Hoffell

Hoffell kom til löndunar í gær með kolmunna af alþjóðlegu hafsvæði vestan við Írland. Aflinn var 1.633 tonn

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa í Reykjavík. Aflinn er um 65 tonn að þessu sinni, en skipið landaði líka í Reykjavík síðasta sunnudag ( 15 mars ) og þá var aflinn um 100 tonn. Uppistaðan í þessum túrum er þorskur og hefur honum og ýsunni verið keyrt til vinnslu í frystihús LVF á Fáskrúðsfirði. Ljósafell heldur aftur til veiða í dag, 18. mars, kl 14:00.

Ljósafell

Ljósafell er nú á landleið til Reykjavíkur með fullfermi. Landað verður í fyrramálið og megnið af fiskinum flutt með flutningabílum til vinnslu í frystihúsi LVF. Brottför í næstu veiðiferð verður kl 21:00, þriðjudagskvöld.

Hoffell á landleið

Hoffell lagði af stað heim frá Rockall hafsvæðinu með fullfermi af kolmunna í nótt. Siglingin er um 800 sjómílur og er skipið væntanlegt á föstudagskvöld.

Línubátar í Febrúar

Línubátarnir sem leggja upp hjá Frystihúsi LVF fiskuðu vel í Febrúar, það er að segja þegar veður leyfði. Sandfell endaði í 238 tonnum í mánuðinum og Hafrafell í 181 tonni. Hafrafellið tafðist einnig frá veiðum í nokkra daga vegna vélarbilunar.

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa í Reykjavík. Aflinn er um 100 tonn og verður að mestu trukkað austur til vinnslu í Frystihús LVF. Áhöfnin tekur nú hafnarfrí og fer skipið aftur til fiskveiða á fimmtudagskvöld 5. mars.

Út í bæ á öskudaginn

Skrifstofa Loðnuvinnslunnar fékk góðar heimsóknir í morgun, þangað mættu hópar af börnum og sungu af hjartans list. Ástæðan fyrir komunni, söngnum og búningunum sem sjá má á meðfylgjandi mynd, er sú að í dag er öskudagur.

Öskudagur á sér langa sögu, svo langa að nafnið öskudagur kemur fyrir í íslenskum handritum frá 14.öld og aðrar heimildir benda til þess að hann sé enn eldri.  Öskudagur á upphaf sitt í kristnum sið og markar upphaf lönguföstu. Er þessi umræddi dagur ávalt á miðvikudegi í 7.viku fyrir páska.

Víða í heiminum eru haldnar kjötkveðjuhátíðir síðustu dagana fyrir lönguföstu, þá klæðist fólk skrautlegum búningum, dansar og syngur um götur og stræti.  Vísir að þessum sið barst  til Íslands fyrir margt löngu síðan. En þar sem veðurfar á þessum árstíma bíður varla uppá mikil hátíðahöld utandyra, hefur sá siður að klæðast búningum og slá köttinn úr tunnunni náð mestri fótfestu, og í dag  má nærri geta að öskudagur sé einn af eftirlætisdögum ungu kynslóðarinnar.  Börn og fullorðnir klæðast búningum, ganga á milli fyrirtækja og stofnana syngjandi lög og söngva og fá að launum sælgæti eða annað sem gleður. 

Hér á Fáskrúðsfirði taka skólarnir virkan þátt í öskudegi. Í Grunnskólanum  skipuleggja nemendur göngu um bæinn með viðkomu hér og þar í von um að eitthvað óvænt safnist í poka og töskur. Leikskólabörnin gera slíkt hið sama. Á skrifstofu LVF var börnunum vel tekið og þau fengu góðgæti að launum fyrir ánægjulega heimsókn.

BÓA

Grunnskólabörn á skrifstofu Loðnuvinnslunnar

Hoffell

Hoffell er nú að landa um 1.630 tonnum af kolmunna sem veiddist vestan við Írland á alþjóðlegu svæði sem venjulega er kallað Rockall-hafsvæðið. Túrinn einkenndist af erfiðum veðuraðstæðum, en veiðin góð þegar tækifæri gafst. Skipið heldur aftur til sömu veiða kl 09:00 í fyrramálið, fimmtudaginn 27. febrúar.

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa í Reykjavík. Aflinn er um 100 tonn, og uppistaðan þorskur, þ.e. 60 tonn. Vösk sveit bílstjóra undir forustu Siggeirs ( Geira kúl ) sér um að trukka aflanum austur til vinnslu í Frystihús LVF. Skipið heldur aftur til veiða í kvöld kl 21:00.

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa um 60 tonnum og er uppistaðan þorskur. Brottför í næstu veiðiferð er kl 13:00 í dag, þriðjudaginn 18. febrúar.

Línubátar í janúar

Janúar hefur einkennst af ótíð og talsvert um frátafir frá veiðum sökum veðurs. Línubátarnir sem leggja upp hjá Loðnuvinnslunni fiskuðu þó ágætlega þegar gaf og endaði Hafrafell SU 65, með 188 tonn og Sandfell SU 75, með 158tonn.

Samkvæmt samantekt Aflafrétta endaði Hafrafell í fyrsta sæti og Sandfell í þriðja sæti fyrir landið í þessum bátaflokki.

Sjá samantekt aflafrettir.is á eftirfarandi vefslóð: http://www.aflafrettir.is/frettir/grein/batar-yfir-21-bt-i-jannr8/5191

Ljósafell

Ljósafell landaði í morgunn rúmum 100 tonnum og var uppistaðan þorskur. Skipið heldur aftur til veiða á morgunn, þriðjudaginn 4. febrúar kl 08:00.