Í brúnni á Hoffelli situr Sigurður Bjarnason, nýráðinn skipstjóri,  og siglir í land með 790 tonn af makríl. Er þetta fyrsti makríltúr Sigurðar á Hoffellinu.  Þegar greinarhöfundur heyrði í Sigurði var Hoffellið úr af Berufirði og reiknaði skipstjórinn með að þeir yrðu í heimahöfn á Fáskrúðsfirði um kl. 20.30 sunnudagskvöldið 14.júlí.   Aðspurður sagði Sigurður að það hefði gengið vel. “Við vorum í tvo og hálfan sólarhring á veiðum og fengum þennan afla suðvestur af Vestmannaeyjum” sagði Sigurður.  Hann sagði að veðrið hefið verið gott, nokkur kaldi á leiðinni út en síðan bara blíða.  Hann sagði líka að skipið hefði reynst vel og áhöfnin væri góð. “Þetta eru flottir strákar og mér líst mjög vel á þetta allt saman” bætti skipstjórinn við.  Löndun úr Hoffellinu hefst fljótlega eftir að það leggst við bryggju og þegar aflinn verður kominn í land verður haldið á miðin á nýjan leik. “Ég er mjög sáttur og  það eru næg verkefni framundan” sagði Sigurður Bjarnason skipstjóri á Hoffellinu að lokum og full ástæða til að óska honum og áhöfninn til hamingju með samstarfið.

BÓA