Ljósafell vika 3

Í þessari viku hefur ennþá verið að rífa ýmislegt frá og fóru togvindurnar í land í vikunni ásamt stórum hluta af undirstöðum þeirra. Afgasketill hífður í land til viðhalds, lághitakælir fjarlægður úr vélarrúmi, glussadæla ásamt mótor og tank fjarlægð úr skorsteinshúsi bb til að rýma fyrir nýrri stakkageymslu. Rifið innan úr fiskmóttöku svo hægt sé að klæða með rústfríu efni. Lestargöng á efra dekki skorin í burtu til að rýma fyrir nýjum sturtum og klósettum. Lestargöng á neðra dekki skorin í burtu til að rýmka fyrir stækkuðum borðsal. Gamli spilrafallinn rifinn í land í pörtum og verið að rýma leið fyrir þeim nýja niður í vélarrúm. Verið er að þykktarmæla skipið. Akkerisvinda og hjálparvindur eru komnar á verkstæði og er verið að sandblása þær og yfirfara. Á myndinni hér að ofan eru þeir starfsmenn sem sinna stjórnun og eftirliti með breytingunum á Ljósafellinu í Póllandi. Þeir eru frá vinstri: Kjartan Reynisson, útgerðarstjóri, Ryszard Zdunowski, pólskur eftirlitsmaður, Gunnar Óli Ólafsson, yfirvélstjóri og Ragnar Logi Björnsson, 1. vélstjóri

Ljósafell vika 2

Í þessari viku hafa frárif verið í fullum gangi og á köflum hafa menn ekki séð handa sinna skil fyrir reyk og neistaflugi eins og myndin hér til hægri sýnir. Í vikunni fóru 4 grandaravindur í land til viðhalds og er búið að rífa vírastýrin og ýmsan búnað frá togvindunum, en þær fara í land í pörtum. Unnið er að því að fjarlægja gamla spilrafalinn úr vélarrúmi. Verið er að skera þilin á gömlu lestargöngunum í burtu til að geta stækkað borðsal og setustofu. Búið að taka allar blakkir í land til yfirferðar. Einnig er búið að fjarlægja gamla loftræstikerfið. Styrkingum fram á bakka er að ljúka. Frárif í lest er komið í gang og búið að brjóta steypu yfir mannopum niður í tanka til að geta hafist handa við tankahreinsanir.

Finnur landar síld

Í dag er verið að landa um 300 tonnum af norsk-ísl. síld úr Finni fríða. Skipið fékk í skrúfuna um 350 sjómílur norður í hafi og var dregið til Fáskrúðsfjarðar af færeyska skipinu Júpiter, en skipin voru saman á partrolli. Ferðin til Fáskrúðsfjarðar tók einn og hálfan sólarhring. Síldin fer bæði til söltunar og frystingar.

Ljósafell vika 1

Fyrsta vika við endurbætur á Ljósafelli hefur gengið ágætlega. Verið er að fjarlægja allt lauslegt af skipinu fyrir sandblástur og málun.

Frárif hefur gengið vel og er búið að rífa allt úr borðsal, eldhúsi, stakkageymslu, matvælageymslum, en einnig er langt komið með að rífa á millidekki. Á millidekki er búið að fjarlægja plötufrysti og einangrun og klæðningar úr lofti og veggjum. Þar er einnig unnið að því að fjarlægja gamla frystiklefann. Búið er að rífa pokavindur á afturdekki og dælu og mótor fyrir þær. Einnig er búið að taka í land til viðgerða 2 gilsavindur, 4 trixavindur og akkerisspilið. Í vélarrúmi er búið að rífa frá gömlu olíuskilvindurnar og er unnið að því að rífa allt sem tilheyrir frystikerfinu sem var sett í fyrir 18 árum.

Ljósafell til Póllands

Kl. 13.00 laugardaginn 25. ágúst s.l. hélt Ljósafell áleiðis til Gdansk í Póllandi, þar sem fram fara ýmsar endurbætur á skipinu og er áætlað að verkið taki 95 daga.

Hagnaður 302 millj.

Hagnaður af rekstri Loðnuvinnslunnar hf á Fáskrúðsfirði fyrstu 6 mánuði ársins 2007 nam kr. 302 millj., en á sama tíma árið 2006 var 67 millj. króna tap á rekstrinum.

Rekstrartekjur félagsins að frádregnum eigin afla voru kr. 1.790 millj. og hækkuðu um 8% miðað við sama tímabil árið 2006. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam kr. 297 millj. , sem er 17% af tekjum, en var kr. 411 millj. og 25% af tekjum árið á undan. Veltufé frá rekstri var kr. 279 millj. eða 16% af tekjum miðað við 18% á miðju ári 2006. Afskriftir voru kr. 97 millj., sem er sama fjárhæð og árið áður.

Eigið fé félagsins var í lok tímabilsins kr. 1.834 millj., sem er 52% af niðurstöðu efnahagsreiknings og hafði hækkað um 19% frá fyrra ári. Nettó skuldir félagsins voru kr. 797 millj. miðað við kr. 1.220 millj. árið áður.

Fyrstu 6 mánuði ársins tók Loðnuvinnslan á móti um 50.000 tonnum af sjávarafla, sem skiptist í 19.000 tonn af loðnu, 27.000 tonn af kolmunna, 1.500 tonn af síld og 2.100 tonn af bolfiski.

Afkoma félagsins á síðari hluta ársins ræðst einkum af síldarvertíðinni í haust og þróun á gengi íslensku krónunnar.

Arnfinnur 70 ára

Færeyski sjómaðurinn Arnfinnur Isaksen frá Götu er 70 ára í dag. Hann er staddur á Fáskrúðsfirði, þar sem hann er skipverji á Tróndi í Götu. Arnfinnur sem verið hefur til sjós í 55 ár var m.a. á togaranum Austfirðingi 1956, þá 19 ára, með Þórði Sigurðssyni, skipstjóra, og Steini Jónssyni á Eskifirði, og hefur því oft komið við hér á Fáskrúðsfirði. Loðnuvinnslan hf óskar Arnfinni hjartanlega til hamingju með daginn.

Á heimasíðu Vinnunnar í Færeyjum er greint frá afmæli Arnfinns.

Tróndur landar

Færeyska skipið Tróndur í Götu kom dag til Fáskrúðsfjarðar með um 600 tonn af norsk-ísl. síld. Hluti af farminum verður flakaður og saltaður.

Norsk-íslensk síld

Í gærkvöldi bárust til Fáskrúðsfjarðar um 2.400 tonn af síld úr norsk-ísl. síldarstofninum. Það voru Eyjabátarnir Kap VE 4 sem var með um 1.100 tonn og Sighvatur Bjarnason VE 81 sem var með um 1.300 tonn. Bátarnir voru á partrolli og fengu aflann innan íslenskrar landhelgi djúpt austur af landinu. Aflinn fór allur í bræðslu.

Endurbætur á Ljósafelli

Loðnuvinnslan hf hefur samið við skipasmíðastöðina Alkor Shiprepair Yard í Gdansk í Póllandi um endurbætur á Ljósafelli SU 70. Skipið verður sandblásið utan sem innan, endurnýjaðar röra- og raflagnir og skipt um ýmsan annan búnað í vistarverum skipsins. Þá verður m.a. skipt um togvindur og búnað á millidekki.

Ljósafell var smíðað í Japan á árunum 1972-1973 fyrir Hraðfrystihús Fáskrúðsfjarðar hf og kom til Fáskrúðsfjarðar 31. maí 1973. Á árunum 1988-1989 var skipt um aðalvél í skipinu og það lengt og endurnýjað að miklu leyti í Póllandi.

Ljósafell hefur alla tíð verið mikið happafley og koma þess til Fáskrúðsfjarðar fyrir 34 árum olli straumhvörfum í atvinnumálum byggðarlagsins.

Ljósafell heldur af stað til Póllands í síðustu viku ágúst n.k og er áætlað að verkið taki 95 daga.

Norsk-ísl. síld og mjölafskipun

Færeyska skipið Saksaberg kom til Fáskrúðsfjarðar í gærkveldi með um 800 tonn af norsk-ísl. síld. Um 560 sjómílna sigling var af miðunum norður í hafi og var skipið á þriðja sólarhring á leið sinni til Fáskrúðsfjarðar. Síldin fór öll í bræðslu.


Þá lestaði flutningaskipið Wilson Brugge 1.700 tonn af fiskimjöli, sem það flytur til Skagen í Danmörku.

LVF kaupir Hafnargötu 19 og 21.

Loðnuvinnslan hf hefur gengið frá kaupum á eignarlóðunum Hafnargötu 19 og 21, Fáskrúðsfirði, ásamt tilheyrandi mannvirkjum. Hafnargata 19 var keypt af Skeljungi hf., en Hafnargata 21 (Hilmir) var keypt af Reyni Guðjónssyni. Lóðirnar eru samtals liðlega 3000 m2. Gert er ráð fyrir því að öll mannvirki á lóðunum verði rifin nema skemman á Hilmislóðinni sem er 727 m2, sem ráðgert er að lagfæra og nota sem geymsluhúsnæði. Stefnt er að því að ganga frá svæðinu á líkan hátt og öðrum lóðum fyrirtækisins.