Þegar þessi orð eru rituð í Búðaþorpi við Fáskrúðsfjörð skartar fjörðurinn sínu fegursta. Fjöll og dalir eru hjúpaðir hvítri fannar kápu, sjórinn vaggar blíðlega við fjöruborð og birtan er gullin þrátt fyrir að ekki sé blessuð sólin skriðin yfir fjallstoppana. Á degi eins og þessum er dásamlegt að búa við það frelsi að geta notað daginn í hvað eina sem löngunin stendur til.  Við slíkt frelsi býr fólk sem hefur hengt upp vinnuhattinn sinn, lagt skóna á hilluna eða hvað sem fólk kýs að kalla þann tíma þegar einstaklingur hefur lokið sinni starfsævi. 

Anna og Toni eru hætt að vinna, þ.e.a.s. þau eru hætt að stimpla sig inn á vinnustað en þau eru langt frá því að vera hætt að vinna sigra í lífinu sjálfu.

Anna Karen Hjaltadóttir er Fáskrúðsfirðingur, uppalin í Búðaþorpi, gekk hér í skóla og hér mótaðist hennar líf. Hún fór snemma að vinna, 13 ára gömul fékk hún íhlaupa vinnu í frystihúsinu eins og algengt var í þá daga þegar allir sem vettlingi gátu valdið voru kallaðir til þegar mikið var að gera.  Og í árslok 2023 lét hún af stöfum eftir 51 ár. „Þetta hefur ekki verið alveg samfelldur tími“ sagði Anna Karen hógvær þegar greinarhöfundur rak upp stór augu yfir árafjöldanum að baki.  Anna Karen starfaði í frystihúsinu og hefur gengið þar í nánast öll störf. Hún hefur verið á lyftara, slægt fisk, landað fiski, snyrt og pakkað. Svo hefur hún líka unnið við matargerð, gefið starfsfólki Loðnuvinnslunnar að borða og það var eftirlætis verkefnið. „Ég naut þess að elda mat, það var svo gaman en líka mjög krefjandi“ sagði Anna Karen.

Antonio Fernández Martinez var verkstjóri á rafmagnsverkstæðinu.  Hann er spænskur að uppruna en hefur dvalið á Íslandi meiri part ævinnar.  Hann hefur aðlagað sig að íslensku lífi og er í dag Íslendingur, hefur sinn ríkisborgararétt og talar óaðfinnanlega íslensku.  Hann hefur aðlagað nafnið sitt og kallar sig Anton Fernández og er oftast kallaður Toni.  Hann hóf störf hjá Loðnuvinnslunni árið 1980 og hefur því 43 ár að baki hjá LVF. Hann hóf störf á sjónum en fór síðan í iðnám og náði sér í meistararéttindi í rafvirkjun.  „Þetta er búið að vera mjög fínn tími og mikið af góðu fólki sem maður hefur unnið með í gegn um tíðina“ sagði Toni.

En nú hefst nýtt tímabil í lífi þeirra hjóna. Og aðspurð hvort að ákvörðunin hafi verið erfið voru þau sammála um að hún hefði í raun ekki verið það. „Við ákváðum þetta með eins árs fyrirvara og vorum hálf hrædd um að árið yrði lengi að líða en sú var aldeilis ekki raunin“ sögðu þau  og bættu því við að þau nytu þess virkilega vel að eiga allan sinn tíma sjálf. Að vakna að morgni og hafa þær einu skyldur að njóta lífsins ef svo má að orði komast. Og þegar þau voru innt eftir því hvað tæki nú við, hvað þau ætluðu að taka sér fyrir hendur svaraði Anna Karen að bragði: „ Ekki bara að sitja og horfa út um gluggann“. Nei, þau hafa önnur áform, þau langar að ferðast bæði innanlands og utan. Þau ætla að hlú að fólkinu sínu, börum og barnabörnum.

Þau eiga sér líka áhugamál sem þau hafa meiri tíma til að sinna, Toni er útivistamaður og hefur ánægju af því að ganga um fjöll og firnindi, Anna Karen prjónar og saman stunda þau sund.

Það er fallegur samhljómur í orðum þeirra hjóna Önnu og Tona þegar þau tala um njóta lífsins, njóta hvers einasta dags eins og hann kemur fyrir og hversu dýrmætt þeim þykir að hafa rýmri tíma til þess að njóta samvista við börn og barnabörn og vera til staðar fyrir þau.

Það er merkilegt þegar manneskja starfar hjá einu og sama fyrirtækinu nánast alla sína starfsævi. Anna Karen og Anton eru slíkar manneskjur, þau tala fallega um vinnuveitendur sína og ganga sátt frá borði. Að sama skapi eru þeim þökkuð af hjartans einlægni þeirra góðu störf, tryggð og þrautseigju í gegn um starfsins ólgusjó í nánast hálfa öld.

Bóa

Heiðurshjónin Anna og Toni.