Í þessari viku hafa frárif verið í fullum gangi og á köflum hafa menn ekki séð handa sinna skil fyrir reyk og neistaflugi eins og myndin hér til hægri sýnir. Í vikunni fóru 4 grandaravindur í land til viðhalds og er búið að rífa vírastýrin og ýmsan búnað frá togvindunum, en þær fara í land í pörtum. Unnið er að því að fjarlægja gamla spilrafalinn úr vélarrúmi. Verið er að skera þilin á gömlu lestargöngunum í burtu til að geta stækkað borðsal og setustofu. Búið að taka allar blakkir í land til yfirferðar. Einnig er búið að fjarlægja gamla loftræstikerfið. Styrkingum fram á bakka er að ljúka. Frárif í lest er komið í gang og búið að brjóta steypu yfir mannopum niður í tanka til að geta hafist handa við tankahreinsanir.