Maxine og Lorraine

Undanfarnar tvær vikur hafa tvær konur frá Ástralíu verið í heimsókn á Fáskrúðsfirði.

Það er langt ferðalag að ferðast frá Ástralíu til Íslands en þetta er ekki í fyrsta skiptið sem þær stöllur gera það.  Þær tilheyra nefnilega þeim hópi sem gjarnan hefur verið kallaður “áströlsku stelpurnar”, sem var hópur ungra kvenna sem kom til Íslands til þess að vinna í fiski.

Maxine V. Cole kom fyrst til Fáskrúðsfjarðar í október 1978 og dvaldi fram í júlí 1979. Síðan kom hún aftur í janúar 1980 og dvaldi þá fram í júlí 1980.

Lorraine Heazelwood kom einnig í janúar 1980 og dvaldi fram í júlí 1980.  Og hér kynntust þær, tvær rúmlega tvítugar konur komnar um langan veg til sex mánaða dvalar á landinu bláa.  

Og núna u.þ.b. 40 árum síðar eru þær komnar aftur.  Þær Lorraine og Maxine eru skemmtilegar konur, afar viðræðugóðar og vildu gjarnan rifja upp þessa liðnu tíma. “Við vorum ráðnar í gegnum umboðsskrifstofu í London.  Þar skrifuðum við undir samning þess efnis að við réðum okkur til starfa í fiskvinnslu á Íslandi en við vissum ekki hvert við færum” sögðu þær, en komust svo að því síðar að þær færu til austurstrandar Íslands í þorp sem hét Fáskrúðsfjörður.  Þær eru aldar upp í bæjum sem eru umtalsvert stærri en Búðaþorp við Fáskrúðsfjörð svo það eitt voru  heilmikil viðbrigði. Maxine fékk herbergi í Valhöll, húsi sem löngum hefur verið rekið sem verbúð, en Lorraine fékk herbergi í gamla sláturhúsinu, þar sem nú er rekið rafmagnsverkstæði Lvf.  Þar hafði verið útbúin gisting fyrir fjórar sálir ásamt salernisaðstöðu.  Lorraine rifjar upp hverig þar var að búa: “í þá daga var ekkert land fyrir neðan húsið, það var bara sjór. Og stundum skullu öldurnar á veggjunum og lömdu gluggann og þá lak líka inn þannig að gólfið var alltaf hálf blautt.  En þar var samt gott að búa” sagði hún og brosti við tilhugsunina.

Þær voru fljótar að kynnast nýju fólki, öðrum stúlkum, sem voru líkt og þær sjálfar í leit að ævintýrum og auðvitað að afla sér tekna líka, samstarfsfólki í frystihúsinu og öðru ungu fólki úr þorpinu. Við sumt af þessu fólki hafa þær haldið sambandi í öll þessi ár og aðra höfðu þær hvorki séð né heyrt fyrr en þær komu aftur fjórum áratugum síðar. “Sumir hafa ekkert breyst þó að við höfum auðvitað öll elst” sögðu þær og þeim varð tíðrætt um það hvað þorpið hefði breyst.  “Það hefur stækkað á alla kanta og öll þessi tré” og þær draga fram ljósmynd máli sínu til stuðnings. Mynd sem sýnir þorpið við Fáskrúðsfjörð í kring um 1980 og á þeirri mynd má greina tvö greinitré og bæði í rýrari kantinum. Já, það er ekki aðeins mannfólkið sem breytist.

Aðspurðar sögðu þær vinnuna í frystihúsinu ekki hafa verið erfiða. “Við lærðum að snyrta og pakka og okkur fannst þetta ekki erfitt, en okkur var stundum kalt” bættu þær við. Fyrir ungar konur, sem jafnvel höfðu dvalist langdvölum í stórborg, var ekki mikið um tómstundir hér í fámenninu svo þær tóku uppá einu og öðru sér til skemmtunnar. Þær höfðu matarboð og samkvæmi og þær léku sér í snjónum og hálkunni þegar það var til staðar. Og þær lærðu að prjóna lopapeysur.

Maxine býr í Brisbane sem er borg í  Queensland fylki í Ástralíu.  Hún er listakona, og vinnur mikið með pappír en Lorraine er ljósmóðir og býr í Tazmaniu sem er eyja við suðurstönd Ástralíu.  Þær eru báðar komnar á eftirlaun.

Er þær tóku þá ákvörðun að heimsækja Ísland ákváðu þær að nota tímann vel og ferðast um landið.  Þær leigðu sér bíl og sögðu að það hefði tekið þær svona tvo daga að venjast því að aka “vitlausu megin” á götunni, en í þeirra heimalandi er vinstri umferð. Og þær hafa aldeilis notað tímann vel. Þær dvöldu aðeins í Reykjavík, óku svo vestur á Snæfellsnes, þaðan til vestfjarða, svo norðurland og þaðan lá leiðin til Fáskrúðsfjarðar. Svo aka þær með suðurströndinni aftur til Reykjavíkur og þegar þær leggja upp í ferðina heim þá hafa þær dvalið í sex vikur á Íslandi.

Loðnuvinnslan tók vel á móti þessum fyrrum starfskonum og bauð þeim að skoða frystihúsið og það þótti þeim afar skemmtilegt.  Þær prófuðu meira að segja að snyrta fisk og svo var að sjá að þær hefðu engu gleymt, enda eiga þær báðar hnífana sem þær notuðu við snyrtinguna hér áður fyrr. Hnífarnir fengu að flytja til Ástralíu. Þá var þeim boðið út að borða og fengu lopapeysur og norðurljósamyndir að gjöf.

Lorraine og Maxine voru mjög sáttar þegar við kvöddumst og orð voru látin falla um að vonandi myndum við hittast á nýjan leik og þær ítrekuðu þakklæti sitt á því að allsstaðar þar sem þær hefðu komið og allir sem þær hefðu hitt, hefðu tekið svo fallega og vel á móti þeim. “Við vildum svo gjarnan koma aftur” voru lokaorðin og góðar kveðjur gengu á milli á  fallegu haustkvöldi þar sem tunglið lét geisla sína leika við hafflötinn og baðaði fjallhnjúka raðirnar ljósi sínu. Fjöllin sem ekkert hafa breyst á fjórum áratugum.

BÓA

Lorraine, Friðrik og Maxine. Dömurnar í lopapeysunum .
Maxine og Lorraine í heimsókn i frystihúsinu.
Maxine og Lorraine. Þarna sátu þær í pásum hér á árum áður.

Ljósafell komið úr slipp

Ljósafell Su 70 hefur verið í slipp í Reykjavík s.l sex vikur. Þar var eitt og annað gert til að viðhalda góðu ástandi þessa 46 ára gamla skips. 

Ljósafellið liggur nú í heimahöfn á Fáskrúðsfirði og er að taka veiðafæri um borð og skipta um vatn. “Vatnstankarnir voru teknir í gegn svo að við erum að endurnýja vatnið” sagði Hjálmar Sigurjónsson skipstjóri og bætti svo kankvís við “við viljum líka helst góða fjallavatnið okkar Fáskrúðsfirðinga”. Það er heilmikil vinna að koma veiðafærum fyrir um borð í togara, það þarf að brasast með víra og keðjur og koma öllu trollinu fyrir á sínum stað.

Þegar Hjálmar var inntur eftir því hvað hefði verið gert í slippnum svaraði hann: “Aðalvélin var tekin upp frá grunni, skipt um slífar og legur, gírinn tekinn upp og yfirfarinn sem og rafallinn”.   Og svo var skipið málað hátt og lágt.  “Þá var skipt um skjái í brúnni, þeir nýju eru nokkuð stærri en þeir sem fyrir voru, ekki ætlar skipstjórinn að fá sér gleraugu” bætti Hjálmar við glaðlega. Þá voru settar upp öryggismyndavélar á nokkrum stöðum í skipinu eins og við spilin og sagði Hjálmar að mikið öryggi væri í því fólgið að geta litið á skjáinn áður en byrjað væri að draga til að ganga úr skugga um að enginn væri of nálægt. Þá voru tvær myndavélar settar í vélarúmið þannig að hægt væri að fylgjast með stöðunni þar.  Komandi vetur leggst vel í skipstjórann Hjálmar, áhöfnin er til í tuskið eftir gott sumarfrí og skipið í afar góðu standi. Ljósafell fer af stað á miðin í kvöld, fimmtudag 12. sept, og reiknar Hjálmar með því að landa á Fáskrúðsfirði n.k. mánudag “vonandi með fullt af fiski” sagði skipstjórinn.  

Fallegt 46 ára gamalt skip. Ljósmynd Friðrik Mar Guðmundsson
Ljósafell á leið á miðin. Ljósmynd Friðrik Mar Guðmundsson

BÓA

Hoffell

Hoffell á landleið með tæp 1000 tonn af makríl. Byrjað verður að vinna uppúr skipinu á mánudagsmorgni. Skipið heldur aftur til sömu veiða að löndun lokinni.

Hoffell

Hoffell landaði um 1000 tonnum af makríl um helgina. Skipið lagði aftur af stað í gær kl 16:00 til sömu veiða.

Norges Sildesalgslag á Fáskrúðsfirði

Dagana 27. og 28. ágúst s.l var haldinn á Fáskrúðsfirði stjórnarfundur hjá Norges Sildesalgslag sem er Samvinnufélag útgerðarmanna í Noregi. Stjórn þessi heldur fjóra stjórnarfundi á ári og annað hvert ár er einn fundur haldinn utan Noregs og þá í einhverju landi í Evrópu þar sem góður viðskiptavinur hefur höfuðstöðvar sínar. Að þessu sinni varð Loðnuvinnslan fyrir valinu og var það sannur heiður fyrir fyrirtækið að taka vel á móti þessum 22 manna hópi norðmanna, skipuleggja og aðstoða við framkvæmd funda og auðvitað að bjóða þessum góðu gestum uppá einhverja dagskrá utan fundatíma.

Knut Torgnes er yfirmaður sölumála hjá Norges Sildesalgslag og aðspurður sagði hann að dvölin á Fáskrúðsfirði hefði verið afar góð. “Þrátt fyrir rigningu og lítið skyggni var heimsóknin frábær, Friðrik (Guðmundsson framkvæmdastjóri LVF) og Loðnuvinnslan tóku svo vel á móti okkur, allur aðbúnaður var til fyrirmyndar og öll dagskráin stóðst fullkomlega”

Knut var líka hrifinn af safninu um Frakka á Íslandsmiðum, Steinasafni Petru og siglingu á björgunarbátnum Hafdísi. Hann sagði það vera samfélaginu til sóma að hafa bát sem þennan og hvert sjávarpláss í heimi mætti vera stolt af slíkum bát. “Svo enduðum við heimsóknina á austurlandi með því að fara í Vök –baðhúsið á Egilsstöðum, það var frábært” bætti hann við og vildi taka fram að allur hópurinn væri mjög ánægður með heimsóknina.

Loðnuvinnslan á í töluverðum viðskiptum við Norges Sildesalgslag, kaupir af þeim loðnu og kolmunna en þessi norsku samtök útgerðamanna er einn stærsti söluaðilli heims í uppsjávarfiski. Árlega selja þau 1.5 milljón tonna af fiski.

Knut Torgnes sagði að heimsóknin á Fáskrúðsfjörð og til Loðnuvinnslunnar hefði styrkt þeirra góða viðskiptasamband og ítrekaði þakklæti þeirra Sildesalgslags – fólks og bað fyrir góðar kveðjur.

BÓA

Friðrik Guðmundsson, Knut Torgnes yfirmaður sölumála ogJonny Garvik formaður stjórnar Norske Sildesalslag. Loðnuvinnslan gaf öllum norsku gestunum norðurljósamynd frá Fáskrúðsfirði.
Hópurinn að leggja af stað í siglingu á Hafdísinni
Allur hópurinn fyrir framan Vök baðhús.

7000 tonn af makríl hjá Hoffelli

Hoffell kom til heimahafnar á Fáskrúðsfirði um kl. 03.00 aðfaranótt sunnudagsins 25.ágúst með 1000 tonn af makríl. Aflinn var veiddur sunnarlega í Síldarsmugunni sem er alþjóðlegt hafsvæði opið öllum, en gefin er út alþjóðlegur kvóti til veiða þar.

Sigurður Bjarnason skipstjóri á Hoffellinu hefur, ásamt áhöfn sinni, komið með 7000 tonn af makríl að landi sem er umtalsvert meira en á sama tíma í fyrra. Ástæðuna telur Sigurður vera þá að veiðin í íslensku lögsögunni hafi verið góð í ár og fiskurinn var miklu fyrr á feðinni. “Því var öðruvísi háttað í fyrra” sagði Sigurður, “þá var veiði í íslensku lögsögunni dræm”.  Aðspurður sagði Sigurður líka að veiðin í Smuginni væri almennt góð, það hefði verið fín veiði þegar þeir fóru þaðan og þegar löndun líkur á Hoffelli er ferðinni heitið beint þangað aftur. Sigling í Smuguna frá Fáskrúðsfirði er u.þ.b 22 klukkustundir.

“Þetta er ágætis fiskur” svaraði skipstjórinn þegar hann var inntur eftir gæðunum, “þetta er svona 440 til 480 gramma fiskur. Hann er ekki alveg eins góður og makríllinn sem veiddist í íslensku lögsögunni en fínn engu að síður”.

Þegar vel gengur að fiska og ötullega gengur á kvótann má leiða að því líkum að vertíðinni ljúki fyrr en Sigurður vildi ekki gefa neitt út á það, hann sagði að það væri ómögulegt að segja, skilyrði í sjó ráða því hvert makríllinn fer og hvenær, en venjulega væri hann kominn inní hafsögu Noregs um mánaðarmótin september – október og þar með væri vertíðinni lokið fyrir íslensk skip.

Skipstjórinn er ánægður með skipið “Hoffellið er hörkufínt skip” sagði hann og bætti því við að áhöfin væri mjög góð. “Þetta eru klassa strákar” og það var gott hljóð í Sigurði skipstjóra sem undirbýr búferlaflutning til Fáskrúðsfjarðar sem á að fara fram í september og þegar greinarhöfundur spurði hvenig tilfinning væri fyrir flutningnum svaraði maðurinn að bragði: “Þetta verður bara flott”.

BÓA

Hoffell

Hoffell kom til löndunar á mánudaginn með um 950 tonn af makríl. Með því eru komin tæp 6000 tonn í land á vertíðinni. Veiðar og vinnsla hefur gengið vel og makríllinn stór og góður.

Gengur vel hjá nýjum skipstjóra á Hoffelli

 Í brúnni á Hoffelli situr Sigurður Bjarnason, nýráðinn skipstjóri,  og siglir í land með 790 tonn af makríl. Er þetta fyrsti makríltúr Sigurðar á Hoffellinu.  Þegar greinarhöfundur heyrði í Sigurði var Hoffellið úr af Berufirði og reiknaði skipstjórinn með að þeir yrðu í heimahöfn á Fáskrúðsfirði um kl. 20.30 sunnudagskvöldið 14.júlí.   Aðspurður sagði Sigurður að það hefði gengið vel. “Við vorum í tvo og hálfan sólarhring á veiðum og fengum þennan afla suðvestur af Vestmannaeyjum” sagði Sigurður.  Hann sagði að veðrið hefið verið gott, nokkur kaldi á leiðinni út en síðan bara blíða.  Hann sagði líka að skipið hefði reynst vel og áhöfnin væri góð. “Þetta eru flottir strákar og mér líst mjög vel á þetta allt saman” bætti skipstjórinn við.  Löndun úr Hoffellinu hefst fljótlega eftir að það leggst við bryggju og þegar aflinn verður kominn í land verður haldið á miðin á nýjan leik. “Ég er mjög sáttur og  það eru næg verkefni framundan” sagði Sigurður Bjarnason skipstjóri á Hoffellinu að lokum og full ástæða til að óska honum og áhöfninn til hamingju með samstarfið.

BÓA

Hoffell

Hoffell er komið í land með um 780 tonn af kolmunna. Þá tekur við að útbúa skipið á makríl, en farið verður að horfa eftir honum í næstu viku.

Ljósafell

Ljósafell er komið til löndunar með um 100 tonn. Uppistaða aflans er ufsi og þorskur. Skipið heldur aftur til veiða á morgunn, miðvikudaginn 3. júlí kl 16:00.