Lokið var við sandblástur á Ljósafellinu í vikunni með því að pokagálginn og afturskipið voru blásin. Búið er að mála svæðið með tveim umferðum af grunn, en yfirmálun eftir. Í vikunni var einnig byrjað að leggja lagnir fyrir nýtt og umhverfisvænt slökkvikerfi vélarrúms. Kerfið heitir Novec 1230 og má sjá flöskurnar á meðfylgjandi mynd. Það mun leysa af hólmi Halon kerfi sem var ósóneyðandi og komið á bannlista yfir leyfileg slökkviefni. Í vikunni voru settar upp neyðarlúgur á þrem stöðum, en af öðru sem er að berast má nefna nýjar hurðir fyrir millidekk og dekkhúsin, ný lestarlúga millidekks, klæðningarefni og einangrun ásamt því að nýtt loftræstikerfi var að berast.