Síldarlandanir

Finnur fríði FD 86 landaði 3. júní 318 tonnum af norsk-íslenskri síld og í kvöld er svo von á Saksabergi FD 125 með um 300 tonn af síld. Síldin hefur veiðst innan íslensku landhelginnar norð-austur af landinu og hefur verið flökuð og söltuð hjá Loðnuvinnslunni h/f.

Finnur fríði með síld

Í morgun kom færeyska skipið Finnur fríði FD 86 frá Götu til Fáskrúðsfjarðar með um 500 tonn af norsk-íslenskri síld. Löndun úr Finni hófst um hádegi, eftir að flutningaskipið Haukur hafði lestað 1200 tonn af fiskimjöli sem selt hefur verið til Noregs. Síldin verður unnin til manneldis og verður flökuð og söltuð.

Fyrsta síldin til Fáskrúðsfjarðar

Færeyska skipið Saksaberg FD 125 landaði um 275 tonnum af norsk-íslenskri síld á Fáskrúðsfirði s.l. laugardag. Síldin var flökuð og fryst hjá Loðnuvinnslunni h/f.

Tap LVF 71 milljón

Tap af rekstri Loðnuvinnslunnar h/f á fyrsta ársfjórðungi 2006 nam kr. 71 millj. eftir skatta, samanborið við 90 millj. króna hagnað á fyrsta ársfjórðungi 2005 Tapið skýrist að verulegu leyti af neikvæðum fjármagnsliðum að fjárhæð kr. 224 millj. fyrst og fremst vegna lækkunar íslensku krónunnar, en fjármagnsliðir voru jákvæðir um kr. 32 millj. á þessum tíma árið áður. Þá tók félagið aðeins á móti 12 .þús. tonnum af loðnu í vetur miðað við 40 þús. tonn 2005.

Rekstrartekjur félagsins voru kr. 914 millj. og hækkuðu um 6% miðað við sama tíma árið 2005. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnskostnað nam kr. 182 millj. eða 20% af tekjum og hækkaði um kr. 50 millj. frá fyrra ári. Veltufé frá rekstri var kr. 113 millj. eða 12% af tekjum og lækkaði um kr. 11 millj. frá fyrra ári. Afskriftir voru kr. 49 milljónir lækkuðu um 16%.

Eigið fé félagsins var í lok tímabilsins kr. 1.535 millj. sem er 43% af niðurstöðu efnahagsreiknings. Nettó skuldir Loðnuvinnslunnar voru kr. 1.227 millj. og höfðu hækkað um kr. 292 millj. einkum vegna kaupa félagsins á varanlegum aflaheimildum.


Eiríkur hættir hjá LVF og KFFB

Eiríkur Ólafsson lætur af störfum hjá Kaupfélagi Fáskrúðsfirðinga og Loðnuvinnslunni h/f í lok maí n.k. Eiríkur hóf störf hjá Hraðfrystihúsi Fáskrúðsfjarðar h/f árið 1973 á vélaverkstæði. Hann var vélstjóri á Ljósafelli 1974-1981, en tók þá við starfi útgerðarstjóra. Árið 1994 var Eiríkur jafnframt ráðinn fulltrúi kaupfélagsstjóra og framkvæmdastjóra LVF. Eiríkur hóf eigin atvinnurekstur 1. apríl s.l., en hann hefur keypt Bílaverkstæði Borgþórs á Egilsstöðum, sem rekur einnig bílasölu og er m.a. með umboð fyrir Toyota á Austurlandi.

Við starfi Eiríks tekur Kjartan Reynisson sem starfað hefur hjá KFFB og dótturfyrirtækjum þess um 30 ára skeið og þar af á skrifstofum félaganna frá 1981-2005 er hann flutti til Akureyrar.

Hagnaður KFFB 66 millj. króna

Aðalfundur Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga var haldinn 31. mars s.l. Hagnaður félagsins skv. samstæðureikningi nam kr. 66 millj., sem skýrist af stærstum hluta af hagnaði af sölu hlutabréfa. Eigið fé félagsins í árslok nam kr. 1.439 millj. sem er 96% eiginfjárhlutfall. Aðal eign félagsins er liðlega 82% eignarhlutur í Loðnuvinnslunni h/f.

Félagsmenn KFFB voru 178 í árslok.

Hagnaður LVF 44 millj. króna

Hagnaður Loðnuvinnslunnar h/f á Fáskrúðsfirði árið 2005 nam kr. 44 millj. eftir skatta, en var kr. 80 millj. árið 2004.

Rekstrartekjur félagsins að frádregnum eigin afla voru kr. 2.263 millj. og hækkuðu um 1,4% miðað við árið á undan. Rekstrargjöld voru kr. 2.017 millj. og hagnaður án afskrifta og fjármagnskostnaðar kr. 246 millj. eða 10,9% af tekjum og hækkaði um kr. 29 millj. frá fyrra ári. Veltufé frá rekstri nam kr. 180 millj. eða 8% af tekjum og er það sama fjárhæð og hlutfall og árið 2004. Afskriftir voru kr. 193 millj. og hækkuðu um 1,3% frá fyrra ári.

Eigið fé félagsins í árslok var kr. 1.642 millj. sem er 50,5% af niðurstöðu efnahagsreiknings. Arðsemi eiginfjár var 2,7%, en var 5,1% árið áður.

Nettó skuldir voru kr. 1130 millj. og hækkuðu um kr. 86 millj. frá árinu 2004.

Loðnuvinnslan fjárfesti fyrir kr. 392 millj. á árinu 2005 og þar af voru varanlegar aflaheimildir kr. 285 millj.

Á launaskrá komu 357 manns á síðasta ári, en að jafnaði unnu um 160 starfsmenn hjá félaginu.

Hluthafar voru í árslok 219. Stærsti hluthafinn er Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga með liðlega 82% eignarhlut.

Aðalfundur Loðnuvinnslunnar var haldinn 31. mars s.l. og samþykkti fundurinn að greiða 5% arð til hluthafa eða kr. 35 millj.

Aðalfundir 2006

Aðalfundur Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga verður haldinn í Félagsheimilinu Skrúði föstudaginn 31. mars n.k. kl. 17.30.

Aðalfundur Loðnuvinnslunnar h/f verður haldinn í Félagsheimilinu Skrúði föstudaginn 31. mars n.k. kl. 18.30.

Sameiginlegur kvöldverður verður að loknum aðalfundunum.

21 þúsund tonn af kolmunna.

Hoffell landaði 1361 tonni af kolmunna í nótt og er þá búið er að taka á móti 21 þúsund tonnum af kolmunna það sem af er árinu. Einnig var tekið á móti 11.800 tonnum af loðnu í vetur. Það hefur því verið nóg að gera í verksmiðjunni í febrúar og það sem af er mars. Meðfylgjandi er mynd af vakt no. 100 á árinu og eru á henni talið frá vinstri: Reynir Svavar Eiríksson, Óðinn Magnason vaktformaður, Heimir Hjálmarsson, Hallgrímur Ingi Ólafsson og Þorgeir Sigurðsson. Myndina tók Guðrún Níelsdóttir.

Bátarnir frá Götu

19. mars. Þeir hafa verið drjúgir bátarnir frá Götu í Færeyjum að landa á Fáskrúðsfirði í vetur. Enn bætist við því Tróndur í Götu byrjaði að landa í kvöld 2500 tonnum af kolmunna sem hann veiddi á Rockall svæðinu.

Kolmunnalöndun

Danski báturinn Beinur frá Hirtshals er að landa 1300 tonnum af kolmunna sem fékkst vestur af Rockall. Samtals er búið að taka á móti u.þ.b. 17.200 tonnum af kolmunna á þessu ári.

Júpiter landar

Færeyska skipið Júpiter frá Götu kom til Fáskrúðsfjarðar í morgun með um 2000 tonn af kolmunna. Aflinn fékkst suð-vestur af Rockall og var um 580 sjómílna sigling til Fáskrúðsfjarðar.