Þegar Ljósafell landaði síðasta miðvikudag ( 15. apríl ) ríkti óvenjulegt ástand um borð. „Grunur um kórónasmit“ Það var búið að skima 12 af 15 mönnum í áhöfninni fyrir smiti, og allir fengið heilbrigða niðurstöðu. En nú brá svo við að einn þeirra þriggja sem ekki höfðu verið skimaðir sýndi flensueinkenni, hita og hósta. Kom þetta upp seinnipart 14 apríl. Skipverjinn var samstundis einangraður frá öðrum í áhöfn og hann sendur í skimun strax að morgni 15. apríl þegar í land var komið.

Nú hafa borist niðurstöður skimunar og reyndist skipverjinn ekki smitaður af kóróna.

Það er mikill léttir fyrir alla aðra bæði í landi og um borð. Engu að síður þótti rétt að hafa samráð við Heilbrigðisstofnun Austurlands þegar þetta ástand skapaðist og var allri varúð gætt og áhöfninni ekki hleypt í land og haldið í sóttkví um borð þar til niðurstaða barst. Skipið er nú að veiðum og allir við góða heilsu.

Áhöfn og útgerð þakka HSA fyrir skjót og góð viðbrögð og óska heilbrigðisstarfsfólki velfarnaðar í sínum erfiðu störfum.