Undanfarið hafa verið skyndihjálparnámskeið fyrir starfsfólk Loðnuvinnslunnar. Það er mikilvægt að kunna að bregðast við ef slys eða veikindi bera að höndum.

Á heimasíðu Rauða krossins er skyndihjálp skilgreind með eftirfarandi orðum: „Skyndihjálp (eða hjálp í viðlögum, fyrsta hjálp) er hugtak sem haft er um grunnaðhlynningu og aðstoð vegna veikinda eða slysa. Það eru gjarnan leikmenn, þ.e. ekki sérmenntaðir heilbrigðisstarfsmenn, sem veita fyrstu hjálp og hlúa að sjúklingi þar til sjúkraliðar eða önnur sérþjálfuð hjálp berst“.

Markmið skyndihjálpar má draga í þrjá dilka:

  • Að varðveita líf — þar með líf þess sem veitir aðstoð
  • Að koma í veg fyrir frekari skaða — til dæmis með því að tryggja öryggi á vettvang, hreyfa ekki sjúkling nema nauðsyn krefji, stöðva blæðingu o.s.frv.
  • Að bæta ástand sjúklings og flýta bata — til dæmis með því að kæla brunasár eða spelka beinbrot

Haldin voru þrjú námskeið á vegum Loðnuvinnslunnar og var starfsfólki skipt í hópa til að njóta fræðslunnar. Kennari á námskeiðunum var Sigurfinnur Líndal Stefánsson hjúkrunarfræðingur og skyndihjálparleiðbeinandi á vegum Rauða krossins. Sigurfinnur, sem jafnan er kallaður Finnur, hefur kennt skyndihjálp í u.þ.b. tíu ár og hefur því mikla reynslu. Menntun hans sem hjúkrunarfræðingur kemur líka að góðum notum  auk þess sem hann hefur starfað sem sjúkraflutningamaður.  Aðspurður svaraði Finnur því til að námskeiðin hefðu gengið mjög vel. Þátttakendur hefðu verið áhugasamir og viljugir til þess að læra.  „Það er mikið efni sem þarf að fara yfir og þá kemur reynslan til sögunnar svo að ég get lagt áherslu á þá hluti sem eru sérstaklega mikilvægir“ sagði Finnur.

Ingólfur Sveinsson starfar í fiskmjölsverksmiðjunni og sagði hann að námskeiðið hefði verið mjög fínt. „Við (starfsfólk LVF) förum mjög reglulega á skyndihjálparnámskeið og það er bara mjög fínt“.  Sagði Ingólfur líka að það sem hann lærði á námskeiðinu væri kunnátta sem væri mikilvægt að búa yfir en vonandi þyrfti hann  aldrei að nota þá kunnáttu.  Og sjálfsagt geta allir tekið í sama streng þar.

Þórunn Linda Beck  starfar í hraðfrystihúsinu. Hún kvaðst líka hafa farið á allmörg skyndihjálparnámskeið á vegum LVF og það væri mjög fínt. „Kennarinn, hann Finnur, var líka mjög góður, hann útskýrði allt á mannamáli“ sagði Þórunn Linda. Hún sagði einnig að þrátt fyrir að hafa farið oft á námskeið þá lærði hún alltaf eitthvað nýtt.

Loðnuvinnslan leggur áherslu á öryggi og velferð starfsfólks. Að bjóða upp á skyndihjálparnámskeið með reglulegu millibili er liður í þeirri vegferð. Að búa yfir þeirri kunnáttu að bregðast rétt við á ögurstundu getur skilið á milli lífs og dauða. Ekkert er jú dýmætara en lífið sjálf.

BÓA

Þátttakendur æfa sig í viðbrögðum. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Ljósmynd: Arnfíður Eide Hafþórsdóttir

Nauðsynlegt að næra sig. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir