Allir hlæja á öskudaginn

ó, hvað mér finnst gaman þá.

Hlaupa lítil börn um bæinn,

 bera poka til og frá.

Þetta vísukorn eftir ókunnan höfund hefur að öllum líkindum fengið að hljóma nokkuð oft í dag, öskudag.

Öskudagur á sér langa sögu, svo langa að nafnið öskudagur kemur fyrir í íslenskum handritum frá 14.öld og aðrar heimildir benda til þess að hann sé enn eldri.  Öskudagur á upphaf sitt í kristnum sið og markar upphaf lönguföstu. Er þessi umræddi dagur ávallt á miðvikudegi í 7.viku fyrir páska.

Víða í heiminum eru haldnar kjötkveðjuhátíðir síðustu dagana fyrir lönguföstu, þá klæðist fólk skrautlegum búningum, dansar og syngur um götur og stræti.  Vísir að þessum sið barst  til Íslands fyrir margt löngu síðan. En þar sem veðurfar á þessum árstíma bíður varla uppá mikil hátíðahöld utandyra, hefur sá siður að klæðast búningum og slá köttinn úr tunnunni náð mestri fótfestu, og í dag  má nærri geta að öskudagur sé einn af eftirlætisdögum ungu kynslóðarinnar.  Börn og fullorðnir klæðast búningum, ganga á milli fyrirtækja og stofnana syngjandi lög og söngva og fá að launum sælgæti eða annað sem gleður.

Á skrifstofu Loðnuvinnslunnar komu góðir gestir að morgni öskudags. Voru þar á ferð nemendur úr Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar sem skörtuðu hinum ýmsu búningum undir þykkum vetrarfatnaði, því að það var jú 6 gráðu frost í Búðaþorpi. Þau sungu og léku á alls oddi því launin voru ekki af verri endanum. Rausnarlegur nammipoki með ýmsu góðgæti sem sannarlega gladdi viðtakendur.

Í Grunnskólanum  skipuleggja nemendur göngu um bæinn með viðkomu hér og þar í von um að eitthvað óvænt safnist í poka og töskur. Á skrifstofu LVF var börnunum vel tekið sem endranær og engin fór tómhentur heim.

BÓA

Börnin steyma inn á skrifstofuna. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Stilla sér upp til myndatöku og söngs. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Gestakoman undirbúin. Bryndís, Linda og Steina, starfskonur á skrifstofunni raða í poka. Ljósm: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Góðgætið sem fór í hvern poka. Ljósm: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Allt tilbúið. Ljósm: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir