Kolmunni

Norska skipið Norderveg kom til Fáskrúðsfjarðar í gærkveldi með um 1500 tonn af kolmunna.

Loðna

Norska skipið Kings-Bay kom til Fáskrúðsfjarðar í morgun með um 1200 tonn af loðnu.

Loðna

Í morgun landaði norska skipið Nybo 140 tonnum af loðnu hjá LVF. Um hádegisbil kom norska skipið Roaldsen með um 450 tonn af loðnu. Loðnan fer að mestu leyti í frystingu.

Fyrsti kolmunninn

Norska skipið Selvag Senior kom til Fáskrúðsfjarðar í morgun með um 1.800 tonn af kolmunna. Þetta er fyrsti kolmunninn sem berst til Fáskrúðsfjarðar á þessu ári.

Fyrsta loðnan

Fyrsti loðnufarmurinn á þessari vertíð barst til Fáskrúðsfjarðar í gær. Það var norska skipið Gerda Marie sem kom hingað með um 650 tonn til frystingar.

Ljósafell á heimleið

Ljósafell lagði af stað frá Póllandi sunnudagskvöldið 3. febrúar s.l. eftir gagngerar endurbætur. Í morgun var skipið 100 sm austur af Færeyjum og verður væntanlega komið til Akureyrar á laugardag, þar sem millidekksbúnaðurinn verður tekinn um borð.

Ljósafell vika 21

Nú nálgast verklok óðum og hefur Alkor shipyard verið krafið um að standa við afhendingu á skipinu í dagslok föstudaginn 1. febrúar. Það má þó ekki mikið óvænt koma uppá í prófunum til að raska því. Í þessari viku voru framkvæmd álagspróf á nýja rafalnum og töflu og gekk það að óskum. Togvindur og nýju hjálparspilin látin snúast og leit það vel út. Spilin verða prófuð undir álagi með veiðarfærum á Íslandi. Skrúfugír, öxull og skrúfa látin snúast. Uppfærslugír og gamli rafall prófaðir eftir upptekt og komu minniháttar bilanir í ljós. Klæðningarvinnu á millidekki að mestu lokið,og gengið frá lýsingu þar og víðar. Gólfefni komin á borðsal og setustofu og er unnið að dúklagningu á göngum. Byrjað að koma fyrir húsgögnum í borðsal, skápum, hitaborði og fleiru. Einnig byrjað á þrifum í klefum, og áhöfn byrjuð að flytja varahluti og öryggisbúnað um borð sem var fjarlægður vegna sandblásturs og málningar. Skipið er nú búið að fá sitt rétta einkenni á skorsteinshúsið eins og má sjá á meðfylgjandi mynd.

Ljósafell vika 20

Í þessari viku var lokið við að mála vélarrúm að mestu leyti, einnig er verið að mála lestargólf. Klæðningarvinna gengur þokkalega og er búið að klæða veggi að mestu á millidekki og byrjað á lofti. Nýtt rými fyrir ískrapavélina er einnig langt komið. Klæðningar eru að miklu leyti komnar í borðsal, eldhúsi, á göngum og í stakkageymslur. Eldhústækin voru flutt um borð í vikunni, en eftir á að festa þau niður og tengja. Prófanir halda áfram á lögnum og tækjum og er tæknimaður frá Naustmarine að yfirfara niðursetningu á togvindum og hjálparvindum frá Ibercisa. Sjá mynd af stjórnbúnaði fyrir vindur. Einnig hefur hann eftirlit með gangsetningu á rafal og töflum. Síðasta glussavindan er komin úr upptekt og var sett um borð, og er lagnavinna fyrir lágþrýstivindur langt komin. Aðalvél var ræst á laugardag, en hún hefur ekki verið keyrð síðan 31. ágúst í fyrra. Niigatan malaði eins og köttur, að sjálfsögðu !!!!

Ljósafell vika 19

Í síðustu viku var verið að einangra loft og veggi á millidekki og leggja út leiðara til að festa klæðningar í lofti og veggjum. Lestarspíralar voru settir upp aftur þar sem þeir höfðu verið rifnir frá. Prófanir á lögnum og tækjum halda áfram og í vikunni var ketill og lagnir honum tengdar prófaðar. Einnig kom maður frá Westfalia til að annast gangsetningu og prófanir á nýju olíuskilvindunum og lögnum þeim tengdum. Tengivinna við afl og stýristrengi fyrir togvindur og spilmótora að mestu búin. Veggklæðningar í sturtum og klósettum að mestu búnar og búið að setja nýjar hurðir fyrir þessi rými. Á myndinni má sjá rafvirkja Alkor vinna við tengingar í töflu fyrir nýju pressuna fyrir matvælaklefana.

Ljósafell vika 17 og 18

Starfsmenn Loðnuvinnslunnar hf. í Póllandi heilsa á nýju ári. Það helsta sem skeði yfir jól og áramót var að lokið var við smíði á nýju rými fyrir loftræstikerfi á hæð undir brú og lagðir frá því loftstokkar. Einnig er verið að leggja nýtt loftræstikerfi fyrir millidekk. Þrjár trixavindur voru settar um borð og er byrjað að leggja nýjar lagnir að lágþrýstivindum.

Vinna við milliveggi og klæðningar í borðsal byrjuð. Flísalögn á klósettum, eldhúsi og matvælageymslu búin. Málning í vélarrúmi og geymslum er í gangi og búið að mála loft og veggi í lest. Framgangur er þó ekki eins hraður og hann þarf að vera og er Alkor Shiprepairyard búinn að tilkynna tafir á afhendingu skipsins fram í viku 5. ( 28. janúar til 3. febrúar )

Afskipanir á mjöli og lýsi

Færeyska flutningaskipið Havfrakt er að lesta 1240 tonn af fiskimjöli sem selt hefur verið til Þýskalands.

Hinn 12. des. s.l. lestaði tankskipið Anglo um 1.850 tonn af lýsi frá LVF sem flutt var til kaupanda í Noregi.

Gleðilegt nýtt ár 2008

Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga og Loðnuvinnslan hf óska starfsfólki sínu, viðskiptavinum, svo og landsmönnum öllum, farsældar á komandi ári með þakklæti fyrir ánægjuleg samskipti á liðnum árum.