Ljósafell til Póllands

Kl. 13.00 laugardaginn 25. ágúst s.l. hélt Ljósafell áleiðis til Gdansk í Póllandi, þar sem fram fara ýmsar endurbætur á skipinu og er áætlað að verkið taki 95 daga.

Hagnaður 302 millj.

Hagnaður af rekstri Loðnuvinnslunnar hf á Fáskrúðsfirði fyrstu 6 mánuði ársins 2007 nam kr. 302 millj., en á sama tíma árið 2006 var 67 millj. króna tap á rekstrinum.

Rekstrartekjur félagsins að frádregnum eigin afla voru kr. 1.790 millj. og hækkuðu um 8% miðað við sama tímabil árið 2006. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam kr. 297 millj. , sem er 17% af tekjum, en var kr. 411 millj. og 25% af tekjum árið á undan. Veltufé frá rekstri var kr. 279 millj. eða 16% af tekjum miðað við 18% á miðju ári 2006. Afskriftir voru kr. 97 millj., sem er sama fjárhæð og árið áður.

Eigið fé félagsins var í lok tímabilsins kr. 1.834 millj., sem er 52% af niðurstöðu efnahagsreiknings og hafði hækkað um 19% frá fyrra ári. Nettó skuldir félagsins voru kr. 797 millj. miðað við kr. 1.220 millj. árið áður.

Fyrstu 6 mánuði ársins tók Loðnuvinnslan á móti um 50.000 tonnum af sjávarafla, sem skiptist í 19.000 tonn af loðnu, 27.000 tonn af kolmunna, 1.500 tonn af síld og 2.100 tonn af bolfiski.

Afkoma félagsins á síðari hluta ársins ræðst einkum af síldarvertíðinni í haust og þróun á gengi íslensku krónunnar.

Arnfinnur 70 ára

Færeyski sjómaðurinn Arnfinnur Isaksen frá Götu er 70 ára í dag. Hann er staddur á Fáskrúðsfirði, þar sem hann er skipverji á Tróndi í Götu. Arnfinnur sem verið hefur til sjós í 55 ár var m.a. á togaranum Austfirðingi 1956, þá 19 ára, með Þórði Sigurðssyni, skipstjóra, og Steini Jónssyni á Eskifirði, og hefur því oft komið við hér á Fáskrúðsfirði. Loðnuvinnslan hf óskar Arnfinni hjartanlega til hamingju með daginn.

Á heimasíðu Vinnunnar í Færeyjum er greint frá afmæli Arnfinns.

Tróndur landar

Færeyska skipið Tróndur í Götu kom dag til Fáskrúðsfjarðar með um 600 tonn af norsk-ísl. síld. Hluti af farminum verður flakaður og saltaður.

Norsk-íslensk síld

Í gærkvöldi bárust til Fáskrúðsfjarðar um 2.400 tonn af síld úr norsk-ísl. síldarstofninum. Það voru Eyjabátarnir Kap VE 4 sem var með um 1.100 tonn og Sighvatur Bjarnason VE 81 sem var með um 1.300 tonn. Bátarnir voru á partrolli og fengu aflann innan íslenskrar landhelgi djúpt austur af landinu. Aflinn fór allur í bræðslu.

Endurbætur á Ljósafelli

Loðnuvinnslan hf hefur samið við skipasmíðastöðina Alkor Shiprepair Yard í Gdansk í Póllandi um endurbætur á Ljósafelli SU 70. Skipið verður sandblásið utan sem innan, endurnýjaðar röra- og raflagnir og skipt um ýmsan annan búnað í vistarverum skipsins. Þá verður m.a. skipt um togvindur og búnað á millidekki.

Ljósafell var smíðað í Japan á árunum 1972-1973 fyrir Hraðfrystihús Fáskrúðsfjarðar hf og kom til Fáskrúðsfjarðar 31. maí 1973. Á árunum 1988-1989 var skipt um aðalvél í skipinu og það lengt og endurnýjað að miklu leyti í Póllandi.

Ljósafell hefur alla tíð verið mikið happafley og koma þess til Fáskrúðsfjarðar fyrir 34 árum olli straumhvörfum í atvinnumálum byggðarlagsins.

Ljósafell heldur af stað til Póllands í síðustu viku ágúst n.k og er áætlað að verkið taki 95 daga.

Norsk-ísl. síld og mjölafskipun

Færeyska skipið Saksaberg kom til Fáskrúðsfjarðar í gærkveldi með um 800 tonn af norsk-ísl. síld. Um 560 sjómílna sigling var af miðunum norður í hafi og var skipið á þriðja sólarhring á leið sinni til Fáskrúðsfjarðar. Síldin fór öll í bræðslu.


Þá lestaði flutningaskipið Wilson Brugge 1.700 tonn af fiskimjöli, sem það flytur til Skagen í Danmörku.

LVF kaupir Hafnargötu 19 og 21.

Loðnuvinnslan hf hefur gengið frá kaupum á eignarlóðunum Hafnargötu 19 og 21, Fáskrúðsfirði, ásamt tilheyrandi mannvirkjum. Hafnargata 19 var keypt af Skeljungi hf., en Hafnargata 21 (Hilmir) var keypt af Reyni Guðjónssyni. Lóðirnar eru samtals liðlega 3000 m2. Gert er ráð fyrir því að öll mannvirki á lóðunum verði rifin nema skemman á Hilmislóðinni sem er 727 m2, sem ráðgert er að lagfæra og nota sem geymsluhúsnæði. Stefnt er að því að ganga frá svæðinu á líkan hátt og öðrum lóðum fyrirtækisins.

Norsk-íslensk síld

Fyrsta norsk-íslenska síldin á þessu ári barst til Fáskrúðsfjarðar í gær. Það var færeyska skipið Saksaberg sem landaði hér liðlega 300 tonnum í bræðslu.

Hagnaður 257 milljónir

Hagnaður af rekstri Loðnuvinnslunnar h/f á fyrsta ársfjórðungi 2007 nam kr. 257 millj. eftir skatta, samanborið við 71 millj. króna tap á fyrsta ársfjórðungi 2006.

Rekstrartekjur félagsins voru kr. 1.210 millj. og hækkuðu um 32% miðað við við sama tíma árið 2006.

Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam kr. 252 millj., sem er 21% af tekjum og hækkaði um kr. 70 millj. frá fyrra ári. Veltufé frá rekstri var kr. 247 millj. eða 20% af tekjum og hækkaði úr 12% miðað við sama tíma í fyrra. Afskriftir voru kr. 49 millj., sem er sama fjárhæð og árið áður.

Eigið fé Loðnuvinnslunnar var í lok tímabilsins kr. 1.790 millj., sem er 48% af niðurstöðu efnahagsreiknings og hækkaði um 17% á milli ára. Nettó skuldir félagsins voru kr. 847 millj. og höfðu lækkað um 380 millj. frá fyrra ári.

Á fyrsta ársfjórðungi tók Loðnuvinnslan m.a. á móti 18.500 tonnum af loðnu og 10.500 tonnum af kolmunna. Þá framleiddi félagið m.a. liðlega 1.600 tonn af frystri loðnu og um 1.200 tonn af loðnuhrognum.

Nýir starfsmenn

Borghildur Stefánsdóttir hefur verið ráðin skrifstofumaður hjá LVF og KFFB frá 7. maí 2007. Borghildur lýkur stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Egilsstöðum í vor af skrifstofubraut.

Þá hefur Guðjón Baldursson verið ráðinn verkstjóri í fiskvinnslu hjá LVF frá 1. júní n.k. Guðjón starfaði um árabil hjá LVF bæði í landi og á sjó, en hafði nýlega hafið störf hjá Alcoa í Reyðarfirði.

Borghildur og Guðjón eru boðin velkomin til starfa.

Kolmunni

Færeyska skipið Norðborg kom til Fáskrúðsfjarðar í gærkveldi með um 2000 tonn af kolmunna. Hoffell er svo væntanlegt í kvöld með fullfermi af Færeyjamiðum. Að loknum þessum löndunum hefur Loðnuvinnslan tekið á móti um 20.000 tonnum af kolmunna það sem af er árinu.