Verkfallsboðun

Samninganefndir Afls Starfsgreinafélags og Drífanda stéttarfélags hafa tilkynnt að samþykkt hafi verið að boða til vinnustöðvunar í fiskimjölsverksmiðjum á félagssvæðum félaganna. Í tilkynningunni segir að ákvörðunin hafi verið tekin með leynilegri og skriflegri atkvæðagreiðslu í hvoru félagi fyrir sig, meðal allra félagsmanna ofangreindra stéttarfélaga sem vinna í fiskimjölsverksmiðjum á félagssvæðum félaganna. Vinnustöðvunin var samþykkt með 77,8% atkvæðisbærra félagsmanna í Drífanda og 75,4% atkvæðisbærra félagsmanna í Afli.



Vinnustöðvunin hefst kl. 19:30 þann 15. febrúar 2011 og er ótímabundin, hafi ekki náðst samningar fyrir þann tíma.

Gleðilegt nýtt ár 2011

Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga og Loðnuvinnslan hf óska starfsfólki sínu, viðskiptavinum, svo og landsmönnum öllum, farsældar á nýju ári.

Þökkum ánægjuleg samskipti á árinu sem er að líða.

Umf. Leiknir 70 ára

Hinn 23. október s.l. var haldið upp á 70 ára afmæli Ungmennafélagsins Leiknis á Fáskrúðsfirði. Afmælishátíðin fór fram í Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar. Í upphafi hátíðarinnar rakti Magnús Stefánsson fyrrv. kennari sögu Umf. Leiknis fram á þennan dag. Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, og Elín Rán Björnsdóttir, formaður ÚÍA, ávörpuðu samkomuna og afhentu blóm í tilefni afmælisins. Þá færði Gísli Jónatansson, framkvæmdastjóri LVF og KFFB, Ungmennafélaginu peningafjöf frá félögunum að fjárhæð kr. 700.000. Jakob Skúlason, stjórnarmaður í KSÍ, sæmdi Stein Björgvin Jónasson, formann Umf. Leiknis, og Steinunni Björgu Elísdóttur, silfurmerki KSÍ, fyrir störf þeirra í þágu knattspyrnuíþróttarinnar. Í lok samkomunnar sæmdi formaður Umf. Leiknis Gísla Jónatansson gullmerki Leiknis fyrir dyggan stuðning hans og fyrirtækjanna sem hann stýrir við Umf. Leikni.

Gjöf til Hellisins

Stjórn Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga ákvað á fundi sínum þann 30. sept. s.l. að færa Félagsmiðstöðinni Hellinum (Æskó) á Fáskrúðsfirði hljómflutningstæki að gjöf fyrir starfsemina. Gísli Jónatansson, kfstj. afhenti gjöfina í síðustu viku forstöðukonum Hellisins, þeim Guðfinnu E. Stefánsdóttur og Guðbjörgu Steinsdóttur. Hellirinn er til húsa í Félagsheimilinu Skrúði.

Hátíðleg athöfn

Við messu í Fáskrúðsfjarðarkirkju 17. október s.l. var 33 einstaklingum athent sérstakt viðurkenningar- og þakklætisskjal fyrir þátttöku sína við björgun tveggja starfsmanna Loðnuvinnslunnar hf úr lest Hoffells 14. febrúar s.l.

Páli S. Rúnarssyni og Rimantas Mitkus var einnig færð gjöf frá starfsfólki Loðnuvinnslunnar hf., sem var málverk eftir Helmu Þorsteinsdóttur, sem listakonan nefnir „Verndarengillinn þinn“.

Athöfnin var hátíðleg og voru kirkjugestir um 100 talsins.

Björgunarfólk heiðrað

Guðsþjónusta verður í Fáskrúðsfjarðarkirkju sunnudaginn 17. október kl. 14.oo. Prestur séra Jóna Kristín Þorvaldsdóttir. Í athöfninni verður þeim sem komu að björgun tveggja starfsmanna Loðnuvinnslunnar hf úr lest Hoffells SU 80 þann 14. febrúar s.l. veittar sérstakar viðurkenningar fyrir þátttöku sína við björgun mannanna, sem lánaðist einstaklega vel.

Eftir athöfnina býður Loðnuvinnslan hf kirkjugestum til kaffisamsætis í Félagsheimilinu Skrúði. Slysavarnadeildin Hafdís annast veitingarnar.

Ferðalag starfsmanna

Hópur starfsmanna Loðnuvinnslunnar hf fór í vikuferð til Tyrklands þann 11. september s.l., þar af leiðandi er skiptiborð fyrirtækisins lokað til mánudagsins 20. september.

Framleiðsla er samt sem áður í frystihúsinu á Fiskeyri og Ljósafell rær til fiskjar sem fyrr. Þeim sem þurfa að ná í starfsmenn fyrirtækisins er bent á símaskrá hér á heimasíðunni. Hægt er að ná í framkvæmdastjóra í síma 470-5001 og 892-7170 og framleiðslustjóra í síma 470-5004 og 893-9008 sem báðir eru við störf í fyrirtækinu.

Jupiter landar

Hinn 13. ágúst s.l. landaði færeyska skipið Jupiter 2.310 af makríl, síld og kolmunna hjá LVF. Aflinn fór allur í bræðslu.

Mikil atvinna á Fáskrúðsfirði

Mikið hefur verið að gera hjá Loðnuvinnslunni undanfarnar vikur eftir að veiðar á makríl hófust. Hoffell er búið að landa um 2.000 tonnum af makríl og hafa um 80% aflans farið í manneldisvinnslu. Makríllinn er hausaður og slógdreginn og siðan frystur. Búið er að framleiða tæplega 1.100 tonn af frystum makrílafurðum í frystihúsinu Fram. Jafnframt hefur bolfiskur verið unninn í frystihúsinu á Fiskeyri eins og aðstæður hafa leyft. Mikið hefur verið um að skólafólk hafi komið til starfa hjá LVF í sumar og hafa veiðar og vinnsla gengið með ágætum það sem af er.

4. – 6. vikna stopp í sumar

Áætlað er að bolfiskvinnsla liggi niðri í 4-6 vikur hjá LVF í sumar vegna hráefnisskorts. Miðað við kvótastöðu Ljósafells í lok apríl er gert ráð fyrir því að síðasta löndun togarans fyrir sumarstopp verði mánudaginn 19. júlí og síðasti vinnsludagur verði föstudagurinn 23. júlí.

LVF gerir ráð fyrir því að framleiðsla á frystum makríl verði töluverð í sumar og gæti markrílvinnslan haft áhrif á það hve lengi bolfiskkvótinn endist.

Hagnaður 223 millj.

Hagnaður af rekstri Loðnuvinnslunnar h/f árið 2009 nam kr. 223 millj. eftir skatta, en árið 2008 varð tap á rekstri félagsins kr. 620 millj., sem fyrst og fremst var tilkomið af miklu gengistapi á erlendum lánum vegna hruns íslensku krónunnar.

Rekstrartekjur félagsins að frádregnum eigin afla voru kr. 2.898 millj. og lækkuðu kr. 985 millj. miðað við fyrra ár. Tekjuminnkunina má einkum rekja til þess að mun minna barst af kolmunna, síld og loðnu til félagsins en árið 2008.

Hagnaður án afskrifta og fjármagnskostnaðar (ebitda) var kr. 680 millj., sem er 23,5% af tekjum, en árið 2008 var ebitda kr. 1.067 millj. sem var 27,5% af tekjum. Veltufé frá rekstri er kr. 545 millj., sem er 19% af tekjum, en var kr. 540 millj. eða 14% árið 2008. Afskriftir voru kr. 199,4 millj., sem er svipað og árið 2008.

Eigið fé félagsins í árslok var kr. 1.208 millj. sem er 35,5% af niðurstöðu efnahagsreiknings, samanborið við kr. 996 millj. og 27% eiginfjárhlutfall árið 2008. Eigið fé LVF hækkaði um 21% samanborið við fyrra ár og var arðsemi eigin fjár 18,4%. Nettó skuldir félagsins voru í árslok kr. 1.440 millj. og höfðu lækkað um kr. 400 millj. frá fyrra ári.

Hlutafé LVF er kr. 700 millj. og voru hluthafar í árslok 185 . Stærsti hluthafinn er Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga með 82,83% eignarhlut, en 10 stærstu hluthafarnir eiga samtals 97,8% hlutafjárins. Gengi hlutabréfa í árslok 2009 var 3,1.

Aðalfundur Loðnuvinnslunnar h/f var haldinn 9. apríl s.l. og samþykkti fundurinn að greiða hluthöfum 5% arð, samtals 35 millj. króna.

Stjórn Loðnuvinnslunnar h/f var öll endurkjörin, en hana skipa: Friðrik Guðmundsson, formaður, Lars Gunnarsson, varaformaður, Steinn Jónasson, ritari, Elínóra Guðjónsdóttir og Elvar Óskarsson. Varamenn: Jóhannes Sigurðsson og Björn Þorsteinsson.

Framkvæmdastjóri er Gísli Jónatansson.

Aðalfundir

Aðalfundur KFFB verður haldinn í Félagsheimilinu Skrúði föstudaginn 9. apríl 2010 kl. 17.30.



Aðalfundur LVF verður haldinn í Félagsheimilinu Skrúði föstudaginn 9. apríl 2010 kl. 18.30.