Gleðileg jól

Óskum starfsfólki okkar, viðskiptavinum, svo og landsmönnum öllum, gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Loðnuvinnslan hf

Ljósafell vika 16

Þar sem vikan er aðeins hálfnuð er framgangur heldur styttri nú en oft áður í vikuskýrslu, en það kemur til af því að vélstjórar og útgerðarstjóri eru á heimleið á morgun 20. des. í jólafrí. Klæðningarvinnu er lokið í lest og einnig er búið að einangra lestina með því að dæla urethani bakvið klæðningar. Byrjað er að tengja nýjar viftur við loftræstistokka og ganga frá loftristum. Ein trixavinda og önnur gilsavindan voru settar um borð. Rafvirkjar vinna víða í skipinu og voru að setja upp nýja rafmagnstöflu fyrir eldhús og borðsal ásamt tengivinnu í vélarrúmi. Búið er að fjarlægja alla stillansa af skipinu, enda er málning og vinna utaná skipinu mjög langt komin.

Starfsmenn Loðnuvinnslunnar hf í Póllandi senda vinnufélögum, vinum og vandamönnum bestu jólakveðjur.

Ljósafell vika 15

Lokið var við að skipta um gler í brúargluggum í vikunni, en einnig voru settar niður 3 grandaravindur og ein trixavinda. Aflstrengir fyrir togvindur voru dregnir í vikunni. Nýja ískrapavélin var sett um borð og er byrjað að leggja að henni. Klæðningarvinna í lest er langt komin og sömuleiðis klæðning í fiskmóttöku með rústfríju stáli. Búið er að leggja út prófílfestingar fyrir göngugrindur á millidekki, í kringum togvindur og frá pokavindum og aftur í skut. Eldri grindur og festingar eyðilögðust vegna frárifa og við sandblástur. Búið er að mála pokagálgann og setja kastara oþh. upp aftur eins og sést á meðfylgjandi mynd. Búið er að flotsteypa í flesta ganga og gólf og er byrjað á flísalögn á klósettum, en skipt er um öll klósettin, 10 talsins.

Ljósafell vika 14

Þetta er vikan sem skipið átti að afhendast og endurbyggingu að ljúka, en það hefur ekki tekist og er Alkor shiprepairyard búið að boða tafir á afhendingu Ljósafellsins fram í miðjan janúar.

Í vikunni voru settar upp nýjar togblakkir á skipið af gerðinni Habru og eru þær framleiddar af Vélgæðum ehf á Fáskrúðsfirði. Búið er að skipta um gler í 18 af 23 gluggum í brúnni. Byrjað er að setja niður hjálparvindur eftir rækilega upptekt á þeim. Á myndinni má sjá fyrstu grandaravinduna setta á sinn stað. Einangrun og klæðningarvinna er komin af stað og er verið að ganga frá þar sem hefur þurft að rífa frá vegna lagna eða suðuvinnu. Nýja loftræstikerfinu var komið fyrir um borð. Lagnavinna er í fullum gangi og er búið að lekaprófa sjókælilagnir í vélarrúm, en einnig eru kyndilagnir, vatnslagnir, skólp og klóaklagnir langt komnar.

Ljósafell vika 13

Lokið var við sandblástur á Ljósafellinu í vikunni með því að pokagálginn og afturskipið voru blásin. Búið er að mála svæðið með tveim umferðum af grunn, en yfirmálun eftir. Í vikunni var einnig byrjað að leggja lagnir fyrir nýtt og umhverfisvænt slökkvikerfi vélarrúms. Kerfið heitir Novec 1230 og má sjá flöskurnar á meðfylgjandi mynd. Það mun leysa af hólmi Halon kerfi sem var ósóneyðandi og komið á bannlista yfir leyfileg slökkviefni. Í vikunni voru settar upp neyðarlúgur á þrem stöðum, en af öðru sem er að berast má nefna nýjar hurðir fyrir millidekk og dekkhúsin, ný lestarlúga millidekks, klæðningarefni og einangrun ásamt því að nýtt loftræstikerfi var að berast.

Ljósafell vika 12

Í þessari viku var togvindunum komið fyrir um borð eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Nýr skutrennuloki var einnig settur um borð og er verið að mála hann og koma fyrir í nýja skutrennuvasanum. Búið er að mála brúna að utan, en rafvirkjar eru að tengja kapla til að koma siglingaljósum á skipið. Einnig er byrjað á vinnu við að skipta um brúargluggana. Rafvirkjar vinna við að tengja rafal við rafmagnstöflur. Byrjað er að leggja loftræstistokka í nýja borðsalinn, en þar er einnig byrjað að steypa í gólf með flotsteypu.

Endurbygging Tanga hafin

Mánudaginn 19. nóv. s.l. hófst endurbygging verslunarhússins Tanga á Fáskrúðsfirði sem byggt var af Carli D. Tulinius (1835-1905) kaupmanni á Eskifirði árið 1895. Suttu síðar keypti sonur hans Þórarinn E. Tulinius (1860-1932) verslanir föður síns, stofnaði Hinar sameinuðu íslensku verslanir,og rak hér verslun til 1930. Á árunum 1931-1933 var Jón Davíðsson með verslun í húsinu. Þegar Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga er stofnað 6. ágúst 1933 keypti félagið Tanga og önnur hús á lóðinni og rak þar aðal verslun sína þar til í nóvember 1980 að flutt var í nýtt húsnæði að Skólavegi 59. Frá 1933-1946 bjó Björn Stefánsson fyrsti kaupfélagsstjóri félagsins einnig í húsinu ásamt fjölskyldu sinni.

Í bréfi frá Magnúsi Skúlasyni forstöðumanni Húsafriðunarnefndar, en hann skoðaði húsið 23. maí 2003, kemur fram að það er hans mat að húsið hafi mikið varðveislugildi fyrir Fáskrúðsfirðinga vegna aldurs, gerðar og menningarsögu.

Tangi var á sínum tíma miðpunktur daglegs lífs á Fáskrúðsfirði. Þar lögðust skip að bryggju, þar stigu ferðamenn á land og þangað komu heimamenn og nærsveitungar í fjölbreyttum viðskiptaerindum.

Það er fyrirtækið Svarthamrar ehf í Neskaupstað undir stjórn Guðbjarts Hjálmarssonar sem tekið hefur að sér að framkvæma verkið. Endurbyggingin er samvinnuverkefni á milli Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga og Húsafriðunarnefndar. Í gær kom hingað Einar Skúli Hjartarson starfsmaður Húsafriðunarnefndar. Hann fór yfir málið með kaupfélagsstjóra og starfsmönnum Svarthamra og lagði á ráðin um það hvernig best væri að standa að endurbyggingunni. Magnús Skúlason, sem nú hefur látið af störfum sem forstöðumaður Húsafriðunarnefndar, mun áfram verða mönnum innan handar við endurbyggingu hússins. Nýr forstöðumaður Húsafriðunarnefndar er Nikulás Úlfar Másson arkitekt.

Ljósafell vika 11

Búið er að taka út undirstöður fyrir öll spil og samþykkja af Lloyds. Niðursetning á vindum er því hafin og eru nýja gilsavindan og nýju pokavindurnar komnar á sinn stað. Einnig er byrjað að flytja bb togvinduna á sinn stað. Neðan dekks er verið að vinna í festingum fyrir einangrun og klæðningu. Einnig er verið að setja upp ný þil á nokkrum stöðum. Lagnavinna víða í gangi. Toggálginn hífður aftur á skipið eftir hækkun um 30 cm og smíði á nýjum blakkarfestingum. Einnig voru gerðar ýmsar endurbætur á honum vegna tæringaskemmda. Málningarvinna víða í gangi, brúin að utan, bátsmannsgeymsla og öll þil á millidekki, eldhúsi og borðsal ryðvarin. Á myndinni má sjá þreyttan yfirvélstjóra eftir að hafa komið bb pokavindunni á sinn stað.

Ljósafell vika 10

Stál og suðuvinna hefur gengið vel þessa viku og eru spilundirstöður að verða tilbúnar, auk þess er unnið að styrkingum á dekki ofl. Endurnýjun á sjólögnum í vél gengur sömuleiðis þokkalega. Sandblæstri er að mestu lokið, en í vikunni var lest, dekkhúsin, borðsalur og fleira sandblásið og grunnað. Aðeins er eftir að sandblása pokagálgann. Akkerisvindan er komin um borð eftir yfirhalningu. Lághitakælir er kominn á sinn stað. Nýju brunndælurnar fyrir millidekkið komu í vikunni. Vinna við raflagnir og pípulagnir er komin af stað og má á myndinni sjá nýju olíuskilvindurnar, en einnig er unnið að tengingum á þeim.

Ljósafell vika 9

Ljósafellið var sjósett föstudaginn 2. nóvember, en allri vinnu við botn og síður, öxul, skrúfu og stýri lauk í vikunni og er verkið úttekið af Lloyds. Einnig var lokið við að mála keðjukassa og sandblása akkeri og akkeriskeðjur og þau hífð um borð. Byrjað er að sandblása neðandekks í eldhúsi, stakkageymslu, nýju klósettunum og nýju matvælageymslunum. Lokið er viðgerð á afgaskatli og hann kominn um borð.

Ljósafell vika 8

Sandblástur og málun utandekks hefur verið í gangi í þessari viku og gengið vel. Skrokkur skipsins lítur mjög vel út og þykktarmælingar gefa góðar niðurstöður. Suðuvinnu við skutrennu og skut er lokið, einnig er langt komið með nýja vasann fyrir skutrennulokann. Nýjir töfluskápar og stjórnbúnaður fyrir tog og hjálparvindur kominn á sinn stað í vélarrúmi og vaktklefa. Öll tengivinna er þó eftir. Nýjar undirstöður fyrir togspilin eru komnar um borð og er verið að fella þær að dekkinu eins og sést á meðfylgjandi mynd

Ljósafell SU 70

Hér er Ljósafell í flotkvínni hjá Alkor í Gdansk tilbúið til sjósetningar, en skipið verður sjósett á morgun 2. nóvember.