Áframhaldandi landanir.

Faxi RE landaði í gærmorgun 433 tonnum af loðnu sem var kreist. Í kvöld er verið að landa kolmunna úr skoska bátnum Taits sem er með 1200 tonn.

Kolmunni og loðna

Hoffell kom í gærdag til Fáskrúðsfjarðar með um 1150 tonn af kolmunna sem skipið fékk vestur af Rockall og var um 500 sjómílna sigling af miðunum. Þetta mun vera fyrsti kolmunnafarmurinn sem íslenskt skip kemur með á þessu ári.

Færeyska skipið Tróndur í Götu kom svo í gærkveldi með um 1600 tonn af loðnu og verða kreist hrogn úr farminum og fryst.

Það sem af er árinu hafa borist til LVF 8000 tonn af kolmunna og um 11000 tonn af loðnu.

Hrognafrysting hafin

Færeyska skipið FINNUR FRÍÐI kom til Fáskrúðsfjarðar í gær með um 2000 tonn af loðnu. Verið er að taka hrogn úr farminum til frystingar og einnig er verið að frysta loðnu fyrir Austur-Evrópumarkað.

Loðnulöndun

Færeyska skipið Tróndur í Götu kom til Fáskrúðsfjarðar í gærkveldi með um 2400 tonn af loðnu sem veiddist við Vestmannaeyjar. Loðnan fór bæði í frystingu og bræðslu.

Loðnu- og kolmunnalandanir

11. febrúar. Norðborg frá Klaksvík landaði 2400 tonnum af loðnu í bræðslu og frystingu í gær. Í nótt er Finnur Fríði væntanlegur með 2400 tonn af kolmunna sem veiddist í alþjóðasjónum vestur af Írlandi. Er þetta þriðja kolmunnalöndunin á þessu ár því áður lönduðu Júpiter 2000 tonnum og Trónur í Götu 2500 tonnum.

Fyrsti kolmunninn kominn

Í morgun kom færeyski báturinn Júpiter með 2000 tonn af kolmunna til Fáskrúðsfjarðar og er þetta fyrsta kolmunnalöndunin á árinu. Skipið fékk þennan afla vestur af Írlandi og eru u.þ.b. 700 mílna sigling til Fáskrúðsfjarðar.
Myndin er af Júpiter á leið inn Fáskrúðsfjörð í morgun.

Í kvöld er svo von á færeyska skipinu Tróndi í Götu til Fáskrúðsfjarðar með um 2600 tonn af kolmunna.

Ritari óskast

Loðnuvinnslan h/f óskar eftir að ráða ritara við frystihúsið á Fiskeyri. Starf ritara er hlutastarf og þarf viðkomandi að geta hafið störf 1. febrúar 2006. Skriflegar umsóknir sendist til Þorra Magnússonar, framleiðslustjóra.

Jólakveðja

Loðnuvinnslan h/f óskar starfsfólki sínu, hluthöfum, viðskiptavinum, svo og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári með þakklæti fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.

Skötuveisla LVF

Í hádeginu í dag var haldin skötuveisla í kaffistofu frystihússins á Fiskeyri. Um 120 manns tók þátt í veislunni, en auk starfsfólks LVF mættu nokkrir af fyrrverandi starfsmönnum og gæddu sér á þessu lostæti sem bragðaðist einstaklega vel. Einnig var boðið upp á úrvals saltfisk af gerðinni A-plús, ediksíld LVF og rúgbrauð. Yfirmatreiðslumeistari var Þorri Magnússon og aðstoðarkokkar Gunnar J. Jónsson, Ingólfur Hjaltason, Anna K. Hjaltadóttir og Dagbjört Sigurðardóttir. Það var létt yfir mönnum í veislunni, enda jólagleðin og jólaskapið alls ráðandi.

Kveikt á jólatrénu

Kveikt var á jólatrénu við Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga í dag. Að því tilefni komu börnin frá leikskólanum Kærabæ og yngstu nemendur Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar og sungu jólalög.

Hluthafafundur LVF

Í dag kl. 17.30 var haldinn hluthafafundur LVF að Óslandi, Fáskrúðsfirði.

Mættir voru hluthafar sem höfðu yfir að ráða 90,64% hlutafjárins.

Eftirfarandi tillaga var samþykkt samhljóða:

„Hluthafafundur Loðnuvinnslunnar h/f haldinn á Fáskrúðsfirði 29. nóvember 2005 samþykkir að hækka hlutafé félagsins um kr. 19.552.798 að nafnverði úr kr. 680.447.202 í kr. 700.000.000.

Hluthafafundurinn samþykkir að nýja hlutaféð verði selt á genginu 3,8 eða á kr. 74.300.632 og að hluthafar falli frá forkaupsrétti.“

Samþykkt þessi er gerð í framhaldi af kaupum LVF á kvóta í loðnu, þorski og karfa nú í haust. LVF hefur nú yfir að ráða 5.164 þorskíg.tonnum í íslenskri landhelgi. Auk þess er LVF m.a. með 4,83% aflahutdeild í kolmunna.

LVF er nú í 18. sæti yfir kvótahæstu fyrirtæki landsins innan íslenskrar lögsögu.