Hafið lokkar og laðar, segir í texta sem sungin var á nýliðnum sjómannadegi og fjallar um sjómanninn sem unir sér ekki lengi í landi því hafið lokki og laði. Þar kemur einnig fram að í landi sé kona sem styðji sinn mann og skilji þrána eftir hafinu og sjómennskunni. Það er falleg mynd sem dregin er upp í þessum söngtexta og sönn í mörgum tilvikum.

Þær manneskjur sem búa fjarri sjó þekkja ekki alltaf til þeirra starfa sem unnin eru í tengslum við sjómennsku og fiskvinnslu. Rétt eins og manneskjur sem búa við sjávarsíðuna þekkja ekki alltaf til allra stafa sem unnin eru til sveita. Þá kemur til kasta þeirra sem mennta mannfólkið til þess að ráða bót á þessu.

Í Brúarásskóla í Jökuldal er rekin metnaðarfull námskrá og áhersla lögð á að nemendur hljóti fræðslu um margvísleg fyrirbæri. Eitt að þeim viðfangsefnum sem nemendur hafa verið að fást við að undanförnu er verkefni sem þau kalla „sjómennskan er ekkert grín“,  Kristín Högnadóttir er umsjónakennari unglingastigs og  lýsti verkefninu, „nemendur  hafa  verið að vinna með báta, skip, veiðafæri, fisktegundir og þessháttar. Í þeirri vinnu fórum við t.a.m. og heimsóttum frystihús á Akureyri og þegar ákveðið var að fara í vorferð til Fáskrúðsfjarðar var kjörið að fá að heimsækja togara“ sagði Kristín.

Þannig bar því við að hópur nemenda úr Brúarásskóla heimsótti Ljósafellið og fékk  yfirvélstjórann Kristján Birgi Gylfason til þess að leiða sig í allan sannleikann um lífið, starfið, vélar og tæki um borð í togara.  Kristján Birgir var ánægður með heimsóknina, „þessir krakkar voru hress og skemmtileg og mjög áhugasöm“. Hann sagðist hafa leitt þau um skipið alveg frá brú og niður í vélarrúm og þau hefðu verið óspör á spurningar.

Þegar Kristín kennari var innt eftir hennar tilfinningu fyrir upplifun nemenda svaraði hún:

„Nemendur stóðu sig vel, fannst þetta forvitnilegt en margir voru að koma um borð í skip í fyrsta skipti. Þeir voru duglegir að spyrja spurninga, fóru um allt skip og gott ef einhverjir nemendur ætla ekki að óska eftir vinnu hjá LVF! Einum drengjanna í 9.bekk var bent á að hafa samband um leið og hann hefði aldur til. Eins var skemmtilegt að heyra hvað ein stúlkan var áhugasöm og talaði um að hún gæti alveg hugsað sér að mennta sig í vélstjórn“.

Kristín hafði líka orð á því að móttökurnar hefur verið mjög góðar,  „Kristján Birgir kom mjög vel fyrir, almennilegur og náði vel til krakkanna. Hann svaraði öllum spurningum mjög vel og heiðarlega“ sagði Kristín.

Þegar búið var að skoða og spyrja, svara og útskýra var öllum boðið í messann þar sem boðið var upp á gos og súkkulaði.

„Það var auðvitað geggjað að fá svona fínar veitingar í lok heimsóknarinnar“ sagði Kristín Högnadóttir og bætti við,   „takk kærlega fyrir okkur“.

BÓA

Ungur piltur mátar skipstjórastólinn. Ljósmynd: Kristján Birgir Gylfason.

Stund milli stríða. Ljósmynd: K.B.G

Vélarrúmið skoðað. Ljósmynd: K.B.G.

Gestirnir kunnu vel að meta góðgætið. Ljósmynd: K.B.G.