Franskir dagar

Óskum Fáskrúðsfirðingum og gestum góðrar skemmtunar á Frönskum dögum.



Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga og Loðnuvinnslan hf

Afskipanir á mjöli og lýsi

Þann 16. júlí lestaði Onarfjord 660 tonn af loðnulýsi hjá LVF og í gær lestaði Wilson Aveiro um 1100 tonn af loðnumjöli. Afurðirnar eru seldar til Noregs og Danmerkur.

Sumarloðna

Í gær landaði norska skipið Röttingoy frá Bergen um 780 tonnum af loðnu hjá LVF. Um 280 sjómílna sigling var af miðunum.

Sólbakur landar makríl

Það bar til tíðinda á Fáskrúðsfirði í gær að togarinn Sólbakur EA 1 landaði 90 tonnum af ísuðum makríl í körum, sem allur fór í manneldisvinnslu hjá LVF. Von er á Sólbak aftur síðar í vikunni með makríl. Togarinn er í eigu Brims hf.

Makrílframleiðsla og afskipanir

Það hefur gengið vel í framleiðslu á makríl hjá Loðnuvinnslunni hf það sem af er sumri. Skip félagsins Hoffell og Ljósafell eru búin að landa um 3000 tonnum af 4500 tonna kvóta fyrirtækisins. Mikið er um að skólafólk starfi við manneldisvinnsluna á makrílnum eins og undanfarin ár, en bolfiskkvóti LVF var búinn í byrjun júní. Makríllinn bjargar því mikilu, þó að vinnslan hafi ekki verið alveg samfelld.

Um síðustu helgi var mikið um að vera hér við höfnina þegar 3 flutningaskip lestuðu um 900 tonn af frystum makríl og loðnuhrognum.

Sjómannadagurinn 2011

Loðnuvinnslan h/f óskar sjómönnum og fjölskyldum þeirra hjartanlega til hamingju með sjómannadaginn.

Wathneshús

Hafin er endurbygging á Wathneshúsi á Fáskrúðsfirði í samstarfi við Húsafriðunarnefnd. Wathneshús er talið byggt árið 1882 þegar Otto Wathne hóf síldveiðar frá Fáskrúðsfirði og er elsta hús á Búðum. Húsið var upphaflega byggt sem sjóhús og var áföst bryggja út frá húsinu. Húsið hefur gegnt margvíslegum hlutverkum um dagana sem aðallega hafa tengst sjávarútvegi, sem sjóhús, saltfiskverkun, saltgeymsla og áhaldahús. Í síðari heimsstyrjöldinni dvöldu í húsinu 6-8 breskir hermenn. Fyrir allmörgum áratugum var húsinu breytt og það stækkað til norðurs, en nú verður það minnkað og fær upphaflegt útlit og verður aftur um 160 m2 að flatarmáli. Eigandi hússins í dag er Loðnuvinnslan hf og stendur það við Hafnargötu 7. Elís Eiríksson verkfræðingur á Egilsstöðum sér um endurhönnun hússins, en Aðalsteinn Skarphéðinsson, húsasmíðameistari frá Húsavík, og Gunnar Guðlaugsson, starfsmaður á trésmíðaverkstæði LVF, annast framkvæmdina.

Svarta húsið á miðri mynd er Wathneshús. Myndina sendi Björgvin Baldursson.

Bolfiskur LVF að verða búinn

Miðað við kvótastöðu Ljósafells er áætlað að aflinn dugi fram að sjómannadeginum 5. júní verði kvótinn ekki aukinn. Það lítur því út fyrir að bolfiskvinnsla hjá LVF stöðvist í um 3 mánuði vegna hráefnisskorts að öllu óbreyttu.

Gert er ráð fyrir því að framleiðsla á makríl verði svipuð og á síðasta sumri, en LVF má veiða um 4500 tonn af makríl. Makrílvinnslan fer fram í júní og júlí.

Reiknað er með að framleiðsla liggi niðri í 4-5 vikur hjá LVF eftir makríltímann eða þar til nýtt kvótaár hefst 1. september 2011.

Aðalfundur LVF 2011

Hagnaður af rekstri Loðnuvinnslunnar h/f árið 2010 nam kr. 531 millj. eftir skatta, en árið 2009 var hagnaður félagsins kr. 223 millj.

Rekstrartekjur LVF að frádregnum eigin afla voru kr. 4.204 millj. og hækkuðu um 45% miðað við fyrra ár.

Hagnaður án afskrifta og fjármagnskostnaðar (ebitda) var kr. 814 millj., sem er 19,4% af tekjum, en árið 2009 var ebitda kr. 680 millj. og 23,5% af tekjum. Veltufé frá rekstri er kr. 717 millj., sem er 17,1% af tekjum, en var kr. 545 millj. eða 18,8% árið 2009. Afskriftir voru kr. 212 millj. samanborið við kr. 199 millj. árið 2009.

Eigið fé félagsins í árslok var kr. 1.688 millj., sem er 46% af niðurstöðu efnahagsreiknings, en var kr. 1.208 millj. árið á undan. Eigið fé hækkaði um 40% á milli ára og var arðsemi eigin fjár 31,5% Nettó skuldir félagsins voru kr. 787 millj. og lækkuðu um kr. 653 millj. frá fyrra ári.

Hlutafé LVF er kr. 700 millj. og eru hluthafar 185. Stærsti hluthafinn er Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga með 82,83% eignarhlut, en 10 stærstu hluthafarnir eiga samtals 98% hlutafjárins.

Aðalfundur Loðnuvinnslunnar h/f var haldinn 8. apríl s.l. og samþykkti fundurinn að greiða hluthöfum 10% arð að fjárhæð 70 millj. króna.

Stjórn Loðnuvinnslunnar h/f var öll endurkjörin, en hana skipa: Friðrik M. Guðmundsson, formaður, Lars Gunnarsson, varaformaður, Steinn B. Jónasson, ritari, Elínóra Guðjónsdóttir og Elvar Óskarsson. Varamenn Jóhannes Sigurðsson og Björn Þorsteinsson.

Framkvæmdastjóri er Gísli J. Jónatansson.


Vorfundir

Sameiginlegur aðalfundur Innri- og Ytri-deildar KFFB verður haldinn í kaffistofu frystihússins mánudaginn 4. apríl 2011 kl. 20.00.



Aðalfundur Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga verður haldinn í Félagsheimilinu Skrúði föstudaginn 8. apríl 2011 kl. 17.30.



Aðalfundur Loðnuvinnslunnar h/f verður haldinn í Félagsheimilinu Skrúði föstudaginn 8. apríl 2011 kl. 18.30.

Loðnufréttir

Í gær komu tveir loðnubátar til Fáskrúðsfjarðar. Færeyska skipið Júpiter kom með um 1600 tonn og Hoffell sem var með um 1000 tonn. Loðnan fer í kreistingu og eru hrognin fryst fyrir Japansmarkað.

Nú fer loðnuvertíð senn að ljúka, en Hoffell á eftir að fara einn túr í viðbót.

Myndin er af Júpiter frá Götu.

Loðnufréttir

Á laugardaginn kom til Fáskrúðsfjarðar færeyska skipið Tróndur í Götu með um 1500 tonn af loðnu. Tróndur er nýtt skip sem kom til Færeyja fyrir um einu ári. Skipið er um 81 m. að lengd og 16,6 m. breitt. Tróndur í Götu er tvímælalaust eitt glæsilegasta fiskiskipið hér á norðurslóðum. Skipstjóri á Tróndi í Götu er Frits Thomsen og var hann einnig skipstjóri á eldra skipi með sama nafni.

Í dag er verið að landa um 800 tonnum af loðnu úr færeyska skipinu Jupiter og Hoffell er á heimleið með um 1100 tonn.

Myndin er af Tróndi í Götu.