“Þetta eru óvenjulegir tímar” er setning sem oft hefur heyrst á síðast liðnum vikum. Og má það með sanni segja. Öll heimsbyggðin á í baráttu við sameiginlegan vágest sem birtist í formi veiru sem nefndur hefur verið Corona vírus. 

Allt íslenskt samfélag hefur þurft að grípa til aðgerða til að sporna við útbreiðslu veirunnar og er Loðnuvinnslan engin undantekning þar á.  Starfsemi LVF fellur undir það að vera kerfis – og efnahagslega mikilvægt fyrirtæki, rétt eins og önnur sjávarútvegsfyrirtæki, og nýtur því undanþágu á fjöldatakmörkunum t.a.m. í frystihúsinu.

Ragnheiður Ingibjörg Elmarsdóttir er mannauðs- og öryggisstjóri Loðnuvinnslunar. Greinahöfundur bað hana að segja frá því til hvað aðgerða hefði verið gripið innan fyrirtækisins. “Strax í upphafi mars mánaðar funduðu stjórnendur og voru teknar ákvarðanir um töluverðar breytingar á verklagi innanhús. Þar má nefna að frystihúsið var alveg lokað fyrir óviðkomandi umferð annarra en starfsmanna. Síðan höfum við farið eftir fyrirmælum yfirvalda eftir því sem hömlur hafa aukist. Það er búið að loka fyrir allan samgang á milli deilda eins og kostur er og biðjum við utanaðkomandi að hafa samband í síma eða með tölvupósti.

Áður vorum við með sameiginlegt mötuneyti en nú sér hver deild um sína starfsmenn í matar- og kaffitímum. Einnig erum við undir það búin að starfsfólk skrifstofu geti unnið að heiman ef til þess kemur” sagði Ragnheiður. 

Hún tók það líka skýrt fram að allt starfsfólk væri meðvitað um alvarleika málsins að allir væru viljugir og fúsir að fara eftir þeim reglum sem settar hafa verið. Við vitum að þetta eru breytingar og aukaálag fyrir starfsfólkið okkar sem á hrós skilið fyrir sitt framlag, því allir leggja hönd á plóg.

Þorri Magnússon framleiðslustjóri svaraði því aðspurður að vel gengi í frystihúsinu. “Það er auðvitað álag, og því má kannski líkja við vertíðarálag” sagði Þorri. Útidyrum frystihússins hefur verið læst og hringja þarf bjöllu til þess að fá þær opnar en inn fer engin sem ekki er starfsmaður að mæta í vinnu. “Starfsfólki hefur verið skipt í tvo hópa sem vinna hvor á móti öðrum. Og þegar annar hópurinn fer heim, er matsalur og starfsmannaaðstaða þrifin hátt og lágt áður en hinn hópurinn mætir til vinnu.  Við valið í hópana var haft í huga hvaða fólk “krossast” í okkar litla samfélagi. T.d ef hjón starfa í frystihúsinu þá eru þau í sama hópi og eins fólk sem deilir heimili eða leiðir þeirra liggja saman á annan hátt” bætti Þorri við.

Magnús Ásgrímsson verksmiðjustjóri sagði starfsemina í Bræðslunni ganga nokkuð vel. Þar er líka búið að loka fyrir óviðkomandi umferð og tekið hefur verið upp nýtt verklag varðandi löndun á afla úr skipum þar sem markmiðið er samskipti sjómanna og landverkafólks sé lítil sem engin.

Ingólfur Hjaltason verkstjóri vélaverkstæðis tók í sama streng. “Starfsemin gengur bara vel með þessum takmörkunum sem við höfum sett okkur” sagði Ingólfur. “T.d. ef þarf að sinna verkefnum í frystihúsinu gerum við það á laugardögum eða eftir að starfsfólk þar er farið heim” bætti hann við.  Og það sama er uppá teningnum á skipum Loðnuvinnslunnar. Kjartan Reynisson útgerðarstjóri sagði að mikil aðgát væri viðhöfð á skipunum og “ef það þarf að koma nýr starfsmaður um borð þarf viðkomandi að gera grein fyrir ferðum sínum til þess að reyna að finna út hvort að hætta sé á að viðkomandi manneskja hafi verið útsett fyrir smiti”. 

Viðmælendur greinarhöfundar voru sammála um að allir væru að vanda sig, allir væru meðvitaðir og að vilji til að gera sitt besta væri það sem einkenndi starfsfólk Loðnuvinnslunnar.

En tíminn líður áfram eins og vatnið og á einhverjum tímapunkti verðum við laus við hömlur og höft. Við þurfum öll að horfa þangað og þá er gott að hafa í þetta huga: “Snúðu augliti þínu alltaf að sólbjarmanum, þá munu skuggarnir falla að baki þér:”

–Indverskt orðtak

BÓA

Fallegur morgunroði í Fáskrúðsfirði. Ljósmynd Jónína Guðrún Óskarsdóttir