Mánudaginn 19. nóv. s.l. hófst endurbygging verslunarhússins Tanga á Fáskrúðsfirði sem byggt var af Carli D. Tulinius (1835-1905) kaupmanni á Eskifirði árið 1895. Suttu síðar keypti sonur hans Þórarinn E. Tulinius (1860-1932) verslanir föður síns, stofnaði Hinar sameinuðu íslensku verslanir,og rak hér verslun til 1930. Á árunum 1931-1933 var Jón Davíðsson með verslun í húsinu. Þegar Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga er stofnað 6. ágúst 1933 keypti félagið Tanga og önnur hús á lóðinni og rak þar aðal verslun sína þar til í nóvember 1980 að flutt var í nýtt húsnæði að Skólavegi 59. Frá 1933-1946 bjó Björn Stefánsson fyrsti kaupfélagsstjóri félagsins einnig í húsinu ásamt fjölskyldu sinni.

Í bréfi frá Magnúsi Skúlasyni forstöðumanni Húsafriðunarnefndar, en hann skoðaði húsið 23. maí 2003, kemur fram að það er hans mat að húsið hafi mikið varðveislugildi fyrir Fáskrúðsfirðinga vegna aldurs, gerðar og menningarsögu.

Tangi var á sínum tíma miðpunktur daglegs lífs á Fáskrúðsfirði. Þar lögðust skip að bryggju, þar stigu ferðamenn á land og þangað komu heimamenn og nærsveitungar í fjölbreyttum viðskiptaerindum.

Það er fyrirtækið Svarthamrar ehf í Neskaupstað undir stjórn Guðbjarts Hjálmarssonar sem tekið hefur að sér að framkvæma verkið. Endurbyggingin er samvinnuverkefni á milli Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga og Húsafriðunarnefndar. Í gær kom hingað Einar Skúli Hjartarson starfsmaður Húsafriðunarnefndar. Hann fór yfir málið með kaupfélagsstjóra og starfsmönnum Svarthamra og lagði á ráðin um það hvernig best væri að standa að endurbyggingunni. Magnús Skúlason, sem nú hefur látið af störfum sem forstöðumaður Húsafriðunarnefndar, mun áfram verða mönnum innan handar við endurbyggingu hússins. Nýr forstöðumaður Húsafriðunarnefndar er Nikulás Úlfar Másson arkitekt.