Þetta er vikan sem skipið átti að afhendast og endurbyggingu að ljúka, en það hefur ekki tekist og er Alkor shiprepairyard búið að boða tafir á afhendingu Ljósafellsins fram í miðjan janúar.

Í vikunni voru settar upp nýjar togblakkir á skipið af gerðinni Habru og eru þær framleiddar af Vélgæðum ehf á Fáskrúðsfirði. Búið er að skipta um gler í 18 af 23 gluggum í brúnni. Byrjað er að setja niður hjálparvindur eftir rækilega upptekt á þeim. Á myndinni má sjá fyrstu grandaravinduna setta á sinn stað. Einangrun og klæðningarvinna er komin af stað og er verið að ganga frá þar sem hefur þurft að rífa frá vegna lagna eða suðuvinnu. Nýja loftræstikerfinu var komið fyrir um borð. Lagnavinna er í fullum gangi og er búið að lekaprófa sjókælilagnir í vélarrúm, en einnig eru kyndilagnir, vatnslagnir, skólp og klóaklagnir langt komnar.