Stjórn Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga samþykkti á fundi sínum þann 11. nóv. 2008 að taka þátt í fjárhagslegri endurskipulagningu Fjarðanets h/f í Neskaupstað með því að kaupa 16,83% hlut í félaginu.

Eftir endurskipulagninguna eru hluthafar í Fjarðaneti 21 talsins. Þrír hluthafar eiga meira en 10% í félaginu, en þeir eru Hampiðjan h/f 50,86%, Eignarhaldsfélag Austurlands ehf 29,02% og Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga 16,83%.

Fjarðanet rekur í dag starfsstöðvar með alhliða veiðarfæraþjónustu á 4 stöðum á landinu þ.e. í Neskaupstað, Fáskrúðsfirði, Akureyri og Ísafirði. Fjarðanet er eina fyrirtækið á landinu með alhliða þjónustu við fiskeldisfyrirtæki og rekur þvottastöð fyrir fiskeldispoka á Reyðarfirði. Þá er fyrirtækið einnig með þjónustu við verktaka og framkvæmdaaðila og gerði m.a. nýverið samning við Alcoa Fjarðaál um sölu og þjónustu á hífibúnaði. Hjá Fjarðaneti starfa nú um 20 manns og er ársveltan um 300 milljónir.

Aðalfundur Fjarðanets fyrir árið 2008 var haldinn í aðalstöðvum Hampiðjunnar að Flatahrauni 3 í Hafnarfirði 29. október s.l. Fram kom á fundinum að verulegur viðsnúningur hefur átt sér á rekstri félagsins og ljóst að endurskipulagning þess er farin að skila sér. Í stjórn Fjarðanets h/f voru kosnir: Jón Guðmann Pétursson, formaður, Gísli Jónatansson og Gunnþór Ingvason. Framkvæmdastjóri er Jón Einar Marteinsson.