Nýr verkstjóri

Björgvin Már Hansson hefur verið ráðinn verkstjóri hjá LVF í stað Ólafs Reynissonar. Björgvin Már er frá Stöðvarfirði, fæddur 12. ágúst 1974. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Egilsstöðum árið 1995 og prófi frá Fiskvinnsluskólanum í Hafnarfirði árið 2000. Hann hefur starfað sem verkstjóri hjá Skútuklöpp ehf á Stöðvarfirði frá 2001. Hann er í sambúð með Eyrúnu Maríu Elísdóttur og eiga þau dæturnar Mist og Heiðbrá.

Björgvin Már er boðinn velkominn til starfa hjá LVF og jafnframt er Ólafi Reynissyni færðar þakkir fyrir vel unnin störf sín.

Traffík í vetrarblíðunni.

Fjöllin standa á haus í firðinum fagra í vetrarblíðunni. Ljósafell SU fjærst á myndinni er að fara á veiðar. Bergur VE er að fara á veiðar eftir að hafa losað 1200 tonn af loðnu bæði í bræðslu og frystingu. Finnur Fríði FD hinn færeyski, nýjasta uppsjávarveiðiskip frænda okkar, er að leggja að bryggju til löndunar með 2400 tonn af loðnu.

Loðna af austursvæðinu.

Í morgun (22/2) er verið að landa úr Bergi VE 44 um 1200 tonnum af loðnu og Finnur Fríði FD 86 er á leiðinni með 2400 tonn til löndunar. Loðnan veiddist út af Ingólfshöfða. Bergur fyllti sig þar í fáum köstum. Svo virðist sem einhver loðna sé ennþá að ganga upp að landinu og ekki veitir af miðað við það sem á eftir að veiða af útgefnum kvóta. Verður reynt að frysta upp úr báðum bátunum ef loðnan reynist hæf til þess.

Loðnan streymir á land

Ingunn AK 150 er að landa 2000 tonnum af loðnu hjá LVF og færeyska skipið Finnur fríði FD 86 bíður löndunar með um 2500 tonn af loðnu.

Loðnulandanir

Þorsteinn ÞH 360 landaði í gær 400 tonnum af loðnu hjá LVF og Bergur VE 44 kom til Fáskrúðsfjarðar í nótt með 1200 tonn. Ingunn AK er á leiðinni og kemur í kvöld með 2000 tonn af loðnu. Á myndinni sem tekin er í dag í blíðunni á Fáskrúðsfirði er Bergur VE að landa loðnu til frystingar.

Landanir og afskipun

Bergur VE 44 kom til Fáskrúðsfjarðar í morgun með 1200 tonn af loðnu og síðar í dag kemur Hoffell SU 80 með 1250 tonn. Hluti af afla bátanna fer í frystingu fyrir Japansmarkað og er unnið á vöktum við framleiðsluna.

Flutningaskipið Sunna lestaði í gær 1057 tonn af loðnumjöli sem selt hefur verið til Finnlands.


Loðnufrysting á Japan

Í nótt komu Bergur VE og Hoffell SU með fullfermi af loðnu sem fékkst við Ingólfshöfða. Frysting var fram haldið í morgunn fyrir Japansmarkað, 18% hrognafylling er kominn í loðnuna en hún frekar smá.

Bræla á loðnumiðunum

Bræla er á loðnumiðunum og nokkrir bátar hafa þess vegna komið til hafnar á Fáskrúðsfirði. Antares VE landaði 400 tonnum, Sigurður VE og Ísleifur VE lönduðu slöttum.

Saksaberg landar

Færeyska skipið Saksaberg FD 125 landaði hjá LVF í gær um 400 tonnum af loðnu.

LVF yfir 20.000 tonn

Í nótt var landað loðnu úr tveimur skipum. Það voru Víkingur AK 100 sem var með 539 tonn og Hoffell SU 80 með 714 tonn. Bræla hefur verið á miðunum og hefur fjöldi skipa bæði íslenskra og erlendra legið af sér bræluna við bryggju á Fáskrúðsfirði.

LVF hefur nú tekið á móti 20700 tonnum af loðnu og er það mesta magn sem verksmiðjan hefur tekið á móti í janúarmánuði frá upphafi, en verksmiðjan tók til starfa í janúar 1996.

Þrír bátar landa loðnu

Svanur RE 45 landaði í nótt 1223 tonnum af loðnu hjá LVF og í morgun landaði Bergur VE 44 1195 tonnum. Þá landaði færeyska skipið Saksaberg FD 125 frá Götu 300 tonnum.

Afskipanir á mjöli og lýsi

Hinn 23. janúar 2005 lestaði flutningaskipið Satúrn 1430 tonn af mjöli til Danmerkur og í dag lestaði Freyja 1200 tonn af lýsi, sem skipið flytur til Noregs.