Það þykir nokkuð algengt að færa hin ýmsu mannanna verk í fallegan búning við tímamót. Svolítið eins og við mannfólkið förum í betri fötin við hátíðleg tækifæri.  Ljósafell SU 70 er í slipp í Færeyjum og hefur verið fært í afar fallegan búning. Nýmálað og puntað á allan máta.

Það er svo sem engin nýlunda að Ljósafell fari í slipp, það fer mjög reglulega í slíka yfirhalningu líkt og önnur sjóför Loðnuvinnslunnar.  

Eins og mörgum er kunnugt er Ljósfell 50 ára gamalt skip. Það kom til heimahafnar á Fáskrúðsfirði þann 31.maí 1973 og þann 15.september n.k. verður haldi upp á þessi tímamót með veglegum hætti um leið og 90 ára afmæli Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga  verður fagnað.

Kjartan Reynisson útgerðarstjóri LVF sagði að skipið fengi góða yfirhalningu núna eða alls um 130 verknúmer, en hvert og eitt verkefni fær sitt númer til þess að auðveldara verði að halda utan um kostnað og vinnutíma. „ Skipið var heilmálað að utan, en auk þess málað í lest og millidekki auk fleiri rýma“ sagði Kjartan. Hann sagði jafnframt frá því að aðalvél og ljósavél hefðu verið teknar upp. Þá voru allir botn og síðulokar uppteknir og  krapavélar einnig. Skipið var allt þykktarmælt og yfirfarið. Margháttaðar viðgerðir á lögnum og lokum.  Einnig var allur björgunarbúnaður yfirfarinn  og haffæri þessa hálfra alda gamla skips endurnýjað.

Eins og sjá má hefur engu verið til sparað til þess að Ljósafell geti haldið áfram að sækja í fengsæl fiskimið og því bíði gæfurík framtíð til sjós.  En þegar afmæli þess verður fagnað af samferðafólkinu á Búðum, verður Ljósafell SU 70 í sínum allra fallegasta afmælisbúningi.

BÓA

Ljósafell í slippnum. Ljósmynd: Gunnar Þrastarson.

Ljósmynd: Gunnar Þrastarson

Ljósmynd: Gunnar Þrastarson

Nýmálað og fallegt Ljósafell. Ljósmynd: Kjartan Reynisson

Glæsilegt sem aldrei fyrr. Ljósmynd: Kjartan Reynisson