Hoffell kom til heimahafnar á Fáskrúðsfirði um kl. 03.00 aðfaranótt sunnudagsins 25.ágúst með 1000 tonn af makríl. Aflinn var veiddur sunnarlega í Síldarsmugunni sem er alþjóðlegt hafsvæði opið öllum, en gefin er út alþjóðlegur kvóti til veiða þar.

Sigurður Bjarnason skipstjóri á Hoffellinu hefur, ásamt áhöfn sinni, komið með 7000 tonn af makríl að landi sem er umtalsvert meira en á sama tíma í fyrra. Ástæðuna telur Sigurður vera þá að veiðin í íslensku lögsögunni hafi verið góð í ár og fiskurinn var miklu fyrr á feðinni. “Því var öðruvísi háttað í fyrra” sagði Sigurður, “þá var veiði í íslensku lögsögunni dræm”.  Aðspurður sagði Sigurður líka að veiðin í Smuginni væri almennt góð, það hefði verið fín veiði þegar þeir fóru þaðan og þegar löndun líkur á Hoffelli er ferðinni heitið beint þangað aftur. Sigling í Smuguna frá Fáskrúðsfirði er u.þ.b 22 klukkustundir.

“Þetta er ágætis fiskur” svaraði skipstjórinn þegar hann var inntur eftir gæðunum, “þetta er svona 440 til 480 gramma fiskur. Hann er ekki alveg eins góður og makríllinn sem veiddist í íslensku lögsögunni en fínn engu að síður”.

Þegar vel gengur að fiska og ötullega gengur á kvótann má leiða að því líkum að vertíðinni ljúki fyrr en Sigurður vildi ekki gefa neitt út á það, hann sagði að það væri ómögulegt að segja, skilyrði í sjó ráða því hvert makríllinn fer og hvenær, en venjulega væri hann kominn inní hafsögu Noregs um mánaðarmótin september – október og þar með væri vertíðinni lokið fyrir íslensk skip.

Skipstjórinn er ánægður með skipið “Hoffellið er hörkufínt skip” sagði hann og bætti því við að áhöfin væri mjög góð. “Þetta eru klassa strákar” og það var gott hljóð í Sigurði skipstjóra sem undirbýr búferlaflutning til Fáskrúðsfjarðar sem á að fara fram í september og þegar greinarhöfundur spurði hvenig tilfinning væri fyrir flutningnum svaraði maðurinn að bragði: “Þetta verður bara flott”.

BÓA