Lítið finnst af kolmunna

Hoffell kom til Fáskrúðsfjarðar í morgun eftir um tveggja vikna leit að kolmunna. Skipið fór fyrst með eftirlitsmann Hafrannsóknastofnunar og leitaði þá með öllum landgrunnskantinum út af Suðurlandi og vestur fyrir Vestmannaeyjar. Þá hélt skipið í færeysku lögsöguna norður fyrir Færeyjar og til suðurs austur af Færeyjum. Fleiri íslensk skip hafa leitað undanfarið á þessum slóðum og einnig hafa þau leitað suður og suðvestur af Færeyjum, en ekki orðið vör við kolmunna í veiðanlegu magni. Á heimleiðinni var farið yfir veiðisvæðið suðaustur af Austfjörðum og var ástandið þar óbreytt. Hoffell verður nú gert klárt til síldveiða.

Uppgjör LVF 1/1-30/6 2004

Hagnaður af rekstri Loðnuvinnslunnar h/f fyrstu 6 mánuði ársins 2004 nam kr. 1,6 millj. eftir skatta, en var tæpar kr. 43 milljónir á sama tímabili árið 2003.


Rekstrartekjur félagsins að frádregnum eigin afla voru kr.1.354 millj. og lækkuðu um 1% miðað við árið á undan. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam kr. 155 millj., sem er 11,4% af tekjum og veltufé frá rekstri var kr. 118 millj eða 9% af tekjum. Til samanburðar var fjármunamyndunin kr. 162 millj. eða 12% af veltu hálft árið 2003. Afskriftir voru kr. 109 millj. og höfðu lækkað um kr. 40 millj. frá fyrra ári. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um kr. 42 millj., en voru aðeins neikvæðir um kr. 58 þúsund á hálfa árinu 2003.


Eigið fé félagsins var í lok tímabilsins kr. 1.437 millj., sem er 45% af niðurstöðu efnahagsreiknings og hafði hækkað um 5% á milli ára. Nettó skuldir LVF í lok tímabilsins voru kr. 1084 millj. og höfðu lækkað um kr. 21 millj. miðað við sama tíma 2003.


Annar ársfjórðungur varð LVF mjög óhagstæður. M.a. gat Hoffell ekki hafið kolmunnaveiðar fyrr en um miðjan maí vegna tjóns á skrúfubúnaði. Lækkandi verð á fiskimjöli og hátt olíuverð skertu afkomu félagsins til muna og freðfiskframleiðslan átti undir högg að sækja.


LVF tók á móti 72.000 tonnum af hráefni á tímabilinu, sem er minnkun um 6000 tonn. Aflinn skiptist þannig: Kolmunni 41.000 tonn, loðna 27.000 tonn, síld 2200 tonn og 1800 tonn af bolfiski.


Nú er unnið að því að setja upp nýjan framleiðslubúnað í frystihús LVF á Fiskeyri og er ætlunin að ná fram aukinni hagkvæmni og sjálfvirkni við framleiðsluna.


Afkoma félagsins á seinni hluta ársins ræðst m.a. af því hvernig veiðar á kolmunna og síldarvertíðin koma til með að ganga, þróun olíuverðs og af verðlagi afurða á erlendum mörkuðum.Breytingar og sumarfrí.

Tveggja vikna sumarfrí er í frystihúsinu og var síðasti vinnudagur 22. júlí og verður byrjað að vinna aftur mánudaginn 9. ágúst. Ljósafellið er líka stopp í tvær vikur, en það fer aftur á veiðar þriðjudaginn 3. ágúst. Á meðan þessi stöðvun varir er verið að gera umfangsmiklar breytingar á frystihúsinu. Meðal þess sem er breytt er að önnur flæðilína mun fullkomnari en sú sem fyrir var verður sett niður, ásamt forskurðarvél. Við þessar breytingar skapast möguleikar til að taka upp einstaklingsbónus. Þá verður settur upp nýr hausari og sótthreinsunarkerfi frá DIS. Samfara þessum breytingum hefur þurft að gera umfangsmiklar breytingar á fyrirkomulagi frystihússins. Seinni partinn í sumar og í haust verður sett niður flökunarvél, innmötunarkerfi úr móttöku að vélum, lausfrystir og hráefnisflokkari.

Sumarloðna

Norska skipið Mögsterhav H 21 AV landaði í gær 947 tonnum af loðnu hjá LVF.

Sumarloðna

Norska skipið Rottingöy landaði í dag 520 tonnum af loðnu á Fáskrúðsfirði.

Franskir dagar IX

Loðnuvinnslan h/f óskar Fáskrúðsfirðingum og gestum allra heilla á Frönskum dögum, sem nú eru haldnir í 9. sinn.

Sumarloðna

Norska skipið Krossfjord kom í morgun til Fáskrúðsfjarðar með um 600 tonn af loðnu.

Sumarloðna

Norsku bátarnir Hardfisk og Havglans lönduðu í kringum 700 tonnum af loðnu samanlagt í nótt og morgun. Er þetta fyrsta sumarloðnan sem berst hingað á þessu ári.

Kolmunni

Norska skipið Mögsterhav H-21-AV landaði í gær, sunnudaginn 18. júlí, 815 tonnum af kolmunna hjá LVF.

Krúnborg komin aftur

Færeyska skipið Krúnborg TN 265 frá Þórshöfn kom í nótt til Fáskrúðsfjarðar með um 2400 tonn af kolmunna, sem veiddist norður af Færeyjum og var um 240 sjómílna sigling af miðunum. Krúnborg landaði einnig hjá LVF 28. júní s.l.

Kolmunni

Færeyska skipið Krúnborg TN 265 landaði 28. júní s.l. 2380 tonnum af kolmunna hjá LVF.