Makrílrannsóknir
Sunnudagskvöldið 9. ágúst hélt Hoffell til rannsókna á útbreiðslu makríls hér við land, en samkomulag hefur orðið um að skipið verði við þessar rannsóknir í ca. 20 daga. Hoffell verður með Árna Friðrikssyni til að byrja með og kannar í fyrstu útjaðra leitarsvæðis Árna. Eftir að Árni Friðriksson hættir rannsóknum tekur Hoffell makrílrannsóknartroll Árna og heldur áfram norður og vestur um land og klárar rannsóknina skv. nánari fyrirmælum Hafrannsóknarstofnunnar.
Hægt er að fylgjast með ferðum Hoffells og annarra rannsóknarskipa á heimasíðu Hafró.
Finnur Fríði
Færeyska skipið Finnur Fríði landaði í gær liðlega 100 tonnum af norsk-íslenskri síld. Síldin var öll flökuð og söltuð hjá LVF.
Sjómannadagurinn 2009
Hátíðardagskrá laugardaginn 6. júní:
Kl. 11.00. Víðavangshlaup Leiknis frá tjaldsvæðinu.
Kl. 13.00. Sigling um Fáskrúðsfjörð með Hoffelli og Ljósafelli.
Kl. 15.00. Sjómanndagsmessa í Fáskrúðsfjarðarkirkju og blómsveigur lagður að minnisvarðanum. Prestur séra Gunnlaugur Stefánsson.
Kl. 16.00. Sjómannadagskaffi slysavarnardeildarinnar Hafdísar í félagsheimilinu.
Ljósafell 36 ára
Um hádegið lagðist Ljósafell SU 70 að bryggju á Fáskrúðsfirði með 105 tonn af bolfiski og eru um 80 tonn af aflanum ufsi.
Ljósafell kom til Fáskrúðsfjarðar 31. maí 1973 eftir 6 vikna siglingu frá Japan og hefur því þjónað Fáskrúðsfirðingum í 36 ár. Skipið var lengt og endurbyggt í Nauta-skipasmíðastöðinni í Gdynia í Póllandi 1988-1989 og aftur var skipið endurnýjað hjá Alkor-skipasmíðastöðinni í Gdansk 2007-2008. Ljósafell hefur alla tíð verið mikið happafley og með tilkomu þess varð mikil breyting í atvinnumálum Fáskrúðsfirðinga. Það má með sanni segja að ekkert skip hafi lagt eins mikið til samfélagsins á Fáskrúðsfirði eins og Ljósafell. Skipstjórar á Ljósafelli hafa frá upphafi verið þrír: Guðmundur Ísleifur Gíslason 1973-1980, Albert Stefánsson 1981-1994 og Ólafur Helgi Gunnarsson frá 1995.
Ljósafell heldur aftur til veiða kl. 20.00 annað kvöld (1/6) og kemur aftur til hafnar laugardaginn fyrir sjómannadag (6/6).
NORÐBORG KG 689
Föstudaginn 8. maí s.l. kom til heimahafnar í Klaksvík nýtt uppsjávarveiðiskip Norðborg KG 689. Skipið var byggt í Chile og var þrjár vikur að sigla til Færeyja. Skipið er 88 m langt og 18,4 m á breidd. Þetta er fullvinnsluskip búið flökunarvélum, frystitækjum og fiskimjölsverksmiðju. Skipið kostaði um 270 millj. dkr. eða um 6 milljarða ísl. kr. Eigendur, Kristian Martin Rasmussen og fjölskylda, hafa nú selt eldri skip sín Norðborg og Christian í Grjótinum.
Þessir aðilar hafa verið tryggir viðskiptavinir Loðnuvinnslunnar hf og landað miklu hráefni á Fáskrúðsfirði í gegnum tíðina. Friðrik Guðmundsson, stjórnarformaður LVF og Gísli Jónatansson, framkvstj. voru viðstaddir móttöku skipsins í Klaksvík s.l. föstudag.
Sumarkveðja
Óskum starfsfólki okkar gleðilegs sumars með þakklæti fyrir samstarfið í vetur.
Loðnuvinnslan hf
Aðalfundur LVF
Aðalfundur Loðnuvinnslunnar hf var haldinn 17. apríl 2009. Heildartekjur félagsins á árinu 2008 voru kr. 3,9 milljarðar og hækkuðu um 44% miðað við fyrra ár. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði var kr. 1,1 milljarður. Hagnaður fyrir gengisbreytingu erlendra lána var kr. 387 millj., en tap eftir reiknaða gengisbreytingu erlendra lána og skatta var kr. 620 millj. Veltufé frá rekstri var kr. 540 milljónir sem er 14% af tekjum og eigið fé félagsins var kr. 996 millj. sem er 27% af niðurstöðu efnahagsreiknings samanborið við 46% árið 2007. Á launaskrá Loðnuvinnslunnar árið 2008 komu 272 starfsmenn en að meðaltali störfuðu 158 manns hjá félaginu. Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga er aðaleigandi Loðnuvinnslunnar hf með um 83% eignarhlut.
Í umræðum um sjávarútvegsmál lýstu fundarmenn miklum áhyggjum af hugmyndum stjórnarflokkanna um innköllun veiðiheimilda og að allur fiskur skuli seldur á fiskmarkaði. Verði innkölluð 5% á ári fara um 160 tonn af bolfiski frá Loðnuvinnslunni ár hvert og eftir 6 ár verður búið að innkalla 1000 tonn af bolfiski frá Fáskrúðsfirði. Verði útgerðin skylduð til að selja allan afla í gegnum fiskmarkaði er rekstri fiskvinnslufyrirtækja í hinum dreifðu byggðum landsins komið í algjört uppnám og starfsöryggi fiskvinnslufólks verulega ógnað.
Á aðalfundinum afhenti Magnús Ásgrímsson formaður knattspyrnudeildar Leiknis Gísla Jónatanssyni f.h. Loðnuvinnslunnar þakkarskjöld fyrir frábæran stuðning við Ungmennafélagið Leikni.
Stjórn Loðnuvinnslunnar var öll endurkjörin en hana skipa: Friðrik Guðmundsson, formaður, Lars Gunnarsson, varaformaður, Steinn Jónasson, ritari, Elínóra Guðjónsdóttir og Elvar Óskarsson.
Heimsókn forsetans frestað
Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur frestað för sinni til Fáskrúðsfjarðar vegna veikinda.
Heimsókn forseta Íslands
Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, mun heilsa upp á starfsfólk Loðnuvinnslunnar h/f fimmtudaginn 2. apríl 2009 kl. 10.20 í kaffistofu frystihússins.
Vorfundir
Sameiginlegur deildarfundur Innri- og Ytri- deildar KFFB verður haldinn miðvikudaginn 15. apríl 2009 kl. 20.00 í kaffistofu frystihússins.
Aðalfundur KFFB verður haldinn föstudaginn 17. apríl 2009 kl. 17.30 í Félagsheimilinu skrúði.
Aðalfundur LVF verður haldinn föstudaginn 17. apríl 2009 kl. 18.30 í Félagsheimilinu Skrúði.
Kolmunni
Tvö færeysk skip, Tróndur í Götu og Júpiter, lönduðu hér um helgina um 3000 tonnum af kolmunna.
Samkaup h/f
Samkaup h/f., Hafnargötu 62, 230 Keflavík, hefur nú tekið á leigu verslunarhúsnæði Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga að Skólavegi 59, Fáskrúðsfirði, sem áður var í leigu hjá Kaupfélagi Héraðsbúa.
Hinir nýju rekstraraðilar eru boðnir velkomnir til Fáskrúðsfjarðar með góðum óskum um að rekstur þeirra megi verða farsæll.
Mikil ástæða er til þess að hvetja Fáskrúðsfirðinga til að taka vel á móti Samkaupum h/f og versla í heimabyggð og efla um leið byggðarlagið til framtíðar.
Verslum í heimabyggð – það borgar sig.