hauksdóttur sem báðar eru uppaldar í Búðaþorpi. Ljósmyndirnar eru einnig allar teknar í Fáskrúðsfirði og sýna  fjallahringinn baðaðan fallegri litasinfóníu norðurljósanna. En hvað gildi hefur það fyrir ljósmyndarana að sýna verk sín í umræddu húsi? „Það var mikið happ fyrir mig og Jóhönnu þegar okkur gafst kostur á að koma norðurljósmyndunum okkar fyrir í Wathneshúsinu og hafi Loðnuvinnslan mikla þökk fyrir. Húsið rammar myndirnar svo fallega inn og ég tel að myndirnar glæði líka húsið lífi og lyfti því upp. Þeir gestir sem koma til að skoða myndirnar tala um hversu áhrifamikil upplifun það er að sjá þessar myndir í þessu fallega umhverfi“ svaraði Jónína Guðrún

En það er ekki eina hlutverk hússins því þar eru gjarnan haldin mannamót. Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar heldur samkomur þar vegna margskonar tilefna og hafa landsþekktir tónlistamenn stigið þar á stokk til að skemmta starfsfólki. Þá eru aðalfundir bæði Loðnuvinnslunnar og Kaupfélagsins haldnir í húsinu en þar er allur sá búnaður að finna sem þarf til slíkra fundahalda. Þá er ótalið hinar ýmsu móttökur gesta á vegum LVF eða KFFB og skemmst er að minnast komu forseta Íslands s.l haust.

Fjóla Þorsteinsdóttir er bæjarleiðsögumaður og má segja að hún sé fremst meðal jafningja þegar kemur að því að fara með gesti um söguslóðir í Búðaþorpi. Hennar hlutverk hefur verið að taka á móti gestum á Norðurljóshús Íslands í Wathneshúsi. Lang stærsti hópur gesta eru erlendir ferðamenn sem eru á ferð um Ísland og að vonum langar flesta til þess að sjá norðurljósin með eigin augum, en ekki er alltaf færi á því. En það er alltaf færi á að skoða þessar fallegu myndir sem hanga á veggjum Wathnes sjóhússins. „Gestum finnst myndirnar magnaðar og í einstakri umgjörð í þessu húsi“ segir Fjóla og bætti því við að hún segi gestum gjarnan frá því að töluvert hefur verið haft fyrir flestum þessara mynda því ljósmyndararnir hafi á stundum legið kaldar og blautar í skurði heilu og hálfu næturnar til þess að ná sem bestum ljósmyndum, og slíkar sögur kann fólk að meta. Þegar gestir hafa lokið við að skoða ljósmyndirnar fer Fjóla með hópinn í Tanga þar sem konur á vegum Gallerí Kolfreyju taka á móti gestum með veitingum og hlýju brosi. Á þeirri skömmu leið sem liggur á milli þessara tveggja húsa segir leiðsögumaðurinn frá hlutverki Loðnuvinnslunnar og Kaupfélagsins, svo að allir sem taka þátt í slíkum túr hjá Fjólu fara frá Fáskrúðsfirði mun betur upplýstir um líf fólks við fjörðinn fyrr og nú.

BÓA

Fjóla Þorsteinsdóttir

Ljósmyndararnir og æskuvinkonurnar, Jóhanna Kristín Hauksdóttir og Jónína Guðrún Óskarsdóttir

Mynd af jólafagnaði Starfsmannafélags Loðnuvinnslunnar í Wathnes húsi. Greina má norðurljósin á veggjum.

Bryndís Magnúsdóttir

Bryndís Magnúsdóttir er launafulltrúi hjá Loðnuvinnslunni. Hún er ung kona, 39 ára gömul, björt yfirlitum og stutt í brosið. Bryndís er uppalin á Álftanesi, gekk þar í barnaskóla en á þeim tíma sem hún var að alast upp sóttu unglingarnir á Álftanesi skóla í Garðabæ.  Hún var uppátækjasamur stelpu krakki, „ég var martröð allra foreldra“ sagði Bryndís hlæjandi og rifjaði upp einhver af uppátækjum sínum sem barn. En þar á meðal má tilgreina að hún sleit þvott af snúrum nágranna og breiddi út um garðinn, hún stalst á bak á hestum sem stóðu saklausir á beit og ýmislegt fleira í þeim dúr. Þegar stórfjölskyldan hittist er gjarnan rifjuð upp eitthvað af bernskubrekum Bryndísar og þó að foreldrar hennar hlæi að þeim í dag má geta nærri að sú hafi ekki alltaf verið raunin. 

Það er fallegt á Álftanesi, stutt í fjörur, auðugt fuglalíf og auðugt mannlíf. Við slíkar aðstæður er gott að alast upp og ekki skemmir að geta stundað íþrótt sem hentar hverjum og einum og Bryndís var svo lánsöm að stunda fimleika um nokkurra ára skeið.

Eftir að grunnskóla lauk fór Bryndís í Iðnskólann í Hafnarfirði en þar var ekki hennar hilla. Þá fór hún í Fjölbrautarskólann í Garðabæ og útskrifaðist þaðan sem stúdent og elsta barnið hennar var aðeins eins mánaða við þau tímamót.

Bryndís og þáverandi sambýlismaður hennar tóku þá stóru ákvörðun að flytja austur á land með kornungan soninn því sambýlismaðurinn hafði fengið vinnu í Alco Fjarðaráli. En líkt og algengt er á lífið til að  flækist svolítið  og þau slitu samvistum.

Stundum er sagt að þegar einar dyr lokist þá opnist aðrar. Og hún Bryndís kynntist ástinni á nýjan leik. Hún hitti ungan mann frá Eskifirði, Hannes Rafn Hauksson, og þau gerðu sér bú á Reyðarfirði og eiga saman tvö börn.

Þegar Bryndís er innt eftir áhugamálum sínum svarar hún um hæl: „Hlaup, ég nýt þess að hlaupa og stunda útiveru“.  Bryndís hleypur með hlaupahópi sem starfræktur er á Reyðafirði auk þess að hlaupa á eigin vegum. Hún er með á dagskránni hjá sér að hlaupa hálfmaraþon auk annarra hlaupa. Þá segist hún Bryndís vera hálfgerður „borðspilanörd“. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á borðspilum, alveg frá því að ég var krakki, en þá þurftu spilin að vera með peningum líkt og Mattador“ sagði Bryndís brosandi en í dag eru spilapeningar ekki nauðsynlegir til að vekja áhuga hennar á spili. Þessi spilaáhugi er auðvitað fjölskyldu og vinum vel kunnur og því fær hún alloft spil að gjöf. „Ég á yfir 80 spil, sem ég hef safnað í gegn um tíðina“ segir Bryndís.

Þar sem Bryndís býr á Reyðarfirði en starfar hér á Búðum þá lá nokkuð beint við að spyrja hana hvernig henni fyndist að aka á milli allan ársins hring og hún svaraði því til að henni fyndist það gott. Að eiga stund með sjálfri sér í akstrinum en gott og færð og veður hafa verið með besta móti það sem af er þessum vetri svo engin vandamál hafa látið á sér kræla í þeim efnum.  „Maðurinn minn sér um krakkana á morgnana, að koma þeim í skólann og þess háttar svo að það er ekkert stress fyrir mig á morgnana, bara að aka í rólegheitum í vinnuna“ segir Bryndís og bætir því við að sér líki afar vel að vinna hjá Loðnuvinnslunni og finnist því aksturinn vel þess virði.

Þá er Bryndís er í stjórn Starfsmannafélags Loðnuvinnslunnar og það finnst henni skemmtilegt. „Þá fæ ég tækifæri til að kynnast fólki sem starfar í öðrum deildum“, því eðli málsins samkvæmt hefur hún mest samskipti við starfsfólk skrifstofunnar.  Viðburðirnir sem hafa verið á vegum Starfsmannafélagsins eru líka frábær vettvangur til að kynnast enn fleirum af samstarfsfólkinu“ sagði Bryndís að auki.

Bryndís sinnir starfi sem á hvílir mikil ábyrgð, hún reiknar úr laun, greiðir reikninga og sýslar með peninga. „Það hefur verið mikill lærdómur að sinna þessu starfi og ég er mjög þakklát fyrir tækifærið“ sagði Bryndís Magnúsdóttir að lokum.

BÓA

Bryndís Magnúsdóttir

Fyrsti loðnufarmurinn

Síðdegis í dag, föstudaginn 8.mars, kemur fyrsti loðnufarmurinn til löndunar hjá fiskmjölsverksmiðju Loðnuvinnslunnar. Mun þetta vera loðna veidd í Barentshafi af norska uppsjávarveiðiskipinu Herøyfjord . Eins og mörgum er kunnugt hefur ekki fundist loðna í íslenskri lögsögu og engar veiðiheimildir verið gefnar út.

Í kvöld kemur Hoffell að landi með fullfermi af kolmunna. Fer sá afli í bræðslu til framleiðslu á mjöli og lýsi. Svo annríkið heldur áfram hjá starfsfólki fiskmjölsverksmiðjunnar sem sinnir starfi sínu af einurð og dugnaði.

BÓA

Loðna

Línubátarnir afla vel

Í þeim stafræna heimi sem við lifum í er auðvelt að nálgast upplýsingar. Sú var tíðin að fólk þurfti að sitja með eyrað við útvarpstæki á fyrir fram ákveðnum tíma til þess að fá niðurstöður kosninga, vinsældalista í poppinu og fleira í þeim dúr. Nú horfir öðruvísi við. Til eru hlutlausir aðilar sem halda utan um upplýsingar svo við hin getum flett þeim upp og fræðst.  Þar á meðal eru Aflafréttir, vefsíða sem færir fréttir af aflatölum íslenska flotans.

Nú hafa Aflafréttir birt lista yfir aflahæstu báta yfir 21 brúttó tonn í febrúar, og þar er í fyrsta sæti Hafrafell Su 65 og í þriðja sæti er Sandfell Su 75. Hafrafell var með 341,7 tonn  og Sandfell með 310,6 tonn. Er þetta framúrskarandi árangur.

Ólafur Svanur Ingimundarson er skipstjóri á Hafrafelli. Þegar hann var inntur eftir því hverju hann þakkaði þennan góða árangur svaraði hann að bragði: „ Samstarfinu sem ríkir, við erum með fimmta manninn í landi, hann Geira (Siggeir Ólafsson) hann er okkar fimmti maður“.  Þá sagði skipstjórinn að allt samstarf við útgerðina væri til fyrirmyndar og það hefði mikið að segja að vera alltaf með topp beitu. „Það er hugsað um okkur   eins og blóm í eggi“ sagði skipstjórinn kampakátur.

Marcin Grudzien er skipstjóri á Sandfelli. Hann var mjög sáttu við árangurinn í febrúar og sagði að veðrið hefði verið nokkuð hagstætt miðað við árstíma og að það væri mikið af fiski. „Það er líka mög gott að hafa Siggeir, hann hugsar mjög vel um okkur og það er allt tilbúið þegar við komum að landi“ sagði Marcin.

 Afli Hafrafells og Sandfells er unninn í frystihúsi Loðnuvinnslunnar hér heima í Búðaþorpi.

Hafrafell og Sandfell hafa tvær áhafnir. Hvor áhöfn heldur út í tvær vikur og fær svo tvær vikur í frí. Þetta fyrirkomulag gerir það að verkum að sjómennirnir eru tilbúnir að sækja stíft á meðan á vaktinni stendur því þeirra bíður langt og gott frí.

BÓA

Sandfell

Hafrafell Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Tangi, verslunar og íveruhús

Tangi er hús í eigu Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga. Húsið er sannkölluð bæjarprýði þar sem það stendur við sjávarsíðuna, reisulegt og fallegt á að líta. 

Húsið á sér langa sögu en það var reist árið 1895 af Carli Daniel Tulinius en sonur hans Carl Andreas Tulinius rak verslunina fyrir föður sinn, síðar tók annar sonur Carls Daniels, Þórarinn Tulinius,  við rekstrinum.  Þegar verslunarsögu Tuliniusar feðga lauk í Búðaþorpi tóku aðrir aðilar við keflinu. Hinar sameinuðu íslensku verslanir, þar sem Þórarinn Tulinius var á meðal, þá tók við rekstrinum Jón Davíðsson kaupmaður og árið 1933 er Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga stofnað og kaupir húsin á Tangareitnum svokallaða.

Húsið Tangi er reist sem verslunar og íveruhús. Því var skipt í eystri og vestari hluta og í þeim eystri var heimili kaupmannsfjölskyldunnar og í þeim vestari var verslun á neðri hæð og lagar á eftir hæð.

Búið var í húsinu allt til ársins 1946 þannig að fyrsti kaupfélagsstjórinn Björn Ingi Stefánsson og kona hans Þórunn Sveinsdóttir áttu sitt heimili þar og  fæddust þeim fjögur börn í Tanga. Á þessum árum var hægt að sýlsa með rekstur Kaupfélagsins á einum litlum kontór.  En eftir því sem umfang Kaupfélagsins jókst var kaupfélagsstjóra fundið annað heimili og skrifstofur tóku að starfa í borðstofu og betri stofu.

En verslunin stækkaði ört og þurfti meira húsnæði þannig að skrifstofur voru fluttar annað og verslunin færðist í allt Tangahúsið. Þar var hægt að versla allt milli himins og jarðar, allt frá gúmmístígvélum til haglabyssa og hælaskóm til lambaskrokka.

Til þess að mæta þörfum starfseminnar í húsinu þurfti það að taka breytingum. Veggir voru fjarlægðir og  aðrir reistir.  Og þannig gekk það allt til ársins 1980 þegar Kaupfélagið hætti að reka verslun þar og flutti hana í nýtt húsnæði. Þá tók við tímabil í Tanga þar sem húsið fékk ýmis hlutverk, eitt af þeim var t.a.m netagerð eða netageymsla.

Rúmum tuttugu árum eftir að verslunarrekstri var lokið í Tanga var húsið orðið frekar dapurt ásýndar.  Fallegi búningurinn sem það hafði verið fært í við byggingu var ekki lengur til staðar. En Kaupfélagið sá gildi hússins og ákvað að endurbyggja það í sinni upprunalegu mynd. Nokkrum árum eftir að sú ákvörðun var tekin endurheimti Tangi sína upphaflegu fegurð og glæsileika og stendur þannig í dag.

En hús eru til þess að hýsa eitthvað líf, einhverja starfsemi. Og það er gert í Tanga. Þar er starfræktur handverksmarkaður heimamanna á Fáskrúðsfirði, Gallerí Kolfreyja. Þar er hægt að nálgast fallegt handverk af ýmsu tagi, allt unnið af fólki sem býr eða hefur búið í Fáskrúðsfirði.

Elsa Guðjónsdóttir er formaður stjórnar Gallerí Kolfreyju. Aðspurð svaraði hún því til að Kolfreyja gæti hreinlega ekki fengið hentugra eða betra húsnæði undir sína starfsemi. „Húsið er fallegt og heldur vel utan um okkar handgerða varning“ sagði Elsa.  Eðli málsins samkvæmt kemur margt fólk í Kolfreyju, ýmist Íslendingar eða erlendir ferðamenn. „Allir sem koma hingað dásama húsið ekki síður en það sem við höfum á boðstólnum“ sagði Elsa.

Þá er húsið nýtt undir starfsemi á vegum Loðnuvinnslunnar. Á efri hæð er lítill salur þar sem fram fara hin ýmsu námskeið fyrir starfsfólk fyrirtækisins. Þá hafa verið í húsinu myndlistasýningar auk sýninga á munum sem tengjast fólki og lífi hér við Fáskrúðsfjörð.

Þegar Tangi var endurbyggður var ekkert til sparað. Reynt var af fremsta megni að færa allt til fyrra horfs en þó var tekin sú ákvörðun að setja vatnssalerni þar sem kolageymslan hafði áður verið enda engin þörf á kolageymslu í dag.

Það var sannarlega gæfuspor hjá stjórn Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga að taka þá ákvörðun á sínum tíma að endurbyggja verslunar og íveruhúsið Tanga og nýta það undir starfsemi sem er öllu samfélaginu til heilla. Nú stendur það virðulegt, líkt og dama í bestu kápunni sinni, og tekur hlýlega á móti gestum þegar þeir bera að garði.

BÓA

Tangi eins og húsið lítur út í dag.

Tangi eins og húsið leit út áður en endurbætur hófust.

Elsa Guðjónsdóttir formaður Gallerí Kolfreyju