Á Fáskrúðsfirði er nokkuð rík saga um bátasmíði. Hér var á árum áður öflug fyrirtæki sem smíðuðu báta úr timbri. Í árdaga bátasmíða fór smíðin að mestu fram utandyra en síðar byggðust hús og skemmur til starfsseminnar. Og þrátt fyrir að bátasmíði sé aflögð fyrir nokkru síðan standa byggingarnar enn og hafa fengið ný hlutverk. Hér erum við að tala um byggingar sem í daglegu tali eru oft kallaðar samheitinu „Oddaverkstæði“, að öllum líkindum til aðgreiningar frá íbúðahúsinu Odda sem stendur aðeins innar í þorpinu.
Eru þessar byggingar reistar á mismunandi tíma og nær þyrpingin frá fjöru upp að Búðavegi og við götuna er yngsta byggingin. Á útihurðinni sem vísar út að götu er falleg glerskreyting sem á er letrað; Hruni 1938. Þannig að gera má ráð fyrir því að sá hluti samstæðunnur hafi fengið þetta nafn á einhverjum tímapunkti.
Í dag eru umræddar byggingar í eigu Loðnuvinnslunnar. Og þar sem LVF stundar ekki bátasmíði hafa byggingarnr fengið önnur hlutverk eins og áður sagði. Þar sem áður voru smíðaðir bátaskrokkar er nú geymsla og kæliklefi og þar sem áður var vélaverkstæði er einnig geymsla því að stórt fyrirtæki líkt og Loðnuvinnslan þarf að hafa rými til að geyma hluti og margir hlutir sem tilheyra sjávarútvegi eru afar fyrirferðamiklir.
En í þeim hluta sem áður voru skrifstofur og verslun á vegum þeirra fyrirtækja sem ráku bátasmíðina hafa í gegn um tíðina verið ýmiskonar starfsemi. Þar var meira að segja búið um nokkurra ára skeið. Svo var þar hárgreiðslustofa um tíma og handverkskonan Frú Anna var með sína starfsemi þar. Í dag hýsir Hruni verslun og framleiðslustarfsemi á vegum Sabinu Helvida. Sabina selur þar sína eigin framleiðslu sem eru sápur, smyrsl, líkamsolíur og nuddolíur svo að eitthvað sé nefnt.
„Ég geri allt sjálf“ segir Sabina, „ég týni jurtirnar bæði hér heima á Íslandi og heima í Bosníu, ég hanna vörurnar, framleiði, pakka og sel“. Verslunin hennar Sabinu er falleg og vörurnar hennar hafa hlotið mikið lof. Um er að ræða 100% náttúrlegar vörur, vistvænar og notendavænar. Sabina prjónar líka og selur þær vörur í búðinni sinni líka.
Vinnustofa Sabinu er líka í Hruna. „Ég er með öll tilskilin leyfi og vottun og samkvæmt reglugerð má ég ekki framleiða þegar verslunin er opin svo ég geri það um helgar og á kvöldin og þá framleiði ég svolítð magn til að fylla á hillurnar“ sagði Sabina sem er að vonum stolt af vörunum sínum enda ekki kastað til hendinni við framleiðslu þeirra.
Þá segir Sabina að hún sérhanni líka vörur fyrir einstaklinga. „það hafa komið til mín einstaklingar með tiltekin húðvandamál og ég bý til sérhönnuð krem eða smyrsl til að vinna á þeim vandamálum“ sagði Sabina sem hefur ríka þjónustulund og vill gjarnan hjálpa.
Það er hagur fyrir lítil samfélög þegar ný þjónusta býðst og vörurnar sem Sabina framleiðir í Hruna er enn ein rós í hnappagat okkar sem búum á Búðum við Fáskrúðsfjörð.
BÓA
Sabina framleiðir vörur fyrir herra. Ljósmynd: Sabina Helvida
Hér týnir Sabina jurtir. Ljósmynd: Sabina Helvida
Sabina við framleiðslu. Ljósmynd: Sabina Helvida
Fallegar handunnar sápur. Ljósmynd: Sabina Helvida