Tap varð af rekstri Loðnuvinnslunnar h/f fyrstu 9 mánuði ársins 2005 að fjárhæð kr. 24 millj. eftir skatta samanborið við kr. 52 millj. tap á sama tímabili árið 2004.

Rekstratrekjur félagsins voru kr. 1.684 millj. og lækkuðu um 1% miðað við árið á undan, en rekstrargjöld voru kr. 1.594 og höfðu hækkað um 1%. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam kr. 90 millj. samanborið við kr. 127 millj. árið áður. Veltufé frá rekstri var kr. 55 millj. en var kr. 83 millj. á 9 mánuðunum 2004. Afskriftir voru kr. 142 millj. og lækkuðu um kr. 22 millj. m.a. vegna þess að ákveðið var að hætta að afskrifa aflaheimildir hliðstætt við önnur sjávarútvegsfyrirtæki. Fjármagnsliðir voru jákvæðir um tæplega kr 38 millj. en voru neikvæðir um kr. 25 millj. á sama tíma 2004.

Félagið fjárfesti á tímabilinu fyrir kr. 323 millj. og þar af voru keyptar aflaheimildir fyrir kr. 285 millj.

Eigið fé félagsins var í lok tímabilsins kr. 1.511 millj. sem er 48% af niðurstöðu efnahagsreiknings. Nettó skuldir voru kr. 1.273 millj. og höfðu hækkað um kr. 89 millj. á milli ára.

Þriðji ársfjórðungur var Loðnuvinnslunni einstaklega erfiður. Kolmunnaveiði var nánast enginn eftir mitt ár og loðnuveiðar sömuleiðis engar. Íslenska krónan hefur haldið áfram að styrkjast og verð á olíu náð sögulegu hámarki.

Gert er ráð fyrir því að afkoma Loðnuvinnslunnar muni batna á fjórða ársfjórðungi að lokinni síldarvertíð.