Norsk-íslensk síld

Fyrsta norsk-íslenska síldin á þessu ári barst til Fáskrúðsfjarðar í gær. Það var færeyska skipið Saksaberg sem landaði hér liðlega 300 tonnum í bræðslu.

Hagnaður 257 milljónir

Hagnaður af rekstri Loðnuvinnslunnar h/f á fyrsta ársfjórðungi 2007 nam kr. 257 millj. eftir skatta, samanborið við 71 millj. króna tap á fyrsta ársfjórðungi 2006.

Rekstrartekjur félagsins voru kr. 1.210 millj. og hækkuðu um 32% miðað við við sama tíma árið 2006.

Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam kr. 252 millj., sem er 21% af tekjum og hækkaði um kr. 70 millj. frá fyrra ári. Veltufé frá rekstri var kr. 247 millj. eða 20% af tekjum og hækkaði úr 12% miðað við sama tíma í fyrra. Afskriftir voru kr. 49 millj., sem er sama fjárhæð og árið áður.

Eigið fé Loðnuvinnslunnar var í lok tímabilsins kr. 1.790 millj., sem er 48% af niðurstöðu efnahagsreiknings og hækkaði um 17% á milli ára. Nettó skuldir félagsins voru kr. 847 millj. og höfðu lækkað um 380 millj. frá fyrra ári.

Á fyrsta ársfjórðungi tók Loðnuvinnslan m.a. á móti 18.500 tonnum af loðnu og 10.500 tonnum af kolmunna. Þá framleiddi félagið m.a. liðlega 1.600 tonn af frystri loðnu og um 1.200 tonn af loðnuhrognum.

Nýir starfsmenn

Borghildur Stefánsdóttir hefur verið ráðin skrifstofumaður hjá LVF og KFFB frá 7. maí 2007. Borghildur lýkur stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Egilsstöðum í vor af skrifstofubraut.

Þá hefur Guðjón Baldursson verið ráðinn verkstjóri í fiskvinnslu hjá LVF frá 1. júní n.k. Guðjón starfaði um árabil hjá LVF bæði í landi og á sjó, en hafði nýlega hafið störf hjá Alcoa í Reyðarfirði.

Borghildur og Guðjón eru boðin velkomin til starfa.

Kolmunni

Færeyska skipið Norðborg kom til Fáskrúðsfjarðar í gærkveldi með um 2000 tonn af kolmunna. Hoffell er svo væntanlegt í kvöld með fullfermi af Færeyjamiðum. Að loknum þessum löndunum hefur Loðnuvinnslan tekið á móti um 20.000 tonnum af kolmunna það sem af er árinu.

Kolmunni Finnur Fríði

07.04.2007. Færeyska skipið Finnur Fríði kom til löndunar í morgun. Skipið er með um 2500 tonn af kolmunna sem veiddist á Rockall hafsvæðinu.

Aðalfundur LVF 2007

Tap af rekstri Loðnuvinnslunnar h/f árið 2006 nam kr. 38,8 millj. eftir skatta, en árið 2005 var hagnaður félagsins kr. 44 millj.

Það sem einkum veldur þessum viðsnúningi á rekstrarniðurstöðu miðað við fyrra ár er, að fjármagnsliðir eru nú neikvæðir um kr. 361 millj., en voru jákvæðir um kr. 558 þús. árið 2005, sem stafar aðallega af breytingum á gengi íslensku krónunnar.

Rekstrartekjur félagsins að frádregnum eigin afla voru kr. 2.521 millj. og hækkuðu um kr. 257 millj. eða um 11,4% frá fyrra ári. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam kr. 513 millj., sem er 20,3% af tekjum, en var kr. 246 millj. eða 10,9% árið áður. Veltufé frá rekstri var kr. 357 millj. eða 14,2% samanborið við kr. 180 millj. og 8% árið 2005. Afskriftir voru kr. 199 millj. og hækkuðu um 2,8% á milli ára.

Eigið fé félagsins í árslok var kr. 1.568 millj., sem er 48% af niðurstöðu efnahagsreiknings, en árið 2005 var eiginfjárhlutfallið 50%. Nettó skuldir voru í árslok kr. 1.133 millj. og hækkuðu um kr. 3 millj. frá árinu 2005. Veltufjárhlutfall var nú 0,92 miðað við 0,77 árið á undan.

Hlutafé Loðnuvinnslunnar er kr. 700 millj. og voru hluthafar 207 í árslok. Stærsti hluthafinn er Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga með um 83% eignarhlut. Gengi hlutabréfa félagsins var í árslok 3,8.

Aðalfundur Loðnuvinnslunnar var haldinn 29. mars s.l. og samþykkti fundurinn að greiða 5% arð til hluthafa eða kr. 35 millj.

Kolmunni Finnur Fríði

Færeyska skipið Finnur Fríði landaði 2.501 tonnum af kolmunna til bræðslu í dag. Aflinn veiddist á Rockall svæðinu, en aðal kolmunnaveiðin er þar sem stendur.

Verkstjóri

Loðnuvinnslan h/f óskar eftir að ráða verkstjóra í fiskvinnslu, sem gæti hafið störf 1. júní 2007.

Skriflegar umsóknir, sem greini aldur, menntun og fyrri störf, sendist til Gísla Jónatanssonar, framkvæmdastjóra.

Aðalfundir 2007

Sameiginlegur aðalfundur Innri- og Ytri-deildar KFFB verður haldinn mánudaginn 26. mars 2007 kl. 20.00 í kaffistofu frystihússins.Aðalfundur Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga verður haldinn á Hótel Bjargi fimmtudaginn 29. mars 2007 kl. 17.30.Aðalfundur Loðnuvinnslunnar h/f verður haldinn á Hótel Bjargi fimmtudaginn 29. mars 2007 kl. 18.30.


Kolmunnalöndun

Færeyska skipið Jupiter kom til Fáskrúðsfjarðar í nótt með um 2000 tonn af kolmunna. Kolmunninn veiðist nú vestur af Írlandi og var um 490 sjómílna sigling til Fáskrúðsfjarðar. Þetta er þriðji farmurinn af kolmunna sem Loðnuvinnslan tekur á móti í ár og hafa nú borist um 6000 tonn af kolmunna til Fáskrúsfjarðar það sem af er árinu.

Kolmunni til LVF

Færeyska skipið Carlton kom til Fáskrúðsfjarðar í morgun með um 1400 ton af kolmunna.

Loðnulandanir

Í gærkvöldi kom Finnur Fríði til Fáskrúðsfjarðar með 1.700 tonn af loðnu og í nótt kom Saksaberg með 700 tonn og bíður löndunar. Þá er Hoffell á leið til Fáskrúðsfjarðar með um 1200 tonn.