4. – 6. vikna stopp í sumar
Áætlað er að bolfiskvinnsla liggi niðri í 4-6 vikur hjá LVF í sumar vegna hráefnisskorts. Miðað við kvótastöðu Ljósafells í lok apríl er gert ráð fyrir því að síðasta löndun togarans fyrir sumarstopp verði mánudaginn 19. júlí og síðasti vinnsludagur verði föstudagurinn 23. júlí.
LVF gerir ráð fyrir því að framleiðsla á frystum makríl verði töluverð í sumar og gæti markrílvinnslan haft áhrif á það hve lengi bolfiskkvótinn endist.
Hagnaður 223 millj.
Hagnaður af rekstri Loðnuvinnslunnar h/f árið 2009 nam kr. 223 millj. eftir skatta, en árið 2008 varð tap á rekstri félagsins kr. 620 millj., sem fyrst og fremst var tilkomið af miklu gengistapi á erlendum lánum vegna hruns íslensku krónunnar.
Rekstrartekjur félagsins að frádregnum eigin afla voru kr. 2.898 millj. og lækkuðu kr. 985 millj. miðað við fyrra ár. Tekjuminnkunina má einkum rekja til þess að mun minna barst af kolmunna, síld og loðnu til félagsins en árið 2008.
Hagnaður án afskrifta og fjármagnskostnaðar (ebitda) var kr. 680 millj., sem er 23,5% af tekjum, en árið 2008 var ebitda kr. 1.067 millj. sem var 27,5% af tekjum. Veltufé frá rekstri er kr. 545 millj., sem er 19% af tekjum, en var kr. 540 millj. eða 14% árið 2008. Afskriftir voru kr. 199,4 millj., sem er svipað og árið 2008.
Eigið fé félagsins í árslok var kr. 1.208 millj. sem er 35,5% af niðurstöðu efnahagsreiknings, samanborið við kr. 996 millj. og 27% eiginfjárhlutfall árið 2008. Eigið fé LVF hækkaði um 21% samanborið við fyrra ár og var arðsemi eigin fjár 18,4%. Nettó skuldir félagsins voru í árslok kr. 1.440 millj. og höfðu lækkað um kr. 400 millj. frá fyrra ári.
Hlutafé LVF er kr. 700 millj. og voru hluthafar í árslok 185 . Stærsti hluthafinn er Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga með 82,83% eignarhlut, en 10 stærstu hluthafarnir eiga samtals 97,8% hlutafjárins. Gengi hlutabréfa í árslok 2009 var 3,1.
Aðalfundur Loðnuvinnslunnar h/f var haldinn 9. apríl s.l. og samþykkti fundurinn að greiða hluthöfum 5% arð, samtals 35 millj. króna.
Stjórn Loðnuvinnslunnar h/f var öll endurkjörin, en hana skipa: Friðrik Guðmundsson, formaður, Lars Gunnarsson, varaformaður, Steinn Jónasson, ritari, Elínóra Guðjónsdóttir og Elvar Óskarsson. Varamenn: Jóhannes Sigurðsson og Björn Þorsteinsson.
Framkvæmdastjóri er Gísli Jónatansson.
Aðalfundir
Aðalfundur KFFB verður haldinn í Félagsheimilinu Skrúði föstudaginn 9. apríl 2010 kl. 17.30.
Aðalfundur LVF verður haldinn í Félagsheimilinu Skrúði föstudaginn 9. apríl 2010 kl. 18.30.
Loðna
Í dag er verið að landa úr norska loðnuskipinu Nordervon um 1000 tonnum af Barentshafsloðnu. Hrognafrysting er því enn í gangi hjá LVF, en klárast væntanlega á skírdag.
Deildafundur KFFB
Sameiginlegur aðalfundur Innri- og Ytri-deildar KFFB verður haldinn í kaffistofu frystihússins á Fiskeyri þriðjudaginn 6. apríl 2010 kl. 20.00.
Loðna
Í dag er verið að landa 640 tonnum af loðnu úr norska skipinu Norderveg, sem veidd var í Barentshafi. Loðnan verður kúttuð og hrognin fryst hjá LVF. Á þessu ári hefur Norderveg landað fjórum sinnum hjá LVF, þremur loðnuförmum og einum farmi af kolmunna.
Loðna
Í morgun kom norska loðnuskipið Liafjord til Fáskrúðsfjarðar með um 1050 tonn af loðnu sem veidd var í Barentshafi. Loðnan verður kúttuð og hrognin fryst hjá LVF. Liafjord er 5. norska skipið sem landar loðnu úr Barentshafi á Fáskrúðsfirði á þessari vertíð.
Loðna
Í gærkveldi kom til Fáskrúðsfjarðar 4. norska skipið með hrognaloðnu. Það var Nordervon, sem kom með um 1400 tonn. Í dag er verið að landa og kútta úr Nordervon og verið að ljúka við að frysta hrognin úr Norderveg, næsta skipi á undan.
Það er því mikið um að vera hjá LVF þessa dagana og unnið hefur verið á vöktum við kúttun og hreinsun hrognanna. Skólafólk hefur m.a. verið við hrognavinnsluna um helgina.
Loðna
Norska skipið Akeröy kom til Fáskrúðsfjarðar í gærkveldi með um 1200 tonn af loðnu úr Barentshafi. Loðnan er kreist og eru hrognin fryst hjá LVF.
Í morgun lagðist svo Norderveg að bryggju á Fáskrúðsfirði með um 1050 tonn af Barentshafsloðnu og bíður löndunar.
Loðna
S.l. mánudag kom til Fáskrúðsfjarðar norska skipið Staaloy (áður Libas) með um 1200 tonn af loðnu sem veidd var í Barentshafi. Loðnan var kreist og voru hrognin fryst hjá LVF. Þetta mun vera fyrsti loðnufarmurinn úr Barentshafi sem kemur til Íslands og unnin eru úr hrogn til manneldis.
Vorfundir
Sameiginlegur fundur Innri- og Ytri-deildar Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga verður haldinn í kaffistofu frystihússins þriðjudaginn 6. apríl n.k. kl. 20.00.
Aðalfundur Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga verður haldinn í Félagsheimilinu Skrúði föstudaginn 9. apríl n.k. kl. 17.30.
Aðalfundur Loðnuvinnslunnar h/f verður haldinn í Félagsheimilinu Skrúði föstudaginn 9. apríl n.k. kl. 18.30.
Loðna
Færeyska skipið Finnur Fríði landaði í gær um 700 tonnum af loðnu hjá LVF. Finnur landaði einnig liðlega 1200 tonnum hjá LVF 24. febrúar s.l. Loðnan var kreist og fóru hrognin í frystingu.