Hagnaður af rekstri Loðnuvinnslunnar h/f árið 2009 nam kr. 223 millj. eftir skatta, en árið 2008 varð tap á rekstri félagsins kr. 620 millj., sem fyrst og fremst var tilkomið af miklu gengistapi á erlendum lánum vegna hruns íslensku krónunnar.

Rekstrartekjur félagsins að frádregnum eigin afla voru kr. 2.898 millj. og lækkuðu kr. 985 millj. miðað við fyrra ár. Tekjuminnkunina má einkum rekja til þess að mun minna barst af kolmunna, síld og loðnu til félagsins en árið 2008.

Hagnaður án afskrifta og fjármagnskostnaðar (ebitda) var kr. 680 millj., sem er 23,5% af tekjum, en árið 2008 var ebitda kr. 1.067 millj. sem var 27,5% af tekjum. Veltufé frá rekstri er kr. 545 millj., sem er 19% af tekjum, en var kr. 540 millj. eða 14% árið 2008. Afskriftir voru kr. 199,4 millj., sem er svipað og árið 2008.

Eigið fé félagsins í árslok var kr. 1.208 millj. sem er 35,5% af niðurstöðu efnahagsreiknings, samanborið við kr. 996 millj. og 27% eiginfjárhlutfall árið 2008. Eigið fé LVF hækkaði um 21% samanborið við fyrra ár og var arðsemi eigin fjár 18,4%. Nettó skuldir félagsins voru í árslok kr. 1.440 millj. og höfðu lækkað um kr. 400 millj. frá fyrra ári.

Hlutafé LVF er kr. 700 millj. og voru hluthafar í árslok 185 . Stærsti hluthafinn er Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga með 82,83% eignarhlut, en 10 stærstu hluthafarnir eiga samtals 97,8% hlutafjárins. Gengi hlutabréfa í árslok 2009 var 3,1.

Aðalfundur Loðnuvinnslunnar h/f var haldinn 9. apríl s.l. og samþykkti fundurinn að greiða hluthöfum 5% arð, samtals 35 millj. króna.

Stjórn Loðnuvinnslunnar h/f var öll endurkjörin, en hana skipa: Friðrik Guðmundsson, formaður, Lars Gunnarsson, varaformaður, Steinn Jónasson, ritari, Elínóra Guðjónsdóttir og Elvar Óskarsson. Varamenn: Jóhannes Sigurðsson og Björn Þorsteinsson.

Framkvæmdastjóri er Gísli Jónatansson.