Kolmunni og síld

Það óhapp vildi til í fyrra dag að stýrisvél Hoffells bilaði um 100 sjóm. suðaustur af Fáskrúðsfirði og reyndist ekki unnt að gera við hana á staðnum. Hoffell var að ljúka veiðiferð þegar óhappið varð og var komið með um 1250 tonn af kolmunna. Ljósafell fór á staðinn og tók Hoffell í tog til heimahafnar og komu skipin að landi um miðnætti í gærkvöldi.

Og silfur hafsins heldur áfram að berast til Fáskrúðsfjarðar, því að í kjölfarið á Hoffelli og Ljósafelli kom Tróndur í Götu með um 400 tonn af síld.

Síldin streymir að landi

Það hefur verið mjög mikið að gera hjá starfsfólki Loðnuvinnslunnar að undanförnu, en unnið hefur verið á vöktum allan sólarhringinn við söltun og frystingu á síld. Síldin hefur verið stór, en mikil áta hefur verið í henni og þolir hún því takmarkaða geymslu og þarf að vinna hana hratt í gegn.

Í gærkvöldi komu tveir bátar með síld til Fáskrúðsfjarðar. Það voru færeyski báturinn Saksaberg með um 100 tonn og Gullberg VE með um 300 tonn.

Fyrsta norsk-ísl. síldin

Fyrsta norsk-íslenska síldin á þessu ári barst til Fáskrúðsfjarðar í gær. Danska skipið Beinur HG 62 landaði 351 tonni og Gullberg VE 292 var með 218 tonn. Um helmingur aflans fór til manneldisvinnslu, var flakaður og saltaður.

Í morgun kom svo færeyska skipið Tróndur í Götu með um 550 tonn af síld og um 700 tonn af kolmunna.

Sjómannadagurinn 2005

Loðnuvinnslan h/f færir sjómönnum og fjölskyldum þeirra heillaóskir í tilefni sjómannadagsins. Gleðilega hátíð.

Christian landar kolmunna

Færeyska skipið Christian í Grótinum KG 690 kom til Fáskrúðsfjarðar í morgun með 1950 tonn af kolmunna. Aflann fékk skipið norðarlega í færeysku lögsögunni nálægt miðlínu á milli Íslands og Færeyja.

Hagnaður LVF 90 milljónir

Hagnaður Loðnuvinnslunnar h/f á fyrsta ársfjórðungi 2005 nam kr. 90 millj. eftir skatta, en var kr. 55 millj. á sama tíma árið 2004.

Rekstrartekjur félagsins voru kr. 860 millj. og hækkuðu um 8% miðað við fyrsta ársfjórðung 2004. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármnagnsliði nam kr. 132 millj. eða 15% af tekjum og veltufé frá rekstri var kr. 124 millj. eða 14% af tekjum. Afskriftir voru kr. 58 millj. og höfðu hækkað um 6%. Fjármagnsliðir voru jákvæðir um kr. 32 millj., en voru neikvæðir um kr. 26 millj. á sama tíma fyrir ári.

Eigið fé félagsins var í lok tímabilsins kr. 1.541 millj., sem er 47% af niðurstöðu efnahagsreiknings og hækkaði um kr. 45 millj. á milli ára. Nettó skuldir Loðnuvinnslunnar voru kr. 935 millj. og hækkuðu um kr. 19 millj. á síðustu 12 mánuðum.

Fyrstu þrjá mánuði ársins tók Loðnuvinnslan á móti 42.000 tonnum af loðnu og 10.000 tonnum af kolmunna, frysti 820 tonn af loðnu fyrir Japansmarkað og 350 tonn af loðnuhrognum, auk hefðbundinnar bolfiskframleiðslu og eftirflökunar á saltsíld.

65 þúsund tonn

Starfsmenn í fiskimjölsverksmiðju Loðnuvinnslunnar hf héldu upp á það í gær að vera búnir að taka á móti 65 þúsund tonnum af hráefni frá áramótum. Verksmiðjan hefur tekið á móti 42 þúsund tonnum af loðnu og 23 þúsund tonnum af kolmunna. Á myndinni eru Magnús verksmiðjustjóri, Árni vaktformaður og hans ekta kvinna Linda, sem vinnur á skrifstofu LVF en hlýtur að hafa frétt af tertuátinu og skroppið í kaffi út í verksmiðju.

Taits landar kolmunna

Skoska skipið Taits FR 227 er að landa um 1000 tonnum af kolmunna á Fáskrúðsfirði. Aflann fékk skipið í lögsögu Færeyja.

Mikil kolmunnaveiði suður af Færeyjum.

Jupiter FD 42 frá Götu er að landa 2000 tonnum af kolmunna, þá eru væntanlegir á morgun til Fáskrúðsfjarðar bæði Hoffell og skoski báturinn Conquest með fullfermi, samtals 2500 tonn.

Fyrst kvenna

Það bar til tíðinda í morgun hjá LVF að kona mætti á vakt í fiskimjölsverksmiðjunni. Hún heitir Alberta Guðjónsdóttir og mun vera fyrst kvenna á Fáskrúðsfirði til að hefja störf við sjálfa framleiðsluna. Konur hafa hins vegar starfað um árabil á rannsóknarstofunni og við ræstingar hjá verksmiðjunni. Mikil gleði ríkti í morgun á meðal starfsmannanna yfir því að fá kattþrifna konu í hópinn. Velkomin Alberta.

Kolmunni úr lögsögu Færeyja.

Finnur Fríði landaði 2408 tonnum af kolmunna í gær og nótt. Hoffell er væntanlegt í fyrramálið með 1200 tonn af kolmunna. Kolmunninn veiðist nú syðst í lögsögu Færeyja við miðlínu Skotlands og Færeyja.

Hans Óli ráðinn til LVF

Hans Óli Rafnsson hefur verið ráðinn til LVF og mun m.a. hafa umsjón með tölvuvinnslu og launaútreikningum hjá félaginu. Hann tekur við starfinu af Kjartani Reynissyni, sem gegnt hefur því í 24 ár.

Hans Óli er fæddur á Fáskrúðsfirði 31. júlí 1966 og ólst þar upp. Hann lauk prófi í rafeindavirkjun árið 1993. Hann starfaði hjá Skiparadio 1993-1996 og síðar hjá Eltak. Hann hefur að undanförnu starfað sem verktaki hjá Voga- og mælitækni í Reykjavík og unnið við uppsetningar á tölvuvogum og tölvustýringum.

Kona hans er Berglind Agnarsdóttir, leikskólastjóri, og eiga þau tvö börn, Ellen Rós f. 1991 og Unnar Ara f. 1997. Hans Óli mun hefja störf hjá LVF 9. maí n.k.