Aðalfundur LVF

Aðalfundur Loðnuvinnslunnar hf var haldinn 17. apríl 2009. Heildartekjur félagsins á árinu 2008 voru kr. 3,9 milljarðar og hækkuðu um 44% miðað við fyrra ár. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði var kr. 1,1 milljarður. Hagnaður fyrir gengisbreytingu erlendra lána var kr. 387 millj., en tap eftir reiknaða gengisbreytingu erlendra lána og skatta var kr. 620 millj. Veltufé frá rekstri var kr. 540 milljónir sem er 14% af tekjum og eigið fé félagsins var kr. 996 millj. sem er 27% af niðurstöðu efnahagsreiknings samanborið við 46% árið 2007. Á launaskrá Loðnuvinnslunnar árið 2008 komu 272 starfsmenn en að meðaltali störfuðu 158 manns hjá félaginu. Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga er aðaleigandi Loðnuvinnslunnar hf með um 83% eignarhlut.

Í umræðum um sjávarútvegsmál lýstu fundarmenn miklum áhyggjum af hugmyndum stjórnarflokkanna um innköllun veiðiheimilda og að allur fiskur skuli seldur á fiskmarkaði. Verði innkölluð 5% á ári fara um 160 tonn af bolfiski frá Loðnuvinnslunni ár hvert og eftir 6 ár verður búið að innkalla 1000 tonn af bolfiski frá Fáskrúðsfirði. Verði útgerðin skylduð til að selja allan afla í gegnum fiskmarkaði er rekstri fiskvinnslufyrirtækja í hinum dreifðu byggðum landsins komið í algjört uppnám og starfsöryggi fiskvinnslufólks verulega ógnað.

Á aðalfundinum afhenti Magnús Ásgrímsson formaður knattspyrnudeildar Leiknis Gísla Jónatanssyni f.h. Loðnuvinnslunnar þakkarskjöld fyrir frábæran stuðning við Ungmennafélagið Leikni.

Stjórn Loðnuvinnslunnar var öll endurkjörin en hana skipa: Friðrik Guðmundsson, formaður, Lars Gunnarsson, varaformaður, Steinn Jónasson, ritari, Elínóra Guðjónsdóttir og Elvar Óskarsson.

Heimsókn forsetans frestað

Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur frestað för sinni til Fáskrúðsfjarðar vegna veikinda.

Heimsókn forseta Íslands

Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, mun heilsa upp á starfsfólk Loðnuvinnslunnar h/f fimmtudaginn 2. apríl 2009 kl. 10.20 í kaffistofu frystihússins.

Vorfundir

Sameiginlegur deildarfundur Innri- og Ytri- deildar KFFB verður haldinn miðvikudaginn 15. apríl 2009 kl. 20.00 í kaffistofu frystihússins.



Aðalfundur KFFB verður haldinn föstudaginn 17. apríl 2009 kl. 17.30 í Félagsheimilinu skrúði.



Aðalfundur LVF verður haldinn föstudaginn 17. apríl 2009 kl. 18.30 í Félagsheimilinu Skrúði.

Kolmunni

Tvö færeysk skip, Tróndur í Götu og Júpiter, lönduðu hér um helgina um 3000 tonnum af kolmunna.

Samkaup h/f

Samkaup h/f., Hafnargötu 62, 230 Keflavík, hefur nú tekið á leigu verslunarhúsnæði Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga að Skólavegi 59, Fáskrúðsfirði, sem áður var í leigu hjá Kaupfélagi Héraðsbúa.

Hinir nýju rekstraraðilar eru boðnir velkomnir til Fáskrúðsfjarðar með góðum óskum um að rekstur þeirra megi verða farsæll.

Mikil ástæða er til þess að hvetja Fáskrúðsfirðinga til að taka vel á móti Samkaupum h/f og versla í heimabyggð og efla um leið byggðarlagið til framtíðar.



Verslum í heimabyggð – það borgar sig.

Hoffell SU 80

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Hoffell landaði í gær hjá Vinnslustöðinni hf í Vestmannaeyjum. Aflinn var 715 tonn af gulldeplu. Frá því að skipið hélt til þessara veiða þann 18. janúar hefur það fiskað 4.035 tonn af þessari tegund. Þetta er að sjálfsögðu góð búbót við önnur verkefni skipsins og má segja að vel hafi tekist til að ná tökum á þessum veiðiskap. Framundan er frekari þróun vegna hráefnisgæða, þ.e. geymslu og kælingar í lestum.

Gleðilegt nýtt ár 2009

Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga og Loðnuvinnslan hf óska starfsfólki sínu, viðskiptavinum, svo og landsmönnum öllum, farsældar á nýju ári. Þökkum ánægjuleg samskipti á árinu sem er að líða.

Jólin 2008

Bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á komandi ári. Þökkum samskiptin á árinu sem er að líða.


KFFB og LVF

Árshátíð LVF 2008

Árshátíð Loðnuvinnslunnar hf verður haldin í Félagsheimilinu Skrúði laugardaginn 13. des. n.k. Hátíðin hefst með borðhaldi kl. 20.00. Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar leikur fyrir dansi.

Makríll í Breiðafirði

Þessi fiskur er ekki til eða hvað!!!!. Hann finnst allavega ekki í íslenskri lögsögu í veiðanlegu magni að mati Evrópusambandsins og Noregs og þau 110 þúsund tonn sem veiddust út af Austfjörðum í sumar voru alger tilviljun. Alltaf berast þó fréttir af makríl hér og þar og þessi makríll á myndinni kom í nótina hjá Hoffelli SU 80 við síldveiðar fyrir vestan, nánar tiltekið í Breiðafirði. Makríllinn og félagar hans sem hafa þá væntanlega komið ólöglega til landsins voru „gómaðir“ og landað á Fáskrúðsfirði.

Norsk-ísl. síld

Færeyska skipið Tróndur í Götu kom til Fáskrúðsfjarðar í gær með um 2300 tonn af norsk-ísl. síld. Skipið var um tvo og hálfan sólarhring á leið sinni til Fáskrúðsfjarðar. Síldinni var landað í bræðslu hjá LVF.